Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að láta öðlast gildi ákvæðin í samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, um gjaldþrotaskipti
1934 nr. 21 24. mars
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 24. mars 1934.
1. gr.
Ríkisstjórninni er heimilt að ákveða með auglýsingu í Stjórnartíðindunum, að samningur um gjaldþrotaskipti, sem undirritaður var í Kaupmannahöfn þann 7. nóvember 1933, milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, og prentaður er sem fylgiskjal með lögum þessum, skuli koma í gildi. Ennfremur er ríkisstjórninni heimilt að setja frekari ákvæði, er kynnu að vera nauðsynleg til þess að framfylgja greindum samningi.
Fylgiskjal.
Samningur milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, um gjaldþrotaskipti.
1. gr.
Gjaldþrot, sem úrskurðað hefir verið í einhverju samningsríkjanna, nær einnig til eigna skuldunauts í hinum ríkjunum.
Um meðferðina á slíkum eignum gilda, sé ekki öðruvísi ákveðið í eftirfarandi greinum, lagaákvæði þess ríkis, sem gjaldþrotaskiptin eru úrskurðuð í, um þær takmarkanir, sem gjaldþrotið hefir í för með sér á umráðarétti skuldunauts yfir eignum sínum, svo og um það, hvaða eignir tilheyri búinu, eða sem hægt er að draga undir það með riftun gerninga, um réttindi og skyldur skuldunauts meðan stendur á gjaldþrotaskiptum, um stjórn og meðferð búsins, um rétt kröfuhafa og annarra rétthafa til þess að leita fullnægju í gjaldþrotabúinu, og um úthlutun, nauðasamninga, og önnur lok gjaldþrotaskipta.
Eignir, sem ekki verða yfirleitt notaðar til fullnægju kröfuhafa samkvæmt lögum þess lands, þar sem þær eru, verða ekki dregnar inn í búið.
2. gr.
Verði í einhverju samningsríkjanna úrskurðað gjaldþrot, sem nær til eigna í einhverju hinna ríkjanna, skal skiptaráðandi auglýsa úrskurðinn um gjaldþrotaskipti þegar í stað í hinu síðartalda ríki, í blaði því, er flytur opinberar tilkynningar. Skiptaráðandi skal, samkvæmt þargildandi lögum, einnig annast um þinglýsingu, innfærslu í fasteignaskrá, í skipaskrá eða aðra opinbera skrá.
Öllum þeim kröfuhöfum í hinum ríkjunum, sem kunnugt er um, skal send sérstök tilkynning um gjaldþrotið, nema því aðeins, að krafan verði tekin til greina án þess að henni sé lýst í búið. Kröfuhöfum í hinum ríkjunum skal einnig gefin tilkynning um mótmæli, sem eru sett fram gegn kröfum þeirra.
3. gr.
Dómstólar samningsríkjanna skulu, samkvæmt beiðni skiptaráðanda í einhverju hinna ríkjanna, annast um uppskrift eigna, sem í ríkinu eru, og geymslu þeirra til bráðabirgða; þeir skulu einnig annast um sölu eigna, sem ekki er ráðlegt að geyma.
Að öðru leyti geta skiptaráðendur, að því er snertir eignir, sem eru í öðru ríki en því, sem gjaldþrotin eru úrskurðuð í, óskað aðstoðar yfirvaldanna, á sama hátt og þarlendir skiptaráðendur.
Slíka beiðni má senda beint til hlutaðeigandi yfirvalds. Krefjast má fyrirframgreiðslu kostnaðar vegna aðstoðarinnar, ef það telst nauðsynlegt.
Skjölum, sem rituð eru á íslensku eða á finnsku, skal fylgja löggilt þýðing á dönsku, norsku eða sænsku.
4. gr.
Um það, hvort þinglýsing eða innfærsla í fasteignaskrá sé skilyrði fyrir því, að löggerningar, sem skuldunautur hefir gert fyrir gjaldþrotið um fasteign og það, sem henni tilheyrir, hafi gildi gagnvart gjaldþrotabúi, svo og um riftun slíkra gerninga, fer eftir lögum þess lands, þar sem fasteignin er. Sama gildir um það, hvort þinglýsing gjaldþrotsins sé nauðsynleg til þess að hindra, að löggerningar, sem skuldunautur gerir, meðan á gjaldþrotaskiptum stendur, um slíka eign, séu bindandi fyrir búið. Hliðstæðar spurningar um skrásett skip eða flugvél, eða um hluta í skipi eða flugvél, skulu leystar samkvæmt lögum heimalands skipsins eða flugvélarinnar.
Sé svo ákveðið í lögum einhvers samningsríkjanna, að þinglýsing, skrásetning eða önnur birting sé skilyrði fyrir því, að afhending eða sjálfsvörsluveð í öðrum lausafjármunum en þeim, sem nefndir eru í fyrstu málsgrein, hafi gildi gagnvart þrotabúi, þá skal farið eftir lögum þessa ríkis, að því er snertir gildi slíks gernings og um riftun hans, ef fjármunirnir eru þar við byrjun gjaldþrotaskipta.
Um áhrif gjaldþrots á rétt, sem orðið hefir til við fjárnám eða lögtak, fer eftir lögum þess lands, þar sem gerðin hefir verið framkvæmd.
5. gr.
Um rétt veðhafa til þess, meðan á gjaldþrotaskiptum stendur, að leita fullnægju í veðinu, skal farið eftir lögum þess ríkis, þar sem veðið er við byrjun gjaldþrotaskipta. Þetta ákvæði gildir á sama hátt þegar um er að ræða fullnægju vegna haldsrétts.
Um áhrif gjaldþrotsins á heimildina til þess að halda áfram fullnægjugerð samkvæmt fjárnámi eða lögtaki, skal farið eftir lögunum í því ríki, þar sem gerðin er framkvæmd.
6. gr.
Reglurnar um sölu fjármuna, er tilheyra gjaldþrotabúi, ákvarðast af lögum þess ríkis, sem fjármunirnir eru í.
7. gr.
Um forgangsrétt kröfu fyrir öðrum kröfum til fullnægju í ákveðnum munum, sem við byrjun gjaldþrotaskipta eru í einhverju hinna ríkjanna, svo og um röð sérstakra forgangsréttinda, veðréttinda, og tryggðra réttinda í slíkum munum, fer eftir lögunum í því ríki, þar sem fjármunirnir eru við byrjun gjaldþrotaskipta. Þessi sérstöku réttindi ganga á undan almennum forgangskröfum.
Um forgangsrétt fyrir sköttum og öðrum opinberum gjöldum, sem jafnað hefir verið niður í öðru samningsríki en því, þar sem gjaldþrot hefir verið úrskurðað, fer eftir lögunum í því ríki, þar sem sköttunum eða gjöldunum hefir verið jafnað niður. Um forgangsrétt fyrir húsaleigu fer, ef húseignin er í öðru ríki en því, þar sem gjaldþrotið var úrskurðað, eftir lögunum í því ríki, þar sem húseignin er. Forgangsrétturinn nær aðeins til eigna í því ríki, þar sem sköttunum eða gjöldunum er jafnað niður, eða húseignin er í. Sé um sérstakan forgangsrétt að ræða, fer um skuldaröðina samkvæmt fyrstu málsgrein. Sé forgangskrafan hinsvegar venjuleg, gengur hún á undan öðrum almennum forgangskröfum. Um röð milli venjulegra forgangsréttinda fyrir sköttum og sérstakra forgangsréttinda, sem getur um í 1. mgr., fer, þrátt fyrir ákvæðin í nefndri málsgrein, eftir lögunum í því ríki, þar sem skatturinn er lagður á. Að öðru leyti er ekkert ákveðið í samningi þessum um það, hvort fullnægju verði leitað í gjaldþrotabúi fyrir sköttum og gjöldum, sem er jafnað niður í öðru af ríkjunum en því, þar sem gjaldþrotin hafa verið úrskurðuð.
8. gr.
Að svo miklu leyti sem framkvæmd undanfarandi ákvæða er því háð, hvar fjármunirnir eru, skal krafa, er tilheyrir þrotamanni, álítast vera í því ríki, þar sem gjaldþrotaskiptin eru úrskurðuð. Sé krafan bundin við skuldabréf eða annað skjal, sem framvísa þarf til þess að koma fram kröfunni, þá skal hún þó álítast vera í því ríki, þar sem skjalið er.
Skrásett skip eða flugvél telst vera í því ríki, þar sem það á heimilisfang, nema við framkvæmd 6. gr.
9. gr.
Ákvæði samnings þessa gilda ekki um rétt eða skyldu þrotabús til þess að ganga inn í samning, gerðan af skuldunaut, sem ekki er alveg fullnægt af beggja hálfu við byrjun gjaldþrotaskipta.
10. gr.
Ákvæðin í samningi, er undirritaður var þann 16. mars 1932, um viðurkenningu og fullnægju dóma og sátta, skulu einnig gilda um dóma og sættir um riftanir og aðra ónýtingu réttargerninga vegna gjaldþrota, sem hefir verið úrskurðað í einhverju samningsríkjanna.
Endanlegur úrskurður réttar í einhverju samningsríkjanna, er staðfestir skuldasamninga í gjaldþrotabúi, skal hafa gildi einnig í hinum ríkjunum.
Ákvæði þessi gilda enda þótt gjaldþrotið nái til eigna í einu eða fleirum ríkjanna.
11. gr.
Samningur þessi gildir því aðeins um dánarbú, sem tekin eru til gjaldþrotaskipta, að ríkin hafi gert með sér samning um meðferð dánarbúa að öðru leyti.
12. gr.
Samningur þessi nær einnig til opinberrar skiptameðferðar (Likvidation) á bönkum, svo framarlega sem skiptameðferðin, samkvæmt lögum þess lands, þar sem bankinn hefir aðsetur sitt, útilokar gjaldþrotameðferð.
Í tilkynningu þeirri, sem um ræðir í 2. gr., skal tekið fram, að skiptameðferðin sé þess eðlis, að samningurinn nái til hennar.
13. gr.
Hafi rétturinn, sem úrskurðaði gjaldþrotið, byggt heimild sína til þess á öðru en því, að skuldunautur eigi eða hafi við dauða sinn átt heimilisfang í ríkinu, eða félag eða stofnun, sem tekin er til gjaldþrotaskipta, eigi heimilisfang í landinu, þá skal þetta tekið fram í úrskurðinum um gjaldþrotaskipti. Ef það er gert, gildir samningurinn ekki um gjaldþrotaskiptin. Gjaldþrotaskiptunum er hægt að halda áfram, enda þótt gjaldþrot verði seinna úrskurðað í einhverju hinna samningsríkjanna.
14. gr.
Hugtakið „skiptaráðendur“ í þessum samningi nær einnig til skiptaréttar og skiptadómara (Konkursdommeren).
15. gr.
Tilraun til nauðasamninga án gjaldþrotameðferðar, sem byrjað hefir verið á í einhverju samningsríkjanna, útilokar, að byrjað sé á gjaldþrotameðferð eða tilraun til nauðasamninga í hinum ríkjunum, og hafa þar í för með sér sömu takmarkanir í heimildinni til þess að leita fullnægju með þvingunarráðstöfun eins og tilraun til nauðasamninga í heimalandinu.
Ef tilraun til nauðasamninga leiðir til þess, að slíkur samningur verður staðfestur, þá skal hann einnig verða bindandi í hinum ríkjunum.
Ákvæðin í 13. gr. gilda á tilsvarandi hátt.
16. gr.
Ef beiðni um gjaldþrotameðferð eða um tilraun til nauðasamninga hefir verið send rétti áður en samningurinn gengur í gildi, þá nær hann ekki til þeirra skipta.
17. gr.
Samningur þessi skal fullgiltur, og fullgildingarskjölin skulu sett til vörslu í skjalasafni utanríkismálaráðuneytisins danska, eins fljótt og auðið er.
Samningurinn gengur í gildi milli þeirra ríkja, er þá hafa fullgilt hann 1. janúar eða 1. júlí næstan eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að minnst þrjú samningsríkjanna hafa afhent fullgildingarskjöl sín að samningnum. Með tilliti til þeirra ríkja, er seinna fullgilda samninginn, gengur hann í gildi 1. janúar eða 1. júlí næstan eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að fullgildingarskjalið var afhent.
Sérhvert samningsríkjanna getur, gagnvart sérhverju hinna ríkjanna, sagt upp samningnum til þess að ganga úr gildi næsta 1. janúar eða 1. júlí eftir að eitt ár er liðið frá uppsögninni.