Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Rannsóknadeild fisksjúkdóma

1986 nr. 50 6. maí


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 21. maí 1986. Breytt með: L. 61/1985 (tóku gildi 11. júlí 1985). L. 83/1997 (tóku gildi 6. júní 1997). L. 82/1998 (tóku gildi 1. okt. 1998). L. 60/2006 (tóku gildi 1. júlí 2006). L. 167/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 88/2020 (tóku gildi 22. júlí 2020 nema 14. gr. sem tók gildi 1. jan. 2021).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við matvælaráðherra eða matvælaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Tilgangur.
1. gr.
Tilgangur laga þessara er að efla innlendar rannsóknir á fisksjúkdómum og reglubundið eftirlit með heilbrigði hrogna, seiða og alifiska.

II. kafli. Rannsóknadeild fisksjúkdóma.
2. gr.
Við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum skal starfa deild, Rannsóknadeild fisksjúkdóma, er hafi það hlutverk að annast rannsóknir á fisksjúkdómum, sjúkdómsgreiningar á fiski, útgáfu heilbrigðisvottorða og aðra skylda starfsemi.
Deildin lætur fiskeldisstöðvum í té vottorð um heilsufar fisks í stöðinni eftir því sem reglubundið eftirlit, sbr. lög [um varnir gegn fisksjúkdómum]1) og lög nr. 61/1985,2) og rannsóknir og önnur starfsemi deildarinnar samkvæmt lögum þessum gefa tilefni til.
   1)L. 60/2006, 13. gr. 2)L. 61/1985 breyttu þágildandi l. 77/1981, um dýralækna.
3. gr.
[Forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði ræður deildarstjóra Rannsóknadeildar fisksjúkdóma, sbr. lög nr. 67/1990.]1)
Deildarstjóri sér um stjórn deildarinnar og markar henni stefnu og starfssvið í samræmi við lög og reglur og sér um tengsl við þá er varnir gegn fisksjúkdómum varða. Hann annast gerð starfs- og fjárhagsáætlunar og ber ábyrgð á fjárhag deildarinnar.
   1)L. 83/1997, 118. gr.
4. gr.
Deildin hefur sjálfstæðan fjárhag og lýtur yfirstjórn forstöðumanns Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði.
5. gr.
Verkefni Rannsóknadeildar fisksjúkdóma skulu m.a. vera:
   1. Að stunda rannsóknir á sviði fisksjúkdóma.
   2. Að greina sjúkdóma er upp kunna að koma í alifiski.
   3. Að rannsaka, þegar þess er þörf, alifiska sem fengið hafa lyfjagjöf.
   4. Að veita fiskeldisstöðvum hvers konar aðstoð og ráðgjöf er að gagni má koma til varnar útbreiðslu sjúkdóma og til að tryggja heilbrigði fiska.
   5. Að gefa út heilbrigðisvottorð samkvæmt tillögum [Matvælastofnunar]1) og í samræmi við erlendar kröfur vegna útflutnings. Heilbrigðisvottorðin byggi á reglubundnu eftirliti og sýnum frá eldisstöðvum, sem og sýnum úr villtum fiskum sem valdir eru til undaneldis.
   6. Að sinna öðrum skyldum verkefnum eftir ákvörðun forstöðumanns.
   1)L. 167/2007, 82. gr.
6. gr.
Rannsóknadeild fisksjúkdóma skal starfa í samvinnu við [Matvælastofnun]1) og dýralækni fisksjúkdóma.
Rannsóknadeildin getur samið við aðrar rannsóknastofnanir um að annast tiltekna þætti rannsókna vegna fisksjúkdóma í landinu.
   1)L. 167/2007, 82. gr.
7. gr.
Starfsmenn rannsóknadeildarinnar mega ekki vera fjárhagslega tengdir fiskeldisfyrirtækjum eða sitja í stjórn slíkra fyrirtækja.
8. gr.
Rannsóknadeild fisksjúkdóma skal árlega semja skýrslu um starfsemi sína og senda hana [þeim ráðherra sem fer með vísindamál].1)
   1)L. 126/2011, 116. gr.
9. gr.
[Sá ráðherra er fer með vísindamál]1) setur Rannsóknadeild fisksjúkdóma starfsreglur og staðfestir gjaldskrá fyrir þá þjónustu, sem hún veitir, með reglugerð.
   1)L. 126/2011, 116. gr.

III. kafli. Fisksjúkdómarannsóknir.
10. gr.
[Matvælastofnun]1) setur reglur um lágmarkstíðni sýnatöku og fjölda sýna sem tekin skulu úr hverri klak- og eldisstöð til að tryggja grunneftirlit. Skulu allar klak- og eldisstöðvar hlíta slíku eftirliti hvort sem um sölu úr stöðinni er að ræða eða ekki. Þegar um sýnatöku vegna fyrirhugaðs útflutnings er að ræða skal rannsóknadeildin ganga úr skugga um að sýnatökur og úrvinnsla séu í samræmi við reglur um þau atriði í viðkomandi landi.
Í hverri eldisstöð skal vera eftirlitsbók eða annað tilsvarandi skráningarform þar sem skráðar eru heimsóknir fulltrúa Rannsóknadeildar fisksjúkdóma og niðurstöður eftirlits dýralækna og athugasemdir þeirra, sem og fyrirmæli er varða sjúkdómavarnir.
Vilji umsjónarmaður eldisstöðvar eigi hlíta skriflegum fyrirmælum eftirlitsaðila er rétt að skjóta málinu til úrskurðar [þess ráðherra er fer með varnir gegn dýrasjúkdómum].2)
   1)L. 167/2007, 82. gr. 2)L. 126/2011, 116. gr.
11. gr.
Rannsóknadeild fisksjúkdóma skal rannsaka sýni frá fiskeldisstöðvum með viðurkenndum aðferðum. Finnist ekkert athugavert við rannsókn er sú niðurstaða skráð í skýrslur um viðkomandi stöð. Þær niðurstöður, ásamt reglubundnu eftirliti, eru grundvöllur útgáfu heilbrigðisvottorða, sbr. 14. gr.
Ef tilteknir smitsjúkdómar, sem taldir eru hættulegir eða sérstaklega er getið í reglugerð, greinast skal rannsóknadeildin þegar í stað tilkynna um sjúkdóminn til [Matvælastofnunar]1) og dýralæknis fisksjúkdóma.
[Matvælastofnun]1) skal þá í samráði við Rannsóknadeild fisksjúkdóma og dýralækni fisksjúkdóma gera tillögur til ráðherra um nauðsynlegar aðgerðir og varúðarráðstafanir.
Að fengnum úrskurði ráðherra skal dýralæknir fisksjúkdóma hafa með höndum nauðsynlegar aðgerðir í samvinnu við héraðsdýralækna.
   1)L. 167/2007, 82. gr.
12. gr.
Deildarstjóri Rannsóknadeildar fisksjúkdóma, dýralæknir fisksjúkdóma, svo og héraðsdýralæknar eða fulltrúar þeirra, skulu hafa frjálsan aðgang að fiskeldisstöðvum og skulu þeim veittar allar nauðsynlegar upplýsingar.
Gæta skulu þeir þó þess að valda ekki meiri truflun á starfseminni en nauðsynlegt er hverju sinni.
Eigi er þó heimilt að krefjast annarra upplýsinga en þeirra sem eru nauðsynlegar eða kunna að vera nauðsynlegar vegna eftirlitsins. Ekki er heimilt að láta öðrum í té upplýsingar sem ætla má að fara eigi leynt.
13. gr.
Forráðamönnum eldisstöðva er skylt að tilkynna Rannsóknadeild fisksjúkdóma, héraðsdýralækni eða dýralækni fisksjúkdóma þegar í stað ef vart verður við sjúkdóm í stöðinni. Þeim er og skylt að upplýsa um öll þau atriði sem að gagni mega koma til að greina sjúkdóminn og hefta útbreiðslu hans.
14. gr.
Rannsóknadeild fisksjúkdóma skal veita klak- og eldisstöðvum heilbrigðisvottorð, enda hafi reglubundið eftirlit og rannsóknir sýna ekki leitt í ljós sjúkdóma í stöðinni eða grun um þá. Slíkt vottorð veitir heimild til sölu á alifiski og sótthreinsuðum hrognum innanlands eða til útlanda, sbr. 10. gr., með þeim almennu takmörkunum sem um það kunna að gilda hverju sinni.
15. gr.
Óski fiskeldisstöð eftir frekari rannsóknum en mælt er fyrir um í lögum þessum skal Rannsóknadeild fisksjúkdóma verða við slíkri beiðni eftir því sem kostur er, á kostnaðarverði, og afhenda síðan niðurstöður í skýrslu eða með vottorði eftir því sem við á.

IV. kafli. Kostnaður.
16. gr.
Gjaldskrá skal ákveðin með reglugerð fyrir eitt ár í senn með hliðsjón af fjárhagsáætlun Rannsóknadeildar fisksjúkdóma. Fiskeldisstöð leggur til sýni vegna eftirlits og rannsókna án endurgjalds. Við ákvörðun gjaldskrár skal tekið mið af því að fiskeldisstöðvarnar greiði tvo þriðju hluta af launa- og rekstrarkostnaði við skyldurannsóknir, sbr. 10. gr.
Kostnaður við rannsóknir í klak- og eldisstöð, sem sett hefur verið í sölu- eða dreifingarbann vegna uppkomins sjúkdóms, skal greiddur úr ríkissjóði.
Að öðru leyti skal starfsemi deildarinnar kostuð úr ríkissjóði.

V. kafli. Ýmis ákvæði.
17. gr.
18. gr.
Fyrir brot gegn lögum þessum, reglugerðum og fyrirmælum gefnum samkvæmt þeim skal refsa með sektum en með [fangelsi allt að 2 árum]1) séu sakir miklar.
2)
   1)L. 82/1998, 182. gr. 2)L. 88/2008, 233. gr.
19. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.1)
   1)L. 88/2020, 13. gr.