Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um bann við losun hættulegra efna í sjó
1972 nr. 20 21. apríl
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 9. júní 1972. Breytt með:
L. 47/1990 (tóku gildi 31. maí 1990 nema 14. og 15. gr. sem tóku gildi 1. jan. 1991).
L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008).
L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eða umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr.
Íslenskum skipum er bannað að losa í sjó, hvort heldur er innan eða utan íslenskrar lögsögu, öll þau efni eða efnasambönd, sem hættuleg geta verið sjávarlífi eða heilsu manna.
Bann þetta nær yfir:
1. Öll eiturefni, lífræn og ólífræn, auðleysanleg og torleysanleg sambönd málma og málmleysingja.
2. Geislavirk efni.
3. Sprengiefni.
2. gr.
[Ráðherra]1) gefur út reglugerð, þar sem öll hin bönnuðu efni eru tæmandi talin, og frekari fyrirmæli um framkvæmd bannsins, eftir því sem þurfa þykir.
Einnig má ákveða í reglugerð bann eða fyrirmæli um losun efna, sem ekki eru eitruð eða hættuleg, en geta orsakað alvarlega hindrun við fiskveiðar eða siglingar, ef sökkt er á ákveðnum stöðum.
1)L. 126/2011, 53. gr.
3. gr.
Íslenskum ríkisborgurum eða fyrirtækjum er einnig bannað að stuðla að losun hinna bönnuðu efna.
4. gr.
Ákvæði 1.–3. gr. eiga einnig við um losun þarnefndra efna eða efnasambanda á hafi úti úr öðrum flutningstækjum en skipum.
5. gr.
Ríkisstjórninni er heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd þær alþjóðasamþykktir, sem kunna að verða gerðar um varnir gegn mengun alþjóðlegra hafsvæða, og skulu auglýsingar um staðfestingu og gildistöku viðkomandi samþykkta birtast í C-deild Stjórnartíðinda.
6. gr.
[Brot gegn lögum þessum varða sektum.]1)
1)L. 88/2008, 234. gr.