Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um ríkislögmann
1985 nr. 51 24. júní
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 1986. Breytt með:
L. 83/1997 (tóku gildi 6. júní 1997).
L. 7/1999 (tóku gildi 5. mars 1999).
L. 47/2006 (tóku gildi 1. júlí 2006).
L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008).
L. 117/2016 (tóku gildi 1. jan. 2018, nema 52., 53., 75., 76. og 79.–81. gr. sem tóku gildi 28. okt. 2016).
L. 79/2019 (tóku gildi 6. júlí 2019; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í brbákv.).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við forsætisráðherra eða forsætisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr.
Embætti ríkislögmanns er sjálfstæð stofnun og heyrir undir [stjórnarráðið].1)
[Ráðherra skipar ríkislögmann til fimm ára í senn.]2) Hann skal fullnægja lagaskilyrðum til skipunar í dómaraembætti í Hæstarétti. Hann skal enn fremur hafa réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti.
1)L. 7/1999, 1. gr. 2)L. 83/1997, 45. gr.
2. gr.
Ríkislögmaður fer með uppgjör bótakrafna sem beint er að ríkissjóði. Ráðherrar geta óskað lögfræðilegs álits hans um einstök málefni og aðstoðar við vandasama samningagerð.
Ríkislögmaður fer með vörn þeirra einkamála fyrir dómstólum og gerðardómum sem höfðuð eru á hendur ríkinu og sókn þeirra einkamála sem ríkið höfðar á hendur öðrum.
Ríkislögmaður gerir fyrir hönd ríkisins kröfur einkaréttarlegs eðlis í [sakamálum].1)
Utan starfssviðs ríkislögmanns falla dómsmál sem ríkisbankar eða fjárfestingarlánasjóðir í eigu ríkisins eiga aðild að. Enn fremur dómsmál til innheimtu opinberra gjalda, orlofsfjár, viðskiptaskulda eða hliðstæðra krafna nema ráðherra, sem hlut á að máli, óski atbeina ríkislögmanns við meðferð einstakra mála. …2)
1)L. 88/2008, 234. gr. 2)L. 79/2019, 29. gr.
3. gr.
Við embætti ríkislögmanns starfa auk hans …1) lögfræðingar sem ríkislögmaður getur falið einstök mál sem embættið hefur til meðferðar enda fullnægi þeir lagaskilyrðum til að flytja slík mál.
Ríkislögmaður getur enn fremur falið [lögmönnum]2) utan embættisins meðferð einstakra mála að fengnu samþykki þeirrar ríkisstofnunar sem hlut á að máli.
1)L. 83/1997, 46. gr. 1)L. 117/2016, 18. gr.
4. gr.
Ráðherra getur með reglugerð1) kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara, þ. á m. um skiptingu kostnaðar af málefnum sem ríkislögmanni eru falin.
1)Rg. 111/2008.
5. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1986.