Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi

1979 nr. 10 28. ágúst



Inngangsorð.
   Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum
   hafa í huga, í samræmi við grundvallaratriði þau sem sett eru fram í sáttmála Sameinuðu þjóðanna, að viðurkenning á meðfæddri göfgi mannsins og jöfnum óaðskiljanlegum réttindum allra manna sé grundvöllur frelsis, réttlætis og friðar í heiminum,
   viðurkenna að þessi réttindi leiði af meðfæddri göfgi mannsins,
   viðurkenna, í samræmi við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, að sú hugsjón að menn séu frjálsir, óttalausir og þurfi ekki að líða skort, rætist því aðeins að sköpuð verði skilyrði til þess að allir geti notið efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda, jafnt sem borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda,
   hafa í huga skyldur ríkja samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna til þess að stuðla að almennri virðingu fyrir og varðveislu mannréttinda og frelsis,
   gera sér grein fyrir að einstaklingurinn sem hefur skyldur gagnvart öðrum einstaklingum og samfélagi því sem hann tilheyrir hefur þá ábyrgð að leitast við að stuðla að og halda í heiðri réttindi þau sem viðurkennd eru í samningi þessum,
   samþykkja eftirfarandi greinar:

I. hluti.
1. gr.
1. Allar þjóðir hafa sjálfsákvörðunarrétt. Vegna þess réttar ákveða þær frjálst stjórnmálalegar aðstæður sínar og framfylgja frjálst efnahagslegri, félagslegri og menningarlegri þróun sinni.
2. Allar þjóðir mega, í sínu eigin markmiði, ráðstafa óhindrað náttúruauðæfum og auðlindum sínum brjóti það ekki í bága við neinar skuldbindingar sem leiðir af alþjóðlegri efnahagssamvinnu, byggðri á grundvallarreglunni um gagnkvæman ábata, og þjóðarétti. Aldrei má svipta þjóð ráðum sínum til lífsviðurværis.
3. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum, þar með talin þau sem bera ábyrgð á stjórnun lendna sem ekki ráða sér sjálfar og gæsluverndarlendna, skulu stuðla að viðurkenningu á sjálfsákvörðunarrétti og skulu virða þann rétt í samræmi við ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

II. hluti.
2. gr.
1. Sérhvert ríki sem aðili er að samningi þessum tekst á hendur að gera þær ráðstafanir, eitt sér eða fyrir alþjóðaaðstoð og -samvinnu, sérstaklega á sviði efnahags og tækni, sem það frekast megnar með þeim ráðum sem því eru tiltæk, í þeim tilgangi að réttindi þau sem viðurkennd eru í samningi þessum komist í framkvæmd í áföngum með öllum tilhlýðilegum ráðum, þar á meðal sérstaklega með lagasetningu.
2. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að ábyrgjast að réttindum þeim sem greind eru í samningi þessum muni verða framfylgt án nokkurrar mismununar vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.
3. Þróunarlönd mega ákveða, með tilhlýðilegu tilliti til mannréttinda og efnahags þjóða þeirra, að hvaða marki þau mundu ábyrgjast þau efnahagslegu réttindi sem viðurkennd eru í samningi þessum til handa þeim sem ekki eru þegnar þeirra.
3. gr.
Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að ábyrgjast jöfn réttindi til handa körlum og konum til þess að njóta allra þeirra efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu réttinda sem sett eru fram í samningi þessum.
4. gr.
Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna að ríki megi, til þess að réttinda þeirra verði notið sem ríki ákveður í samræmi við þennan samning, einungis binda slík réttindi þeim takmörkunum sem ákveðið er í lögum og einungis að svo miklu leyti sem það getur samrýmst eðli þessara réttinda og einungis í þeim tilgangi að stuðla að velferð almennings í lýðfrjálsu þjóðfélagi.
5. gr.
1. Ekkert í samningi þessum má túlka þannig að það feli í sér að ríki, hópur eða einstaklingur hafi rétt til þess að takast á hendur neinar athafnir né aðhafast neitt sem miðar að eyðileggingu neins þess réttar eða frelsis sem hér er viðurkennt eða takmörkun á þeim að frekara marki en gert er ráð fyrir í þessum samningi.
2. Engar takmarkanir á eða frávik frá neinum þeim grundvallarmannréttindum sem viðurkennd eru eða fyrir hendi eru í einhverju ríki vegna laga, samninga, reglugerða eða venju skulu leyfðar undir því yfirskini að samningur þessi viðurkenni ekki slík réttindi eða viðurkenni þau að minna marki.

III. hluti.
6. gr.
1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt manna til vinnu, sem felur í sér rétt sérhvers manns til þess að hafa tækifæri til þess að afla sér lífsviðurværis með vinnu sem hann velur sér eða tekur að sér af frjálsum vilja, og munu ríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja þennan rétt.
2. Ráðstafanir þær sem ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum gera til þess að framfylgja að öllu leyti þessum réttindum skulu meðal annars vera fólgnar í tækni- og starfsfræðslu og þjálfunaráætlunum, stefnumörkun og aðferðum til þess að ná stöðugri efnahagslegri, félagslegri og menningarlegri framþróun og fullri og skapandi atvinnu við aðstæður sem tryggja grundvallarfrelsi, stjórnmálalega og efnahagslega, til handa einstaklingum.
7. gr.
Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða sem tryggja sérstaklega:
   (a) endurgjald sem veitir öllum vinnandi mönnum sem lágmark:
   (i) sanngjarnt kaup og jafnt endurgjald fyrir jafnverðmæta vinnu án nokkurrar aðgreiningar, og séu konum sérstaklega tryggð vinnuskilyrði sem eigi séu lakari en þau sem karlmenn njóta, og jafnt kaup fyrir jafna vinnu;
   (ii) sómasamlega lífsafkomu fyrir þá sjálfa og fjölskyldur þeirra í samræmi við ákvæði samnings þessa;
   (b) öryggi við störf og heilsusamleg vinnuskilyrði;
   (c) jafna möguleika allra til þess að hækka í stöðu á viðhlítandi hærra stig, enda sé ekki tekið tillit til annarra atriða en starfsaldurs og hæfni;
   (d) hvíld, frítíma og sanngjarna takmörkun á vinnustundum og frídaga á launum með vissu millibili svo og endurgjald fyrir opinbera frídaga.
8. gr.
1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að ábyrgjast:
   (a) rétt allra til þess að stofna stéttarfélög og að gerast félagar í því stéttarfélagi sem þeir velja sér, einungis að áskildum reglum hlutaðeigandi félags, í því skyni að efla og vernda efnahags- og félagslega hagsmuni sína. Eigi má binda rétt þennan neinum takmörkunum öðrum en þeim sem mælt er í lögum og nauðsynlegar eru í lýðfrjálsu þjóðfélagi í þágu þjóðaröryggis eða allsherjarreglu eða til þess að vernda réttindi og frelsi annarra;
   (b) rétt stéttarfélaga til þess að mynda landssambönd eða stéttarfélagasambönd og rétt hinna síðarnefndu til þess að stofna eða ganga í alþjóðleg stéttasamtök;
   (c) rétt stéttarfélaga til þess að starfa óhindrað, að engum takmörkunum áskildum öðrum en þeim sem mælt er í lögum og nauðsynlegar eru í lýðfrjálsu þjóðfélagi í þágu þjóðaröryggis eða allsherjarreglu eða til þess að vernda réttindi og frelsi annarra;
   (d) verkfallsrétt, að því áskildu að honum sé beitt í samræmi við lög viðkomandi lands.
2. Ákvæði þessarar greinar skulu ekki vera því til fyrirstöðu að lögmætar takmarkanir séu settar við því að herliðar eða lögreglumenn eða stjórnvaldshafar ríkisins beiti þessum rétti.
3. Ekkert í grein þessari skal heimila ríkjum, sem aðilar eru að samþykkt á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá 1948 um félagafrelsi og verndun þess, að gera ráðstafanir með lögum sem myndu skaða eða beita lögum á þann hátt að það myndi skaða það sem tryggt er í þeirri samþykkt.
9. gr.
Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til félagslegs öryggis, þar á meðal til almannatrygginga.
10. gr.
Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna að:
   1. Mesta mögulega vernd og aðstoð skuli látin fjölskyldunni í té, en hún er hin eðlilega grundvallarhópeining þjóðfélagsins, sérstaklega við stofnun hennar og á meðan hún er ábyrg fyrir umönnun og menntun framfærsluskyldra barna. Frjálst samþykki hjónaefna verður að vera fyrir hendi til stofnunar hjúskapar.
   2. Mæðrum skal veitt sérstök vernd í hæfilegan tíma fyrir og eftir barnsburð. Á þessum tíma skal vinnandi mæðrum veitt launað leyfi eða leyfi með nægum almannatryggingargreiðslum.
   3. Sérstakar ráðstafanir skal gera til verndar og aðstoðar vegna barna og ungmenna án mismununar vegna ætternis eða annarra aðstæðna. Börn og ungmenni ætti að vernda gegn efnahagslegri og félagslegri misnotkun. Ráðning þeirra í starf sem er skaðlegt siðferði þeirra eða heilsu eða lífshættulegt eða líklegt til þess að hamla eðlilegum þroska þeirra ætti að vera refsivert að lögum. Ríki ættu einnig að setja aldurstakmörk og launuð vinna barna undir þeim mörkum að vera bönnuð og refsiverð að lögum.
11. gr.
1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til viðunandi lífsafkomu fyrir hann sjálfan og fjölskyldu hans, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis og sífellt batnandi lífsskilyrða. Aðildarríkin munu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að þessum rétti verði framfylgt og viðurkenna að í þessum tilgangi sé alþjóðasamvinna, byggð á frjálsu samþykki, mjög mikilvæg.
2. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna þann grundvallarrétt sérhvers manns að vera laus við hungur og skulu gera þær ráðstafanir, ein sér og með alþjóðasamvinnu, þar á meðal ráðstafanir samkvæmt sérstökum áætlunum, sem þarf til þess að:
   (a) bæta framleiðsluaðferðir, geymslu og dreifingu matvæla með því að notfæra sér tæknilega og vísindalega þekkingu til fulls, með því að miðla þekkingu á grundvallaratriðum um næringu og með því að þróa og endurbæta landbúnaðarkerfi til þess að ná hagkvæmastri þróun og nýtingu náttúruauðlinda;
   (b) tryggja sanngjarna dreifingu matvælaforða heimsins í hlutfalli við þarfir, og skal tekið tillit til vandamála landa sem flytja út matvæli og þeirra sem flytja inn matvæli.
12. gr.
1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.
2. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum skulu gera ráðstafanir til þess að framfylgja að öllu leyti rétti þessum, þar á meðal ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til þess að:
   (a) draga úr fjölda andvana fæddra barna og ungbarnadauða og gera ráðstafanir til heilsusamlegs þroska barnsins;
   (b) bæta heilbrigði í umhverfi og atvinnulífi á öllum sviðum;
   (c) koma í veg fyrir, lækna og hafa stjórn á landfarsóttum, landlægum sjúkdómum, atvinnusjúkdómum og öðrum sjúkdómum;
   (d) skapa skilyrði sem myndu tryggja öllum sjúkraþjónustu og sjúkrameðferð sé um veikindi að ræða.
13. gr.
1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til menntunar. Þau eru ásátt um að menntun skuli beinast að fullum þroska mannlegs persónuleika og meðvitund um göfgi mannsins og skuli stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi. Enn fremur eru þau ásátt um að menntun skuli gera öllum kleift að taka þátt í frjálsu þjóðfélagi á virkan hátt, stuðla að skilningi, umburðarlyndi og vináttu á milli allra þjóða og allra kynþátta-, staðfélags- og trúarbragðahópa og efla starfsemi Sameinuðu þjóðanna til varðveislu friðar.
2. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna að, til þess að framfylgja að öllu leyti þessum rétti:
   (a) skuli barnafræðsla vera skyldubundin og öllum tiltæk án endurgjalds;
   (b) skuli framhaldsmenntun í hinum ýmsu myndum, þar á meðal tækni- og iðnframhaldsmenntun, gerð öllum tiltæk og aðgengileg með öllum tilhlýðilegum ráðum og einkum með því að koma á ókeypis menntun í áföngum;
   (c) skuli æðri menntun gerð öllum jafn aðgengileg á grundvelli hæfni með öllum tilhlýðilegum ráðum og einkum með því að koma á ókeypis menntun í áföngum;
   (d) skuli hvatt til undirstöðumenntunar og hún aukin eins og mögulegt er fyrir þá sem hafa ekki hlotið eða lokið öllu skeiði barnafræðslu;
   (e) skuli þróun skólakerfa á öllum stigum ötullega efld, hæfilegu styrkjakerfi skuli komið á og efnislegur aðbúnaður kennaraliðs skuli stöðugt bættur.
3. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða frelsi foreldra og, þegar við á, lögráðamanna til þess að velja skóla fyrir börn sín, aðra en þá sem stofnaðir eru af opinberum stjórnvöldum, sem hafa sambærileg lágmarksmenntunarskilyrði og þau sem sett eru eða samþykkt kunna að vera af ríkinu og að ábyrgjast trúarlega og siðferðilega menntun barna þeirra í samræmi við þeirra eigin sannfæringu.
4. Engan hluta þessarar greinar skal túlka þannig að það brjóti í bága við frelsi einstaklinga og félaga til þess að stofna og stjórna menntastofnunum, alltaf að því áskildu að gætt sé grundvallaratriða þeirra sem sett eru fram í 1. mgr. þessarar greinar og því sé fullnægt að menntun sem veitt er í slíkum stofnunum samræmist þeim lágmarksskilyrðum sem ríkið kann að setja.
14. gr.
Sérhvert aðildarríki að samningi þessum sem hefur ekki getað tryggt, er það varð aðili að samningi þessum, skyldubundna ókeypis barnafræðslu á heimalandsvæði sínu eða öðrum landsvæðum undir lögsögu þess, tekst á hendur að útbúa og koma á innan tveggja ára nákvæmri framkvæmdaáætlun til þess að framfylgja í áföngum, innan hæfilegs árafjölda sem ákveðinn skal í áætluninni, grundvallarreglunni um skyldubundna ókeypis menntun öllum til handa.
15. gr.
1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns:
   (a) til þess að taka þátt í menningarlífi;
   (b) til þess að njóta ábata af vísindalegum framförum og hagnýtingu þeirra;
   (c) til þess að njóta ábata af verndun andlegra og efnislegra hagsmuna sem hljóta má af vísindalegum, bókmenntalegum og listrænum verkum sem hann er höfundur að.
2. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum skulu gera ráðstafanir til þess að framfylgja þessum rétti að öllu leyti, þar á meðal nauðsynlegar ráðstafanir til varðveislu, þróunar og útbreiðslu vísinda og menningar.
3. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða það frelsi sem óhjákvæmilegt er til vísindalegra rannsókna og skapandi starfa.
4. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna ábata þann sem hljóta má af eflingu og þróun alþjóðlegra samskipta og samvinnu á sviði vísinda og menningar.

IV. hluti.
16. gr.
1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að leggja fram, í samræmi við þennan hluta samningsins, skýrslur um þær ráðstafanir sem þau hafa gert og um framþróun þá sem orðið hefur til þess að gætt sé réttinda þeirra sem viðurkennd eru í samningi þessum;
2. (a) Allar skýrslur skulu lagðar fyrir aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem skal koma afritum til fjárhags- og félagsmálaráðsins til athugunar í samræmi við ákvæði samnings þessa;
   (b) Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal einnig koma á framfæri við sérstofnanir afritum af skýrslunum, eða þeim hlutum þeirra sem máli skipta, frá aðildarríkjum samnings þessa sem eru líka aðilar að þessum sérstofnunum að svo miklu leyti sem þessar skýrslur eða hlutar þeirra snerta einhver mál sem falla undir ábyrgð fyrrgreindra stofnana í samræmi við stofnskrár þeirra.
17. gr.
1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum skulu láta í té skýrslur sínar í áföngum í samræmi við áætlun sem fjárhags- og félagsmálaráðið skal gera innan eins árs frá gildistöku þessa samnings eftir að samráð hefur verið haft við aðildarríki þau og sérstofnanir sem í hlut eiga.
2. Í skýrslum má greina þau atriði og vandkvæði sem áhrif hafa á að hve miklu leyti skyldum samkvæmt samningi þessum hefur verið framfylgt.
3. Þar sem eitthvert ríki sem aðili er að samningi þessum hefur áður látið Sameinuðu þjóðunum eða einhverri sérstofnun í té upplýsingar sem máli skipta er ekki nauðsynlegt að láta þær upplýsingar í té aftur, en nákvæm tilvísan til þeirra upplýsinga sem þannig hafa verið látnar í té mun nægja.
18. gr.
Fjárhags- og félagsmálaráðið má, í samræmi við þá ábyrgð sem það ber samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda og grundvallarfrelsis, gera samkomulag við sérstofnanirnar um að þær láti ráðinu í té skýrslur um það sem áunnist hefur til efnda á þeim ákvæðum samnings þessa sem falla undir starfssvið þeirra. Í skýrslum þessum má greina frá sérstökum atriðum í ákvörðunum og ályktunum sem lögbærar stofnanir þeirra hafa samþykkt varðandi slíka framkvæmd.
19. gr.
Fjárhags- og félagsmálaráðið má koma á framfæri við mannréttindanefndina til athugunar og almennra ályktana eða, eftir því sem við á, til upplýsinga, skýrslum þeim varðandi mannréttindi sem ríkin leggja fram samkvæmt 16. og 17. gr. og skýrslur varðandi mannréttindi sem sérstofnanirnar leggja fram samkvæmt 18. gr.
20. gr.
Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum og þær sérstofnanir sem í hlut eiga mega koma á framfæri við fjárhags- og félagsmálaráðið athugasemdum um sérhverja almenna ályktun gerða samkvæmt 19. gr. eða um tilvísun til slíkrar almennrar ályktunar í skýrslu frá mannréttindanefndinni eða um hvert það skjal sem þar er greint frá.
21. gr.
Fjárhags- og félagsmálaráðið má leggja fyrir allsherjarþingið öðru hverju skýrslur með tillögum almenns eðlis og samantekt af upplýsingum sem mótteknar hafa verið frá ríkjum sem aðilar eru að samningi þessum og sérstofnunum um ráðstafanir sem gerðar hafa verið og um framþróun þá sem orðið hefur til þess að almennt sé gætt réttinda þeirra sem viðurkennd eru í samningi þessum.
22. gr.
Fjárhags- og félagsmálaráðið má vekja athygli annarra stofnana Sameinuðu þjóðanna, undirstofnana þeirra og sérstofnana þeirra sem falið er að láta í té tækniaðstoð, á öllum þeim málum sem greint er frá í skýrslum þeim sem vísað er til í þessum hluta samnings þessa og geta orðið þeim stofnunum til aðstoðar við að ákveða, hverri innan síns valdsviðs, hvort ráðlegt sé að hefjast handa um alþjóðlegar ráðstafanir sem líklegar séu til þess að stuðla að því að samningi þessum sé í vaxandi mæli framfylgt í reynd.
23. gr.
Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum eru ásátt um að meðal alþjóðlegra aðgerða til þess að framfylgja réttindum þeim sem viðurkennd eru í samningi þessum séu gerð samninga og ályktana, útvegun tækniaðstoðar, svæðisfundir og fundir um tæknimál sem skipulagðir eru til samráðs og athugana í samvinnu við hlutaðeigandi ríkisstjórnir.
24. gr.
Ekkert ákvæði samnings þessa skal túlkað svo að það skerði ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna né ákvæði stofnskráa sérstofnananna sem skilgreina skyldur hinna ýmsu stofnana Sameinuðu þjóðanna og sérstofnananna með tilliti til málefna sem fjallað er um í samningi þessum.
25. gr.
Ekkert ákvæði þessa samnings skal túlkað svo að það skerði þann rétt sem öllum þjóðum ber til þess að njóta og hagnýta til fullnustu og óhindrað náttúruauðæfi sín og auðlindir.

V. hluti.
26. gr.
1. Þessi samningur skal liggja frammi til undirskriftar fyrir öll þau ríki sem aðilar eru að Sameinuðu þjóðunum eða sérstofnunum þeirra, fyrir aðildarríki að samþykktum Alþjóðadómstólsins og fyrir sérhvert það ríki sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur boðið að gerast aðili að samningi þessum.
2. Fullgilda skal samning þennan. Fullgildingarskjöl skal afhenda hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
3. Samningur þessi skal liggja frammi til aðildar fyrir hvert það ríki sem vikið er að í 1. mgr. þessarar greinar.
4. Aðild skal öðlast gildi með því að aðildarskjal er afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
5. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal tilkynna öllum þeim ríkjum sem undirritað hafa þennan samning eða gerst aðilar að honum um afhendingu sérhvers fullgildingar- eða aðildarskjals.
27. gr.
1. Samningur þessi skal öðlast gildi þremur mánuðum eftir þann dag sem þrítugasta og fimmta fullgildingar- eða aðildarskjalið er afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
2. Nú fullgildir ríki samning þennan eða gerist aðili að honum eftir afhendingu þrítugasta og fimmta fullgildingar- eða aðildarskjalsins til varðveislu og skal þá þessi samningur öðlast gildi gagnvart því ríki þremur mánuðum eftir þann dag sem það afhendir sitt eigið fullgildingar- eða aðildarskjal til varðveislu.
28. gr.
Ákvæði samnings þessa skulu ná til allra hluta sambandsríkja án nokkurra takmarkana eða undantekninga.
29. gr.
1. Hvert það ríki sem aðili er að samningi þessum má bera fram breytingartillögu og fá hana skráða hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjórinn skal þá koma frambornum breytingartillögum til ríkja sem aðilar eru að samningi þessum ásamt tilmælum um að þau tilkynni honum hvort þau séu því hlynnt að haldin verði ráðstefna aðildarríkjanna til þess að athuga og greiða atkvæði um tillögurnar. Ef að minnsta kosti einn þriðji aðildarríkjanna er hlynntur slíkri ráðstefnu skal aðalframkvæmdastjórinn kalla saman ráðstefnuna undir umsjá Sameinuðu þjóðanna. Sérhver breytingartillaga sem samþykkt er af meiri hluta þeirra aðildarríkja sem viðstödd eru og greiða atkvæði á ráðstefnunni skal lögð fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til samþykktar.
2. Breytingartillögur skulu öðlast gildi þegar þær hafa verið samþykktar af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og af tveimur þriðju hlutum ríkja þeirra sem aðilar eru að samningi þessum í samræmi við stjórnskipunarhætti þeirra hvers um sig.
3. Þegar breytingartillögur öðlast gildi skulu þær vera bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa samþykkt þær, en önnur aðildarríki skulu áfram bundin af ákvæðum þessa samnings og sérhverri fyrri breytingartillögu sem þau hafa samþykkt.
30. gr.
Án tillits til tilkynninga samkvæmt 5. mgr. 26. gr. skal aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tilkynna öllum þeim ríkjum sem vikið er að í 1. mgr. þeirrar greinar um eftirfarandi atriði:
   (a) undirskriftir, fullgildingar og aðildir samkvæmt 26. gr.;
   (b) gildistökudag þessa samnings samkvæmt 27. gr. og gildistökudag sérhverra breytingartillagna samkvæmt 29. gr.
31. gr.
1. Samningi þessum skal komið til varðveislu í skjalasafni Sameinuðu þjóðanna og eru textarnir á kínversku, ensku, frönsku, rússnesku og spönsku jafngildir.
2. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda öllum þeim ríkjum sem vikið er að í 26. gr. staðfest afrit samnings þessa.