Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra

1990 nr. 129 31. desember


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 14. janúar 1991. Breytt með: L. 83/1997 (tóku gildi 6. júní 1997). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 115/2015 (tóku gildi 16. des. 2015). L. 85/2021 (tóku gildi 1. jan. 2022). L. 89/2021 (tóku gildi 8. júlí 2021).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar- og viðskiptaráðherra eða menningar- og viðskiptaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. [Markmið, gildissvið og vinnsla persónuupplýsinga.]1)
   1)L. 89/2021, 9. gr.
1. gr.
Markmið laga þessara er að stuðla að jafnrétti heyrnarlausra til þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli táknmáls heyrnarlausra.
2. gr.
Hlutverk Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra er að annast:
   a. rannsóknir á íslensku táknmáli,
   b. kennslu táknmáls,
   c. táknmálstúlkun,
   d. aðra þjónustu.
Um skipan þjónustunnar skal kveðið á í reglugerð.1)
Stofnunin skal hafa samstarf við svæðisstjórnir um málefni [fatlaðs fólks],2) [Ráðgjafar- og greiningarstöð],3) Heyrnleysingjaskólann, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Námsgagnastofnun og aðra opinbera aðila varðandi málefni er snerta starfsemi þeirra. Sama gildir um samstarf við félög áhugamanna.
   1)Rg. 1058/2003, sbr. 884/2004. 2)L. 115/2015, 28. gr. 3)L. 85/2021, 15. gr.
[2. gr. a.
Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu, svo sem vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar vegna beiðna um táknmálstúlkaþjónustu, kennslu táknmáls og máltöku barna og í þágu rannsókna á íslensku táknmáli.
Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er heimil öflun og miðlun persónuupplýsinga þegar nauðsyn krefur, þ.m.t. til og frá leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, félags- og skólaþjónustu sveitarfélaga, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og aðilum samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.
Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um vinnslu persónuupplýsinga í reglugerð samkvæmt þessu ákvæði.]1)
   1)L. 89/2021, 9. gr.

II. kafli. Stjórnun.
3. gr.
[Ráðherra]1) skipar stofnuninni fimm manna stjórn til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara:
   a. einn fulltrúa tilnefndan af Félagi heyrnarlausra,
   b. einn fulltrúa tilnefndan af Foreldra- og styrktarfélagi heyrnardaufra,
   c. [tvo fulltrúa tilnefnda af [ráðherra er fer með málefni fatlaðs fólks],1)]2)
   [d.]2) skipar [ráðherra]1) einn fulltrúa án tilnefningar. Skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
   1)L. 126/2011, 149. gr. 2)L. 162/2010, 7. gr.
4. gr.
[Ráðherra]1) skipar forstöðumann til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar. Hann á sæti á fundum stjórnarinnar með málfrelsi og tillögurétti og sér um framkvæmd á ákvörðunum hennar. Forstöðumaður annast daglegan rekstur stofnunarinnar.
   1)L. 126/2011, 149. gr.
5. gr.
[Forstöðumaður ræður annað starfsfólk.]1)
   1)L. 83/1997, 125. gr.
6. gr.
Samskiptamiðstöð gerir fjárhags- og framkvæmdaáætlun til allt að fimm ára. Stjórn stofnunarinnar staðfestir áætlanir og fylgist með framkvæmd þeirra. [Ráðherra]1) getur, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar, sett gjaldskrá fyrir þá þjónustu sem samskiptamiðstöðin veitir.
   1)L. 126/2011, 149. gr.
7. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi. Lögin skal endurskoða innan fjögurra ára frá gildistöku þeirra.