Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband

1971 nr. 16 31. mars


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 29. apríl 1971.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við utanríkisráðherra eða utanríkisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Ríkisstjórninni er heimilt að gerast aðili fyrir Íslands hönd að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband, sem gerður var í Vínarborg hinn 18. apríl 1961 og prentaður er sem fylgiskjal með lögum þessum, svo og viðbótarbókunum með samningnum. Ákvæði samningsins skulu hafa lagagildi á Íslandi.
2. gr.
Ráðherra getur sett nánari reglur1) um framkvæmd laga þessara.
   1)Rgl. 345/2024.

Fylgiskjal I.
Vínarsamningurinn um stjórnmálasamband.
Ríki þau, sem aðilar eru að samningi þessum, minna á, að allar þjóðir hafa frá fornu fari viðurkennt sérstöðu sendierindreka, hafa í huga markmið og meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna varðandi fullveldis-jafnrétti ríkja, varðveislu alþjóða friðar og öryggis og eflingu vinsamlegra samskipta þjóða, treysta því, að alþjóðlegur samningur um forréttindi og friðhelgi í samskiptum ríkja muni stuðla að aukinni vinsemd í sambúð þjóða, hvert sem stjórnskipulag eða þjóðfélagskerfi þeirra er, eru þeirrar skoðunar, að markmið slíkra forréttinda og friðhelgi sé ekki að vera einstaklingum í hag, heldur að tryggja árangursríkan sendierindrekstur á vegum ríkja, staðfesta, að venjureglur þjóðaréttarins skuli gilda áfram um þau atriði, er ákvæði þessa samnings taka ekki tvímælalaust til, gera samkomulag um það sem hér fer á eftir:
1. gr.
Í samningi þessum skulu eftirfarandi orðasambönd hafa þessa merkingu:
   a. „forstöðumaður sendiráðs“ er maður, sem sendiríkið hefur falið að gegna slíkri stöðu;
   b. „sendiráðsmenn“ eru forstöðumaður sendiráðs og starfsmenn þess;
   c. „starfsmenn sendiráðs“ eru stjórnarsendimenn, skrifstofu- og tæknistarfsmenn og þjónustustarfsmenn sendiráðs;
   d. „stjórnarsendimenn“ eru starfsmenn sendiráðs, sem hafa réttindi stjórnarsendimanna;
   e. „sendierindrekar“ eru forstöðumenn sendiráðs og stjórnarsendimenn;
   f. „skrifstofu- og tæknistarfsmenn“ eru þeir starfsmenn sendiráðs, sem vinna að skrifstofu- og tæknistörfum sendiráðsins;
   g. „þjónustustarfsmenn“ eru starfsmenn sendiráðs, er starfa að heimilisstörfum hjá sendiráði;
   h. „einkaþjónustustarfsmaður“ er starfsmaður, sem vinnur að heimilisstörfum hjá sendiráðsmanni, en er ekki í þjónustu sendiríkisins;
   i. „sendiráðssvæði“ er byggingar eða hluti bygginga og tilheyrandi lóð, hver sem eigandinn er, sem nýtt er af sendiráði, þar á meðal íbúð forstöðumanns sendiráðs.
2. gr.
Stofnun stjórnmálasambands milli ríkja og stofnun fastra sendiráða fer fram með gagnkvæmu samkomulagi.
3. gr.
1. Viðfangsefni sendiráða eru einkum þessi:
   a. að vera fulltrúi sendiríkisins í móttökuríkinu;
   b. að vernda hagsmuni sendiríkisins og ríkisborgara þess í móttökuríkinu, innan þeirra takmarka sem þjóðaréttur setur;
   c. að annast samningagerð við ríkisstjórn móttökuríkisins;
   d. að afla á löglegan hátt upplýsinga um ástand og þróun mála í móttökuríkinu og gefa ríkisstjórn sendiríkisins skýrslur um það;
   e. að efla vinsamleg samskipti milli sendiríkisins og móttökuríkisins og auka efnahagsleg, menningarleg og vísindaleg samskipti þeirra.
2. Ekki skal túlka nein ákvæði samnings þessa á þann hátt að þau hindri sendiráð í því að annast ræðismannsstörf.
4. gr.
1. Sendiríkið verður að ganga úr skugga um að móttökuríkið hafi veitt agrément vegna þess manns, sem það hyggst veita umboð sem forstöðumanni sendiráðs í því ríki.
2. Móttökuríkið er ekki skyldugt til að skýra sendiríkinu frá ástæðu, ef það neitar um agrément.
5. gr.
1. Sendiríkið má skipa forstöðumann sendiráðs eða, eftir atvikum stjórnarsendimann, til þjónustu í fleiri ríkjum en einu, ef eigi koma til ótvíræð mótmæli einhvers móttökuríkisins, enda verður á undan skipun að gefa þeim móttökuríkjum sem hlut eiga að máli upplýsingar um hana.
2. Ef sendiríkið skipar forstöðumann sendiráðs til að gegna því starfi í einu eða fleiri ríkjum öðrum, getur það stofnað sendiráð sem chargé d'affaires ad interim veitir forstöðu í hverju þessara ríkja sem forstöðumaður sendiráðsins hefur ekki fasta búsetu í.
3. Forstöðumaður sendiráðs, eða hver annar stjórnarsendimaður sendiráðs, getur starfað sem fulltrúi sendiríkisins hjá hvaða alþjóðastofnun sem er.
6. gr.
Tvö ríki eða fleiri geta skipað sama manninn forstöðumann sendiráðs í öðru ríki, enda beri móttökuríkið eigi fram mótmæli gegn því.
7. gr.
Með þeim takmörkunum, sem felast í ákvæðum 5., 8., 9. og 11. gr., getur sendiríkið skipað starfsmenn sendiráðs að eigin vali. Að því er varðar skipun hermála-, flota- eða flugmálafulltrúa getur móttökuríkið óskað eftir að nöfn þeirra séu tilkynnt fyrirfram til samþykktar.
8. gr.
1. Það skal vera meginregla, að stjórnarsendimenn sendiráðs hafi ríkisfang sendiríkisins.
2. Þá er hafa ríkisfang móttökuríkisins má eigi skipa stjórnarsendimenn sendiráðs, nema til komi samþykki þess ríkis, en slíkt samþykki má afturkalla hvenær sem er.
3. Móttökuríkið getur áskilið sér sama rétt að því er varðar ríkisborgara þriðja ríkis, sem hafa ekki jafnframt ríkisfang sendiríkisins.
9. gr.
1. Móttökuríkið getur hvenær sem er, og án þess að þurfa að gefa skýringar á ákvörðun sinni, tilkynnt sendiríkinu að forstöðumaður sendiráðs eða annar stjórnarsendimaður sé persona non grata eða einhver annar úr hópi starfsmanna sendiráðs sé ekki viðtökuhæfur. Í öllum slíkum tilvikum skal sendiríki, eftir því sem við á, annaðhvort kalla hlutaðeigandi mann heim eða binda endi á starf hans í sendiráðinu. Lýsa má yfir að maður sé persona non grata, eða ekki viðtökuhæfur, áður en hann kemur í land móttökuríkisins.
2. Ef sendiríkið neitar eða lætur undir höfuð leggjast að framkvæma skyldur sínar samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar innan hæfilegs frests, getur móttökuríkið neitað að viðurkenna hlutaðeigandi mann sem sendiráðsmann.
10. gr.
1. Tilkynna skal utanríkisráðuneyti móttökuríkisins, eða öðru ráðuneyti, sem samkomulag verður um, eftirfarandi:
   a. skipun sendiráðsmanna, komu þeirra og endanlega brottför, eða lok starfa þeirra í sendiráðinu;
   b. komu og endanlega brottför manns, sem er í fjölskyldu sendiráðsmanns, og þar sem við á, þegar maður bætist í eða fer úr fjölskyldu sendiráðsmanns;
   c. komu og endanlega brottför einkaþjónustustarfsmanna í þjónustu manna, sem nefndir eru í a-lið þessarar málsgreinar, og þar sem við á, að þeir séu á förum úr þjónustu þeirra;
   d. ráðningu og lausn manna, sem búsettir eru í móttökuríkinu, sem sendiráðsmanna eða einkaþjónustustarfsmanna, er njóta forréttinda og friðhelgi.
2. Einnig skal tilkynna fyrirfram, þegar unnt er, um komu og endanlega brottför.
11. gr.
1. Þegar ekki er gerður sérstakur samningur um stærð sendiráðs, getur móttökuríkið krafist þess, að stærð sendiráðs verði sett takmörk, er það telur hæfileg og eðlileg með hliðsjón af aðstæðum og ástandi í móttökuríkinu og þörfum hlutaðeigandi sendiráðs.
2. Einnig getur móttökuríkið, innan sömu takmarka og þannig að eigi sé um mismunun að ræða, neitað að taka við starfsmönnum í tilteknum starfsflokki.
12. gr.
Sendiríkinu er ekki heimilt, nema að fengnu ótvíræðu samþykki móttökuríkisins, að setja á stofn skrifstofur, sem eru hluti af sendiráðinu, annars staðar en þar sem sendiráðið er sjálft.
13. gr.
1. Forstöðumaður sendiráðs er talinn hafa tekið við starfi sínu í móttökuríkinu, annaðhvort þegar hann hefur afhent trúnaðarbréf sitt eða þegar hann hefur tilkynnt komu sína og rétt eftirrit af trúnaðarbréfi hans hefur verið afhent utanríkisráðuneyti móttökuríkisins eða öðru ráðuneyti, sem samkomulag verður um, samkvæmt þeim venjum, sem í móttökuríkinu gilda og jafnan skal framfylgja á sama hátt.
2. Í hvaða röð trúnaðarbréf er afhent eða rétt eftirrit af því, ákvarðast af komudegi og komustund forstöðumanns sendiráðs.
14. gr.
1. Forstöðumenn sendiráða skiptast í þessi þrjú stig:
   a. sendiherrar er hafa ambassador, nuncio eða annað samsvarandi stig, og hafa umboð gagnvart þjóðhöfðingja;
   b. sendiherrar er hafa envoy minister eða internuncio stig, og hafa umboð gagnvart þjóðhöfðingja;
   c. sendifulltrúar (chargé d'affaires), sem hafa umboð gagnvart utanríkisráðherra.
2. Engan greinarmun skal gera á forstöðumönnum sendiráða eftir stigum, nema að því er snertir metorðaröð og siðareglur.
15. gr.
Ríki gera um það samkomulag sín á milli hvaða stig forstöðumenn sendiráða þeirra skuli hafa.
16. gr.
1. Metorðaröð forstöðumanna sendiráða, er sama stig hafa, skal miða við dag og stund, þegar þeir tóku við starfi samkvæmt 13. gr.
2. Breytingar, sem gerðar eru á trúnaðarbréfi forstöðumanns sendiráðs og eigi fela í sér breytingu á stigi hans, skulu eigi hafa áhrif á sæti hans í metorðaröðinni.
3. Grein þessi skal ekki hafa áhrif á neinar viðurkenndar venjur í móttökuríkinu, sem varða sæti fulltrúa Páfagarðs í metorðaröðinni.
17. gr.
Forstöðumaður sendiráðs skal tilkynna utanríkisráðuneytinu eða því öðru ráðuneyti, sem samkomulag verður um, sæti stjórnarsendimanna sendiráðsins í metorðaröðinni.
18. gr.
Í hverju ríki skal hafa sama hátt á varðandi móttöku forstöðumanna sendiráða, er hafa sama stig.
19. gr.
1. Ef staða forstöðumanns sendiráðs er óskipuð, eða forstöðumanni sendiráðs er eigi unnt að gegna störfum sínum, skal chargé d'affaires ad interim veita sendiráðinu forstöðu um stundarsakir. Nafn chargé d'affaires ad interim skal tilkynnt utanríkisráðuneyti móttökuríkisins eða því öðru ráðuneyti, sem samkomulag verður um, annaðhvort af forstöðumanni sendiráðsins eða, ef honum er það ókleift, af utanríkisráðuneyti sendiríkisins.
2. Þegar svo ber við, að enginn stjórnarsendimaður er staddur í móttökuríkinu, getur sendiríkið að fengnu samþykki móttökuríkisins útnefnt einhvern úr liði skrifstofu- og tæknistarfsmanna til að stjórna nauðsynlegum skrifstofurekstri sendiráðsins.
20. gr.
Sendiráðið og forstöðumaður þess skulu eiga rétt á að nota fána og skjaldarmerki sendiríkisins á sendiráðssvæðinu, þar á meðal bústað forstöðumanns sendiráðsins, og á ökutækjum hans.
21. gr.
1. Móttökuríkið skal auðvelda sendiríkinu að afla sér í landi þess, í samræmi við þau lög er þar gilda, húsakynna, sem nauðsynleg eru fyrir sendiráð, eða aðstoða það við öflun húsnæðis á annan hátt.
2. Móttökuríkið skal einnig liðsinna sendiráðum við öflun hæfilegs húsnæðis fyrir sendiráðsmenn, þegar þörf krefur.
22. gr.
1. Sendiráðssvæðið skal njóta friðhelgi. Fulltrúar móttökuríkisins hafa ekki heimild til að koma inn á svæðið nema með leyfi forstöðumanns sendiráðsins.
2. Sérstök skylda hvílir á móttökuríkinu til að gera allar þær ráðstafanir, sem viðeigandi eru, til að vernda sendiráðssvæðið fyrir öllum árásum og tjóni og koma í veg fyrir röskun á friði sendiráðsins eða skerðingu á virðingu þess.
3. Sendiráðssvæðið, innbú og annað lausafé þar og ökutæki sendiráðsins, skulu undanþegin leit, upptöku, haldi eða aðför.
23. gr.
1. Sendiríkið og forstöðumaður sendiráðsins skulu undanþegin öllum sköttum og gjöldum til ríkis, sveitarfélaga og annarra umdæma að því er tekur til sendiráðssvæðisins, hvort sem það er eign sendiríkisins eða tekið á leigu, nema að því er varðar greiðslu fyrir tiltekna veitta þjónustu.
2. Sú skattundanþága, sem nefnd er í þessari grein, skal eigi taka til þeirra gjalda eða skatta, er samkvæmt lögum móttökuríkisins skulu greiðast af aðilum, sem eiga lögskipti við sendiríkið eða forstöðumann sendiráðsins.
24. gr.
Skjalasafn og skjöl sendiráðsins skulu ætíð vera friðhelg, hvar sem þau eru niður komin.
25. gr.
Móttökuríkið skal veita þá aðstöðu, sem nauðsynleg er til að sendiráðið megi rækja hlutverk sitt.
26. gr.
Að undanteknum takmörkunum í lögum og reglum móttökuríkisins varðandi landssvæði, þar sem aðgangur er bannaður eða takmarkaður vegna öryggis þjóðarinnar, skal það tryggja öllum sendiráðsmönnum frjálsa umferð og ferðafrelsi í landi sínu.
27. gr.
1. Móttökuríkið skal heimila og tryggja sendiráðinu samgöngu- og fjarskiptafrelsi í öllum opinberum erindisrekstri sínum. Til að hafa samband við ríkisstjórn, önnur sendiráð og ræðisskrifstofur sendiríkisins, hvar sem þær eru, getur sendiráðið notað allar eðlilegar samskiptaleiðir, þar á meðal stjórnarpóstbera og skilaboð á merkjamáli eða dulmáli. Þó má sendiráðið því aðeins setja upp og nota fjarsenditækið að móttökuríkið veiti leyfi til þess.
2. Opinber bréfaskipti sendiráðsins skulu vera friðhelg. Með opinberum bréfaskiptum er átt við öll bréfaskipti, sem varða sendiráðið og starfsemi þess.
3. Hvorki má opna né leggja hald á stjórnarpóst.
4. Bögglar þeir sem teljast til stjórnarpósts verða að bera þess skýrt auðkenni og mega aðeins vera í þeim stjórnarskjöl eða munir sem ætlaðir eru eingöngu til opinberra nota.
5. Stjórnarpóstberinn, er hafa skal í fórum sínum opinbert skjal sem greinir stöðu hans og bögglafjölda stjórnarpóstsins, skal njóta verndar móttökuríkisins við framkvæmd starfa sinna. Hann skal njóta persónulegrar friðhelgi og má eigi handtaka hann né kyrrsetja.
6. Sendiríkinu eða sendiráðinu er heimilt að tilnefna ad hoc stjórnarpóstbera. Í slíkum tilvikum skulu ákvæði 5. mgr. þessarar greinar einnig gilda; en þeirri friðhelgi sem þar er getið, skal lokið þegar slíkur póstberi hefur afhent réttum viðtakanda þann stjórnarpóst, sem honum var falinn á hendur.
7. Stjórnarpóst má fela í umsjá flugstjóra atvinnuloftfars, sem áætlun hefur til viðurkennds lendingarstaðar. Honum skal fengið í hendur opinbert skjal, sem greinir bögglafjölda stjórnarpóstsins, en hann skal ekki vera talinn stjórnarpóstberi. Sendiráðið getur sent einn af starfsmönnum sínum til þess að taka stjórnarpóstinn beint og óhindrað í sína vörslu frá flugstjóra loftfarsins.
28. gr.
Þau gjöld, sem sendiráðið krefur fyrir opinber störf sín, skulu vera undanþegin öllum sköttum og öðrum álögum.
29. gr.
Sendierindreki skal njóta persónulegrar friðhelgi. Hann má eigi á neinn hátt handtaka né kyrrsetja. Móttökuríkið skal sýna honum tilhlýðilega virðingu og gera allar þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til þess að koma í veg fyrir hvers konar tilræði við persónu hans, frelsi eða sæmd.
30. gr.
1. Einkaheimili sendierindreka skal njóta sömu friðhelgi og verndar sem sendiráðssvæðið.
2. Eignir hans, með þeim undantekningum sem er að finna í 3. mgr. 31. gr., skjöl hans og bréfaskipti, skulu einnig njóta friðhelgi.
31. gr.
1. Sendierindreki skal njóta friðhelgi að því er varðar refsiréttarlögsögu móttökuríkisins. Hann skal einnig njóta friðhelgi að því er varðar einkamála- og framkvæmdarvaldslögsögu þess, nema þegar um er að ræða:
   a. mál varðandi eigin fasteign í landi móttökuríkisins, nema hann hafi vörslu hennar á vegum sendiríkisins til nota fyrir sendiráðið,
   b. mál varðandi erfðir, þar sem sendierindrekinn er skiptaforstjóri, búskilastjóri, erfingi eða gjafþegi sem einstaklingur, en ekki sem fulltrúi fyrir sendiríkið,
   c. mál varðandi hvers konar atvinnu eða verslunarviðskipti sendierindrekans í móttökuríkinu, sem óviðkomandi eru opinberum störfum hans.
2. Sendierindreki er ekki skyldur til að gefa skýrslu sem vitni.
3. Ekki má framkvæma neina aðfarargjörð gagnvart sendierindreka, nema í þeim tilvikum sem falla undir liði a., b. og c. í 1. mgr. þessarar greinar, og með því skilyrði að unnt sé að framkvæma þær aðgerðir, sem um er að ræða, án þess að skerða persónulega friðhelgi hans eða heimilishelgi.
4. Friðhelgi sendierindreka gagnvart lögsögu móttökuríkisins leysir hann ekki undan lögsögu sendiríkisins.
32. gr.
1. Sendiríkið getur afsalað friðhelgi sendierindreka og þeirra, sem njóta friðhelgi samkvæmt 37. gr.
2. Afsal skal ávallt vera gefið berum orðum.
3. Ef sendierindreki, eða sá sem nýtur friðhelgi samkvæmt 37. gr. hefur málssókn er hann firrtur rétti til að krefjast friðhelgi, að því er varðar sérhverja gagnkröfu, er stendur í beinum tengslum við aðalkröfuna.
4. Afsal friðhelgi í einkamálum eða framkvæmdarvaldsmálum felur ekki í sér afsal friðhelgi að því er tekur til fullnustu dómsins; þá þarf sérstakt afsal að koma til.
33. gr.
1. Að undanteknum tilvikum sem 3. mgr. þessarar greinar tekur til, skal sendierindreki í starfi sínu fyrir sendiríkið vera undanþeginn almannatryggingaákvæðum, sem gilda kunna í móttökuríkinu.
2. Undanþága sú, sem getið er í 1. mgr. þessarar greinar, skal einnig ná til einkaþjónustumanna, er eingöngu starfa í þjónustu sendierindreka, að því tilskildu:
   a. að þeir séu ekki ríkisborgarar móttökuríkisins, né hafi fasta búsetu þar; og
   b. að þeir njóti almannatryggingaréttinda þeirra, sem kunna að gilda í sendiríkinu eða í þriðja ríki.
3. Sendierindreki sem hefur í þjónustu sinni menn, er undanþágurnar samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar taka ekki til, skal bundinn þeim skyldum, sem almannatryggingaákvæði móttökuríkisins leggja vinnuveitendum á herðar.
4. Undanþágur þær sem getið er í 1. og 2. mgr. þessarar greinar, skulu ekki koma í veg fyrir sjálfviljuga aðild að almannatryggingum móttökuríkisins, svo fremi að slík aðild sé heimiluð af hálfu þess ríkis.
5. Ákvæði þessarar greinar skulu ekki hafa áhrif á tvíhliða eða marghliða samninga sem áður eru gerðir um almannatryggingar, né hindra gerð slíkra samninga í framtíðinni.
34. gr.
Sendierindreki skal vera undanþeginn öllum gjöldum og sköttum á einstaklinga og eignir, hvort sem um er að ræða álögur til ríkis, sveitarfélaga eða annarra umdæma, nema:
   a. þeim óbeinu sköttum, sem eru yfirleitt innifaldir í verði vara eða þjónustu;
   b. gjöldum eða sköttum á fasteignum í einkaeign í landi móttökuríkisins, nema hann hafi vörslu þeirra á vegum sendiríkisins til nota fyrir sendiráðið;
   c. dánarbús- og erfðafjársköttum, sem móttökuríkið leggur á, með þeim fyrirvara sem felst í ákvæðum 4. mgr. 39. gr.;
   d. gjöldum og sköttum af einkatekjum, sem eiga upphaf sitt í móttökuríkinu, og eignasköttum af fjárfestingu í atvinnufyrirtækjum í móttökuríkinu;
   e. gjöldum, sem lögð eru á fyrir tilgreinda veitta þjónustu;
   f. þinglýsinga- og réttargjöldum og veð- og stimpilgjöldum vegna fasteigna, með þeim fyrirvara sem felst í ákvæðum 23. gr.
35. gr.
Móttökuríkið skal undanþiggja sendierindreka allri persónubundinni þjónustu, hvers konar opinberri þjónustu og hernaðarskyldu svo sem þeim sem tengdar eru upptöku, hernaðarframlögum og vistun herliðs.
36. gr.
1. Móttökuríkið skal heimila, í samræmi við lög og reglur sem það kann að setja, innflutning á og undanþágur frá öllum tollum, sköttum og svipuðum gjöldum, öðrum en geymslugjöldum, akstursgjöldum og líkum gjöldum að því er snertir:
   a. muni sem ætlaðir eru til opinberra nota sendiráðsins;
   b. muni sem ætlaðir eru til persónulegra nota sendierindreka eða venslamanna hans er teljast til heimilisfólks hans, þar á meðal muni sem ætlaðir eru til bústofnunar hans í móttökuríkinu.
2. Persónulegur farangur sendierindreka skal vera undanþeginn skoðun, nema gildar ástæður séu til þess að ætla, að í honum séu munir sem undanþágurnar samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar taka ekki til, eða munir, sem er bannað með lögum að flytja inn eða út, eða lúta sóttvarnarreglum móttökuríkisins. Slík skoðun má einungis fara fram í návist sendierindrekans eða umboðsmanns hans.
37. gr.
1. Þeir venslamenn sendierindreka, sem teljast til heimilisfólks hans, skulu njóta þeirra forréttinda og friðhelgi, sem 29.–36. gr. taka til, ef þeir eru ekki ríkisborgarar móttökuríkisins.
2. Skrifstofu- og tæknistarfsmenn sendiráðsins, ásamt venslamönnum þeirra sem teljast til heimilisfólks þeirra, skulu njóta þeirra forréttinda og friðhelgi, sem getið er í 29.–35. gr., ef þeir eru ekki ríkisborgarar móttökuríkisins né hafa fast heimilisfang þar, en þó með þeirri undantekningu að friðhelgi að því er snertir einkamálaréttar- og framkvæmdavaldslögsögu móttökuríkisins sem greind er í 1. mgr. 31. gr., skal ekki taka til athafna, sem framdar eru utan skyldustarfa þeirra. Þeir skulu einnig njóta þeirra forréttinda, sem greind eru í 1. mgr. 36. gr., að því er varðar muni, sem fluttir eru inn, þegar þeir fyrst stofna bú í móttökuríkinu.
3. Þjónustustarfsmenn sendiráðsins, sem ekki eru ríkisborgarar móttökuríkisins né hafa þar fast heimilisfang, skulu njóta friðhelgi, að því er tekur til athafna, sem þeir framkvæma innan skyldustarfa sinna, og jafnframt njóta undanþágu frá gjöldum og sköttum af launum, sem þeir fá fyrir störf sín, svo og njóta þeirrar undanþágu, sem getið er í 33. gr.
4. Ef einkaþjónustustarfsmenn sendiráðsmanna eru ekki ríkisborgarar móttökuríkisins né hafa þar fast heimilisfang, skulu þeir vera undanþegnir gjöldum og sköttum af launum, sem þeir fá fyrir störf sín. Að öðru leyti njóta þeir aðeins þeirra forréttinda og friðhelgi, sem móttökuríkið heimilar. Móttökuríkið verður þó að fara svo með lögsögu sína yfir mönnum þessum, að ekki valdi óeðlilegum truflunum á störfum sendiráðsins.
38. gr.
1. Sendierindreki, sem er ríkisborgari móttökuríkisins eða hefur fast heimilisfang þar, skal einungis njóta undanþágu frá lögsögu og friðhelgi að því er varðar opinber störf, sem innt eru af hendi innan takmarka skyldustarfa hans, nema móttökuríkið veiti frekari forréttindi og friðhelgi.
2. Aðrir starfsmenn sendiráðs, og einkaþjónustustarfsmenn sem eru ríkisborgarar móttökuríkisins eða hafa þar fast heimilisfang, skulu aðeins njóta þeirra forréttinda og friðhelgi sem móttökuríkið heimilar. Móttökuríkið verður þó að fara svo með lögsögu sína yfir mönnum þessum að ekki valdi óeðlilegum truflunum á störfum sendiráðsins.
39. gr.
1. Sérhver maður sem á rétt á forréttindum og friðhelgi, skal njóta þeirra frá þeirri stundu er hann kemur í land móttökuríkisins til þess að taka við stöðu sinni, eða, ef hann er þegar kominn í land móttökuríkisins, frá þeirri stundu sem skipun hans er tilkynnt utanríkisráðuneytinu eða öðru ráðuneyti sem samkomulag verður um.
2. Þegar störfum manns sem notið hefur forréttinda og friðhelgi er lokið, skal slíkum forréttindum og friðhelgi að jafnaði lokið á þeirri stundu, er hann hverfur úr landi, eða eftir að liðinn er hæfilegur frestur til brottfarar, en halda gildi til þeirrar stundar, jafnvel þótt hernaðarástand ríki. Friðhelgin skal samt haldast að því er tekur til athafna, sem framkvæmdar eru af slíkum manni sem þáttur í skyldustörfum hans sem sendiráðsmanns.
3. Í því tilviki að dauða sendiráðsmanns beri að höndum, skal fjölskylda hans halda áfram að njóta forréttinda og friðhelgi þeirrar sem hún á rétt á, þar til liðinn er hæfilegur frestur til þess að halda úr landi.
4. Í því tilviki að sendiráðsmaður sem hvorki er ríkisborgari móttökuríkisins né hefur fast heimilisfang þar eða heimilisfastur venslamaður hans andist, skal móttökuríkið heimila brottflutning lausafjár hins látna, að undantekinni hverri þeirri eign sem aflað var í því landi og bannað var að flytja út þegar andlátið bar að höndum. Ekki skal leggja skiptagjöld né erfðafjárskatt á lausafé, sem var í móttökuríkinu einungis vegna þess að hinn látni var þar sem sendiráðsmaður eða einn af fjölskyldu sendiráðsmanns.
40. gr.
1. Ef sendierindreki er á ferð eða dvelst í landi þriðja ríkis, sem hefur veitt honum vegabréfsáritun, ef áskilin er, þeirra erinda að taka við eða hverfa aftur til starfs síns eða er á leið til heimalands síns, skal þriðja ríkið veita honum friðhelgi og önnur forréttindi, sem nauðsynleg eru vegna ferðalags hans eða heimferðar. Hið sama á við um sérhvern venslamann sendierindrekans sem nýtur forréttinda og friðhelgi og er í för með honum, eða á leið til hans eða heimalands síns, þótt ekki sé hann honum samferða.
2. Þegar svo stendur á, sem greint er í 1. mgr. þessarar greinar, skulu þriðju ríki ekki hindra för skrifstofu- og tæknistarfsmanna eða þjónustustarfsmanna sendiráðs né venslamanna þeirra, um lönd sín.
3. Þriðju ríki skulu veita embættisbréfum og öðrum opinberum skilaboðum sem um lönd þeirra eru send, þ. á m. tilkynningum á dulmáli eða merkjamáli, sama frjálsræði og vernd og móttökuríkið veitir. Þau skulu veita stjórnarpóstberum sem hafa hlotið vegabréfsáritun, ef slík áritun er áskilin og stjórnarpósti á leið til áfangastaðar, sömu friðhelgi og vernd sem móttökuríkinu ber skylda til að veita.
4. Þær skuldbindingar sem á þriðju ríkjum hvíla samkvæmt 1., 2. og 3. mgr. þessarar greinar, skulu einnig taka til þeirra manna sem þar eru greindir, svo og stjórnarpósts og opinberra skilaboða, sem komin eru í land þriðja ríkisins af force majeure ástæðum.
41. gr.
1. Það er skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi. Á þeim hvílir einnig sú skylda að skipta sér ekki af innanlandsmálum þess ríkis.
2. Öll opinber erindi, sem móttökuríkið varða og falin eru sendiráðinu af sendiríkinu, skulu rekin hjá utanríkisráðuneyti móttökuríkisins eða hjá öðru ráðuneyti, sem samkomulag verður um, eða fyrir milligöngu þeirra.
3. Ekki má nota sendiráðssvæðið á nokkurn þann hátt sem ósamrýmanlegur er störfum sendiráðsins svo sem þau eru skilgreind í þessum samningi eða í öðrum reglum hins almenna þjóðaréttar eða sérsamningum milli sendiríkisins og móttökuríkisins.
42. gr.
Sendierindreka er ekki heimilt að stunda í eigin ágóðaskyni neina atvinnu eða viðskiptastarfsemi í móttökuríkinu.
43. gr.
Störfum sendierindreka lýkur meðal annars:
   a. þegar sendiríkið tilkynnir móttökuríkinu að störfum sendierindrekans sé lokið;
   b. þegar móttökuríkið tilkynnir sendiríkinu að það neiti að viðurkenna sendierindrekann sem sendiráðsmann samkvæmt 2. mgr. 9. gr.
44. gr.
Móttökuríkið verður, jafnvel á hernaðartímum, að auðvelda þeim, sem njóta forréttinda og friðhelgi og ekki eru ríkisborgarar móttökuríkisins, og venslamönnum þeirra, án tillits til ríkisfangs þeirra, að hverfa úr landi svo fljótt sem unnt er. Sérstaklega verður móttökuríkið að útvega þeim nauðsynleg samgöngutæki til nota fyrir þá sjálfa og eigur þeirra, sé þess þörf.
45. gr.
Ef stjórnmálasamband er rofið milli tveggja ríkja, eða ef sendiráði er lokað fyrir fullt og allt, eða til bráðabirgða:
   a. verður móttökuríkið, jafnvel á hernaðartímum, að virða og vernda sendiráðssvæðið, ásamt eignum þess og skjalasafni;
   b. getur sendiríkið falið þriðja ríki, sem móttökuríkið samþykkir, umsjá með sendiráðssvæðinu, eignum sendiráðsins og skjalasafni;
   c. getur sendiríkið falið þriðja ríki, sem móttökuríkið samþykkir, að gæta hagsmuna sinna og hagsmuna ríkisborgara sinna.
46. gr.
Sendiríki getur að fengnu samþykki móttökuríkisins og samkvæmt tilmælum þriðja ríkis, sem ekki hefur fulltrúa í móttökuríkinu, tekið að sér að gæta til bráðabirgða hagsmuna þriðja ríkisins og ríkisborgara þess.
47. gr.
1. Við framkvæmd ákvæða samnings þessa skal móttökuríkið ekki mismuna ríkjum.
2. Þó skal mismunun ekki vera talin eiga sér stað:
   a. þegar móttökuríkið beitir þröngri túlkun við framkvæmd einhvers ákvæðis samnings þessa sökum þess að hlutaðeigandi ákvæði er túlkað þröngt í framkvæmd gagnvart sendiráði þess í sendiríkinu;
   b. þegar ríki á grundvelli venju eða samnings, veita hvort öðru betri kjör en mælt er fyrir í ákvæðum þessa samnings.
48. gr.
Samningur þessi skal liggja frammi til undirskrifta af hálfu allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna, sérstofnana þeirra, aðildarríkja samþykkta Alþjóðadómstólsins og allra annarra ríkja sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna býður að gerast aðili að samningnum, á þann hátt sem hér segir:
   til 31. október 1961 í utanríkisráðuneyti Austurríkis, og síðan í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York til 31. mars 1962.
49. gr.
Fullgilda þarf samning þennan. Fullgildingarskjölin skulu afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
50. gr.
Sérhverju ríki í einhverjum hinna fjögurra flokka, sem taldir eru í 48. gr., skal heimilt að gerast aðili að samningi þessum. Aðildarskjölin skulu afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
51. gr.
1. Samningur þessi skal taka gildi á þrítugasta degi eftir að tuttugasta og annað fullgildingar- eða aðildarskjalið hefur verið afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
2. Að því er varðar hvert ríki sem fullgildir samninginn eða gerist aðili að honum eftir að tuttugasta og annað fullgildingar- eða aðildarskjalið hefur verið afhent til varðveislu, skal samningurinn taka gildi á þrítugasta degi eftir að hlutaðeigandi ríki hefur afhent fullgildingar- eða aðildarskjal sitt til varðveislu.
52. gr.
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal tilkynna öllum þeim ríkjum, sem eru í einhverjum hinna fjögurra flokka, sem greindir eru í 48. gr.:
   a. undirskriftir undir samning þennan og að fullgildingar- eða aðildarskjöl hafi verið afhent til varðveislu í samræmi við 48., 49. og 50. gr.;
   b. dag þann sem samningur þessi tekur gildi í samræmi við 51. gr.
53. gr.
Frumrit samnings þessa, sem gerður er á ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spönsku, og allir textarnir jafngildir, skal varðveitt af framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna; hann skal senda staðfest eftirrit af því til allra þeirra ríkja, sem eru í einhverjum þeirra fjögurra flokka, sem nefndir eru í 48. gr.

Fylgiskjal II.
Kjörfrjáls bókun varðandi öflun ríkisborgararéttar.
Þau ríki, sem aðilar eru að þessari bókun og að Vínarsamningnum um stjórnmálasamband, — sem hér á eftir verður nefndur „samningurinn“ —, er samþykktur var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem haldin var í Vínarborg 2. mars til 14. apríl 1961, láta í ljós þá ósk að setja reglur sín á milli um öflun ríkisborgararéttar að því er snertir sendiráðsmenn og venslamenn þeirra, sem teljast til heimilisfólks þeirra, og gera samkomulag um það sem hér fer á eftir:
1. gr.
Í bókun þessari skal orðið „sendiráðsmenn“ hafa þá merkingu, sem skilgreind er í lið b í 1. gr. samningsins, þ.e.a.s. „forstöðumaður sendiráðs og starfsmenn þess“.
2. gr.
Sendiráðsmenn, sem eru ekki ríkisborgarar móttökuríkisins, og venslamenn sem teljast til heimilisfólks þeirra, skulu ekki öðlast ríkisborgararétt móttökuríkisins eingöngu á grundvelli laga sem þar gilda.
3. gr.
Bókun þessi skal liggja frammi til undirskrifta af hálfu allra ríkja, sem gerast aðilar að samningnum, eins og hér segir:
   til 31. október 1961 í utanríkisráðuneyti Austurríkis, og síðan í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York til 31. mars 1962.
4. gr.
Bókun þessa þarf að fullgilda. Fullgildingarskjölin skulu afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
5. gr.
Öllum ríkjum, sem gerast aðilar að samningnum, er heimilt að gerast aðilar að bókun þessari. Aðildarskjölin skulu afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
6. gr.
1. Bókun þessi skal taka gildi þann dag, er hið síðara af þessu tvennu verður:
   gildistaka samningsins eða þrítugasti dagur eftir að annað fullgildingar- eða aðildarskjalið hefur verið afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
2. Að því er varðar hvert ríki um sig sem fullgildir bókun þessa eða gerist aðili að henni eftir að hún tekur gildi samkvæmt 1. lið þessarar greinar, skal bókun taka gildi á þrítugasta degi eftir að hlutaðeigandi ríki hefur afhent fullgildingar- eða aðildarskjal sitt til varðveislu.
7. gr.
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal tilkynna öllum ríkjum, sem verða aðilar að samningnum:
   a. undirskriftir undir bókun þessa og að fullgildingar- eða aðildarskjöl hafi verið afhent til varðveislu samkvæmt 3., 4. og 5. gr.;
   b. dag þann er bókun þessi tekur gildi samkvæmt 6. gr.
8. gr.
Frumrit bókunar þessarar, sem gerð er á ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spönsku, og allir textarnir jafngildir, skal varðveitt af framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna; hann skal senda staðfest eftirrit af því til allra ríkja, sem tilgreind eru í 3. gr.

Fylgiskjal III.
Kjörfrjáls bókun varðandi skyldubundna lausn deilumála.
Þau ríki, sem aðilar eru að þessari bókun og að Vínarsamningnum um stjórnmálasamband, — sem hér á eftir verður nefndur „samningurinn“ —, er samþykktur var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem haldin var í Vínarborg 2. mars til 14. apríl 1961, láta í ljós þá ósk að hlíta hinni skyldubundnu lögsögu Alþjóðadómstólsins í öllum málum er þau varða í sambandi við sérhverja deilu um túlkun eða framkvæmd samningsins, nema aðilar hafi komið sér saman um einhverja aðra aðferð til lausnar deilunni innan hæfilegs frests, og gera samkomulag um það sem hér fer á eftir:
1. gr.
Deilur sem rísa um túlkun og framkvæmd samningsins skulu falla undir hina skyldubundnu lögsögu Alþjóðadómstólsins, og má því skjóta þeim til dómstólsins samkvæmt kröfu hvers þess deiluaðila, sem hlut á að þessari bókun.
2. gr.
Áður en tveir mánuðir eru liðnir frá því að annar aðilinn hefur tilkynnt hinum þá skoðun sína að um deilu sé að ræða, geta aðilarnir samið um að leggja málið til gerðardóms og ekki til Alþjóðadómstólsins. Að þeim fresti liðnum getur hvor aðilinn um sig krafist þess, að deilan sé lögð til dómstólsins.
3. gr.
1. Áður en sama tveggja mánaða tímabil er liðið geta aðilarnir samið um að taka upp sáttaumleitanir.
2. Sáttanefndin skal leggja fram tillögur sínar áður en fimm mánuðir eru liðnir frá því að hún var tilnefnd. Ef aðilar samþykkja ekki tillögur hennar innan tveggja mánaða tímabils frá því að þær koma fram, getur hvor aðila um sig krafist þess að deilan sé lögð til dómstólsins.
4. gr.
Ríki sem eru aðilar að samningnum, að hinni kjörfrjálsu bókun varðandi öflun ríkisborgararéttar og að þessari bókun, geta hvenær sem er lýst yfir því, að þau vilji rýmka ákvæði þessarar bókunar svo, að þau taki til deilna út af túlkun eða framkvæmd kjörfrjálsu bókunarinnar varðandi öflun ríkisborgararéttar. Slíkum yfirlýsingum skal beint til framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
5. gr.
Bókun þessi skal liggja frammi til undirskrifta af hálfu allra ríkja sem gerast aðilar að samningnum, eins og hér segir:
   til 31. október 1961 í utanríkisráðuneyti Austurríkis, og síðan í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York til 31. mars 1962.
6. gr.
Bókun þessa þarf að fullgilda. Fullgildingarskjölin skulu afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
7. gr.
Öllum ríkjum sem gerast aðilar að samningnum er heimilt að gerast aðilar að bókun þessari. Aðildarskjölin skulu afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
8. gr.
1. Bókun þessi skal taka gildi þann dag, er hið síðara af þessu tvennu verður:
   gildistaka samningsins eða þrítugasti dagur eftir að annað fullgildingar- eða aðildarskjalið hefur verið afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
2. Að því er varðar hvert ríki um sig sem fullgildir bókun þessa eða gerist aðili að henni eftir að hún tekur gildi samkvæmt 1. lið þessarar greinar, skal bókunin taka gildi á þrítugasta degi eftir að hlutaðeigandi ríki hefur afhent fullgildingar- eða aðildarskjal sitt til varðveislu.
9. gr.
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal tilkynna öllum ríkjum, sem verða aðilar að samningnum:
   a. undirskriftir undir bókun þessa og að fullgildingar- og aðildarskjöl hafi verið afhent til varðveislu samkvæmt 5., 6. og 7. gr.;
   b. yfirlýsingar sem gefnar eru samkvæmt 4. gr. í bókun þessari;
   c. dag þann er bókun þessi tekur gildi samkvæmt 8. gr.
10. gr.
Frumrit bókunar þessarar, sem gerð er á ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spönsku, og allir textarnir jafngildir, skal varðveitt af framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna; hann skal senda staðfest eftirrit af því til allra ríkja, sem tilgreind eru í 5. gr.