Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um orlof húsmæðra

1972 nr. 53 29. maí


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 9. júní 1972. Breytt með: L. 94/1975 (tóku gildi 1. jan. 1976). L. 61/1978 (tóku gildi 1. jan. 1979). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við félags- og vinnumarkaðsráðherra eða félags- og vinnumarkaðsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Kvenfélagasamband Íslands skiptir landinu í orlofssvæði með tilliti til framkvæmdar laga þessara um orlof húsmæðra. Fer skiptingin fram á landsþingi sambandsins. Ekki má skipta sveitarfélagi milli orlofssvæða.
2. gr.
Héraðssambönd Kvenfélagasambands Íslands kjósa á ársfundi orlofsnefndir fyrir orlofssvæðin hver í sínu umdæmi.
Í orlofsnefnd skulu vera þrjár konur og þrjár til vara, kosnar til þriggja ára í senn.
Orlofsnefndir skipta sjálfar með sér verkum.
Þar sem mæðrastyrksnefndir eru starfandi á orlofssvæðinu, skulu orlofsnefndir leita samstarfs við þær.
3. gr.
Orlofsnefndir skipuleggja orlof húsmæðra hver í sínu umdæmi og sjá um rekstur orlofsheimila.
4. gr.
Greiða má fararstjórum þóknun, hvort sem þeir eru í orlofsnefnd eða ekki.
Heimilt er orlofsnefndum að greiða fyrir framkvæmdastjórn og gjaldkerastörf á þeim stöðum, þar sem nefndir reka orlofsheimili á eigin ábyrgð.
Að öðru leyti skulu orlofsnefndir vera ólaunaðar.
5. gr.
[Til þess að standa straum af kostnaði við orlof húsmæðra skal sveitarsjóður leggja árlega fram fjárhæð, sem nemi minnst kr. 100 fyrir hvern íbúa sveitarfélagsins. Fjárhæð þessi tekur breytingum eftir vísitölu framfærslukostnaðar og miðast við vísitöluna eins og hún er í febrúar ár hvert. Framlag þetta skal greiða orlofsnefnd viðkomandi orlofssvæðis fyrir 15. maí.
Orlofsnefndum er heimilt að láta orlofsþega greiða allt að 15% af beinum kostnaði orlofsdvalar, ef þörf krefur.
Heimilt er orlofsnefndum að geyma rekstrarfé orlofsins á milli ára, ef ástæða þykir til.]1)
   1)L. 61/1978, 1. gr.
6. gr.
Sérhver kona, sem veitir eða hefur veitt heimili forstöðu, án launagreiðslu fyrir það starf, á rétt á að sækja um orlof.
Þegar valið er úr umsóknum, skulu orlofsnefndir hafa til hliðsjónar barnafjölda, aldur barna og aðrar félagslegar aðstæður kvennanna. Æskilegt er, að orlofsdvöl sé ekki skemmri en 7–10 dagar.
Verði orlofsdvöl ekki við komið, er heimilt að nota orlofsfé, sem veitt er samkvæmt lögum þessum, til ferðalags fyrir húsmæður.
7. gr.
Heimilt er orlofsnefndum að nota allt að 20% af framlagi …1) sveitarfélaga til þess að greiða kostnað vegna barna orlofskvenna á barnaheimili eða annars staðar, meðan á orlofsdvöl stendur.
Konur, sem eiga tvö börn eða fleiri innan 7 ára aldurs, skulu að jafnaði sitja fyrir um þessar greiðslur.
   1)L. 94/1975, 4. gr. Ath. og l. 61/1978, 2. gr.
8. gr.
Heimilt er orlofsnefndum að verja nokkurri fjárhæð þriðja hvert ár til þess að senda fulltrúa á sameiginlega ráðstefnu, er hefur það hlutverk að samræma fyrirkomulag orlofsins og kynna starfshætti á hinum ýmsu orlofssvæðum.
Skal orlofsnefndin í Reykjavík hafa frumkvæði um að kalla saman hina fyrstu ráðstefnu.
9. gr.
[Ráðuneytið]1) sér um prentun umsóknareyðublaða um orlof húsmæðra og sendir þau orlofsnefndum.
   1)L. 126/2011, 54. gr.
10. gr.
Orlofsnefndir geta leitað fyrirgreiðslu hjá [ráðuneytinu],1) [því ráðuneyti er fer með fræðslumál]2) og öðrum hlutaðeigendum um afnot skóla eða annarra opinberra bygginga til orlofsdvalar.
   1)L. 162/2010, 2. gr. 2)L. 126/2011, 54. gr.
11. gr.
Skylt er orlofsnefndum að senda [ráðuneytinu]1) og viðkomandi sveitarfélögum árlega skýrslu um starfsemi sína ásamt reikningum fyrir þann tíma, sem ráðuneytið ákveður.
Orlofsnefndir gefi skýrslur um starfið á aðalfundi viðkomandi héraðssambands.
   1)L. 162/2010, 2. gr.
12. gr.
Ákvæði til bráðabirgða.