Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um ráðherraábyrgð

1963 nr. 4 19. febrúar


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 18. mars 1963. Breytt með: L. 75/1982 (tóku gildi 10. júní 1982). L. 82/1998 (tóku gildi 1. okt. 1998). L. 144/2018 (tóku gildi 29. des. 2018).


1. gr.
Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum eftir því sem fyrir er mælt í stjórnarskrá og lögum þessum.
[Ákvæði almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi og ákvæði laga um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði taka einnig til ráðherra eftir því sem við getur átt.]1)
   1)L. 144/2018, 11. gr.
2. gr.
Ráðherra má krefja ábyrgðar samkvæmt því, sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum, fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hefur orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.
3. gr.
Sá ráðherra, sem ritar undir lög eða stjórnarerindi með forseta, ber ábyrgð á þeirri athöfn. Annar ráðherra verður því aðeins sóttur til ábyrgðar vegna þeirrar embættisathafnar forseta, að hann hafi ráðið til hennar, átt þátt í framkvæmd hennar eða látið framkvæmdir samkvæmt henni viðgangast, ef hún lýtur að málefnum, sem undir hann heyra.
4. gr.
Séu embættisathafnir, sem atbeina forseta þarf til, vanræktar, hvílir ábyrgð vegna þeirrar vanrækslu á ráðherra þeim, sem málefnið heyrir undir. Enn fremur hvílir ábyrgð á hverjum þeim ráðherra, sem stuðlað hefur að þeirri vanrækslu.
5. gr.
Sé um að ræða embættisathöfn í ríkisráði eða á ráðherrafundi, sbr. 16. og 17. gr. stjórnarskrárinnar, bera allir viðstaddir ráðherrar, sem með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt hafa stuðlað að þeirri athöfn, ábyrgð á henni.
6. gr.
Hver ráðherra ber ábyrgð á stjórnarerindum þeim, sem út eru gefin í hans nafni, nema ákvörðun sé án hans atbeina tekin af undirmanni, sem til þess hefur heimild samkvæmt venju, eða eðli máls, eða starfsmaður hafi vanrækt að leggja erindi fyrir ráðherra. Ráðherra verður þó einnig sóttur til ábyrgðar fyrir þvílíkar ákvarðanir, ef honum hefur verið um þær kunnugt og hann hefur látið þær viðgangast án þess að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir þær.
7. gr.
Ráðherra sá, er ábyrgð ber á embættisathöfn samkvæmt greinunum hér á undan, verður einnig sóttur til ábyrgðar fyrir athafnir undirmanna sinna, er byggjast á téðri embættisathöfn eða lúta að framkvæmd hennar, enda hafi þær verið fyrirskipaðar af ráðherra eða megi, eins og á stendur, teljast eðlilegar eða nauðsynlegar til framkvæmdar henni.
8. gr.
Í samræmi við ákvæðin hér á undan, varðar það ráðherra ábyrgð eftir lögum þessum:
   a. ef hann sjálfur gefur út fyrirmæli eða veitir atbeina sinn til, að út séu gefin fyrirmæli forseta um málefni, sem eftir stjórnarskránni verður aðeins skipað með lögum eða heyrir undir dómstóla;
   b. ef hann leitar eigi samþykkis Alþingis, þegar skylt er samkvæmt stjórnarskránni;
   c. ef hann annars framkvæmir sjálfur, fyrirskipar framkvæmd á eða lætur viðgangast að framkvæmt sé nokkuð það, er fer í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, eða lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það, sem þar er fyrirskipað eða veldur því, að framkvæmd þess farist fyrir;
   d. ef hann verður þess valdandi, að nokkuð það sé ráðið eða framkvæmt er skert getur frelsi eða sjálfsforræði landsins.
9. gr.
Það varðar einnig ráðherra ábyrgð eftir lögum þessum, ef hann veldur því, að brotið sé gegn öðrum lögum landsins en stjórnskipunarlögum þess:
   a. með því að leggja fyrir forseta til undirskriftar ályktanir, tilskipanir eða erindi, er fara í bága við lögin, eða með því að láta farast fyrir að útvega forsetaundirskrift undir ályktun, tilskipun eða erindi, þar sem hún er lögmælt;
   b. með því annars að framkvæma eða valda því, að framkvæmt sé nokkuð það, er fer í bága við fyrirmæli laganna, eða með því að láta nokkuð ógert, sem heimtað er í lögum, eða verða þess valdur, að slík framkvæmd farist fyrir.
10. gr.
Loks verður ráðherra sekur eftir lögum þessum:
   a. ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, enda þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín;
   b. ef hann framkvæmir nokkuð eða veldur því, að framkvæmt sé nokkuð, er stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu, þótt ekki sé framkvæmd þess sérstaklega bönnuð í lögum, svo og ef hann lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það, er afstýrt gat slíkri hættu, eða veldur því, að slík framkvæmd ferst fyrir.
11. gr.
Brot gegn lögum þessum varða, eftir málavöxtum, embættismissi, sektum …1)2) eða fangelsi allt að 2 árum.
Við ákvörðun refsingar skal höfð hliðsjón af 70. gr. almennra hegningarlaga.
Hafi ráðherra jafnframt brotið gegn hinum almennu hegningarlögum, skal hegning sú, sem hann hefur til unnið, tiltekin í einu lagi samkvæmt reglum 77. gr. almennra hegningarlaga.
   1)L. 75/1982, 2. gr. 2)L. 82/1998, 157. gr.
12. gr.
Sektir samkvæmt lögum þessum renna í ríkissjóð. Sé sekt eigi greidd, kemur [fangelsi]1) í hennar stað og skal ákveða í dóminum, eftir öllum málavöxtum, hve langt það skuli vera.
   1)L. 82/1998, 157. gr.
13. gr.
Hafi ráðherra bakað almenningi eða einstaklingi fjártjón með framkvæmd eða vanrækslu, sem refsiverð er eftir lögum þessum, skal og þegar þess er krafist, jafnframt hegningunni dæma hann til að greiða skaðabætur, en um skaðabótaskyldu hans fer eftir almennum reglum.
Skaðabótaábyrgð ráðherra gagnvart ríkissjóði fellur niður, samþykki Alþingi ríkisreikning án fyrirvara, nema ráðherra hafi beitt svikum.
14. gr.
Málshöfðun eftir lögum þessum getur eigi átt sér stað, ef 3 ár líða frá því, er brot var framið, án þess að Alþingi hafi samþykkt ályktun um málshöfðunina. Sök fyrnist þó aldrei fyrr en 6 mánuðir eru liðnir frá því, að næstu reglulegu alþingiskosningar, eftir að brot var framið, fóru fram.
Nú samþykkir Alþingi, áður en málshöfðunarfrestur er liðinn, að kjósa rannsóknarnefnd samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar til athugunar á störfum ráðherra, og getur Alþingi þá jafnan samþykkt málshöfðun innan árs frá kosningu rannsóknarnefndar.