Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um aðild Íslands að alþjóðasamningi um ræðissamband

1978 nr. 4 24. febrúar


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 6. apríl 1978.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við utanríkisráðherra eða utanríkisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Ríkisstjórninni er heimilt að gerast aðili fyrir Íslands hönd að alþjóðasamningi um ræðissamband sem gerður var í Vínarborg 24. apríl 1963 og prentaður er sem fylgiskjal með lögum þessum, svo og að viðbótarbókunum varðandi ríkisborgararétt og skyldubundna lausn deilumála.
Ákvæði samningsins skulu hafa lagagildi á Íslandi.
2. gr.
Ráðherra getur sett nánari reglur1) um framkvæmd laga þessara.
   1)Rgl. 345/2024.
3. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.

Fylgiskjal I.
Vínarsamningurinn um ræðissamband.
   Ríki þau sem eru aðilar að samningi þessum minna á að ræðissamband hefur frá fornu fari tíðkast milli þjóða, hafa í huga markmið og grundvallarreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna varðandi jafnræði fullvalda ríkja, varðveislu friðar og öryggis í milliríkjasamskiptum og eflingu vinsamlegra samskipta þjóða í milli, hafa hliðsjón af því að ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um stjórnarsamskipti og friðhelgi samþykkti Vínarsamninginn um stjórnmálasamband sem lagður var fram til undirritunar 18. apríl 1961, álíta að alþjóðasamningur um ræðissamband, forréttindi og friðhelgi muni einnig stuðla að eflingu vinsamlegra samskipta þjóða í milli hvert sem stjórnskipulag eða þjóðfélagskerfi þeirra er, eru þeirrar skoðunar að markmið slíkra forréttinda og friðhelgi sé ekki að ívilna einstaklingum heldur að tryggja árangursríka framkvæmd á störfum ræðisstofnana á vegum ríkja sinna, staðfesta að venjureglur þjóðaréttarins gilda áfram um þau atriði er ákvæði samnings þessa taka ekki ótvírætt til, gera samkomulag um það sem fer hér á eftir:
1. gr. Skilgreiningar.
1. Í samningi þessum skulu neðangreind heiti hafa þessa merkingu:
   a. „ræðisstofnun“ er sérhver aðalræðisskrifstofa, ræðisskrifstofa, vararæðisskrifstofa eða umboðsræðisskrifstofa;
   b. „ræðisumdæmi“ er það landsvæði þar sem ræðisstofnun er ætlað að inna af hendi ræðisstörf;
   c. „forstöðumaður ræðisstofnunar“ er maður sem hefur verið falið að gegna slíkri stöðu;
   d. „ræðiserindreki“ er hver sá sem falið hefur verið sem slíkum að framkvæma ræðisstörf, og er þar með talinn forstöðumaður ræðisstofnunar;
   e. „ræðisstarfsmaður“ er hver sá sem er ráðinn til að vinna skrifstofu- eða tæknistörf hjá ræðisstofnun;
   f. „þjónustustarfsmaður“ er hver sá sem er ráðinn til að vinna heimilisstörf hjá ræðisstofnun;
   g. „starfsmenn ræðisstofnunar“ eru ræðiserindrekar, ræðisstarfsmenn og þjónustustarfsmenn;
   h. „ræðisstarfslið“ er ræðiserindrekar, að undanskildum forstöðumanni ræðisstofnunar, ræðisstarfsmenn og þjónustustarfsmenn;
   i. „einkaþjónustustarfsmaður“ er sá sem er ráðinn eingöngu í einkaþjónustu starfsmanns ræðisstofnunar;
   j. „ræðisstofnunarsvæði“ er þær byggingar eða hlutar bygginga og tilheyrandi lóð sem nýtt er eingöngu í þágu ræðisstofnunar hver svo sem eigandinn er;
   k. „ræðisskjalasafn“ er öll blöð, skjöl, bréf, bækur, kvikmyndir, segulbönd og skrár ræðisstofnunar ásamt dulmáls- og merkjamálsgögnum, spjaldskrám og hvers kyns húsmunum sem ætlaðir eru til að hlífa þeim og varðveita.
2. Ræðiserindrekar skiptast í tvo flokka, þ.e. sendiræðiserindreka og kjörræðiserindreka. Ákvæði 2. kafla samnings þessa taka til ræðisstofnana sem sendiræðiserindrekar veita forstöðu en ákvæði 3. kafla til ræðisstofnana undir stjórn kjörræðiserindreka.
3. Um hina sérstöku stöðu þeirra starfsmanna ræðisstofnana sem eru ríkisborgarar viðtökuríkisins eða hafa þar fasta búsetu gilda ákvæði 71. greinar samnings þessa.

I. kafli. Ræðissamband almennt.
I. þáttur. Upptaka og meðferð ræðissambands.
2. gr. Upptaka ræðissambands.
1. Upptaka ræðissambands milli ríkja fer fram með gagnkvæmu samkomulagi.
2. Samþykki sem veitt er til upptöku stjórnmálasambands milli tveggja ríkja felur jafnframt í sér samþykki til upptöku ræðissambands nema annað sé tekið fram.
3. Slit stjórnmálasambands skal ekki sjálfkrafa hafa í för með sér slit ræðissambands.
3. gr. Framkvæmd ræðisstarfa.
Ræðisstofnanir inna af hendi ræðisstörf. Sendiráð annast einnig slík störf í samræmi við ákvæði samnings þessa.
4. gr. Opnun ræðisstofnunar.
1. Ræðisstofnun má eigi koma á fót í landi viðtökuríkisins nema með samþykki þess.
2. Sendiríkið skal ákveða aðsetur ræðisstofnunar, stig hennar og umdæmi, en samþykki viðtökuríkisins er áskilið.
3. Breytingar á aðsetri ræðisstofnunar, stigi hennar eða umdæmi má sendiríkið eigi gera nema með samþykki viðtökuríkisins.
4. Samþykki viðtökuríkisins þarf einnig til að koma ef aðalræðisskrifstofa eða ræðisskrifstofa vill opna vararæðisskrifstofu eða umboðræðisskrifstofu annars staðar en þar sem hún sjálf hefur aðsetur.
5. Ótvírætt fyrirframsamþykki viðtökuríkisins er líka nauðsynlegt til þess að opna skrifstofu sem telst hluti ræðisstofnunar, en er ekki á aðsetursstað hennar.
5. gr. Ræðisstörf.
Ræðisstörf eru fólgin í því:
   a. að gæta hagsmuna sendiríkisins og ríkisborgara þess, jafnt einstaklinga sem lögaðila, í viðtökuríkinu, innan þeirra takmarka sem þjóðarétturinn setur;
   b. að stuðla að aukningu viðskiptalegra, efnahagslegra, menningarlegra og vísindalegra samskipta sendiríkisins og viðtökuríkisins og efla með öðrum hætti vinsamleg samskipti þeirra í samræmi við ákvæði samnings þessa;
   c. að afla með öllum löglegum ráðum upplýsinga um ástand og þróun viðskipta-, efnahags-, menningar- og vísindamála í viðtökuríkinu, gefa ríkisstjórn sendiríkisins skýrslur um þessi efni og skýra einstaklingum, sem þess óska, frá þeim;
   d. að gefa út vegabréf og ferðaskilríki til handa ríkisborgurum sendiríkisins, og staðfestingaráritanir eða nauðsynleg skilríki til handa þeim, sem ætla að ferðast til sendiríkisins;
   e. að veita ríkisborgurum sendiríkisins, jafnt einstaklingum sem lögaðilum, aðstoð og fyrirgreiðslu;
   f. að koma fram sem notarius publicus og skráningarstjóri eða gegna svipuðum störfum, og annast viss stjórnsýslustörf, enda sé þetta í engu andstætt lögum og reglum viðtökuríkisins;
   g. að gæta hagsmuna ríkisborgara sendiríkisins, einstaklinga jafnt sem lögaðila, vegna arfstæmingar í viðtökuríkinu, og þá í samræmi við lög og reglur viðtökuríkisins;
   h. að vernda, innan þeirra takmarka, sem lög og reglur viðtökuríkisins setja, hagsmuni þeirra, sem eigi hafa náð lögaldri, og annarra manna, sem skortir fullt gerhæfi og eru ríkisborgarar sendiríkisins, einkum þegar þörf er á einhvers konar lögráðamennsku eða fjárhaldsmennsku fyrir slíka menn;
   i. að koma fram eða útvega viðeigandi fulltrúa til að koma fram fyrir hönd ríkisborgara sendiríkisins fyrir dómstólum eða öðrum stjórnvöldum viðtökuríkisins í samræmi við venjur og reglur viðtökuríkisins, enda sé tilgangurinn sá að gera bráðabirgðaráðstafanir samkvæmt lögum og reglum viðtökuríkisins í því skyni að vernda réttindi og hagsmuni þessara ríkisborgara, þegar þeir geta ekki í tæka tíð gætt réttinda sinna og hagsmuna vegna fjarveru eða af öðrum ástæðum;
   j. að koma réttarskjölum og utanréttarskjölum til skila eða koma réttartilmælum eða beiðnum um öflun sönnunargagna handa dómstólum sendiríkisins á framfæri og þá í samræmi við gildandi alþjóðasamninga eða á annan hátt, er samrýmist lögum og reglum viðtökuríkisins, séu alþjóðasamningar um þetta ekki til;
   k. að hafa með höndum þá umsjón og eftirlit með skipum af þjóðerni sendiríkisins, loftförum skrásettum þar og áhöfnum þeirra, sem mælt er fyrir um í lögum og reglum sendiríkisins;
   l. að aðstoða skip þau og loftför, sem nefnd eru í k-lið greinar þessarar, og áhafnir þeirra, taka við skýrslum varðandi ferð skips, rannsaka og árita skipsskjöl, framkvæma rannsóknir á atburðum, sem gerðust í sjóferð, enda brjóti slík rannsókn ekki í bága við valdbeitingu stjórnvalda viðtökuríkisins, og leiða til lykta hvers kyns deilur milli skipstjóra, annarra yfirmanna og óbreyttra skipverja, að svo miklu leyti sem það er heimilt samkvæmt lögum og reglum sendiríkisins;
   m. að inna af hendi hvers konar önnur störf, er sendiríkið felur ræðisskrifstofu og eru ekki óheimil samkvæmt lögum og reglum viðtökuríkisins, eða viðtökuríkið mótmælir ekki, eða fjallað er um í gildandi alþjóðasamningum milli sendiríkisins og viðtökuríkisins.
6. gr. Framkvæmd ræðisstarfa utan ræðisumdæmisins.
Þegar sérstaklega stendur á getur ræðiserindreki með samþykki viðtökuríkisins framkvæmt störf sín utan ræðisumdæmis síns.
7. gr. Framkvæmd ræðisstarfa í þriðja ríki.
Sendiráðið má fela ræðisstofnun sem komið hefur verið á fót í ákveðnu ríki að fara með framkvæmd ræðisstarfa í öðru ríki enda hafi hlutaðeigandi ríkjum verið tilkynnt það fyrir fram og hvorugt hreyft ótvíræðum mótmælum.
8. gr. Framkvæmd ræðisstarfa fyrir hönd þriðja ríkis.
Að undanfarinni viðhlítandi tilkynningu til viðtökuríkisins má ræðisstofnun sendiríkisins annast ræðisstörf í viðtökuríkinu fyrir hönd þriðja ríkis nema viðtökuríkið beri fram mótbárur gegn því.
9. gr. Stig forstöðumanna ræðisstofnana.
1. Forstöðumenn ræðisstofnana hafa fjögur stig, þ.e.:
   a. aðalræðismenn,
   b. ræðismenn,
   c. vararæðismenn,
   d. umboðsræðismenn.
2. Fyrsta málsgrein greinar þessarar takmarkar á engan hátt rétt neins aðila þessa samnings til að ákveða starfsheiti annarra ræðiserindreka en forstöðumanna ræðisstofnana.
10. gr. Skipun og starfsheimild forstöðumanna ræðisstofnana.
1. Sendiríkið skipar forstöðumenn ræðisstofnana en viðtökuríkið veitir þeim starfsheimild.
2. Með þeim takmörkunum sem felast í ákvæðum samnings þessa fer um formsatriði varðandi skipun og starfsheimild forstöðumanns ræðisstofnunar samkvæmt lögum, reglum og venjum sendiríkisins og viðtökuríkisins eftir því sem við á.
11. gr. Skipunarbréf til ræðisstarfa eða tilkynning um skipun.
1. Sendiríkið skal láta forstöðumanni ræðisstofnunar í té skjal, í formi skipunarbréfs eða svipaðs skjals, og skal það sérstaklega útbúið fyrir hverja skipun. Þar skal tilgreina stöðu hans og að jafnaði skal taka fram fullt nafn hans, flokk og stig, hvert ræðisumdæmið er og aðsetur ræðisstofnunarinnar.
2. Sendiríkið skal koma skipunarbréfinu eða áþekku skjali stjórnarboðleið eða á annan viðeigandi hátt til stjórnar þess lands þar sem forstöðumaður ræðisstofnunar á að framkvæma störf sín.
3. Í stað skipunarbréfs eða áþekks skjals getur sendiríkið með samþykki viðtökuríkisins sent hinu síðarnefnda tilkynningu þar sem greint er frá þeim atriðum sem áskilin eru samkvæmt 1. mgr. greinar þessarar.
12. gr. Viðurkenning.
1. Forstöðumanni ræðisstofnunar er veitt heimild til að framkvæma störf sín með viðurkenningu af hálfu viðtökuríkisins og kallast viðurkenningin exequatur í hvaða formi sem hún er.
2. Ríki sem neitar að veita viðurkenningu er ekki skylt að skýra sendiríkinu frá ástæðum til slíkrar neitunar.
3. Forstöðumaður ræðisstofnunar skal ekki hefja störf sín fyrr en hann hefur fengið viðurkenningu, nema samkvæmt reglum 13. gr. og 15. gr.
13. gr. Bráðabirgðastarfsheimild forstöðumanna ræðisstofnana.
Meðan viðurkenningar er beðið má veita forstöðumanni ræðisstofnunar bráðabirgðaheimild til að rækja störf sín. Í slíku tilviki skulu ákvæði samnings þessa gilda.
14. gr. Tilkynning til stjórnvalda í ræðisumdæmi.
Þegar forstöðumanni ræðisstofnunar hefur verið veitt heimild til að rækja störf sín, jafnvel til bráðabirgða, skal viðtökuríkið þegar í stað veita hlutaðeigandi stjórnvöldum ræðisumdæmisins vitneskju um það. Jafnframt skal það sjá til þess að gerðar séu nauðsynlegar ráðstafanir til að forstöðumaður ræðisstofnunar geti gegnt starfi sínu og notið þess hagræðis er felst í ákvæðum þessa samnings.
15. gr. Framkvæmd starfa forstöðumanns ræðisstofnunar um stundarsakir.
1. Ef forstöðumaður ræðisstofnunar getur ekki gegnt störfum sínum eða staða forstöðumanns ræðisstofnunar er laus má settur forstöðumaður ræðisstofnunar starfa um stundarsakir sem forstöðumaður ræðisstofnunarinnar.
2. Sendiráð sendiríkisins skal tilkynna utanríkisráðuneyti viðtökuríkisins eða þeim stjórnvöldum sem það vísar á fullt nafn setts forstöðumanns ræðisstofnunar. Ef sendiríkið hefur ekki sendiráð í viðtökuríkinu skal forstöðumaður ræðisstofnunarinnar sjá um tilkynninguna. Geti hann það ekki skulu þar til bær stjórnvöld sendiríkisins annast það. Tilkynningu þessari skal að jafnaði koma á framfæri fyrir fram. Sé settur forstöðumaður ræðisskrifstofu hvorki sendierindreki né ræðiserindreki sendiríkisins í viðtökuríkinu getur viðtökuríkið gert starfsheimild hans háða samþykki sínu.
3. Þar til bær stjórnvöld viðtökuríkisins skulu veita settum forstöðumanni ræðisstofnunar aðstoð og vernd. Á meðan hann veitir ræðisstofnuninni forstöðu skulu ákvæði samnings þessa taka til hans á sama grundvelli sem til forstöðumanns hlutaðeigandi ræðisstofnunar. Viðtökuríkið skal samt sem áður ekki vera skylt að veita settum forstöðumanni ræðisstofnunar neina slíka aðstöðu, forréttindi né friðhelgi ef forstöðumaður ræðisstofnunarinnar nýtur þeirra aðeins að fullnægðum skilyrðum sem settur forstöðumaður ræðisstofnunar fullnægir ekki.
4. Þegar svo stendur á sem greint er í 1. mgr. greinar þessarar og sendiríkið tilnefnir stjórnarsendimann úr sendiráði sendiríkisins í viðtökuríkinu sem settan forstöðumann ræðisstofnunar skal hann eftir sem áður njóta forréttinda og friðhelgi stjórnarsendimanna ef viðtökuríkið hreyfir ekki andmælum gegn því.
16. gr. Innbyrðis virðingarröð forstöðumanna ræðisstofnana.
1. Virðingarröð forstöðumanna ræðisstofnana með sama stigi skal miða við það hvaða dag viðurkenning var veitt.
2. Ef forstöðumanni ræðisstofnunar er veitt heimild til að rækja störf sín um stundarsakir áður en hann fær viðurkenningu skal sæti hans í virðingarröð miðað við það hvaða dag bráðabirgðastarfsheimild var veitt. Virðingarröð þessi skal haldast eftir að viðurkenning hefur verið veitt.
3. Ef tveir eða fleiri forstöðumenn ræðisstofnana hafa fengið viðurkenningu eða bráðabirgðastarfsheimild sama dag skal sæti þeirra í virðingarröðinni ákvarðað með hliðsjón af því hvaða daga viðtökuríkinu voru látin í té skipunarbréf þeirra eða svipuð skjöl eða tilkynningar þær sem 3. mgr. 11. gr. fjallar um.
4. Settir forstöðumenn ræðisstofnana skulu taka sæti í virðingarröðinni á eftir öllum forstöðumönnum ræðisstofnana. Fer innbyrðis virðingarröð þeirra eftir því hvaða dag þeir hófu störf sín sem settir forstöðumenn ræðisstofnana og er þá miðað við tilkynningar þar að lútandi samkvæmt 2. mgr. 15. gr.
5. Kjörræðiserindrekar sem eru forstöðumenn ræðisstofnana skulu innan hvers stigs taka sæti í virðingarröð á eftir forstöðumönnum sendiræðisstofnana, í þeirri röð og samkvæmt þeim reglum sem kveðið er á um í ofangreindum málsgreinum.
6. Forstöðumenn ræðisstofnana skulu taka sæti framar í virðingarröðinni en ræðiserindrekar sem hafa ekki þá stöðu.
17. gr. Framkvæmd stjórnarerindreksturs af hálfu ræðiserindreka.
1. Í ríki þar sem sendiríkið hefur ekki sendiráð og sendiráð þriðja ríkis er ekki fulltrúi þess má með samþykki viðtökuríkisins heimila ræðiserindreka að hafa með höndum stjórnarerindrekstur án þess að það hafi áhrif á stöðu hans sem ræðiserindreka. Framkvæmd slíks erindreksturs af hálfu ræðiserindreka skal ekki veita honum neinn rétt til þess að krefjast forréttinda og friðhelgi sem sendierindrekar hafa.
2. Ræðiserindreki má vera fulltrúi sendiríkisins hjá hvaða alþjóðastofnun sem er eftir að viðtökuríkinu hefur verið tilkynnt það. Á meðan hann gegnir slíku hlutverki skal hann hafa rétt á að njóta allra þeirra forréttinda og friðhelgi sem slíkum fulltrúum eru veitt samkvæmt þjóðréttarvenjum og alþjóðasamningum. Við framkvæmd ræðisstarfa skal hann þó ekki eiga rétt á frekari undanþágu frá lögsögu en ræðiserindreki hefur samkvæmt samningi þessum.
18. gr. Tvö eða fleiri ríki skipa sama mann ræðiserindreka.
Tvö eða fleiri ríki mega með samþykki viðtökuríkisins skipa sama mann ræðiserindreka í því ríki.
19. gr. Skipun ræðisstarfsliðs.
1. Með þeim takmörkunum sem felast í ákvæðum 20. gr., 22. gr. og 23. gr. hefur sendiríkið frjálsar hendur varðandi skipun ræðisstarfsliðs.
2. Sendiríkið skal tilkynna viðtökuríkinu fullt nafn, flokk og stig allra ræðiserindreka nema forstöðumanns ræðisstofnunar það snemma að viðtökuríkið hafi nægan tíma til þess að neyta réttar síns samkvæmt 3. mgr. 23. gr. ef það kýs að gera það.
3. Sendiríkið má fara þess á leit við viðtökuríkið að það veiti öðrum ræðiserindreka en forstöðumanni ræðisstofnunar viðurkenningu ef slíkt er áskilið í lögum og reglum sendiríkisins.
4. Viðtökuríkið getur veitt öðrum ræðiserindreka en forstöðumanni ræðisstofnunar viðurkenningu, ef slíkt er áskilið í lögum og reglum þess.
20. gr. Stærð ræðisstarfsliðsins.
Þegar ekki er gerður ótvíræður samningur um stærð ræðisstarfsliðsins getur viðtökuríkið krafist þess að stærð starfsliðsins séu sett takmörk sem það telur hæfileg og eðlileg með hliðsjón af aðstæðum og ástandi í ræðisumdæminu og þörfum hlutaðeigandi ræðisstofnunar.
21. gr. Innbyrðis virðingarröð ræðiserindreka við ræðisstofnun.
Sendiráð sendiríkisins — eða forstöðumaður ræðisstofnunar ef það ríki hefur ekki sendiráð í viðtökuríkinu — skal tilkynna utanríkisráðuneyti viðtökuríkisins eða þeim stjórnvöldum er það ráðuneyti vísar á innbyrðis virðingarröð ræðiserindreka við ræðisstofnunina, svo og allar breytingar þar á.
22. gr. Ríkisfang ræðiserindreka.
1. Það skal vera meginregla að ræðiserindrekar séu ríkisborgarar sendiríkisins.
2. Ræðiserindreka má ekki skipa úr hópi ríkisborgara viðtökuríkisins nema með ótvíræðu samþykki þess ríkis og má afturkalla slíkt samþykki hvenær sem er.
3. Viðtökuríkið getur áskilið sér sama rétt að því er varðar ríkisborgara þriðja ríkis sem eru ekki jafnframt ríkisborgarar sendiríkisins.
23. gr. Menn lýstir óæskilegir.
1. Viðtökuríki getur hvenær sem er tilkynnt sendiríkinu að ræðiserindreki sé óæskilegur (persona non grata) eða að einhver annar úr ræðisstarfsliðinu sé ekki viðtökuhæfur. Í slíku tilviki skal sendiríkið, eftir því sem við á, annaðhvort kalla hlutaðeigandi mann heim eða binda enda á störf hans við ræðisstofnunina.
2. Ef sendiríkið neitar að framkvæma skyldur sínar samkvæmt 1. mgr. greinar þessarar eða lætur það undir höfuð leggjast innan hæfilegs frests getur viðtökuríkið, eftir því sem við á, annaðhvort afturkallað viðurkenningu á hlutaðeigandi manni eða hætt að telja hann til ræðisstarfsliðsins.
3. Lýsa má yfir því að maður sem skipaður hefur verið starfsmaður ræðisstofnunar sé ekki viðtökuhæfur, annaðhvort áður en hann kemur í land viðtökuríkisins eða áður en hann hefur störf sín hjá ræðisstofnuninni ef hann er kominn í viðtökuríkið. Í tilvikum sem þessum skal sendiríkið ætíð afturkalla skipun hans.
4. Þegar svo stendur á sem um getur í 1. og 3. mgr. greinar þessarar er viðtökuríkið ekki skylt að gefa sendiríkinu skýringar á ákvörðun sinni.
24. gr. Tilkynning til viðtökuríkisins um skipun, komu og brottför.
1. Tilkynna skal utanríkisráðuneyti viðtökuríkisins eða þeim stjórnvöldum sem það ráðuneyti vísar á eftirfarandi:
   a. skipun starfsmanna ræðisstofnunar, komu þeirra til ræðisstofnunarinnar að undangenginni skipun, endanlega brottför þeirra eða lok starfa þeirra og hverjar þær breytingar aðrar sem hafa áhrif á stöðu þeirra og kunna að verða meðan þeir eru í þjónustu ræðisstofnunarinnar;
   b. komu og endanlega brottför manns sem er í fjölskyldu starfsmanns ræðisstofnunar og telst til heimilisfólks hans og, þar sem það á við, þegar maður bætist í hóp slíkra fjölskylduaðila eða hverfur úr honum;
   c. komu og endanlega brottför einkaþjónustustarfsmanna og, þegar við á eftir atvikum, lok slíks starfs þeirra;
   d. ráðningu og lausn manna sem búsettir eru í viðtökuríkinu sem starfsmanna ræðisstofnunar eða einkaþjónustustarfsmanna er njóta forréttinda og friðhelgi.
2. Einnig skal tilkynna komu og endanlega brottför fyrir fram þegar það er unnt.

II. þáttur. Lok ræðisstarfa.
25. gr. Lok starfa hjá starfsmanni ræðisstofnunar.
Störfum starfsmanns ræðisstofnunar skal meðal annars ljúka:
   a. þegar sendiríkið tilkynnir viðtökuríkinu að störfum hans sé lokið;
   b. þegar viðurkenning er afturkölluð;
   c. þegar viðtökuríkið tilkynnir sendiríkinu að það sé hætt að telja hann til ræðisstarfsliðsins.
26. gr. Brottför úr landi viðtökuríkisins.
Viðtökuríkið skal, jafnvel á hernaðartímum, veita þeim starfsmönnum ræðisstofnunar og einkaþjónustustarfsmönnum sem eru ekki ríkisborgarar viðtökuríkisins og þeim úr fjölskyldum þeirra sem teljast til heimilisfólks þeirra, án tillits til ríkisborgararéttar, nægilegan frest og aðstöðu til að gera þeim kleift að undirbúa brottför sína og hverfa úr landi eins fljótt og auðið er eftir að störfum hlutaðeigandi starfsmanna lýkur. Sérstaklega skal viðtökuríkið, ef þörf krefur, útvega þeim nauðsynleg samgöngutæki til að flytja þá sjálfa og eignir þeirra, að undanskildum þeim eignum sem þeir hafa aflað sér í viðtökuríkinu og útflutningur er bannaður á þegar brottför ber að höndum.
27. gr. Vernd ræðisstofnunarsvæðis og ræðisskjalasafns og gæsla hagsmuna sendiríkisins við óvenjulegar aðstæður.
1. Ef til slita á ræðissambandi milli tveggja ríkja kemur:
   a. skal viðtökuríkið, jafnvel á hernaðartímum, virða og vernda ræðisstofnunarsvæðið ásamt eignum ræðisstofnunarinnar og ræðisskjalasafninu;
   b. getur sendiríkið falið þriðja ríki sem viðtökuríkið samþykkir umsjá með ræðisstofnunarsvæðinu, eignunum þar og ræðisskjalasafninu;
   c. getur sendiríkið falið þriðja ríki sem viðtökuríkið samþykkir að gæta hagsmuna sinna og ríkisborgara sinna.
2. Komi til lokunar ræðisstofnunar um stundarsakir eða til langframa eiga ákvæði a-liðar 1. mgr. greinar þessarar við. Þar við bætist:
   a. að sendiríki sem hefur ekki sendiráð í viðtökuríkinu en hins vegar aðra ræðisstofnun í landi þess ríkis getur falið þeirri ræðisstofnun umsjá með svæði ræðisstofnunarinnar sem lokað hefur verið, ásamt eignunum þar og ræðisskjalasafni, svo og falið henni, ef samþykki viðtökuríkisins kemur til, framkvæmd ræðisstarfa í umdæmi þeirrar ræðisstofnunar; eða
   b. að ákvæði b- og c-liðar 1. mgr. greinar þessarar skulu gilda ef sendiríkið hefur hvorki sendiráð né aðra ræðisstofnun í viðtökuríkinu.

II. kafli. Aðstaða, forréttindi og friðhelgi ræðisstofnana, sendiræðiserindreka og annarra starfsmanna ræðisstofnana.
I. þáttur. Aðstaða, forréttindi og friðhelgi ræðisstofnunar.
28. gr. Starfsaðstaða við ræðisstofnun.
Viðtökuríkið skal veita ræðisstofnuninni sem besta aðstöðu til að rækja störf sín.
29. gr. Notkun þjóðfána og skjaldarmerkis.
1. Sendiríkið skal hafa rétt til að nota þjóðfána sinn og skjaldarmerki í viðtökuríkinu í samræmi við ákvæði greinar þessarar.
2. Draga má þjóðfána sendiríkisins að hún og hafa skjaldarmerki þess á byggingu ræðisstofnunarinnar og við inngangsdyr hennar, á bústað forstöðumanns ræðisstofnunarinnar og á farartæki hans þegar það er notað í opinberum erindagerðum.
3. Taka skal tillit til laga, reglna og venja í viðtökuríkinu þegar neytt er þess réttar sem grein þessi veitir.
30. gr. Húsnæði.
1. Viðtökuríkið skal annaðhvort auðvelda sendiríkinu að afla sér, eftir því sem lög og reglur heimila, nauðsynlegra húsakynna fyrir ræðisstofnun þess í viðtökuríkinu eða aðstoða það við öflun húsnæðis á annan hátt.
2. Viðtökuríkið skal einnig liðsinna ræðisstofnuninni við öflun hentugs húsnæðis handa starfsmönnum hennar þegar þörf krefur.
31. gr. Friðhelgi ræðisstofnunarsvæðis.
1. Ræðisstofnunarsvæðið skal njóta friðhelgi að svo miklu leyti sem mælt er fyrir um í grein þessari.
2. Stjórnvöld viðtökuríkisins skulu ekki koma inn á þann hluta ræðisstofnunarsvæðisins sem er eingöngu notaður vegna starfsemi ræðisstofnunarinnar nema með samþykki forstöðumanns ræðisstofnunarinnar, þess sem hann nefnir til eða forstöðumanns sendiráðs sendiríkisins. Þó má gera ráð fyrir samþykki forstöðumanns ræðisstofnunarinnar þegar að höndum ber eldsvoða eða önnur óhöpp sem gera tafarlausar varnaraðgerðir nauðsynlegar.
3. Með þeim takmörkunum sem felast í 2. mgr. greinar þessarar ber viðtökuríkinu sérstök skylda til að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda ræðisstofnunarsvæðið fyrir öllum atlögum eða tjóni og koma í veg fyrir að friði ræðisstofnunarinnar verði á nokkurn hátt raskað eða virðing hennar skert.
4. Ræðisstofnunarsvæðið, innbú þar, aðrar eignir ræðisstofnunarinnar og ökutæki hennar skulu undanþegin hvers kyns töku í þágu landvarna eða almannahags. Ef eignarnám er nauðsynlegt í slíku augnamiði skal grípa til allra hugsanlegra ráða til að forðast að valda tálmunum við framkvæmd ræðisstarfa og skal sendiríkinu án undandráttar greiddar fullar, viðunandi bætur.
32. gr. Skattfrelsi ræðisstofnunarsvæðis.
1. Ræðisstofnunarsvæði og bústaður forstöðumanns sendiræðisskrifstofu sem sendiríkið eða maður, starfandi á þess vegum, á eða tekur á leigu skulu undanþegin hvers kyns gjöldum og sköttum til ríkis, sveitarfélaga eða annarra umdæma nema að því er varðar greiðslu fyrir tiltekna þjónustu.
2. Skattfrelsi samkvæmt 1. mgr. greinar þessarar skal ekki taka til þeirra gjalda og skatta sem eiga samkvæmt lögum viðtökuríkisins að greiðast af viðsemjanda sendiríkisins eða umboðsmanns þess.
33. gr. Friðhelgi ræðisskjalasafns og ræðisskjala.
Ræðisskjalasafn og ræðisskjöl skulu ætíð vera friðhelg hvar sem þau eru niðurkomin.
34. gr. Umferðarfrelsi.
Með þeim takmörkunum sem felast í lögum og reglum viðtökuríkisins varðandi landsvæði þar sem aðgangur er bannaður eða takmarkaður vegna öryggis ríkisins skal það tryggja öllum starfsmönnum ræðisstofnunarinnar umferðar- og ferðafrelsi í landi sínu.
35. gr. Samgöngufrelsi.
1. Viðtökuríkið skal heimila og tryggja ræðisstofnuninni samgöngufrelsi í öllum opinberum erindrekstri. Ræðistofnunin getur farið allar eðlilegar leiðir til að hafa samband við ríkisstjórn, sendiráð og aðrar ræðisstofnanir sendiríkisins án tillits til staðsetningar, þar á meðal notað stjórnarpóstbera eða ræðispóstbera og sent stjórnarpóst eða ræðispóst auk tilkynninga á merkjamáli eða dulmáli. Þó má ræðisstofnun því aðeins setja upp og nota fjarsenditæki að viðtökuríkið veiti leyfi til þess.
2. Opinber bréf ræðisstofnunarinnar skulu vera friðhelg. Með opinberum bréfum er átt við öll bréf sem varða ræðisstofnunina og starfsemi hennar.
3. Hvorki má opna né leggja hald á ræðispóst. Ef hlutaðeigandi stjórnvöld viðtökuríkisins hafa rökstudda ástæðu til að ætla að í póstinum sé eitthvað annað en þau bréf, skjöl eða hlutir sem 4. mgr. greinar þessarar fjallar um geta þau engu að síður farið fram á að þar til bær fulltrúi sendiríkisins opni póstinn í viðurvist þeirra. Neiti stjórnvöld sendiríkisins að verða við slíkri beiðni skal senda póstinn aftur til upprunastaðar.
4. Bögglar þeir sem teljast til ræðispóstsins skulu hið ytra bera þess merki hvers eðlis þeir séu og mega aðeins vera í þeim opinber bréf og skjöl eða munir sem ætlaðir eru til opinberra starfa eingöngu.
5. Ræðispóstbera skal láta í té opinbert skjal sem gefur til kynna stöðu hans og fjölda böggla í ræðispóstinum. Hann skal ekki vera ríkisborgari viðtökuríkisins nema samþykki þess komi til, og einnig þarf samþykki viðtökuríkisins ef hann hefur fasta búsetu í því ríki og er ekki ríkisborgari sendiríkisins. Við framkvæmd starfa sinna skal hann njóta verndar viðtökuríkisins. Hann skal njóta persónulegrar friðhelgi og eigi má beita hann handtöku né kyrrsetningu í neinni mynd.
6. Sendiríkinu, sendiráðum þess og ræðisstofnunum er heimilt að tilnefna sérstaka ræðispóstbera. Í slíkum tilvikum skulu ákvæði 5. mgr. greinar þessarar einnig gilda nema hvað friðhelgi sú sem þar er greind skal falla niður þegar slíkur póstberi hefur afhent viðtakanda ræðispóstinn sem var í vörslu hans.
7. Ræðispóst má fela í umsjá skipstjóra eða flugstjóra atvinnuloftfars sem samkvæmt áætlun mun koma til viðurkennds viðkomustaðar. Honum skal fengið í hendur opinbert skjal sem greinir fjölda böggla í póstinum en ekki skal hann teljast ræðispóstberi. Ræðisstofnun getur sent einn af starfsmönnum sínum til að taka póstinn beint og óhindrað í sína vörslu frá skipstjóranum eða flugstjóranum enda sé samið um slíkt við hlutaðeigandi stjórnvöld á staðnum.
36. gr. Samband og samskipti við ríkisborgara sendiríkisins.
1. Í því skyni að auðvelda framkvæmd ræðisstarfa sem snerta ríkisborgara sendiríkisins:
   a. skal ræðiserindrekum vera frjálst að hafa samband og samskipti við ríkisborgara sendiríkisins. Ríkisborgarar sendiríkisins skulu njóta sama réttar að því er varðar samband og samskipti við ræðiserindreka sendiríkisins;
   b. skulu þar til bær stjórnvöld viðtökuríkisins án undandráttar tilkynna ræðisstofnun sendiríkisins ef ríkisborgari þess er handtekinn, settur í fangelsi, látinn sæta gæsluvarðhaldi meðan á málsrannsókn stendur eða hnepptur í hald á annan hátt innan ræðisumdæmisins enda biðji hann um að það sé tilkynnt. Öllum orðsendingum til ræðisstofnunarinnar frá þeim sem hefur verið handtekinn, situr í fangelsi, gæsluvarðhaldi eða haldi skulu ofangreind stjórnvöld einnig koma til skila án tafar. Stjórnvöld þessi skulu strax veita hlutaðeigandi manni vitneskju um rétt hans samkvæmt þessum lið;
   c. skulu ræðiserindrekar hafa rétt til að hitta þann ríkisborgara sendiríkisins sem er í fangelsi, gæsluvarðhaldi eða haldi, ræða við hann, skrifast á við hann og útvega honum lögfræðilega aðstoð. Þeir skulu einnig hafa rétt til að hitta sérhvern þann ríkisborgara sendiríkisins sem er í fangelsi, gæsluvarðhaldi eða haldi í umdæmi þeirra samkvæmt dómi eða úrskurði. Engu að síður skulu ræðiserindrekar varast að aðhafast nokkuð fyrir ríkisborgara sem er í fangelsi, gæsluvarðhaldi eða haldi ef hann er ótvírætt andvígur slíku.
2. Réttar samkvæmt 1. mgr. greinar þessarar skal neytt í samræmi við lög og reglur viðtökuríkisins enda geri lögin og reglurnar kleift að ná til fulls þeim markmiðum sem stefnt er að með veitingu réttinda samkvæmt grein þessari.
37. gr. Tilkynningar varðandi dauðsföll, lögráða- eða fjárhaldsmennsku, skipströnd og flugslys.
Ef þar til bær stjórnvöld viðtökuríkisins hafa nauðsynlegar upplýsingar tiltækar er þeim skylt:
   a. að tilkynna ræðisstofnun án tafar ef andlát ríkisborgara sendiráðsins hefur borið að höndum í umdæmi hennar;
   b. að tilkynna hlutaðeigandi ræðisstofnun án tafar sérhvert tilvik þar sem tilnefning lögráðamanns eða fjárhaldsaðila virðist vera í þágu hagsmuna manns undir lögaldri eða annars manns sem skortir fullt gerhæfi enda séu slíkir menn ríkisborgarar sendiríkisins. Veiting upplýsinga þessara skal þó ekki hagga framkvæmd laga og reglna viðtökuríkisins varðandi slíkar tilnefningar;
   c. að tilkynna tafarlaust þeirri ræðisstofnun sem næst er vettvangi ef skip með þjóðernisskírteini sendiríkisins ferst eða strandar í landhelgi eða á innsævi viðtökuríkisins eða loftfari, skrásettu í sendiríkinu, hlekkist á í landi viðtökuríkisins.
38. gr. Samband við stjórnvöld viðtökuríkisins.
Við framkvæmd starfa sinna mega ræðiserindrekar snúa sér til:
   a. þar til bærra stjórnvalda ræðisumdæmis þeirra;
   b. þar til bærra ríkisstjórnvalda viðtökuríkisins ef og að svo miklu leyti sem lög, reglur og venjur viðtökuríkisins eða alþjóðasamningar þar um heimila.
39. gr. Greiðslur og gjöld fyrir ræðisathafnir.
1. Í viðtökuríkinu getur ræðisstofnun krafist þeirra greiðslna og gjalda fyrir ræðisathafnir sem mælt er fyrir um í lögum og reglum sendiríkisins.
2. Fjárhæðir þær sem innheimtar eru sem greiðslur og gjöld á grundvelli 1. mgr. greinar þessarar og greiðsluviðurkenningar vegna slíkra greiðslna og gjalda skulu vera undanþegnar öllum álögum og sköttum í viðtökuríkinu.

II. þáttur. Aðstaða, forréttindi og friðhelgi sendiræðiserindreka og annarra starfsmanna ræðisstofnunar.
40. gr. Vernd til handa ræðiserindrekum.
Viðtökuríkið skal sýna ræðiserindrekum tilhlýðilega virðingu og gera allar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að koma í veg fyrir hvers konar tilræði við persónu þeirra, frelsi eða sæmd.
41. gr. Persónuleg friðhelgi ræðiserindreka.
1. Ræðiserindreka má ekki handtaka né hafa í haldi meðan á málsrannsókn stendur nema um sé að ræða alvarlegan glæp enda hafi ákvörðun þar til bærs handhafa dómsvalds komið til.
2. Með þeim takmörkunum sem greint er frá í 1. mgr. greinar þessarar má ekki setja ræðiserindreka í fangelsi né leggja annars konar hömlur á persónufrelsi þeirra nema til að fullnægja endanlegri dómsúrlausn.
3. Ef refsimál er höfðað gegn ræðiserindreka er honum skylt að koma fyrir þar til bær stjórnvöld. Þó skal reka málið þannig að honum sé sýnd sú virðing sem honum ber vegna hinnar opinberu stöðu sinnar og tálmað sé sem allra minnst framkvæmd ræðisstarfa nema 1. mgr. greinar þessarar eigi við. Þegar nauðsynlegt hefur reynst að setja ræðiserindreka í hald við þær aðstæður sem lýst er í 1. mgr. greinar þessarar skal mál höfðað gegn honum eins fljótt og auðið er.
42. gr. Tilkynning um handtöku, hald eða höfðun refsimáls.
Ef einhver úr ræðisstarfsliðinu er handtekinn eða hafður í haldi meðan á málsrannsókn stendur eða refsimál er höfðað gegn honum skal viðtökuríkið þegar í stað tilkynna forstöðumanni ræðisstofnunarinnar það. Hafi forstöðumaðurinn sjálfur orðið að sæta einhverri ofangreindra aðgerða skal viðtökuríkið tilkynna sendiríkinu það stjórnarboðleið.
43. gr. Undanþága frá lögsögu.
1. Ræðiserindrekar og ræðisstarfsmenn skulu ekki lúta lögsögu handhafa dómsvalds eða framkvæmdarvalds viðtökuríkisins varðandi athafnir sem falla undir framkvæmd ræðisstarfa.
2. Ákvæði 1. mgr. greinar þessarar skulu þó ekki taka til einkamáls sem:
   a. á rætur sínar að rekja til samnings þar sem ræðiserindreki eða ræðisstarfsmaður hefur verið samningsaðili án þess að semja beint eða óbeint sem fulltrúi sendiríkisins; eða
   b. þriðji aðili höfðar út af tjóni vegna slyss í viðtökuríkinu af völdum ökutækis, skips eða loftfars.
44. gr. Vitnaskylda.
1. Starfsmenn ræðisstofnunar má kveðja til að bera vitni í málum sem handhafar dómsvalds eða framkvæmdarvalds hafa til meðferðar. Ræðisstarfsmaður eða þjónustustarfsmaður skal ekki neita að bera vitni nema í þeim tilvikum sem greind eru í 3. mgr. greinar þessarar. Neiti ræðiserindreki að bera vitni er ekki unnt að beita neinum þvingunaraðgerðum gegn honum né láta hann sæta refsingu.
2. Stjórnvöld þau sem fara fram á vitnisburð af hálfu ræðiserindreka skulu forðast að trufla framkvæmd starfa hans. Þegar unnt er mega þau afla slíks vitnisburðar í bústað hans eða ræðisstofnuninni eða taka við skriflegri skýrslu hans.
3. Starfsmönnum ræðisstofnunar ber engin skylda til að bera vitni um mál sem snerta framkvæmd starfa þeirra né leggja fram opinber bréf og skjöl þeim viðvíkjandi. Þeim er einnig heimilt að neita að bera vitni sem sérfróðir aðilar að því er varðar lög sendiríkisins.
45. gr. Afsal forréttinda og friðhelgi.
1. Sendiríkið getur afsalað öllum þeim forréttindum og friðhelgi starfsmanns ræðisstofnunar sem gert er ráð fyrir í 41. gr., 43. gr. og 44. gr.
2. Afsal skal ætíð gefa berum orðum nema 3. mgr. greinar þessarar eigi við og skal viðtökuríkinu tilkynnt það skriflega.
3. Ef ræðiserindreki eða ræðisstarfsmaður höfðar mál þar sem hann mundi að öðru jöfnu vera undanþeginn lögsögu samkvæmt 43. gr. girðir slíkt fyrir að hann geti borið fyrir sig undanþágu frá lögsögu varðandi neina gagnkröfu sem er beint tengd aðalkröfunni.
4. Afsal undanþágu frá lögsögu í einkamálum eða framkvæmdarvaldsmálum skal ekki telja fela í sér afsal undanþágu frá fullnustugerðum á grundvelli dómsúrlausnar. Sérstakt afsal þarf að koma til um slíkar gerðir.
46. gr. Undanþága frá skráningarskyldu útlendinga og reglum um dvalarleyfi.
1. Ræðiserindrekar og ræðisstarfsmenn ásamt þeim úr fjölskyldum þeirra sem teljast til heimilisfólks þeirra skulu undanþegnir öllum skyldum samkvæmt lögum og reglum viðtökuríkisins að því er varðar skráningarskyldu útlendinga og reglur um dvalarleyfi.
2. Ákvæði 1. mgr. greinar þessarar skulu þó ekki gilda um neinn þann ræðisstarfsmann sem er ekki fastur starfsmaður sendiríkisins eða rekur einhverja ábatasama einkastarfsemi í viðtökuríkinu og gegnir sama máli um alla í fjölskyldu sérhvers slíks starfsmanns.
47. gr. Undanþága frá reglum um atvinnuleyfi.
1. Að því er við kemur þjónustustörfum í þágu sendiríkisins skulu starfsmenn ræðisstofnunar vera undanþegnir hvers konar skyldum um atvinnuleyfi sem lög og reglur viðtökuríkisins kveða á um varðandi nýtingu erlends vinnuafls.
2. Einkaþjónustustarfsmenn ræðiserindreka og ræðisstarfsmanna skulu vera undanþegnir þeim skyldum sem frá greinir í 1. mgr. greinar þessarar ef þeir gegna ekki einhverjum öðrum ábatasömum störfum í viðtökuríkinu.
48. gr. Undanþága frá almannatryggingaákvæðum.
1. Með þeim takmörkunum sem felast í 3. mgr. greinar þessarar skulu starfsmenn ræðisstofnunar og þeir úr fjölskyldum þeirra sem teljast til heimilisfólks þeirra vera undanþegnir þeim almannatryggingaákvæðum sem kunna að gilda í viðtökuríkinu að því er varðar þjónustu þeirra í þágu sendiríkisins.
2. Undanþága sú sem getið er í 1. mgr. greinar þessarar skal einnig ná til þeirra einkaþjónustustarfsmanna sem starfa eingöngu í þjónustu starfsmanna ræðisstofnunar að því tilskildu:
   a. að þeir séu ekki ríkisborgarar viðtökuríkisins né hafi fasta búsetu þar; og
   b. að þeir njóti réttinda samkvæmt almannatryggingaákvæðum sem eru í gildi í sendiríkinu eða þriðja ríki.
3. Ef starfsmenn ræðisstofnunar hafa í þjónustu sinni menn sem undanþágan samkvæmt 2. mgr. greinar þessarar tekur ekki til skulu þeir uppfylla þær skyldur sem almannatryggingaákvæði viðtökuríkisins leggja vinnuveitendum á herðar.
4. Undanþágur þær sem felast í 1. og 2. mgr. greinar þessarar skulu ekki girða fyrir frjálsa aðild að almannatryggingakerfi viðtökuríkisins enda heimili það ríki slíka aðild.
49. gr. Skattfrelsi.
1. Ræðiserindrekar og ræðisstarfsmenn ásamt þeim úr fjölskyldum þeirra sem teljast til heimilisfólks þeirra skulu vera undanþegnir öllum gjöldum og sköttum á einstaklinga og eignir hvort sem um er að ræða álögur til ríkis, sveitarfélaga eða annarra umdæma nema:
   a. þeim óbeinu sköttum sem eru að jafnaði innifaldir í verði vöru og þjónustu;
   b. gjöldum eða sköttum á fasteignir í einkaeign í landi viðtökuríkisins, þó með þeim takmörkunum sem felast í ákvæðum 32. gr.;
   c. dánarbús- og erfðafjársköttum ásamt gjöldum af eignayfirfærslum sem viðtökuríkið leggur á, þó með þeim fyrirvara sem felst í ákvæðum b-liðar 51. gr.;
   d. gjöldum og sköttum á einkatekjur, þar á meðal arði af eignum sem eiga upphaf sitt í viðtökuríkinu, og eignasköttum af fjárfestingu í viðskipta- eða fjármálafyrirtækjum í viðtökuríkinu;
   e. gjöldum sem lögð eru á fyrir tiltekna veitta þjónustu;
   f. þinglýsingar- og réttargjöldum, veðmála- og stimpilgjöldum, þó með þeim undantekningum sem felast í ákvæðum 32. gr.
2. Þjónustustarfsmenn skulu undanþegnir gjöldum og sköttum af launum sem þeir fá fyrir þjónustu sína.
3. Ef starfsmenn ræðisstofnunar hafa í þjónustu sinni menn sem eru ekki undanþegnir greiðslu tekjuskatts af kaupi sínu eða launum í viðtökuríkinu skulu þeir fullnægja þeim skyldum sem lög og reglur þess ríkis leggja vinnuveitendum á herðar varðandi innheimtu tekjuskattsins.
50. gr. Tollfrelsi og undanþága frá tollskoðun.
1. Í samræmi við lög þau og reglur sem viðtökuríkið kann að setja skal það heimila innflutning á og veita undanþágur frá öllum tollum, sköttum og skyldum gjöldum, að undanteknum gjöldum fyrir geymslu, akstur og svipaða þjónustu, að því er varðar:
   a. muni sem ætlaðir eru til opinberra nota ræðisstofnunarinnar;
   b. muni sem ætlaðir eru til persónulegra nota ræðiserindreka eða þeirra úr fjölskyldu hans sem teljast til heimilisfólks hans, þar á meðal muni sem ætlaðir eru til bústofnunar hans. Neysluvarningur skal ekki vera meiri en nauðsynlegur getur talist til beinna þarfa viðkomandi einstaklinga.
2. Ræðisstarfsmenn skulu njóta þeirra forréttinda og undanþága sem greindar eru í 1. mgr. greinar þessarar að því er við kemur munum sem fluttir eru inn þegar þeir fyrst setjast að í viðtökuríkinu.
3. Persónulegur farangur sem ræðiserindrekar og þeir úr fjölskyldum þeirra sem teljast til heimilisfólks þeirra hafa meðferðis skal undanþeginn skoðun. Þó má skoða hann ef gildar ástæður eru til að ætla að í honum séu aðrir munir en þeir sem greint er frá í b-lið 1. mgr. greinar þessarar, munir sem samkvæmt lögum og reglum viðtökuríkisins er bannað að flytja inn í landið eða út úr því eða munir sem lúta lögum og reglum þess um sóttvarnir. Slík skoðun skal fara fram í viðurvist ræðiserindrekans eða þess úr fjölskyldu hans sem hlut á að máli.
51. gr. Dánarbú starfsmanns ræðisstofnunar eða einhvers úr fjölskyldu hans.
Ef starfsmaður ræðisstofnunar eða einhver úr fjölskyldu hans sem telst til heimilisfólks hans deyr skal viðtökuríkið:
   a. leyfa flutning lausafjár hins látna úr landi, að undanteknum öllum þeim eignum sem aflað hefur verið í viðtökuríkinu og bannað var að flytja út þegar dauðann bar að höndum;
   b. ekki leggja dánarbús- og erfðafjárskatta né eignayfirfærslugjöld, hvort sem um er að ræða álögur til ríkis, sveitarfélaga eða annarra umdæma, á lausafé ef það er í viðtökuríkinu af þeirri ástæðu einni að hinn látni var þar starfsmaður ræðisstofnunar eða í fjölskyldu starfsmanns ræðisstofnunar.
52. gr. Undanþága frá persónubundinni þjónustu og framlagi.
Viðtökuríkið skal undanþiggja starfsmenn ræðisstofnunar og þá úr fjölskyldum þeirra sem teljast til heimilisfólks þeirra allri persónubundinni þjónustu, hvers konar opinberri þjónustu og hernaðarskyldum, t.d. í tengslum við upptöku, hernaðarframlög og vistun herliðs.
53. gr. Upphaf og lok forréttinda og friðhelgi sem eru samfara ræðisstörfum.
1. Sérhver starfsmaður ræðisstofnunar skal njóta þeirra forréttinda og friðhelgi sem samningur þessi gerir ráð fyrir frá þeirri stundu er hann kemur í land í viðtökuríkinu til þess að taka við stöðu sinni eða, ef hann er þegar kominn í land þess, frá þeirri stundu er hann tekur við störfum sínum hjá ræðisstofnuninni.
2. Þeir úr fjölskyldu starfsmanns ræðisstofnunar sem teljast til heimilisfólks hans skulu ásamt einkaþjónustustarfsmönnum hans njóta þeirra forréttinda og friðhelgi sem samningur þessi gerir ráð fyrir frá þeim degi er hann nýtur forréttinda og friðhelgi samkvæmt 1. mgr. greinar þessarar, frá þeim degi er þeir koma í land viðtökuríkisins eða frá þeim degi er þeir komast í hóp ofangreindra fjölskylduaðila eða einkaþjónustustarfsmanna, og er miðað við þann dag sem síðastur er.
3. Þegar störfum starfsmanns ræðisstofnunar er lokið skulu forréttindi og friðhelgi hans, þeirra úr fjölskyldu hans sem teljast til heimilisfólks hans og einkaþjónustustarfsmanna hans að jafnaði falla niður á þeirri stundu er hlutaðeigandi einstaklingur hverfur úr viðtökuríkinu eða við lok hæfilegs frests til brottfarar, eftir því hvort ber fyrr að höndum, en haldast skulu þau til þess tíma, jafnvel á hernaðartímum. Forréttindum og friðhelgi þeirra sem taldir eru í 2. mgr. greinar þessarar skal ljúka þegar þeir teljast ekki lengur til heimilisfólks eða í þjónustu starfsmanns ræðisstofnunar en þó skulu forréttindi og friðhelgi þeirra haldast allt fram til brottfarartíma ef þeir hyggjast halda úr viðtökuríkinu innan hæfilegs frests.
4. Undanþága frá lögsögu skal þó haldast um ótakmarkaðan tíma að því er tekur til athafna sem ræðiserindreki eða ræðisstarfsmaður framkvæmir í starfi sínu sem slíkur.
5. Beri andlát starfsmanns ræðisstofnunar að höndum skulu þeir úr fjölskyldu hans sem töldust til heimilisfólks hans halda áfram að njóta þeirra forréttinda og friðhelgi sem þeim var veitt þar til þeir hverfa úr viðtökuríkinu eða hæfilegur frestur til þess er á enda hvort heldur sem gerist fyrr.
54. gr. Skyldur þriðja ríkis.
1. Ef ræðiserindreki sem býst til að taka við stöðu sinni hverfur aftur til starfa eða snýr aftur til sendiríkisins, ferðast um eða dvelst í landi þriðja ríkis sem hefur veitt honum staðfestingaráritun, ef hennar var þörf, skal þriðja ríki veita honum öll þau réttindi sem gert er ráð fyrir í öðrum greinum samnings þessa og þörf er á til þess að tryggja ferð hans um landið eða heimferð. Sama máli gegnir um þá í fjölskyldu hans sem teljast til heimilisfólks hans enda njóti þeir slíkra forréttinda og friðhelgi og eru annaðhvort í för með ræðiserindrekanum eða ferðast einir sér til hans eða aftur til sendiríkisins.
2. Þegar svo stendur á sem greint er frá í l. mgr. greinar þessarar skal þriðja ríki ekki hindra för annarra starfsmanna ræðisstofnunar eða þeirra úr fjölskyldum þeirra sem teljast til heimilisfólks þeirra um land sitt.
3. Þriðja ríki skal veita opinberum bréfum og öðrum opinberum skilaboðum sem send eru um land þess, þar á meðal tilkynningum á dulmáli eða merkjamáli, sama frjálsræði og vernd og viðtökuríkið er skuldbundið til að veita samkvæmt samningi þessum. Það skal veita ræðispóstberum sem veitt hefur verið staðfestingaráritun þar sem slíks var þörf og ræðispósti á leið til áfangastaðar sömu friðhelgi og vernd og viðtökuríkinu ber skylda til að veita samkvæmt samningi þessum.
4. Skuldbindingar þær sem hvíla á þriðja ríki samkvæmt 1., 2. og 3. mgr. greinar þessarar skulu einnig taka til þeirra manna sem þar eru greindir og til ræðispósts og opinberra skilaboða sem komin eru í land þriðja ríkis af óviðráðanlegum orsökum.
55. gr. Virðing fyrir lögum og reglum viðtökuríkisins.
1. Öllum þeim sem njóta forréttinda og friðhelgi ber skylda til að virða lög og reglur viðtökuríkisins, en slík skylda skerðir þó ekki forréttindi þeirra og friðhelgi. Þeim er einnig skylt að skipta sér ekki af innanlandsmálum í því ríki.
2. Ræðisstofnunarsvæðið skal ekki nota á nokkurn þann hátt sem ósamrýmanlegur er framkvæmd ræðisstarfa.
3. Ákvæði 2. mgr. greinar þessarar skulu ekki girða fyrir það að unnt sé að koma fyrir skrifstofum annarra stofnana eða fyrirtækja í hluta byggingar þar sem ræðisstofnunarsvæðið er enda séu slíkar skrifstofur aðskildar frá þeim skrifstofum sem ræðisstofnunin notar. Í því tilviki skulu téðar skrifstofur ekki teljast hluti ræðisstofnunarsvæðisins samkvæmt samningi þessum.
56. gr. Ábyrgðartrygging.
Starfsmenn ræðisstofnunar skulu fullnægja öllum kröfum sem mælt er fyrir í lögum og reglum viðtökuríkisins varðandi ábyrgðartryggingar vegna notkunar hvers kyns ökutækja, skipa eða loftfara.
57. gr. Sérstök ákvæði viðvíkjandi ábatavænlegri einkastarfsemi.
1. Sendiræðiserindrekar skulu ekki stunda neina atvinnu- eða viðskiptastarfsemi í eigin ágóðaskyni í viðtökuríkinu.
2. Forréttindi og friðhelgi samkvæmt þessum kafla skal ekki veita:
   a. ræðisstarfsmönnum né þjónustustarfsmönnum sem stunda einhvers konar ábatavænlega einkastarfsemi í viðtökuríkinu;
   b. neinum úr fjölskyldu þeirra sem getið er í a-lið málsgreinar þessarar né einkaþjónustustarfsmönnum þeirra;
   c. þeim úr fjölskyldu starfsmanns ræðisstofnunar sem stunda sjálfir einhvers konar ábatasama einkastarfsemi í viðtökuríkinu.

III. kafli. Reglur um kjörræðiserindreka og ræðisstofnanir undir forstöðu þeirra.
58. gr. Almenn ákvæði um aðstöðu, forréttindi og friðhelgi.
1. Ákvæði 28., 29., 30., 34., 35., 36., 37., 38. og 39. gr., 3. mgr. 54. gr. og 2. og 3. mgr. 55. gr. skulu taka til ræðisstofnana sem kjörræðiserindreki veitir forstöðu. Auk þess skal fara um aðstöðu, forréttindi og friðhelgi slíkra ræðisstofnana eftir ákvæðum 59., 60., 61. og 62. gr.
2. Ákvæði 42. og 43. gr., 3. mgr. 44. gr., 45. og 53. gr. og 1. mgr. 55. gr. skulu taka til kjörræðiserindreka. Þar að auki skal um aðstöðu, forréttindi og friðhelgi slíkra ræðiserindreka fara eftir 63., 64., 65., 66. og 67. gr.
3. Þau forréttindi og friðhelgi sem samningur þessi gerir ráð fyrir skal hvorki veita neinum úr fjölskyldu kjörræðiserindreka né fjölskyldu ræðisstarfsmanns sem vinnur við ræðisstofnun undir forstöðu kjörræðiserindreka.
4. Ekki er heimilt að senda ræðispóst milli tveggja ræðisstofnana í mismunandi ríkjum sem kjörræðiserindrekar veita forstöðu nema til komi samþykki þeirra tveggja viðtökuríkja sem hlut eiga að máli.
59. gr. Vernd ræðisstofnunarsvæðisins.
Viðtökuríkið skal gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar geta talist til að vernda svæði ræðisstofnunar undir forstöðu kjörræðiserindreka fyrir öllum árásum eða tjóni og koma í veg fyrir hvers konar röskun á friði ræðisstofnunarinnar eða skerðingu á virðingu hennar.
60. gr. Skattfrelsi ræðisstofnunarsvæðisins.
1. Það svæði ræðisstofnunar undir forstöðu kjörræðiserindreka sem sendiríkið á eða tekur á leigu skal undanþegið hvers kyns gjöldum og sköttum til ríkis, sveitarfélaga eða annarra umdæma nema að því er varðar greiðslu fyrir tiltekna veitta þjónustu.
2. Skattfrelsi samkvæmt 1. mgr. greinar þessarar skal ekki taka til þeirra gjalda og skatta sem eiga samkvæmt lögum og reglum viðtökuríkisins að greiðast af viðsemjanda sendiríkisins.
61. gr. Friðhelgi ræðisskjalasafns og ræðisskjala.
Ræðisskjalasafn og skjöl ræðisstofnunar sem kjörræðiserindreki veitir forstöðu skulu ætíð vera friðhelg hvar sem þau eru niður komin svo framarlega sem þeim er haldið aðskildum frá öðrum gögnum og skjölum, og þá sér í lagi einkabréfum forstöðumanns ræðisstofnunar eða hvers þess manns sem starfar með honum og gögnum þeim, bókum eða skjölum sem varða atvinnu þeirra eða viðskipti.
62. gr. Tollfrelsi.
Í samræmi við lög þau og reglur sem viðtökuríkið kann að setja skal það heimila innflutning á og veita undanþágur frá öllum tollum, sköttum og skyldum gjöldum, að undanteknum gjöldum fyrir geymslu, akstur og svipaða þjónustu, að því er varðar eftirtalda muni sem ætlaðir eru til opinberra nota ræðisstofnunar undir forstöðu kjörræðiserindreka: skjaldarmerki, fána, skilti, innsigli og stimpla, bækur, opinber prentuð rit, skrifstofuhúsgögn, skrifstofutæki og svipaða muni sem ræðisstofnuninni eru látnir í té af sendiríkinu eða samkvæmt beiðni af þess hálfu.
63. gr. Refsimál.
Ef refsimál er höfðað gegn kjörræðiserindreka er honum skylt að koma fyrir þar til bær yfirvöld. Þó skal reka málið þannig að honum sé sýnd sú virðing sem honum ber vegna hinnar opinberu stöðu sinnar og tálmað sé sem allra minnst framkvæmd ræðisstarfa nema þegar hann er handtekinn eða hafður í haldi. Þegar nauðsynlegt hefur reynst að setja kjörræðiserindreka í hald skal mál höfðað gegn honum eins fljótt og auðið er.
64. gr. Vernd til handa kjörræðiserindrekum.
Viðtökuríkinu ber skylda til að veita kjörræðiserindreka þá vernd sem nauðsynleg getur talist með hliðsjón af opinberri stöðu hans.
65. gr. Undanþága frá skráningarskyldu útlendinga og reglum um dvalarleyfi.
Kjörræðiserindrekar skulu undanþegnir öllum skyldum samkvæmt lögum og reglum viðtökuríkisins að því er varðar skráningarskyldu útlendinga og reglur um dvalarleyfi nema þeir stundi í eigin ágóðaskyni einhverja atvinnu- eða viðskiptastarfsemi í viðtökuríkinu.
66. gr. Skattfrelsi.
Kjörræðiserindreki skal undanþeginn öllum gjöldum og sköttum af greiðslum og launum sem hann þiggur af sendiríkinu vegna framkvæmdar ræðisstarfa.
67. gr. Undanþága frá persónubundinni þjónustu og framlagi.
Viðtökuríkið skal undanþiggja kjörræðiserindreka allri persónubundinni þjónustu, hvers konar opinberri þjónustu og hernaðarskyldum, t.d. í tengslum við upptöku, hernaðarframlög og vistun herliðs.
68. gr. Kjörfrelsiseðli kjörræðiserindrekafyrirkomulagsins.
Sérhverju ríki er frjálst að ákveða hvort það vill skipa eða taka við kjörræðiserindrekum.

IV. kafli. Almenn ákvæði.
69. gr. Umboðsræðismenn sem eru ekki forstöðumenn ræðisstofnana.
1. Sérhverju ríki er í sjálfsvald sett að ákveða hvort það kýs að koma á fót eða leyfa umboðsræðisskrifstofur undir stjórn umboðsræðismanna sem sendiríkið tilnefnir ekki sem forstöðumenn ræðisstofnana.
2. Sendiríkið og viðtökuríkið skulu í samningi sín á milli ákveða skilyrði varðandi starfsemi umboðsræðisskrifstofa þeirra sem nefndar eru í 1. mgr. greinar þessarar og kveða á um forréttindi þau og friðhelgi sem umboðsræðismenn í fyrirsvari fyrir skrifstofunum skulu njóta.
70. gr. Framkvæmd ræðisstarfa af hálfu sendiráða.
1. Ákvæði samnings þessa taka einnig, eftir því sem við á, til framkvæmdar ræðisstarfa af hálfu sendiráðs.
2. Tilkynna skal utanríkisráðuneyti viðtökuríkisins eða þeim stjórnvöldum sem það vísar á nöfn þeirra sendiráðsmanna sem falið er að starfa í ræðisstarfadeild sendiráðsins eða skulu með öðrum hætti annast framkvæmd ræðisstarfa sendiráðsins.
3. Við framkvæmd ræðisstarfa má sendiráð snúa sér til:
   a. stjórnvalda ræðisumdæmisins;
   b. ríkisstjórnvalda viðtökuríkisins ef það er heimilt samkvæmt lögum, reglum og venjum viðtökuríkisins eða alþjóðasamningum þar um.
4. Um forréttindi og friðhelgi sendiráðsmanna sem greindir eru í 2. mgr. greinar þessarar skulu þjóðréttarreglur um stjórnmálasamband gilda áfram.
71. gr. Einstaklingar sem eru ríkisborgarar viðtökuríkisins eða heimilisfastir þar.
1. Ræðiserindrekar sem eru ríkisborgarar viðtökuríkisins eða heimilisfastir þar skulu einungis njóta undanþágu frá lögsögu og persónulegrar friðhelgi að því er varðar opinber störf sem þeir framkvæma innan verkahrings síns og forréttinda sem veitt eru í 3. mgr. 44. gr., nema viðtökuríkið veiti frekari aðstöðu, forréttindi og friðhelgi. Að því er kemur við ræðiserindrekum þessum skal viðtökuríkið einnig fullnægja skyldu þeirri sem kveðið er á um í 42. gr. Ef refsimál er höfðað gegn ræðiserindreka sem hér um ræðir skal reka málið þannig að tálmað sé sem allra minnst framkvæmd ræðisstarfa nema þegar hann er handtekinn eða hafður í haldi.
2. Aðrir starfsmenn ræðisstofnunar sem eru ríkisborgarar viðtökuríkisins eða heimilisfastir þar skulu ásamt fjölskyldum sínum og fjölskyldum þeirra ræðiserindreka sem greint er frá í 1. mgr. greinar þessarar aðeins njóta aðstöðunnar, forréttindanna og friðhelginnar að svo miklu leyti sem viðtökuríkið veitir þeim þau réttindi. Sömuleiðis skulu þeir úr fjölskyldum starfsmanna ræðisstofnunar og þeir einkaþjónustustarfsmenn sem eru ríkisborgarar viðtökuríkisins eða heimilisfastir þar einungis njóta aðstöðunnar, forréttindanna og friðhelginnar í þeim mæli sem viðtökuríkið heimilar. Viðtökuríkið skal þó fara svo með lögsögu sína yfir mönnum þessum að ekki valdi óeðlilegum truflunum á framkvæmd starfa við ræðisstofnunina.
72. gr. Jafnræði.
1. Við framkvæmd ákvæða samnings þessa skal viðtökuríkið ekki mismuna ríkjum.
2. Þó skal ekki talið að mismunun eigi sér stað:
   a. þegar viðtökuríkið túlkar eitthvert ákvæði samnings þessa þröngt í framkvæmd vegna þess að þröngri túlkun er beitt við framkvæmd ákvæðisins gagnvart ræðisstofnunum þess í sendiríkinu;
   b. þegar ríki veita hvert öðru, á grundvelli venju eða með samningi, betri kjör en tilskilið er í ákvæðum samnings þessa.
73. gr. Tengsl samnings þessa við aðra alþjóðasamninga.
1. Ákvæði samnings þessa skulu ekki hafa áhrif á aðra alþjóðasamninga sem í gildi eru milli ríkja sem eru aðilar að þeim.
2. Ekkert í samningi þessum skal girða fyrir það að ríki geti gert alþjóðasamninga er staðfesti, auki við, rýmki eða kveði nánar á um ákvæði hans.

V. kafli. Lokaákvæði.
74. gr. Undirritun.
Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu allra ríkja sem eru aðilar að Sameinuðu þjóðunum, sérstofnunum þeirra eða samþykktum alþjóðadómstólsins, og allra annarra ríkja sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna býður að gerast aðilar að samningnum, á þeim tíma sem hér segir:
   til 31. október 1963 í utanríkisráðuneyti lýðveldisins Austurríkis og síðan til 31. mars 1964 í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.
75. gr. Fullgilding.
Samning þennan skal fullgilda. Skulu fullgildingarskjölin afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
76. gr. Aðild.
Sérhverju ríki í einhverjum þeirra fjögurra hópa sem taldir eru í 74. gr. skal heimilt að gerast aðili að samningi þessum. Aðildarskjölin skulu afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
77. gr. Gildistaka.
1. Samningur þessi skal ganga í gildi á þrítugasta degi eftir að tuttugasta og annað fullgildingar- eða aðildarskjalið hefur verið afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
2. Gagnvart sérhverju ríki sem fullgildir samninginn eða gerist aðili að honum eftir afhendingu tuttugasta og annars fullgildingar- eða aðildarskjalsins til vörslu skal samningurinn ganga í gildi á þrítugasta degi eftir afhendingu þess ríkis á fullgildingar- eða aðildarskjali sínu til vörslu.
78. gr. Tilkynningar framkvæmdastjórans.
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal tilkynna öllum ríkjum innan sérhvers þeirra fjögurra hópa sem taldir eru í 74. gr.:
   a. undirritanir undir samning þennan og afhendingu fullgildingar- eða aðildarskjala til vörslu samkvæmt 74., 75. og 76. gr.;
   b. gildistökudag samnings þessa samkvæmt 77. gr.
79. gr. Gildir textar.
Frumriti samnings þessa sem gerður er á ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku með jafngildum textum skal komið í vörslu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna en hann skal senda öllum ríkjum innan sérhvers hópanna fjögurra sem taldir eru í 74. gr. staðfest eftirrit af því.

Fylgiskjal II.
Kjörfrjáls bókun varðandi ríkisborgararétt.
Aðildarríki að bókun þessari og Vínarsamningnum um ræðissamband sem samþykktur var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, haldinni í Vínarborg dagana 4. mars til 22. apríl 1963, og verður hér á eftir nefndur „samningurinn“ láta í ljós ósk um að setja reglur sín á milli um ríkisborgararétt starfsmanna ræðisstofnunar og þeirra manna úr fjölskyldu þeirra sem teljast til heimilisfólks þeirra, og gera samkomulag um það sem fer hér á eftir:
1. gr.
Í bókun þessari skal heitið „starfsmenn ræðisstofnunar“ hafa þá merkingu sem ákveðin er í g-lið 1. mgr. 1. gr. samningsins, þ.e. „ræðiserindrekar, ræðisstarfsmenn og þjónustustarfsmenn“.
2. gr.
Starfsmenn ræðisstofnunar sem eru ekki ríkisborgarar viðtökuríkisins og þeir menn úr fjölskyldum þeirra sem teljast til heimilisfólks þeirra skulu ekki öðlast ríkisborgararétt viðtökuríkisins eingöngu á grundvelli laga þess ríkis.
3. gr.
Bókun þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu allra ríkja sem kunna að verða aðilar að samningnum á þeim tíma sem hér segir:
   til 31. október 1963 í utanríkisráðuneyti lýðveldisins Austurríkis og síðan til 31. mars 1964 í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.
4. gr.
Bókun þessa skal fullgilda. Skulu fullgildingarskjölin afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
5. gr.
Öllum ríkjum sem kunna að verða aðilar að samningnum skal heimilt að gerast aðilar að bókun þessari. Aðildarskjölin skulu afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
6. gr.
1. Bókun þessi skal ganga í gildi sama dag og samningurinn eða á þrítugasta degi eftir að annað fullgildingar- eða aðildarskjal að bókuninni hefur verið afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu, og skal miðað við síðari dagsetninguna.
2. Gagnvart sérhverju ríki sem fullgildir bókun þessa eða gerist aðili að henni eftir gildistöku hennar í samræmi við 1. mgr. greinar þessarar skal bókunin ganga í gildi á þrítugasta degi eftir afhendingu þess ríkis á fullgildingar- eða aðildarskjali sínu til vörslu.
7. gr.
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal tilkynna öllum ríkjum sem kunna að verða aðilar að samningnum:
   a. undirritanir undir bókun þessa og afhendingu fullgildingar- eða aðildarskjala til vörslu samkvæmt 3., 4. og 5. gr.;
   b. gildistökudag bókunar þessarar samkvæmt 6. gr.
8. gr.
Frumriti bókunar þessarar sem gerð er á ensku, frönsku, kínversku og spænsku með jafngildum textum skal komið í vörslu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna en hann skal senda öllum ríkjum sem greind eru í 3. gr. staðfest eftirrit af því.

Fylgiskjal III.
Kjörfrjáls bókun varðandi skyldubundna lausn deilumála.
Aðildarríki að bókun þessari og Vínarsamningnum um ræðissamband sem samþykktur var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, haldinni í Vínarborg dagana 4. mars til 22. apríl 1963, og verður hér á eftir nefndur „samningurinn“ láta í ljós ósk um að hlíta hinni skyldubundnu lögsögu Alþjóðadómstólsins í öllum deilumálum þeirra á milli varðandi túlkun eða framkvæmd samningsins nema aðilarnir hafi komið sér saman um einhverja aðra leið til lausnar deilunni innan hæfilegs frests, og gera samkomulag um það sem fer hér á eftir:
1. gr.
Deilur sem rísa um túlkun eða framkvæmd samningsins skulu falla undir hina skyldubundnu lögsögu Alþjóðadómstólsins og má því skjóta þeim til Alþjóðadómstólsins samkvæmt kröfu hvers þess deiluaðila sem er aðili að þessari bókun.
2. gr.
Á tveggja mánaða tímabili frá því að annar aðilinn hefur tilkynnt hinum þá skoðun sína að um deilu sé að ræða geta aðilarnir samið um að skjóta málinu til gerðardóms en ekki Alþjóðadómstólsins. Að þeim fresti liðnum getur hvor aðilinn um sig krafist þess að deilan sé lögð til Alþjóðadómstólsins.
3. gr.
1. Á sama tveggja mánaða tímabilinu geta aðilarnir samið um að taka upp sáttaumleitanir áður en málið er lagt fyrir Alþjóðadómstólinn.
2. Sáttanefnd skal gera tillögur innan fimm mánaða frá því að hún var skipuð. Ef aðilarnir samþykkja ekki tillögur hennar innan tveggja mánaða eftir að þær voru gerðar getur hvor aðili um sig krafist þess að Alþjóðadómstóllinn fjalli um málið.
4. gr.
Ríki þau sem eru aðilar að samningnum, hinni kjörfrjálsu bókun varðandi öðlun ríkisborgararéttar og bókun þessari geta hvenær sem er lýst yfir því að þau vilji rýmka ákvæði bókunar þessarar svo að þau taki til deilna sem rísa út af túlkun eða framkvæmd hinnar kjörfrjálsu bókunar um öðlun ríkisborgararéttar. Slíkum yfirlýsingum skal beint til framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
5. gr.
Bókun þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu allra ríkja sem kunna að verða aðilar að samningnum á þeim tíma sem hér segir:
   til 31. október 1963 í utanríkisráðuneyti lýðveldisins Austurríkis og síðan til 31. mars 1964 í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.
6. gr.
Bókun þessa skal fullgilda. Skulu fullgildingarskjölin afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
7. gr.
Öllum ríkjum sem kunna að verða aðilar að samningnum skal heimilt að gerast aðilar að bókun þessari. Aðildarskjölin skulu afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
8. gr.
1. Bókun þessi skal ganga í gildi sama dag og samningurinn eða á þrítugasta degi eftir að annað fullgildingar- eða aðildarskjal að bókuninni hefur verið afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu, og skal miðað við síðari dagsetninguna.
2. Gagnvart sérhverju ríki sem fullgildir bókun þessa eða gerist aðili að henni eftir gildistöku hennar í samræmi við 1. mgr. greinar þessarar skal bókunin ganga í gildi á þrítugasta degi eftir afhendingu þess ríkis á fullgildingar- eða aðildarskjali sínu til vörslu.
9. gr.
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal tilkynna öllum ríkjum sem kunna að verða aðilar að samningnum:
   a. undirritanir undir bókun þessa og afhendingu fullgildingar- eða aðildarskjala til vörslu samkvæmt 5., 6. og 7. gr.;
   b. yfirlýsingar sem gefnar eru samkvæmt 4. gr. bókunar þessarar;
   c. gildistökudag bókunar þessarar samkvæmt 8. gr.
10. gr.
Frumriti bókunar þessarar sem gerð er á ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku með jafngildum textum skal komið í vörslu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna en hann skal senda öllum ríkjum sem greind eru í 5. gr. staðfest eftirrit af því.