Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um sjómannadag

1987 nr. 20 26. mars


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 14. apríl 1987. Breytt með: L. 157/2012 (tóku gildi 3. jan. 2013).


1. gr.
Fyrsti sunnudagur í júnímánuði ár hvert skal vera almennur frídagur sjómanna með þeim undantekningum sem um getur í lögum þessum. Beri hvítasunnudag upp á fyrsta sunnudag í júní skal sjómannadagur haldinn næsta sunnudag á eftir.
Sjómannadagurinn skal vera almennur fánadagur.
2. gr.
Ákvæði 1. gr. taka ekki til sjómanna á íslenskum farskipum sem sigla milli Íslands og annarra landa. Þó skal farskipi, sem liggur í íslenskri höfn og eigi hefur látið úr höfn fyrir kl. 12 á hádegi á laugardegi næstum á undan sjómannadegi, eigi heimilt að láta úr höfn fyrr en kl. 12 á hádegi næsta mánudag.
Ferjur milli lands og eyja eru undanþegnar ákvæðum 1. gr.
Strandferðaskip og sanddæluskip skulu halda höfn þar sem þau eru stödd á sjómannadag.
3. gr.
Ákvæði 1. gr. taka ekki til skipa Landhelgisgæslu Íslands. Stjórn Landhelgisgæslunnar ber þó að sjá til þess að skipin séu í höfn ef þau hafa ekki aðkallandi verkefnum að gegna að hennar mati.
4. gr.
[Hafrannsóknastofnun]1) skal skipuleggja rannsóknaleiðangra þannig að skip geti leitað hafnar eigi síðar en kl. 12 á laugardegi fyrir sjómannadag og láti ekki úr höfn fyrr en kl. 12 á hádegi næsta mánudag.
   1)L. 157/2012, 3. gr.
5. gr.
Öll fiskiskip skulu liggja í höfn á sjómannadag og hafa komið til hafnar eigi síðar en kl. 12 á laugardegi fyrir sjómannadag og láta ekki úr höfn fyrr en kl. 12 á hádegi næsta mánudag.
Skipverjar skulu ekki vera skyldir til vinnu við skipið eftir kl. 12 á laugardegi fyrir sjómannadag nema öryggi þess sé í hættu.
Ákvæði 1. mgr. eru frávíkjanleg ef um er að ræða skip sem ætlað er að sigla með afla sinn á erlendan markað, enda sé skipshöfn kunn sú fyrirætlan áður en veiðiferð hefst. Einnig má víkja frá ákvæðum 1. mgr. ef mikilvægir hagsmunir eru í húfi og samkomulag tekst þar um milli útgerðar og skipshafnar.
6. gr.
Útgerðarmaður og skipstjóri bera ábyrgð á því að farið sé að ákvæðum laga þessara. Brot gegn lögunum varða sektum í ríkissjóð.
7. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.