Lagasafn.  Íslensk lög 1. september 2025.  Útgáfa 156b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda

1980 nr. 55 9. júní


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 16. júní 1980. Breytt með: L. 58/1985 (tóku gildi 11. júlí 1985). L. 33/1987 (tóku gildi 14. apríl 1987). L. 21/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992). L. 69/1993 (tóku gildi 1. jan. 1994; EES-samningurinn: XVIII. viðauki tilskipun 75/117/EBE og 76/207/EBE). L. 129/1997 (tóku gildi 1. júlí 1998 nema 3. mgr. 14. gr. sem tók gildi 1. maí 1999). L. 145/2004 (tóku gildi 30. des. 2004). L. 76/2010 (tóku gildi 30. júní 2010). L. 105/2024 (tóku gildi 1. jan. 2025).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við félags- og húsnæðismálaráðherra eða félags- og húsnæðismálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði.

1. gr.
[Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.]1)
   1)L. 69/1993, 5. gr. Sjá og Augl. B 285/1997 og Augl. B 503/1997.
[2. gr.
Samningar aðildarsamtaka vinnumarkaðarins um málsmeðferð í ágreiningsmálum, um hvort laun og ráðningarkjör starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði séu í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga, skulu hafa sama almenna gildi og samningar þeirra um laun og önnur starfskjör, sbr. 1. gr., með þeim takmörkunum sem í samningunum felast.
Þegar settar eru á fót samráðsnefndir til úrlausnar ágreiningsmála á grundvelli samninga skv. 1. mgr. og atvinnurekandi, sem er málsaðili, á ekki aðild að samtökum atvinnurekenda er honum heimilt að tilnefna einn fulltrúa sem tekur sæti eins fulltrúa samtaka atvinnurekenda í nefndinni. Hið sama gildir um launamann sem er málsaðili og á ekki aðild að stéttarfélagi en fulltrúi hans tekur sæti eins fulltrúa samtaka launafólks í nefndinni. Ákveði málsaðili að tilnefna fulltrúa skal tilnefningin fara fram fyrir upphaf málsmeðferðar hjá samráðsnefndinni.]1)
   1)L. 145/2004, 1. gr.
[3.]1)–5. gr.2)
   1)L. 145/2004, 1. gr. 2)L. 129/1997, 58. gr.
[5. gr. a.
Nú ákveður félagi í lífeyrissjóði, sem á rétt á töku fæðingarorlofs samkvæmt lögum nr. 97/1980,1) að hverfa úr fyrra starfi að hluta eða öllu leyti og til heimilisstarfa vegna barnsburðar og er þá þeim lífeyrissjóði, sem viðkomandi er félagsmaður í, skylt að veita félagsmanninum heimild til áframhaldandi aðildar að sjóðnum á óbreyttum grundvelli í allt að 7 ár, enda taki félagsmaður þá að sér að greiða iðgjaldahlut atvinnurekanda ásamt sínum eigin. Slíkur félagsmaður nýtur allra sömu réttinda í lífeyrissjóðnum og aðrir félagsmenn, þ. á m. lánsréttinda.]2)
   1)l. 95/2000. 2)L. 58/1985, 1. gr.
6. gr.
Öllum atvinnurekendum er skylt að greiða í [fræðslusjóði atvinnulífsins sem og]1) sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld þau, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni, og samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina.
Atvinnurekanda er skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina.
   1)L. 76/2010, 1. gr.
7. gr.
[Verði dráttur á greiðslu iðgjalda samkvæmt lögum þessum skal skuldari greiða dráttarvexti af skuldinni frá gjalddaga samkvæmt lögum um vexti.]1)
   1)L. 33/1987, 6. gr.
8. gr.1)
   1)L. 21/1991, 181. gr.
[8. gr. a. Samstarfsnefnd um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.
Ráðherra skal skipa samstarfsnefnd stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Nefndin skal skipuð til þriggja ára í senn og skal hún koma saman fullskipuð einu sinni á ári eða oftar ef þörf krefur. Ráðherra sem fer með þjóðhagsmál, ráðherra sem fer með vinnumál, ráðherra sem fer með skattamál og ráðherra sem fer með lögreglu- og löggæslumál skulu eiga fast sæti í samstarfsnefndinni.
Auk þeirra sem tilgreindir eru í 1. mgr. skal ráðherra skipa einn fulltrúa án tilnefningar, sem og einn fulltrúa tilnefndan af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndan af Bandalagi háskólamanna, einn tilnefndan af BSRB, einn tilnefndan af ríkislögreglustjóra, einn tilnefndan af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn tilnefndan af Samtökum atvinnulífsins, einn tilnefndan af Skattinum, einn tilnefndan af Útlendingastofnun og einn tilnefndan af Vinnueftirliti ríkisins.
Ráðherra annast stjórnsýslu fyrir samstarfsnefndina. Fulltrúum í samstarfsnefndinni er skylt að gæta þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi sínu fyrir nefndina og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.]1)
   1)L. 105/2024, 1. gr.
[8. gr. b. Verkefni samstarfsnefndar.
Ráðherra skal fela samstarfsnefnd um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði, sbr. 8. gr. a, að koma með tillögu að stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda hvað varðar áherslur og aðgerðir gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði og skal nefndin afhenda ráðherra tillögu sína innan árs frá alþingiskosningum. Jafnframt skal nefndin afhenda ráðherra skýrslur, eftir því sem þörf krefur að mati nefndarinnar og einnig ef ráðherra óskar sérstaklega eftir því, um stöðuna hvað varðar brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði.]1)
   1)L. 105/2024, 1. gr.
[8. gr. c. Samstarfsvettvangur eftirlitsaðila.
Lögreglustjórar, Skatturinn og Vinnueftirlit ríkisins skulu gera með sér samning um samstarfsvettvang eftirlitsaðila gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði undir forystu Vinnueftirlits ríkisins. Framangreindum aðilum er heimilt að stækka samstarfsvettvanginn með samningum við aðrar stofnanir ef þörf krefur, að fengnu samþykki ráðherra.
Þeim stofnunum sem mynda samstarfsvettvang skv. 1. mgr. er heimilt að óska eftir ráðgjöf og aðstoð frá utanaðkomandi aðilum ef þörf krefur.
Markmiðið með samstarfsvettvangi skv. 1. mgr. er að efla og samræma eftirlit með því að allir aðilar á vinnumarkaði fari að ákvæðum laga, reglugerða og kjarasamninga sem gilda á innlendum vinnumarkaði.
Þær stofnanir sem mynda samstarfsvettvang skv. 1. mgr. skulu standa fyrir sameiginlegum aðgerðum gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði með eftirliti og virkri eftirfylgni, greiningarvinnu og upplýsingamiðlun milli aðila innan þeirra marka sem lög heimila.
Starfsmönnum sem starfa á grundvelli samstarfsvettvangs skv. 1. mgr. og öðrum þeim sem kallaðir eru til samstarfs er skylt að gæta þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.
Þær stofnanir sem mynda samstarfsvettvang skv. 1. mgr. skulu formbinda reglulegt samráð og samstarf við samtök aðila vinnumarkaðarins um stöðumat, greiningu og sameiginlegt vinnustaðaeftirlit, eftir því sem við á. Þrátt fyrir 5. mgr. er starfsmönnum samstarfsvettvangs skv. 1. mgr. heimilt að miðla þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru hverju sinni til samtaka aðila vinnumarkaðarins á grundvelli formlegs samráðs og samstarfs, sbr. 1. málsl.]1)
   1)L. 105/2024, 1. gr.
[8. gr. d. Ráðherra skal árlega koma fyrir velferðarnefnd Alþingis og gera grein fyrir stöðu aðgerða gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði og tillögu samstarfsnefndar, sbr. 8. gr. a, eftir því sem við á.]1)
   1)L. 105/2024, 1. gr.
9. gr.
Ráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara með reglugerð.1)
   1)Rg. 194/1981.
10. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
[Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir 8. gr. b skal samstarfsnefnd um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði, sbr. 8. gr. a, afhenda ráðherra tillögu sína innan árs frá því að nefndin er skipuð í fyrsta sinn.]1)
   1)L. 105/2024, 2. gr.