Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Hjúalög

1928 nr. 22 7. maí


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 3. ágúst 1928. Breytt með: L. 116/1990 (tóku gildi 31. des. 1990). L. 20/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992). L. 92/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 103. gr. sem tók gildi 9. jan. 1992). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008).


I. kafli.
1. gr.
Fyrirmæli þessa kafla gilda aðeins um vistarráð þeirra hjúa, sem ekki hafa náð 21 árs aldri. Ákvæði vistarsamnings, sem koma í bága við þessi lög, eru ógild, svo fremi þau miða til að rýra rétt hjúsins. Samningar um vinnu við heimilisstörf um skemmri tíma en missiri, eða skildaga í milli, hníga ekki undir lög þessi.
2. gr.
Hver sjálfráða maður má ráða sig hjú. Vistráðum þeirra, sem ekki eru sjálfráða, ráða foreldrar eða aðrir forráðamenn.
3. gr.
Hinir almennu hjúaskildagar eru 14. maí eða 3. maí í þeim sveitum, þar sem hjúaskildagi hingað til hefir verið haldinn þann dag, og 1. október, eða 1. vetrardagur, þar sem það þykir betur henta.
Lengd vistartíma ráða aðiljar, þó svo, að enginn vistarsamningur er gildur fyrir lengri tíma en 12 mánuði í senn.
Samningar um vist að hálfu árlangt, eins og að undanförnu hefir verið venja, hníga undir þessi lög, en um samninga um vinnu við heimilisstörf árdegis eingöngu eða síðdegis eingöngu verður lögunum ekki beitt.
4. gr.
Þegar samið er um vist skildaga á milli, skal vistartíminn vera á enda á næsta skildaga, enda hafi ekki tekist samningar um vistarráðin af nýju.
Sanni ógift vinnukona, að hún ætli að giftast áður en vistartíminn er á enda, getur hún sagt upp vistinni til næsta skildaga með mánaðar fyrirvara.
Nú verður ekki vitað um lengd vistartímans, og telst hann þá á enda á næsta almenna skildaga eftir að vistarráðin hófust.
Á skildaga er hjúi rétt að víkja úr vist á hádegi.
5. gr.
Vistráðið árshjú sitt skal húsbóndi, nema öðruvísi sé um samið, láta sækja í ákveðinn tíma og farangur þess, er ekki nemi meiru en 100 kg þunga. Kostar húsbóndi flutning þennan án endurgjalds frá hjúinu. Nú getur hjú ekki farið í vistina þegar þess er vitjað, og er því eigi sjálfu um það að kenna, þá er eigi húsbónda skylt að vitja þess aftur, heldur skal hjúið sjálft kosta ferð sína í vistina. Ef hjúið getur ekki komið í vistina innan þriggja vikna frá skildaga, er húsbóndi laus vistarráðanna, ef hann vill.
6. gr.
Hjú, sem ráðið er skemur en ár, skal, ef öðruvísi er ekki um samið, af sjálfsdáðum koma í vistina á skildaga, og eigi síðar en á náttmálum í sveit, en um miðaftan í kaupstöðum og þorpum. Ef hjú kemur ekki í vist sína á réttum tíma, er húsbóndi ekki bundinn við vistarráðin, nema hann innan þriggja sólarhringa fái vitneskju um, að hjúið gat ekki komið í vistina vegna atvika, sem það átti ekki sök á. Þegar svo stendur á, er húsbóndi ekki skyldur að bíða hjúsins lengur en 10 daga frá skildaga.
Kaup hjús reiknast frá þeim degi, sem það kemur í vistina.
7. gr.
Húsbóndi skal veita hjúi sínu viðunanlegt og nægilegt fæði, svo og rúmfatnað, ef hjú sefur á heimili húsbónda síns, og aðra aðhlynningu eftir því, sem venja er til í hverri sveit eða bæ hjúum að veita auk kaups. Ekki er hjúi skylt að sofa í rúmi með öðrum. Það á rétt til að fá hreinar rekkjuvoðir eða lök í rúm sitt einu sinni á mánaðarfresti og hreint handklæði einu sinni á viku. Í frístundum sínum á vetrum skal hjúi fengin dvöl í viðunanlega hlýju herbergi.
8. gr.
Ef upphæð kaups hefir eigi verið ákveðin, skal hjúið hafa svo mikið í kaup, sem þar er sveitarvenja að gjalda hjúum á því reki.
Ef eigi hefir verið samið um annan gjalddaga kaupsins og um mánaðarkaup er að ræða, hefir hjúið rétt til að krefjast greiðslu kaupsins við lok hvers mánaðar. Ef kaupið hinsvegar er ákveðið í einu lagi fyrir allan vistartímann, hefir hjúið að liðnum 3 mánuðum af vistartímanum rétt til þess að krefjast greiðslu á kaupi því, er það hefir unnið fyrir hinn fyrsta vistarmánuð, eftir 4 mánuði á kaupi fyrir annan vistarmánuð, o.s.frv., þannig að jafnan standi tveggja mánaða kaup ógreitt hjá húsbónda þess, þar til vistarráðum er löglega lokið.
Ef ekki er öðruvísi um samið, teljast 3/4 af árskaupi hjús kaup fyrir tímabilið frá 14. maí (3. maí) til 1. október (1. vetrardags) (sumarkaup), og 3/4 hlutar af sumarkaupinu teljast kaup fyrir tímabilið frá 14. júní til 1. október.
Við lok vistartíma skal húsbóndi hafa lokið kaupi hjús að fullu.
Ef vistarráðum lýkur fyrr en upphaflega var ákveðið, hefir hjúið rétt til kaups fyrir þann tíma, sem það hefir unnið. Hafi hjúið meðan á vistarráðum stóð verið frá vinnu án þess sjúkdómi sé um að kenna (sbr. þó 10. gr.), missir það rétt til kaups fyrir þann tíma.
9. gr.
Nú sýkist hjú í vistinni eða slasast, og er húsbóndi þess skyldur til að annast hjúkrun þess eftir því er síðar segir.
Ef húsbóndi kýs að hafa sjúkling utan heimilis síns, hefir hann rétt til að flytja hann í opinbert sjúkrahús án samþykkis hjúsins, ef læknir telur það nauðsynlegt vegna hjúsins sjálfs eða vegna sótthættu, sem heimilinu stafi af sjúkdóminum.
Verði hjú vitskert, svo að hjúkrun þess sé sérlegum erfiðleikum bundin, getur húsbóndi krafist, að sveitarstjórn ráðstafi sjúklingnum þegar í stað.
Sjúkt rúmfast hjú má húsbóndi ekki, jafnvel með sjálfs þess samþykki og þótt vistartíminn sé á enda, flytja burt, svo fremi þar af getur hlotist mein sjúklingnum sjálfum eða öðrum, ef sýkin er sóttnæm. Ef húsbóndi samt flytur hjúið í burtu og sjúklingnum þyngir við flutninginn, skal hann skyldur til að standast allan kostnað af hjúkrun og lækningu sjúklingsins, nema læknir hafi áður en flutningurinn var framkvæmdur lýst því, að hann væri hættulaus eða nauðsynlegur vegna sjúklingsins sjálfs, eða ef slysið eða sjúkdóminn ber svo brátt að, að ekki var ráðrúm til að leita læknis, og húsbóndinn hefir með tilhlýðilegri gætni flutt hjúið í opinbert sjúkrahús.
10. gr.
Nú sýkist hjú eða slasast og er um að kenna ótilhlýðilegri breytni þess sjálfs, og kostar það þá sjálft lækning sína og geldur húsbónda fyrir það fæði og hjúkrun, meðan það var sjúkt og á hans vegum, en eigi á það heimting á kaupi fyrir þann tíma, sem það er frá verkum.
11. gr.
Ef hjú sýkist eða slasast og er um að kenna ótilhlýðilegri breytni húsbónda þess eða atvikum, sem hann á sök á, þá skal hann kosta lækning hjúsins og greiða því skaðabætur fyrir atvinnutjón, ef nokkurt verður, eftir að það er farið frá honum.
12. gr.
Nú sýkist hjú eða slasast, og er hvorki um að kenna breytni þess sjálfs né húsbónda þess verði gefin sök á, og er húsbónda þess skylt að fæða það ókeypis — einnig þótt fæðið verði að vera sérstakt sjúkrafæði — allt að fjórðungi vistráðningartímans, þó ekki lengur en til enda hans. Ef hjúið verður að liggja sjúkt utan heimilis síns, þó ekki í sjúkrahúsi, þá skal húsbóndi þess greiða legukostnað, sem svarar matarverði í svo langan tíma, sem nú var greint.
13. gr.
Nú liggur hjú sjúkt, en ekki hálfum mánuði lengur á tímabilinu maí til október eða mánuði lengur um aðra árstíma, og skal þá hjú einskis missa af kaupi sínu; en fatlist hjú lengur frá verkum en nú var sagt, missir það kaup fyrir þann tíma, sem umfram er og það getur ekki innt af hendi störf sín.
14. gr.
Kostnað, sem leiðir af lækning hjús, borgun fyrir lyf, sérstaka hjúkrun, dvöl í sjúkrahúsi eða annarri slíkri stofnun, er húsbónda óskylt að greiða, nema þegar svo stendur á, sem segir í 11. gr.
15. gr.
Nú getur hjú vegna sjúkleika, sem atvikast svo, sem um ræðir í 10. og 12. gr., eftir mánaðar vanheilsu enn ekki rækt störf sín, og er þá hvorum aðilja um sig heimilt að segja upp vistarsamningnum með eins mánaðar fyrirvara.
16. gr.
Þegar hjú, sem sýkist eða slasast í vistinni á eftir ákvæðum þessara laga að greiða sjálft lækningarkostnað sinn eða fyrir fæði og hjúkrun, en hefir eigi efni á því, skal þann kostnað endurgjalda húsbóndanum, ef hann krefst þess, sem sveitarstyrk, veittan hjúinu.
17. gr.
Deyi hjú í vist, eiga erfingjar þess aðeins heimtingu á þeim hluta af kaupinu, sem álíta verður, að það hafi unnið fyrir áður en það varð ófært til verka. Greftrun þess skal húsbóndi annast, ef erfingjar gera það eigi, gegn endurgjaldi af sveitarfé, ef með þarf.
18. gr.
Þótt hjú sé ráðið til ákveðinna starfa, skal því þó skylt að ganga að öllum heimilisverkum og öðrum störfum, sem samboðin eru stöðu þess, þegar þörf krefur og ekki er öðrum á að skipa.
Ef hjúið með samningi er beinlínis undanþegið því að gegna ákveðnum störfum, getur það þó aldrei orðið skylt til að leysa þau af hendi, nema aðeins til bráðabirgða í skyndilegum forföllum annars heimilisfólks, er þau verk átti að vinna.
19. gr.
Ef hjú í kaupstað eða kauptúni sækir kvöldskóla, iðnskóla, unglingaskóla eða annan slíkan skóla, skal húsbóndi haga vinnutíma hjúsins þannig, að kostur verði skólagöngunnar, nema tilskilið hafi verið í vistarsamningi, að ákveðin störf skyldu unnin á sama tíma.
20. gr.
Nú deyr húsbóndi, og skal þá vistarráðum áfram haldið með ekkju hans, erfingjum eða búi, ef búnaður stendur. Þó er hvorum aðilja um sig heimilt að slíta vistarráðum á almennum skildaga með tveggja mánaða fyrirvara, eða frá 1. degi mánaðar með þriggja mánaða fyrirvara.
21. gr.1)
   1)L. 20/1991, 135. gr.
22. gr.
Nú flytur húsbóndi búferlum, eftir að vistarsamningur er gerður, en áður en vistartími byrjar, 50 km burt frá þeim bústað hans, þar sem hjúið átti að fara í vist, eða úr sveit í kaupstað eða öfugt, og er hjúinu þá ekki skylt að fara í vistina. Ef húsbóndi flytur af landi burt, skal hann ennfremur greiða hjúi kaup fyrir 2 mánuði og að auki matarverð skv. 29. gr., ef hann hefir ekki látið hjúið vita um flutninginn 4 vikum hið skemmsta, áður en vistartíminn átti að byrja. Ef hjúið flytur í vistina allt að einu, er húsbóndinn skyldur að standast þann sérstaka kostnað, sem það hefir haft í för með sér fyrir hjúið.
Ef húsbóndi flytur búferlum eftir að hjúið er komið í vistina, gilda samskonar ákvæði.
23. gr.
Hjúi er vítalaust að koma ekki í vistina, ef það getur sannað, að húsbóndinn hafi á síðasta ári áður en vistarráðin áttu að hefjast misþyrmt hjúi eða svelt það, leitast við að tæla hjú til illverka eða lauslætis, enda hafi hjúi verið ókunnugt um þessar sakir, þegar samningar um vistina tókust.
Ef hjú er komið í vistina, þegar það fær vitneskju um eitthvert þeirra afbrota af hálfu húsbónda, sem nefnd voru, er því heimilt að víkja úr vistinni fyrirvaralaust, enda geri það svo innan 14 daga eftir að það fékk vitneskju um verknaðinn. Kaups getur hjúið aðeins krafist fyrir þann tíma, sem það var í vistinni.
24. gr.
Hjúi er heimilt að ganga fyrirvaralaust úr vistinni, þegar það getur sannað, að húsbóndi hafi gerst sekur um alvarlegt brot á skyldum sínum gagnvart því, svo sem ef hann:
   1. misþyrmir hjúinu,
   2. leitast við að tæla hjúið til illverka eða lauslætis, eða ef aðrir heimilismenn gera sig bera að slíku og húsbóndi veitir ekki hjúinu tilhlýðilega vernd, þótt það beri sig upp undan því við hann,
   3. lætur hjúið að staðaldri búa við illa og ónóga fæðu, óforsvaranlega aðhlynningu eða heilsuspillandi húsnæði,
   4. meiðir freklega mannorð hjúsins eða ber því á brýn glæpi, sem það er saklaust af,
   5. geldur hjúi ekki kaup í ákveðinn tíma, þótt krafist sé,
   6. stofnar ranglega og að nauðsynjalausu lífi eða heilsu hjúsins í hættu.
25. gr.
Ef hjú, án þess að sjúkleiki eða önnur lögleg forföll tálmi, eða fyrir hendi séu ástæður, er heimili því að rifta vistarráðunum, kemur ekki í vistina á ákveðnum tíma, svo að því er synjað viðtöku eða kemur alls ekki, skal það greiða húsbónda bætur, sem svarar til helmings áskilins kaups fyrir umsaminn vistartíma. Ef hjú gengur ólöglega úr vistinni, greiði það sömu bætur, miðað við vistartímann, sem eftir er.
Nú gengur hjú úr vistinni vegna atviks, er greinir í 24. gr., og skal húsbóndi þá greiða því hæfilegar bætur, er þó nemi ekki meiru en kaupi fyrir umsaminn vistartíma og matarverði, sbr. 29. gr., í sama tíma, þó ekki yfir 8 vikur.
26. gr.
Húsbóndi þarf ekki að vitja hjús, er hann hefir ráðið í vist til sín, eða veita því viðtöku, ef hann getur sannað:
   1. að hjúið hafi á síðasta ári áður en vistarráðin áttu að hefjast, drýgt glæp, sem að almenningsáliti er svívirðilegur,
   2. að hjúið hafi smitandi sjúkdóm, eða það sökum vanheilsu eða fötlunar, eða að því er konu snertir, sökum þess að hún er barnshafandi, sé óhæft til að vinna það verk, sem það var ráðið til,
   3. að hann hafi, er vistarsamningurinn var gerður, verið blekktur með fölskum vitnisburði um hjúið,
   4. að hjúið kunni ekki til þeirra verka, sem áskilið var, að það skyldi kunna, þá er það var ráðið í vistina, og það þá þóttist kunna til.
Þetta, sem talið hefir verið, skiptir þó aðeins máli, svo fremi það verði ekki sannað, að húsbóndi hafi verið vitandi um þessi atvik, er hann réði hjúið.
Nú verður húsbóndi fyrst áskynja einhverra þeirra atvika, er nefnd voru, þegar hjúið er komið í vistina, og er honum þá heimilt fyrirvaralaust að víkja hjúi úr vistinni, enda geri hann það innan 14 daga eftir að hann varð vitandi þessa. Ekki verður þó konu, sem barnshafandi hefir orðið áður en hún kom í vistina, vísað úr vist eftir að 5 mánuðir eru liðnir frá því að hún kom í vistina, og aldrei með minna en mánaðar fyrirvara.
27. gr.
Húsbóndi má þegar vísa hjúi úr vist, er hann getur sannað, að hjúið hafi gerst mjög brotlegt gegn skyldum sínum, eða ef framferði þess er mjög ábótavant, svo sem ef hjúið:
   1. drýgir glæp, sem að almenningsáliti er svívirðilegur,
   2. leggur hönd á húsbóndann eða vandamenn hans á heimilinu, eða aðra, sem fyrir hans hönd eiga yfir því að segja,
   3. sýnir húsbóndanum eða þeim, sem fyrir hans hönd eiga yfir því að segja, óhlýðni um að inna af hendi störf sín í þarfir heimilisins,
   4. tælir börn á heimilinu til illverka,
   5. er aftur og aftur drukkið, þrátt fyrir áminningar húsbóndans,
   6. raskar heimilisfriði með lauslætisframferði,
   7. gengur um með smitandi samræðissjúkdóma,
   8. spillir af ásettu ráði eignum húsbænda eða misþyrmir skepnum, sem það á að hirða,
   9. sýnir af sér megnt og ítrekað skeytingarleysi um störf sín og hirðuleysi í umgengni.
Þegar hjúi er vísað úr vist af einhverjum þeim ástæðum, sem taldar eru í þessari grein og 26. gr., ber því umsamið kaup fyrir þann tíma, sem það hefir unnið heimilinu.
28. gr.
Ef húsbóndi riftar ólöglega vistarráðum eða vísar hjúi úr vistinni, skal hann gjalda því hæfilegar bætur, er þó ekki nema meiru en hálfu kaupi fyrir umsaminn vistartíma og matarverði fyrir sama tíma, þó ekki lengur en 8 vikur.
29. gr.1)
   1)L. 92/1991, 15. gr.

II. kafli.
30. gr.
Viðskipti húsbónda og hjús, sem er 21 árs að aldri, fara eftir samningum þeirra á milli um vistarráðin. Ekki má hjúið þó afsala sér fyrirfram neinum réttindum samkvæmt 9. og 11.–12. gr., og afsal slíkra réttinda síðar frá hálfu hjúsins er ógilt gagnvart framfærslusveit hjúsins, ef það fellur henni til byrði.
Nú er enginn sérstakur vistarsamningur gerður milli aðilja, eða í vistarsamningi, þó gerður hafi verið, er ekki tekið nægilega fram, hvernig vistarráðum er varið, og gilda þá fyrirmæli I. kafla þessara laga, enda þótt hjúið hafi náð 21 árs aldri.

III. kafli.
31. gr.1)
   1)L. 116/1990, 17. gr.
32. gr.
[Brot gegn 7. og 19. gr. varða sektum …1)]2)
   1)L. 88/2008, 233. gr. 2)L. 116/1990, 17. gr.
33. gr.1)
   1)L. 116/1990, 17. gr.