Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um fyrirhleðslu Héraðsvatna norður af Vindheimabrekkum

1945 nr. 113 31. desember


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 31. desember 1945. Breytt með: L. 10/1983 (tóku gildi 25. mars 1983). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eða umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Til þess að varna yfirvofandi, stórfelldum skemmdum af ágangi vatns úr Héraðsvötnum á undirlendi Skagafjarðar vestan Vatna skulu gerðar fyrirhleðslur með nauðsynlegum flóðgáttum.
2. gr.
Ríkissjóður greiðir kostnað af fyrirhleðslunni og öðrum framkvæmdum en flóðgáttum að 7/8 hlutum, en sýslufélag Skagafjarðar annast um greiðslu 1/8 hluta. Kostnaður af flóðgáttum greiðist af ríkissjóði að 3/4 hlutum, en sýslufélaginu að 1/4 hluta. Viðhald mannvirkja þeirra, sem þegar eru gerð og gerð verða samkvæmt lögum þessum, greiðist einnig af áðurnefndum aðilum og í sömu hlutföllum.
3. gr.
Sýslunefnd Skagafjarðarsýslu veitist heimild til að jafna niður að einhverju eða öllu leyti þeim hluta fyrirhleðslukostnaðarins, sem sýslufélaginu ber að annast um greiðslu á skv. 2. gr., á þær jarðir, sem eiga lönd, hús og mannvirki í hættu, ef Héraðsvötnin brytust vestur í Svartá og norður Vallhólminn. Við niðurjöfnun þessa skal aðallega miðað við fasteignamat þeirra landa, húsa og annarra mannvirkja, sem hættan vofir yfir.
4. gr.
Sýslunefndin kýs 3 óvilhalla menn til að kveða á um, hvaða jarðir falli undir ákvæði laga þessara, og semja gjaldskrá, er sýni hundraðshluta hverrar jarðar í fyrirhleðslukostnaðinum. Eigendur þeirra jarða, sem matsgerð þessi tekur til, geta krafist yfirmats. Í yfirmat dómkveður héraðsdómari 3 óvilhalla menn. Gjaldskrána skal endurskoða á 10 ára fresti.
5. gr.
Gjald það, sem jafnað er niður á jarðirnar samkvæmt 3. gr., greiðist af jarðareigendum. Nú er gjaldið ekki greitt af jörð, svo sem sýslunefnd hefur áskilið, og getur hún þá látið fara fram fjárnám í jörðum til lúkningar skuldinni.
6. gr.
Ríkisstjórnin sér um byggingu og viðhald þeirra mannvirkja, er um ræðir í 1. gr.
7. gr.
Bætur fyrir landspjöll við framkvæmd fyrirhleðslunnar eða spjöll, sem sannað þykir, að fyrirhleðslan hafi beinlínis valdið, skal telja með kostnaði við verkið. Má ákveða slíkar skaðabætur eftir samkomulagi milli landeigenda og umboðsmanna stjórnarvalda þeirra, er bætur eiga að greiða. Nú næst ekki samkomulag, enda sé um verulegt tjón að ræða, og skal þá ákveða bætur eftir mati tveggja dómkvaddra manna að tilkvöddum báðum málsaðilum. Skal að öðru leyti fara um framkvæmd og greiðslu skaðabóta svo sem fyrir er mælt í vatnalögunum frá 20. júní 1923.
8. gr.
Heimilt er sýslunefnd Skagafjarðarsýslu að fela framkvæmdir þær, er um ræðir í 3. og 5. gr., félagi, sem hefur það markmið að vinna að fyrirhleðslu Héraðsvatna og í eru jarðeigendur þeir, er lög þessi taka sérstaklega til, enda starfi félagið samkvæmt samþykkt, er ráðherra staðfestir. Skylt er félaginu að taka að sér áðurgreindar framkvæmdir, ef sýslunefndin óskar þess.
9. gr.
Brot gegn lögum þessum varða sektum til ríkissjóðs …1)2)
   1)L. 10/1983, 66. gr. 2)L. 88/2008, 233. gr.