Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um talnagetraunir

1986 nr. 26 2. maí


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 12. maí 1986. Breytt með: L. 126/2003 (tóku gildi 30. des. 2003). L. 129/2004 (tóku gildi 31. des. 2005). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 126/2015 (tóku gildi 31. des. 2015).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
[Ráðherra]1) er heimilt að veita [Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands]2) (ÍSÍ), Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) og Öryrkjabandalagi Íslands (ÖBÍ) leyfi til þess að starfrækja saman, í nafni félags sem samtök þessi munu stofna, getraunir er fram fara með þeim hætti að á þar til gerða miða er skráð eða valin röð talna og eða bókstafa.
[Heimild þessi gildir til 1. janúar 2034.]3)
   1)L. 126/2011, 115. gr. 2)L. 126/2003, 1. gr. 3)L. 126/2015, 4. gr.
2. gr.
Félagi því, sem starfrækir getraunir samkvæmt 1. gr., skal stjórnað af fimm manna stjórn er skipuð skal til eins árs í senn. Skipar [Íþrótta- og ólympíusamband Íslands]1) tvo, Öryrkjabandalag Íslands tvo og Ungmennafélag Íslands einn. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Aðilar skipa formann til skiptis, tvö ár í senn, samkvæmt samkomulagi aðila, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.
Að öðru leyti gera aðilar með sér samkomulag, sem [ráðherra]2) staðfestir, um rekstur félagsins, þar á meðal um ábyrgð á rekstri þess og skiptingu ágóða.
   1)L. 126/2003, 1. gr. 2)L. 162/2010, 113. gr.
3. gr.
Gjald fyrir þátttöku í getraununum (miðaverð) ákveður [ráðherra]1) að fengnum tillögum frá stjórn félagsins.
   1)L. 162/2010, 113. gr.
4. gr.
[Ráðherra]1) ákveður, að fengnum tillögum frá stjórn félagsins, fjárhæð vinninga, annaðhvort sem hlutfall af heildarsöluverði miða hverju sinni, sem varið skal til vinninga, eða fjárhæð einstakra vinninga.
Vinningar getrauna eru undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum …2)
   1)L. 162/2010, 113. gr. 2)L. 129/2004, 49. gr.
5. gr.
Ágóða af getraunastarfseminni skal varið til eflingar íþróttum á vegum áhugamanna um íþróttir í landinu í félögum innan [Íþrótta- og ólympíusambands Íslands]1) og Ungmennafélags Íslands og til að greiða stofnkostnað við íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja á vegum Öryrkjabandalags Íslands eða til að standa undir annarri starfsemi bandalagsins í þágu öryrkja.
   1)L. 126/2003, 1. gr.
6. gr.
[Ráðherra]1) setur í reglugerð2) nánari ákvæði um getraunastarfsemina, að fengnum tillögum stjórnar félagsins, og hefur að öðru leyti eftirlit með starfsemi þess.
   1)L. 162/2010, 113. gr. 2)Rg. 516/1995, sbr. 634/1995. Rg. 1170/2012, sbr. 750/2014, 972/2014, 759/2015, 760/2016, 1033/2016, 403/2017, 597/2017, 814/2018, 1314/2018, 395/2020, 594/2021, 290/2022, 703/2022 og 289/2023.
7. gr.
Óheimilt er öðrum en framangreindu félagi [Íþrótta- og ólympíusambands Íslands],1) Ungmennafélags Íslands og Öryrkjabandalags Íslands að starfrækja getraunir með þeim hætti sem um ræðir í 1. gr.

   1)L. 126/2003, 1. gr.
8. gr.
Brot á lögum þessum varða sektum.
9. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.