Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um skipströnd og vogrek
1926 nr. 42 15. júní
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. júlí 1926. Breytt með:
L. 44/1965 (tóku gildi 12. júní 1965).
L. 10/1983 (tóku gildi 25. mars 1983).
L. 90/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992).
L. 91/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992).
L. 92/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 103. gr. sem tók gildi 9. jan. 1992).
L. 93/2002 (tóku gildi 31. maí 2002).
L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008).
L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011).
L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Um skipströnd.
1. gr.
Hver, sem þess verður var, að hafskip sé í hættu statt við land eða strandað, eða að góss úr því reki á land, er skyldur að gera allt, sem í hans valdi stendur, til þess að bjarga mönnum og góssi, enda skal hann tafarlaust skýra hreppstjóra, eða lögreglustjóra, ef auðveldara er að ná til hans, frá atburðum með firðskeyti eða símtali, ef þess er kostur, en ella með skyndiboða. Hreppstjóri skal með sama hætti skýra lögreglustjóra frá skipreika. Lögreglustjóri skýrir síðan [ráðherra],1) svo og eigendum og vátryggjendum skips og farms eða umboðsmönnum þeirra, ef vitað er, hverjir eru, frá því, hvernig komið er, með firðskeyti, ef þess er kostur, en ella með næstu póstferð. [Ráðuneytið]2) skal svo, jafnskjótt sem unnt er, tilkynna skipreikann fyrirsvarsmanni þess ríkis, sem skip er frá.
1)L. 126/2011, 4. gr. 2)L. 162/2010, 83. gr.
2. gr.
Hreppstjóri eða lögreglustjóri, ef hann er fyrr á strandstað kominn, skal svo fljótt sem unnt er fá úr því skorið, hvort skip skuli talið strandað. En þá er skip talið strandað og rétt að fara með það eftir lögum þessum, ef það er rekið upp eða fast orðið við land, enda verði því ekki bjargað á sjó út og gert haffært áður en hætta sé á því, að það farist að miklu leyti eða öllu. Hreppstjóri eða lögreglustjóri tilnefnir tvo valinkunna menn, er, að viðlögðum drengskap, meta þetta með honum. Afl atkvæða ræður úrslitum.
3. gr.
Hreppstjóri skal annast björgun og aðhlynning manna, varðveislu skips og björgun góss og varðveislu, þar til lögreglustjóri skipar fyrir um þau efni (sbr. þó 4. og 5. gr. og fyrstu mgr. 7. gr.). En gæta skal hreppstjóri þess, að ekkert það verði gert, er tálma kunni síðar rannsókn nokkurra þeirra atriða, er strandið varða.
4. gr.
Nú neitar skipstjóri eða annar viðstaddur fyrirsvarsmaður skips því skriflega, að góssi verði bjargað eða að ráðstafanir til björgunar verði gerðar, þar til lögreglustjóri kemur, og hlutast hreppstjóri þá ekki um björgun góss eða skips.
5. gr.
[Ráðuneytið]1) lætur gera eyðublöð með spurningum á íslensku, dönsku, ensku, þýsku og frönsku um skip og skipstjóra, ferð þess, hvernig slysið vildi til, hvaða ráðstafana óskað sé af hálfu stjórnvalda um björgun og meðferð skipsmanna, og fá lögreglustjórum og hreppstjórum eyðublöð þessi. Skal hreppstjóri leggja eyðublað fyrir skipstjóra eða þann, sem í stað hans kemur, jafnskjótt sem því verður við komið, enda skal skipstjóri skrá svar sitt skýrt og greinilega við hverri spurningu. Nú verður brestur á þessu, og skal þá líta svo á, sem skipstjóri óski ekki aðstoðar íslenskra stjórnvalda.
Þegar því verður við komið, skal héraðsdómari láta skipstjóra staðfesta áðurnefnda skýrslu sína fyrir dómi, svo og halda sjóferðapróf með þeim hætti, er í [lögum]2) segir, og eftir því, sem við á. Sjóferðapróf og staðfesting skýrslu þarf þó ekki að fara fram, ef fyrirsvarsmaður þess ríkis, sem skip er frá, telur þess ekki þörf, nema manntjón hafi orðið eða slys á mönnum.
1)L. 162/2010, 83. gr. 2)L. 91/1991, 161. gr.
6. gr.
Lögreglustjóri skal, svo fljótt sem kostur er á og eftir þörfum, skipa fyrir um björgun og meðferð skipbrotsmanna. Ef hann fer ekki sjálfur á vettvang, þá felur hann hreppstjóra eða öðrum umboðsmanni sínum framkvæmdir.
7. gr.
Nú vill skipstjóri eða sá, er í hans stað kemur, eða umboðsmaður útgerðar eða vátryggjenda, annast sjálfur björgun á skipi eða góssi frá öndverðu, og er honum það þá rétt, en ekki er björgunarsamningur þó bindandi, nema samþykki lögreglustjóra eða viðkomandi ræðismanns komi til, enda sé sett, að áliti lögreglustjóra, full trygging af hálfu skips eða góss fyrir efndum samningsins.
Rétt er eiganda eða vátryggjanda strandaðs skips eða góss að taka í sínar hendur björgun og meðferð á skipi og góssi hvenær sem er, enda setji þeir fullnægjandi trygging fyrir greiðslu alls áfallins kostnaðar og þess kostnaðar, er síðar kann löglega á að falla, þar með kostnaður við heimsending strandmanna. Um björgunarsamninga fer samkvæmt 1. mgr.
Hvarvetna þess er aðili tekur björgun skips eða góss í sínar hendur, eru íslensk stjórnvöld við hana skilin.
8. gr.
Nú er ekki svo ástatt, sem í 1. mgr. 7. gr. segir, og má þá hreppstjóri eða lögreglustjóri ekki fresta björgun, þó að ósamið sé um bjarglaun. Kveður lögreglustjóri þá á um það, hversu þeim skuli greiða, er að björgun starfa. Bjarglaun skal annaðhvort miða við þann tíma, sem hver hefir unnið, enda komi þá til greina atvik öll, eða við verðmæti þess, sem bjargað er, enda séu þau þá að jafnaði þriðjungur verðs hins bjargaða, að frádregnum sölukostnaði.
9. gr.
Lögreglustjóri eða sá, er í stað hans stýrir björgun, skal sjá um það, að allt, sem gert verður til að bjarga mönnum, skipi eða góssi, verði unnið svo fljótt og vel sem kostur er. Skal fyrst og fremst, næst mannbjörg, bjarga skipsskjölum. Ef líklegt þykir að skipi verði af grunni komið og að það verði gert haffært, þá skal kosta kapps um, að svo megi verða. Af góssi skal björgun á því, sem verðmætast er, ganga fyrir svo sem unnt er, og skal þess jafnan gætt, að öll merki eða auðkenni á góssi skemmist sem minnst.
Rétt er aðilja eða umboðsmanni hans að vera við björgun.
10. gr.
Skylt er öllum verkfærum alþýðumönnum sjálfum sér ráðandi að vinna að björgun og varðveislu bjargaðra muna, er lögreglustjóri eða umboðsmaður hans kveður þá til þess. Með sama hætti er manni skylt að lána heimamenn sína, bát sinn, hesta eða áhöld til björgunar eða flutnings bjargaðra muna á geymslustað. Enn fremur er mönnum skylt að lána hús sín til geymslu bjargaðra muna, ef þeir mega án þeirra vera og þau spillast ekki verulega fyrir slíka notkun. Ef bjargað góss verður ekki geymt á fulltryggan hátt, þá skal setja um það vörð. Endurgjald fyrir lán hesta, skipa og áhalda, svo og kaup varðmanna, ákveður lögreglustjóri.
Ef strandmunir hverfa eða fara forgörðum af mannavöldum, skal hreppstjóri eða sá annar, er með umboð lögreglustjóra fer, skýra honum tafarlaust frá því, enda skal lögreglustjóri rannsaka málið jafnskjótt sem unnt er.
11. gr.
Ef skipsbrotsmenn geta ekki sjálfir útvegað sér húsnæði, mat og aðrar nauðsynjar, þar á meðal aðhjúkrun á sjúkum mönnum, þá skal lögreglustjóri eða umboðsmaður hans hlutast til um það, að bætt verði úr nauðsyn þeirra við sanngjörnu endurgjaldi, sem lögreglustjóri ákveður. Með sama hætti skal sjá um greftrun dáinna skipverja, enda skal gera hana með fullri sparsemi, ef greiða skal af strandinu.
Skylt er að veita skipbrotsmönnum húsaskjól og aðhlynning eftir megni og að því leyti sem ekki fer í bága við sóttvarnarráðstafanir.
Lögreglustjóri skal sjá um það, að skipbrotsmönnum verði veittur nauðsynlegur fararbeini þegar þeir mega frá strandi hverfa.
Nú tekur umboðsmaður þess ríkis, er skip er frá, að sér málefni þau, er í grein þessari segir, og eru þá íslensk stjórnarvöld frá þeim tíma við þau skilin.
12. gr.
Hreppstjóri heldur dagbók um strand hvert. Þar skal hann skrá nafn skips og heimilisfang og útgerð, hvar, hvernig og hvenær slys hafi að borið, hvenær (dag og klukkustund) hann hafi orðið þess var, hver eða hverjir þar hafi fyrst að komið, hver hafi fært honum fregn um atburði, hvenær hann sjálfur hafi á vettvang komið, og hvernig hafi þá verið þar umhorfs, hvar skip og góss var og hvernig það hafi þá verið farið, hvort skipstjóri og skipverjar hafi þar þá verið, hvernig þeir hafi bjargast og hvernig ástatt sé um þá, hvort nokkur hafi farist eða slasast, hverjir hafi komið þeim til hjálpar, hvort hann hafi látið meta, hvort skip skyldi talið strandað, hverjir hafi gert það og hver niðurstaðan hafi orðið; hvaða ráðstafanir hann hafi gert til björgunar og aðhlynningar manna og til björgunar og varðveislu góss, bæði áður en og eftir að hann fékk fyrirskipanir lögreglustjóra, hverju bjargað hafi verið, enda sé gerð svo nákvæm skrá um það sem unnt er. Þá skal í dagbók skrá, ef skipstjóri afsalar sér afskiptum hreppstjóra af björgun, hvort hann hafi gefið skýrslu samkvæmt 5. gr., svo og hvað annað, er strandið varðar og hreppstjóri skal annast. Eftirrit úr dagbók sendir hreppstjóri lögreglustjóra ásamt öðrum strandskjölum.
Lögreglustjóri löggildir stranddagbók hreppstjóra. Hana skal og gegnumdraga og tölusetja. Ríkissjóður kostar hana.
Hverju sinni er bókun er lokið, ritar hreppstjóri nafn sitt undir hana, ásamt skipstjóra eða þeim, er í stað hans kemur, ef hægt er að gera honum bókunina skiljanlega, og 2 öðrum valinkunnum mönnum eftir að bókun hefir verið lesin upp fyrir þeim. Túlk skal hafa, ef hans er kostur og þörf.
Lögreglustjóri skráir í lögreglubók eða sérstaka strandbók það, er hann gerir og strand eða strandmenn varðar …1)
1)L. 90/1991, 91. gr.
13. gr.
Þeim, sem björgun stýrir eða annast gæslu á strandgóssi, er rétt að vísa burt öllum þeim mönnum, sem engan þátt taka þar í og eru að öðru leyti óviðriðnir strandið. Svo skal og vísa brott þeim bjargendum eða flutningsmönnum strandgóss, er gera sig óhæfa til starfsins vegna óreglu, ótrúmennsku eða óspekta. Taka má þá fasta, er ekki fara fúslega. Lögreglustjóri sker úr ágreiningi út af framkvæmdum við björgun eða varðveislu strandgóss, og skal hann síðar bóka úrskurði þá, er hann hefir kveðið upp munnlega.
14. gr.
[Lögreglustjóri skal sjá um að matvæli þau eða drykkjarföng, sem skemmst hafa við strand og ef til vill eru skaðvæn heilsu manna, verði rannsökuð af eftirlitsaðilum samkvæmt lögum um matvæli. Skulu þeir segja til um það hvort nota megi vörurnar og hvernig, án þess að tjón hljótist af, og skal þá selja þær með því skilorði er eftirlitsaðilar setja.]1) Nú reynast vörur svo spilltar, að hætta er talin af notkun þeirra, og skal þá ónýta þær, og hafi lögreglustjóri eða hreppstjóri umsjón með því.
1)L. 93/2002, 26. gr.
15. gr.
Nú strandar skip, sem ekki hefir fengið heilbrigðisvottorð hér á landi, eftir að það síðast fór frá útlendri höfn, eða síðast hafði mök við skip á hafi úti, og skal þá, að svo miklu leyti sem frekast er unnt fara með skipið og skipshöfnina eftir fyrirmælum gildandi sóttvarnarlaga.
16. gr.
Nú er tollvörum eða bannvörum bjargað, og skal þá lögreglustjóri eða hreppstjóri sjá um, að farið verði með þær lögum samkvæmt.
17. gr.
[Lögreglustjóra er heimilt að krefjast nauðungarsölu á strönduðu skipi eða því sem hefur bjargast úr því án undangenginnar áskorunar til eiganda ef aðilar sammælast ekki um annars konar sölu.]1)
1)L. 90/1991, 91. gr.
18. gr.
Jafnskjótt sem sölu strandgóss er lokið og kostnaður af strandi allur, þar á meðal kostnaður af flutningi skipbrotsmanna til burtfararhafnar héðan af landi, er fenginn, semur lögreglustjóri reikning um strandið. Sendir hann [ráðuneytinu]1) reikninginn tvíritaðan ásamt fylgiskjölum, þar á meðal dagbókareftirriti hreppstjóra, eftirriti úr lögreglubók eða strandbók og [gerðabók um nauðungarsölur],2) skipsskjölum, sjóferðaprófi o.s.frv., til endurskoðunar og úrskurðar í öllum atriðum. Þegar [ráðuneytið]1) hefir úrskurðað reikninginn, sendir það hann fyrirsvarsmanni viðkomandi ríkis, ef það hefir hér umboðsmann sinn, en ella til annarra réttra aðilja.
[Söluverð]2) strandgóss, sem afgangs kann að verða kostnaði öllum af strandinu, sendir lögreglustjóri [ráðuneytinu]1) jafnskjótt sem honum hefir verið tilkynnt, að reikningur væri úrskurðaður og gjaldfrestur liðinn. [Ráðuneytið]1) sendir féð síðan fyrirsvarsmanni viðkomandi ríkis eða öðrum aðiljum.
1)L. 162/2010, 83. gr. 2)L. 90/1991, 91. gr.
19. gr.
Lögreglustjóri eða umboðsmaður hans eða hreppstjóri skulu fá …1) fæðispeninga dag hvern, er þeir þurfa að vera að heiman vegna strands, og að auki ferðakostnað eftir reikningi. …2)
…1)
1)L. 92/1991, 12. gr. 2)L. 90/1991, 91. gr.
20. gr.
Skip og góss, annað en venjulegur farangur skipverja, er, þar til það er selt að tilhlutun lögreglustjóra, og síðan andvirði þess, að veði framar öllum öðrum höftum, er á því kynnu að hvíla, til tryggingar öllum þeim kostnaði, er af strandi leiðir og áfallinn er fyrir ráðstafanir stjórnvalda eða einstakra manna, er þeir hafa gert af nauðsyn áður en stjórnvöld komu til, svo sem björgunarlaunum, hýsingu, flutningi og heimsendingu skipverja, varðveislu góss, ferðakostnaði og dagpeningum, gjöldum fyrir réttargerðir, eftirrit, sendiferðir, símskeyti o.s.frv.
Ef andvirði strandgóss hrekkur ekki fyrir öllum strandkostnaði, og fyrirsvarsmaður viðkomandi ríkis greiðir hann ekki þegar, þá má eftir ósk lögreglustjóra greiða úr ríkissjóði það, sem á vantar, gegn endurgjaldi frá réttum aðiljum.
21. gr.
Nú strandar íslenskt skip hér við land, og taka þá ákvæðin hér að framan ekki til þess, nema fyrirmæli 1., 3., 6., 9., 10. og 11. gr. um björgun á mönnum og góssi og tilkynningar til hreppstjóra og lögreglustjóra og 14., 15. og 16. gr., svo og 20. gr., að því leyti sem ráðstafanir íslenskra stjórnvalda vegna strandsins hafa haft kostnað í för með sér.
II. kafli. Um vogrek.
22. gr.
Það er vogrek, er mannlaust skip rekur á land eða skipshluta eða aðra muni, sem svo eru merktir eða svo er annars farið um, að ætla má eignarrétti undirorpna.
23. gr.
Ábúandi eða notandi lands skal vogrekum bjarga og veita þeim vörð. Ef enginn er ábúandi eða notandi, þá skal landeigandi bjarga vogrekum og geyma þeirra. Tilkynna skal hreppstjóra eða lögreglustjóra vogrek, enda skulu þeir hlutast til um björgun vogreks, ef þess gerist þörf, og varðveislu. Ef lögreglustjóri hefir ekki sjálfur skoðað vogrek, þá ber hreppstjóra að láta honum í té, jafnskjótt sem verða má, glögga lýsing á því og áætlun um verðmæti þess.
24. gr.
Nú sannar maður ótvírætt heimild sína til vogreks, áður en það er auglýst, og má þá selja honum það í hendur. Annars kostar, skal vogrek auglýsa með þeim hætti, er hér skal sagt verða:
Ef ætla má eftir framkomnum upplýsingum, að vogrek nemi ekki [yfir 5000 kr.],1) þá auglýsir lögreglustjóri það með þeim hætti, er hann telur best fallinn til þess að komast fyrir það, hver eigandi sé. Ef telja má vogrek meira virði, þá auglýsir lögreglustjóri það einu sinni í Lögbirtingablaði, enda sendir [ráðuneytið]2) fyrirsvarsmönnum annarra ríkja hér á landi eintak af auglýsingunni. Í auglýsingu skal lýsa vogreki eftir föngum og skora á tilkallsmenn að gefa sig fram innan 6 mánaða frá birtingu auglýsingar og sanna lögreglustjóra heimildir sínar, því að annars kostar verði vogrek eða andvirði þess eign ríkissjóðs eða fjörueiganda. Áður en liðnir eru 6 mánuðir má engum tilkallsmanni selja vogrek í hendur, nema hann setji fulla tryggingu fyrir því, að hann skili vogreki aftur eða andvirði þess, ef annar skyldi koma áður frestur sé liðinn með ríkari gögn fyrir tilkalli sínu.
1)L. 44/1965, 1. gr. 2)L. 162/2010, 83. gr.
25. gr.
Nú sannar maður heimildir sínar að vogreki áður lögmæltur frestur sé á enda, og skal þá selja honum það í hendur eða andvirði þess. Annars kostar verður vogrek eða andvirði þess eign ríkissjóðs, ef það eða andvirði þess [nemur 12.000 kr.]1) eða meira, að frádregnum öllum áföllnum kostnaði, og ef um skip eða skipsflak er að ræða, að frádregnum áætluðum kostnaði við brottnám þess úr fjöru, en ella fjörueiganda.
Tilkallsmaður, er gefur sig fram áður en frestur er liðinn, getur borið kröfu sína undir dómstóla, ef lögreglustjóri vill ekki taka hana að öllu til greina. Ef fleiri en einn gera tilkall til vogreks, má engum þeirra selja í hendur fyrr en úr því er skorið með fullnaðardómi, hver skuli fá vogrek eða andvirði þess.
Nú ber maður upp kröfu sína eftir að lögmæltur frestur er liðinn, og á hann þess máls aldrei uppreist, nema hann sanni fyrir dómi, að ólöglega hafi með málið verið farið af hálfu stjórnvalda.
Mál samkvæmt 2. og 3. mgr. skal höfða á hendur lögreglustjóra á varnarþingi hans, enda sé honum stefna birt áður en liðnir eru 6 mánuðir frá því, er hann synjaði kröfu stefnanda.
Nú þykir tvímælis orka um verðmæti vogreks, og skulu þá tveir dómkvaddir menn meta það.
1)L. 44/1965, 2. gr.
26. gr.
Vogrek sjálft, meðan það er óselt, en andvirði þess, eftir að það hefir verið selt, er að veði til tryggingar öllum kostnaði af ráðstöfunum þeim, sem löglega eru gerðar til að bjarga því, varðveita það og auglýsa, og gengur veð það fyrir öllum höftum, er vera kynnu á vogreki, enda skal jafnan greiða allan þann kostnað áður en vogrek eða andvirði þess sé nokkrum til eignar fengið.
Lögreglustjóri úrskurðar þann kostnað, sem hér segir, en bera má úrskurð hans undir [ráðuneytið]1) áður en 3 mánuðir séu liðnir frá dagsetningu úrskurðar lögreglustjóra.
1)L. 162/2010, 83. gr.
27. gr. …1)
1)L. 90/1991, 91. gr.
III. kafli. Almenn ákvæði.
28. gr.
Nú liggur skip eða skipsflak, þar á meðal vogrek, sem eigandi hefir leitt sig að, óhirt í fjöru 2 ár eða lengur frá því að eigandi leiddi sig að því, ef svo hefir verið, og skal lögreglustjóri þá auglýsa, eftir beiðni þeirra, er eignast mundu skip eða skipsflak eftir 25. gr., ef það væri vogrek, í Lögbirtingablaði, að skip eða skipsflak verði fengið þeim í hendur til eignar samkvæmt þessari grein, nema skip eða skipsflak hafi verið tekið út áður en 9 mánuðir séu liðnir frá birtingu auglýsingar. Ef það hefir ekki verið gert innan þess tíma, þá verður skip eða skipsflak eign ríkissjóðs eða fjörueiganda með þeim hætti, sem í 25. gr. segir.
29. gr.
Nú hefir skip eða skipsflak legið óselt á strandstað eitt ár, og getur lögreglustjóri þá látið selja það ásamt því, er því fylgir, [með nauðungarsölu],1) ef óráðlegt þykir vegna hagsmuna almennings, að dómi [ráðherra],2) að láta það vera lengur óselt. …1)
Nú hefur aðili björgun eða tekur að vinna úr skipi áður en ár er liðið frá strandinu, og skal [ráðherra]2) þá veita honum hæfilegan frest til að halda þeim athöfnum áfram, uns tvö ár eru liðin frá þeim atburði eða allt að 3 árum, ef björgun er sérstökum erfiðleikum bundin. …1)
1)L. 90/1991, 91. gr. 2)L. 162/2010, 83. gr.
30. gr.
[Ráðherra]1) getur látið gera skip eða skipsflak óskaðvænt þegar eftir strand eða skipbrot, ef óhjákvæmileg nauðsyn þykir vegna hættu eða tálma, er af því stafi. Ef skip eða skipsflak verður annars til tálma eða hættu, þá skal vitamálastjórnin auðkenna staðinn, og jafnframt setja þeim, er skip eða skipsflak á, með auglýsingu í Lögbirtingablaði, hæfilegan frest til að hirða það. Að þeim fresti liðnum getur [ráðherra]1) látið gera skip eða skipsflak óskaðvænt. Ekki á sá, sem rétt á yfir skipi eða skipsflaki kröfu til bóta, þó að eign hans sé spillt fyrir þær ráðstafanir, sem í þessari grein segir.
Til tryggingar kostnaði af ráðstöfunum samkvæmt þessari grein er skip eða skipsflak, svo og farmur, ef hætta stafar af honum eða verulegt óhagræði, og andvirði, ef sala hefur farið fram, að veði framar öllum öðrum höftum, er á þeim kynnu að hvíla. Má selja það, er bjargast kann, [með nauðungarsölu]2) til greiðslu kostnaðar, en það er afgangs kynni að verða, skal greiða réttum aðiljum samkvæmt 18. gr. 2. mgr.
1)L. 126/2011, 4. gr. 2)L. 90/1991, 91. gr.
31. gr.
Fyrirmæli laga þessara hagga ekki reglum þeim um skipsflök á höfnum inni, sem settar eru eða settar kunna að verða í löggiltum reglugerðum kaupstaða eða kauptúna.
32. gr.
Um refsingar fyrir brot á lögum þessum fer sem hér segir:
1. Ef einstakir menn brjóta það, sem þeim er boðið í 1., 10., 11. og 13. gr., eða hafa í frammi einræði eða mótþróa við björgun eða tefja hana viljandi, þá varðar það …1) sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
2. Ef lögreglustjóri, sérstakur umboðsmaður hans eða hreppstjóri eða önnur stjórnvöld brjóta lög þessi, þá fer um refsingar fyrir það eftir almennum hegningarlögum.
1)L. 10/1983, 61. gr.
33. gr.
Sektir samkvæmt lögum þessum renna í ríkissjóð.
[Mál út af brotum á lögum þessum varða sektum …1)]2)
1)L. 88/2008, 233. gr. 2)L. 10/1983, 61. gr.
34. gr.
Lög þessi skal þýða á dönsku, ensku, þýsku og frönsku og sérprenta, enda skal fá lögreglustjórum nægan forða af sérprentunum og þýðingum til afnota handa hreppstjórum og öðrum, sem á þeim þurfa að halda.