Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um getraunir

1972 nr. 59 29. maí


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 9. júní 1972. Breytt með: L. 75/1982 (tóku gildi 10. júní 1982). L. 93/1988 (tóku gildi 5. des. 1988). L. 15/2002 (tóku gildi 3. apríl 2002). L. 129/2004 (tóku gildi 31. des. 2005). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).


1. gr.
Ríkisstjórninni veitist heimild til þess að stofna félag, Íslenskar Getraunir, sem afli fjár til stuðnings íþróttaiðkunum á vegum áhugamanna um íþróttir í landinu í félögum innan Ungmennafélags Íslands eða Íþróttasambands Íslands.
2. gr.
[Félagið starfrækir íþróttagetraunir, en með íþróttagetraunum er átt við að á þar til gerða miða, getraunaseðla, sem félagið eitt hefur rétt til að gefa út, eru merkt væntanleg úrslit íþróttakappleikja, íþróttamóta.]1)
Verð eininga (raða) eða miða skal ákveðið í reglugerð,2) að fengnum tillögum frá stjórn Íslenskra Getrauna.
   1)L. 93/1988, 1. gr. 2)Rg. 166/2016, sbr. 754/2016, 1014/2016, 544/2017, 698/2017, 878/2017, 535/2018, 958/2018, 1242/2018, 402/2020, 767/2020, 1077/2020, 1259/2020, 1599/2021, 212/2022, 689/2022, 965/2022, 1048/2022 og 288/2023.
3. gr.
[Að minnsta kosti 40% af heildarsöluverði raða eða miða skal varið til vinninga.]1)
Vinningar getrauna eru undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum, …2) á því ári, sem þeir falla til útborgunar.
   1)L. 93/1988, 2. gr. 2)L. 129/2004, 38. gr.
4. gr.
[Ráðuneyti íþróttamála]1) fer með málefni Íslenskra Getrauna, sbr. þó 5. gr.
Íslenskum Getraunum skal stjórnað af fimm manna stjórn, sem sé skipuð einum fulltrúa frá hverjum eftirtalinna aðila: Íþróttanefnd ríkisins, stjórn Ungmennafélags Íslands (UMFÍ), framkvæmdastjórn Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ), stjórn Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ), framkvæmdastjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR).
Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.
Starfstími stjórnarinnar er þrjú ár.
Þóknun til stjórnarinnar ákveður [ráðuneyti íþróttamála]1) og greiðist hún af Íslenskum Getraunum.
   1)L. 126/2011, 55. gr.
5. gr.
[Ráðuneyti er fer með málefni happdrætta]1) setur reglugerð2) um starfrækslu getrauna, að fengnum tillögum stjórnar Íslenskra Getrauna, og hefur eftirlit með starfrækslu getrauna. Kostnaður við eftirlitið greiðist af Íslenskum Getraunum, samkvæmt ákvörðun ráðuneytisins.
   1)L. 126/2011, 55. gr. 2)Rg. 166/2016 og 837/2016.
6. gr.
Stjórn Íslenskra Getrauna ræður félaginu starfsfólk og setur því erindisbréf.
[Reikningsár félagsins er almanaksárið.]1)
Reikningar þess skulu endurskoðaðir af ríkisendurskoðuninni. Ársreikning ásamt ársskýrslu skal senda [ráðuneytum er fara með íþróttamál og málefni happdrætta].2)
   1)L. 15/2002, 1. gr. 2)L. 126/2011, 55. gr.
7. gr.
Stjórn Íslenskra Getrauna ákveður, hverjum veitist söluumboð, og kveður á um sölulaun.
Ungmenna- og íþróttafélög eða samtök þeirra gangi fyrir um veitingu söluumboða innan íþróttahéraðs síns. Gerður skal samningur við handhafa söluumboðs.
Greiða skal stjórn héraðssambands 3% af heildarsölu í viðkomandi íþróttahéraði, enda staðfesti hún félagslega aðild umboðsaðila að samtökum sínum í íþróttahéraðinu.
8. gr.
Til kostnaðar við íþróttagetraunir telst greiðsla til Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ), að lágmarki 250 þús. kr., en 15 þús. kr. af hverri milljón heildartekna yfir 20 millj. kr. allt að því, að greiðslan nemur 475 þús. kr. á ári, og eftir að þeirri fjárhæð er náð, greiðist til KSÍ 7500 kr. af hverri milljón.
Einnig teljist til kostnaðar 0,5% greiðsla af heildarsölu í varasjóð, sem Íslenskar Getraunir eiga og nota til þess að mæta áföllum, sem félagið kann að verða fyrir.
9. gr.
Þegar vinningar, sölulaun og kostnaður hafa verið greidd skal ágóði skiptast þannig:
   Til íþróttasjóðs 10%.
   Til Ungmennafélags Íslands 20%.
   Til Íþróttasambands Íslands 70%.
10. gr.
Öllum öðrum en Íslenskum Getraunum skal óheimilt að starfrækja getraunir, sem um ræðir í 2. gr. þessara laga. Enn fremur er óheimilt án sérstakrar lagaheimildar, að starfrækja veðmálastarfsemi í sambandi við íþróttakeppni. Brot á þessum ákvæðum varða sektum …,1) sem greiðist í íþróttasjóð.
   1)L. 75/1982, 50. gr.
11. gr.1)
   1)L. 88/2008, 233. gr.
12. gr.
Leggist starfræksla getrauna niður, skulu eignir félagsins varðveitast hjá íþróttanefnd ríkisins.