Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga

1991 nr. 40 27. mars


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 17. apríl 1990 (á að vera 17. apríl 1991). Breytt með: L. 31/1994 (tóku gildi 2. maí 1994). L. 130/1995 (tóku gildi 19. des. 1995). L. 34/1997 (tóku gildi 29. maí 1997). L. 65/2006 (tóku gildi 27. júní 2006). L. 65/2010 (tóku gildi 27. júní 2010). L. 66/2010 (tóku gildi 1. júlí 2010). L. 152/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 138/2011 (tóku gildi 1. jan. 2012). L. 19/2013 (tóku gildi 13. mars 2013). L. 85/2015 (tóku gildi 1. jan. 2016 nema 2. gr. og ákvæði til bráðabirgða I sem tóku gildi 24. júlí 2015). L. 115/2015 (tóku gildi 16. des. 2015). L. 75/2016 (tóku gildi 1. jan. 2017). L. 37/2018 (tóku gildi 1. okt. 2018). L. 80/2018 (tóku gildi 1. jan. 2019 nema 3. mgr. 2. gr. og 7. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2020 og brbákv. I sem tók gildi 28. júní 2018). L. 48/2019 (tóku gildi 26. júní 2019). L. 148/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020). L. 88/2021 (tóku gildi 1. jan. 2022). L. 107/2021 (tóku gildi 1. jan. 2022; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 43. gr.). L. 78/2022 (tóku gildi 14. júlí 2022). L. 10/2024 (tóku gildi 24. febr. 2024).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega er átt við félags- og vinnumarkaðsráðherra eða félags- og vinnumarkaðsráðuneyti sem fer með lög þessi að undanskildum ákvæðum um málefni barna og ungmenna skv. VIII. kafla sem heyra undir mennta- og barnamálaráðherra. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Markmið laganna.
1. gr.
Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Skal það gert með því
   a. að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti,
   b. að tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði barna og ungmenna [og mæta þörfum þeirra fyrir þjónustu á skilvirkan hátt um leið og þörf krefur],1)
   c. að veita aðstoð til þess að íbúar geti búið sem lengst í heimahúsum, stundað atvinnu og [búið við sem mest lífsgæði],2)
   d. að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál.
Við framkvæmd félagsþjónustunnar skal þess gætt að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. [Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skal í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður.]2)
[Við framkvæmd laga þessara skal framfylgt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja að fatlað fólk, þ.m.t. hagsmunasamtök þess, hafi áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni þess. Skal ákvarðanataka byggjast á viðeigandi aðlögun þar sem aðgerða er þörf svo að fatlað fólk fái notið réttinda sinna. Þegar börn og fjölskyldur þeirra eiga í hlut skal einnig framfylgja barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna lögum samkvæmt.]2)
   1)L. 78/2022, 1. gr. 2)L. 37/2018, 1. gr.
2. gr.
Með félagsþjónustu er í lögum þessum átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf í tengslum við eftirtalda málaflokka:
   1. Félagslega ráðgjöf.
   2. Fjárhagsaðstoð.
   3. [Stuðningsþjónustu.]1)
   4. Málefni barna og ungmenna.
   5. Þjónustu við unglinga.
   6. Þjónustu við aldraða.
   7. Þjónustu við [fatlað fólk].2)
   8. Húsnæðismál.
   9. [Vímuvarnir og aðstoð við einstaklinga með fíknivanda.]3)
   10.3)
   1)L. 78/2022, 2. gr. 2)L. 115/2015, 9. gr. 3)L. 37/2018, 2. gr.

II. kafli. [Stjórnskipulag.]1)
   1)L. 37/2018, 3. gr.
[3. gr. Yfirstjórn.
Ráðherra fer með yfirstjórn þeirra málefna sem lög þessi taka til. [Ráðherra getur að eigin frumkvæði eða í kjölfar áminningar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála ákveðið að taka til umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags samkvæmt lögum þessum.]1) Réttur aðila máls til að kæra ákvörðun hefur ekki áhrif á þessa heimild. Telji ráðuneytið rétt að gera athugasemd getur það:
   1. gefið út leiðbeiningar um túlkun laga þessara og stjórnsýslu sveitarfélagsins á þessu sviði,
   2. gefið út álit um lögmæti athafna eða athafnaleysis sveitarfélagsins eða annars er eftirlit beinist að,
   3.1)
Ráðherra skal á þriggja ára fresti leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd félagsþjónustu sem byggist m.a. á skýrslum sveitarfélaga um það efni.]2)
   1)L. 88/2021, 25. gr. 2)L. 37/2018, 3. gr.
[3. gr. a. Stofnanir ríkisins.
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefur eftirlit með gæðum þjónustu sem er veitt á grundvelli laga þessara og laga um stofnunina.
Barna- og fjölskyldustofa styður við þjónustu sem er veitt í þágu barna á grundvelli laga þessara og laga um stofnunina.]1)
   1)L. 78/2022, 3. gr.
[4. gr. Sveitarstjórn.
Hver sveitarstjórn ber ábyrgð á félagsþjónustu innan marka síns sveitarfélags, eftir atvikum í samvinnu við sveitarstjórnir annarra sveitarfélaga.]1)
   1)L. 37/2018, 3. gr.
[5. gr. Skipulag.
Sveitarstjórn kýs fulltrúa í félagsmálanefnd, þrjá hið fæsta en þó a.m.k. fimm ef félagsmálanefnd eru falin verkefni [á grundvelli barnaverndarlaga].1) Um félagsmálanefnd gilda að öðru leyti ákvæði sveitarstjórnarlaga um fastanefndir.
Sveitarstjórn getur ákveðið, á grundvelli heimilda í sveitarstjórnarlögum, að víkja frá því skipulagi félagsþjónustu sem 1. mgr. gerir ráð fyrir. Samþykkt um stjórn sveitarfélagsins skal þá greina frá því hvernig háttað skuli fullnaðarafgreiðslu mála, meðferð einstaklingserinda, endurupptöku mála og öðrum slíkum atriðum. Þegar um er að ræða samstarf sveitarfélaga um félagsþjónustu skal ákvæðum 3.–5. mgr. jafnframt fylgt.
Ákveði sveitarstjórn að nýta heimild skv. 94. gr. sveitarstjórnarlaga til þess að fela byggðasamlagi að veita félagsþjónustu fer um aðild að stjórn byggðasamlags eða þjónusturáði samkvæmt samstarfssamningi. Í stað staðfestingar ráðuneytis sveitarstjórnarmála á samningi skal fá staðfestingu ráðuneytis félagsþjónustu sem skal svo kynnt hinu fyrrnefnda.
Ákveði sveitarstjórn að nýta heimild skv. 96. gr. sveitarstjórnarlaga til þess að fela öðru sveitarfélagi að veita félagsþjónustu fyrir sína hönd má hún jafnframt kjósa áheyrnarfulltrúa í félagsmálanefnd þess sveitarfélags sem þjónustuna veitir. Áheyrnarfulltrúi hefur seturétt með málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsmálanefndar þegar málefni samstarfsverkefnisins eru þar til umræðu.
Fulltrúar í sveitarstjórn þeirra sveitarfélaga sem hafa falið öðru sveitarfélagi að annast fyrir sig félagsþjónustu samkvæmt lögum þessum eiga sama rétt á aðgangi að gögnum og upplýsingum um það verkefni hjá því sveitarfélagi sem veitir félagsþjónustu og þeir hefðu ella haft skv. 28. gr. sveitarstjórnarlaga.]2)
   1)L. 107/2021, 44. gr. 2)L. 37/2018, 3. gr.
[6. gr. Kærur og málskot.
Aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga er heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir teknar samkvæmt lögum þessum til úrskurðarnefndar velferðarmála. [Nefndin metur að nýju alla þætti kærumáls. Nefndin getur fellt úr gildi ógildanlegar ákvarðanir í heild eða að hluta en ekki tekið nýja ákvörðun í máli fyrir hönd sveitarfélags.]1) Um málsmeðferð fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála.
Umsækjandi, hlutaðeigandi sveitarfélag eða samtök þeirra geta borið niðurstöðu úrskurðarnefndar eða ráðherra undir dómstóla eftir almennum reglum.
Sveitarstjórn getur ákveðið í samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins að áður en hægt er að kæra stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 1. mgr., skuli máli fyrst skotið til félagsmálanefndar eða annars tiltekins aðila innan stjórnsýslu sveitarfélaga. Nýti sveitarstjórn þessa heimild skal málsaðila leiðbeint bæði um málskot og kæruleið þegar ákvörðun í máli er kynnt honum og skal niðurstaða liggja fyrir innan 30 daga.]2)
   1)L. 88/2021, 25. gr. 2)L. 37/2018, 3. gr.
[7. gr. Samvinna sveitarfélaga.
Sveitarfélögum er heimilt að hafa samvinnu um verkefni samkvæmt lögum þessum sem og önnur verkefni sem félagsþjónustunni er ætlað að sinna. Er sveitarfélögum heimilt að mynda sérstök þjónustusvæði um verkefnin, enda sé gætt ákvæða 5. gr. og sveitarstjórnarlaga.]1)
   1)L. 37/2018, 3. gr.
[8. gr. [Samráð við notendur og þátttaka barna.]1)
Samráð skal haft við notendur félagsþjónustunnar með það að markmiði að þeir séu virkir þátttakendur í undirbúningi ákvörðunar um þjónustu og hvernig henni verður háttað. Þá skal hafa samráð við notendur við almenna stefnumörkun innan sveitarfélagsins. Sveitarfélög skulu a.m.k. árlega funda með hagsmunasamtökum notenda félagsþjónustunnar og skulu starfrækja sérstök notendaráð sem tryggi aðkomu hagsmunasamtaka notenda við stefnumörkun og áætlanagerð sveitarfélags í málefnum er varða meðlimi þeirra. Tryggja skal þátttakendum stuðning og þjálfun til virkrar þátttöku í notendasamráði.
[Barn á rétt á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur og þroska. Við meðferð og úrlausn máls sem varðar barn skal taka tillit til sjónarmiða og skoðana barnsins í samræmi við hagsmuni þess hverju sinni.]1)]2)
   1)L. 78/2022, 4. gr. 2)L. 37/2018, 3. gr.
[9. gr. Samningar við einkaaðila.
Sveitarfélagi eða sveitarfélögum sem standa saman að þjónustusvæði er heimilt að gera samninga við félagasamtök, sjálfseignarstofnanir eða aðra einkaaðila á þjónustusvæði sínu um að annast þjónustu samkvæmt lögum þessum. Mat á þjónustuþörf og ákvörðun um þjónustu skal þó alltaf vera á hendi sveitarfélags eða byggðasamlags. Óheimilt er að semja um veitingu þjónustu við aðra aðila en þá sem hafa fengið [rekstrarleyfi]1) skv. 10. gr. [Sveitarfélag skal tilkynna Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála um samninga sem það gerir á grundvelli þessa ákvæðis.]1)]2)
   1)L. 88/2021, 25. gr. 2)L. 37/2018, 3. gr.
[10. gr. [Rekstrarleyfi.]1)
Félagasamtök, sjálfseignarstofnanir og aðrir einkaaðilar sem ætla að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum skulu afla [rekstrarleyfis Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála].1)1)
[Um rekstrarleyfi og afturköllun þeirra fer samkvæmt ákvæðum laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.]1)
1)]2)
   1)L. 88/2021, 25. gr. 2)L. 37/2018, 3. gr.

III. kafli. Hlutverk félagsmálanefnda.
11. gr.
Hlutverk félagsmálanefnda er
   1. að fara með stjórn og framkvæmd félagsþjónustu í sveitarfélaginu í samræmi við reglur sem sveitarstjórn setur,
   2. að leitast við að tryggja að félagsleg þjónusta verði sem mest í samræmi við þarfir íbúa,
   3. að gera tillögur til sveitarstjórnar um stefnumörkun á sviði félagsþjónustu í sveitarfélaginu,
   4. að gera tillögur að fjárhagsáætlun til sveitarstjórnar um útgjaldaliði félagsmála,
   5. að vinna með öðrum opinberum aðilum, svo og félögum, félagasamtökum og einstaklingum, að því að bæta félagslegar aðstæður og umhverfi í sveitarfélaginu,
   6. að veita upplýsingar um félagsþjónustu í sveitarfélaginu,
   7. að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð með ráðgjöf, fjárhagslegri fyrirgreiðslu og annarri þjónustu,
   8. að hafa yfirumsjón með starfsemi og rekstri stofnana á sviði félagsþjónustu í umboði sveitarstjórnar,
   9. að beita sér fyrir forvörnum sem eru til þess fallnar að tryggja stöðu einstaklinga og fjölskyldna,
   [10. að vinna að samþættingu félagsþjónustu við aðra þjónustu sem er veitt í þágu barna],1)
   [11.]1) að stuðla að þjálfun og menntun starfsliðs, m.a. með námskeiðum.
   1)L. 78/2022, 5. gr.

IV. kafli. Almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga.
12. gr.
Sveitarfélag skal sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum þessum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. [Sveitarfélög skulu tryggja að stuðningur við íbúa sem hafa barn á framfæri sé í samræmi við það sem er barninu fyrir bestu.]1)
Aðstoð og þjónusta skal jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf.
   1)L. 78/2022, 6. gr.
13. gr.
Með íbúa sveitarfélags er í lögum þessum átt við hvern þann sem lögheimili á í viðkomandi sveitarfélagi.
Verði eigi upplýst um lögheimili manns er leitar aðstoðar skal honum veitt aðstoð þar sem hann dvelur.
Flytjist maður milli sveitarfélaga skal hann eiga rétt til þjónustu í því sveitarfélagi er hann flyst til þegar hann hefur tekið sér þar lögheimili. Enginn öðlast þó rétt til þjónustu eða aðstoðar í öðru sveitarfélagi með dvöl sem ekki er ígildi fastrar búsetu, sbr. lög um lögheimili [og aðsetur].1)
   1)L. 80/2018, 20. gr.
14. gr.
Þurfi fólk á aðstoð að halda utan heimilissveitar sinnar sökum slysa, veikinda eða af öðrum brýnum orsökum er dvalarsveit skylt að veita tímabundna aðstoð. Skal um það haft samráð við heimilissveit sem endurgreiðir kostnað að fullu.
15. gr.
[Erlendum ríkisborgurum sem ekki eiga lögheimili í landinu skal í sérstökum tilvikum veitt fjárhagsaðstoð hér á landi. Aðstoð skal veitt af dvalarsveitarfélagi að höfðu samráði við [ráðuneytið],1) enda hafi áður verið leitað eftir aðstoð frá heimalandi. [Ráðherra]1) er heimilt að setja nánari reglur2) um aðstoð samkvæmt ákvæði þessu.
Ríkissjóður skal endurgreiða sveitarfélagi veitta aðstoð vegna erlendra ríkisborgara í eftirfarandi tilvikum:
   a. Aðstoð við erlenda ríkisborgara sem ekki eiga lögheimili í landinu, sbr. 1. mgr.
   b. Aðstoð við erlenda ríkisborgara skv. 12.–13. gr. laganna sem átt hafa lögheimili í landinu skemur en tvö ár.]3)
   1)L. 162/2010, 8. gr. 2)Rgl. 1185/2011, sbr. rgl. 28/2013, rgl. 1208/2013 og rgl. 1189/2014. Rgl. 203/2016, sbr. rgl. 110/2017. Rgl. 520/2021, sbr. rgl. 128/2023 og rgl. 1011/2023. 3)L. 34/1997, 4. gr.

V. kafli. Félagsleg ráðgjöf.
16. gr.
Félagsmálanefndir skulu …1) bjóða upp á félagslega ráðgjöf. Markmið hennar er að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar.
   1)L. 34/1997, 5. gr.
17. gr.
Félagsleg ráðgjöf tekur m.a. til ráðgjafar á sviði fjármála, húsnæðismála, uppeldismála, skilnaðarmála, þar með talinna forsjár- og umgengnismála, ættleiðingarmála o.fl. Henni skal ætíð beitt í eðlilegu samhengi við aðra aðstoð samkvæmt lögum þessum og í samvinnu við aðra þá aðila sem bjóða upp á slíka þjónustu, svo sem skóla og heilsugæslustöðvar eftir því sem við á.
18. gr.
[Sveitarfélög skulu hafa á að skipa félagsráðgjöfum til að starfa að verkefnum samkvæmt lögum þessum. Þar sem þörf krefur skal ráða þroskaþjálfa, iðjuþjálfa, sálfræðinga og aðra sérfræðinga til starfa. Starfsfólki skal gefast kostur á að viðhalda og bæta við þekkingu sína.
Óheimilt er að ráða í störf sem unnin eru í þágu þjónustu samkvæmt lögum þessum hjá sveitarfélögum, byggðasamlögum, ríki eða einkaaðilum, hvar sem hún er veitt, þá sem hafa hlotið refsidóma vegna brota á ákvæðum XXII. kafla, 211. gr. eða 218. gr. almennra hegningarlaga. Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir brot á öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga skal meta áhrif þess á hæfi viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins. Sama gildir um verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum samkvæmt lögum þessum hjá sveitarfélögum, byggðasamlögum, ríki eða einkaaðilum sem veita fötluðu fólki þjónustu.
Stjórnendur hjá sveitarfélögum, byggðasamlögum, ríki og einkaaðilum sem fara með þjónustu samkvæmt lögum þessum eiga rétt til upplýsinga úr sakaskrá um það hvort tiltekinn umsækjandi um starf á þeirra vegum hefur hlotið dóm vegna brota á ákvæðum XXII. og XXIII. kafla almennra hegningarlaga eða öðrum ákvæðum sömu laga, að fengnu samþykki hans.]1)
   1)L. 37/2018, 4. gr.

VI. kafli. Fjárhagsaðstoð.
19. gr.
Skylt er hverjum manni að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.
[Sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón hafa samkvæmt lögum þessum einnig tveir einstaklingar sem búa saman, enda hafi óvígð sambúð þeirra verið skráð í þjóðskrá í a.m.k. eitt ár áður en umsókn er lögð fram.]1)
   1)L. 65/2010, 28. gr.
20. gr.
Um skyldur sveitarfélags til að veita fjárhagsaðstoð gilda almenn ákvæði um félagsþjónustu skv. IV. kafla.
21. gr.
[Sveitarstjórn skal setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar, sbr. 2. mgr., að fengnum tillögum félagsmálanefndar.
Félagsmálanefnd metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 1. mgr.
Fjárhagsaðstoð er aldrei skylt að veita lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram.]1)
   1)L. 34/1997, 7. gr.
22. gr.
Fjárhagsaðstoð sveitarfélags getur hvort heldur sem er verið lán eða styrkur. Fjárhagsaðstoð skal veitt sem lán ef umsækjandi óskar þess eða könnun á aðstæðum leiðir í ljós að eðlilegt er að gera kröfur um endurgreiðslu með tilliti til eigna og framtíðartekna.
[Félagsmálanefnd er óheimilt að breyta styrk í lán nema viðkomandi óski þess.]1)
   1)L. 34/1997, 8. gr.
23. gr.
Fjárhagsaðstoð, veitt á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi þess sem aðstoðina fær, er ætíð endurkræf.
24. gr.
Skylt er að veita félagsmálanefndum hverjar þær upplýsingar úr skattskýrslum þeirra sem leita fjárhagsaðstoðar eða hafa fengið hana. Sama gildir um upplýsingar úr skattskýrslum lögskylds framfæranda.
Atvinnurekendum er skylt að láta félagsmálanefndum í té upplýsingar um laun þess sem fjárhagsaðstoðar leitar og framfærenda hans.

VII. kafli. [Stuðningsþjónusta.]1)
   1)L. 37/2018, 5. gr.
[25. gr. Markmið.
Markmið stuðningsþjónustu er að aðstoða og hæfa notendur sem þurfa aðstæðna sinna vegna á stuðningi að halda við athafnir daglegs lífs og/eða til þess að rjúfa félagslega einangrun. Stuðningsþjónusta skal stefna að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi.]1)
   1)L. 37/2018, 5. gr.
[26. gr. Skyldur sveitarfélaga.
Sveitarfélagi er skylt að sjá um stuðningsþjónustu til handa þeim sem búa á eigin heimilum og þurfa aðstoð vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda eða fötlunar. Stuðningsþjónustu skal veita svæðisbundið með þeim hætti sem best hentar á hverjum stað. Aðstoð skal veitt fjölskyldum barna sem metin eru í þörf fyrir stuðning. Aðstoð skal veitt innan og utan heimilis samkvæmt reglum sem sveitarfélagið setur.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er sveitarfélagi ekki skylt að veita stuðningsþjónustu á stofnunum, svo sem sjúkrahúsi og öldrunarstofnun. Samvinna skal þó alltaf höfð við viðkomandi stofnun, sbr. 62. gr.
Ráðherra skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd stuðningsþjónustu samkvæmt þessum kafla, tímafjölda og mat á þörf fyrir þjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Sveitarstjórn skal setja nánari reglur um stuðningsþjónustu á grundvelli leiðbeininga ráðherra.
Heimilt er sveitarstjórn að taka gjald fyrir stuðningsþjónustu samkvæmt gjaldskrá.
Ákvörðun um stuðningsþjónustu skv. 1. mgr. felur í sér að aðstoð sé að jafnaði veitt í tiltekinn fjölda klukkustunda í viku hverri á grundvelli mats á stuðningsþörfum, sbr. 27. gr., og þess almenna viðmiðs að aðstoð geti numið allt að 15 stundum á viku. Um aukna þjónustuþörf fer samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.]1)
   1)L. 37/2018, 5. gr.
[27. gr. Mat á stuðningsþörfum.
Áður en aðstoð er veitt skal sá aðili sem fer með stuðningsþjónustu meta þörf í hverju einstöku tilviki. Læknisvottorð skal liggja fyrir þegar um heilsufarsástæður er að ræða.
Sé stuðningsþörf vegna fötlunar meiri en svo að henni verði mætt með þjónustu eða aðstoð samkvæmt þessum kafla skal stuðningur samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir koma til viðbótar og þjónustan samþætt í þágu notanda.]1)
   1)L. 37/2018, 5. gr.
[28. gr. Notendasamningar.
Markmið notendasamninga er að auka val einstaklinga og barnafjölskyldna um þjónustuform og fyrirkomulag stuðnings, að undangengnu faglegu mati. Notendasamningur felur í sér að notandi stjórnar því hver veitir aðstoðina, hvenær hún er veitt og hvernig, þannig að best henti hverjum og einum. Notendasamningar geta verið í formi beingreiðslusamnings, þar sem notandi sér alfarið um starfsmannahald sjálfur, eða þannig að notandi stýrir sjálfur þjónustu við sig þó að þeir sem aðstoði hann séu starfsmenn sveitarfélags.
Einstaklingar og barnafjölskyldur sem metnar hafa verið í þörf fyrir stuðningsþjónustu geta sótt um að gera notendasamning þar sem fjallað er um framkvæmd stuðningsþjónustu. Hlutaðeigandi sveitarfélag gerir slíka samninga við notendur á grundvelli reglna sem það setur.]1)
   1)L. 37/2018, 5. gr.
[29. gr. Akstursþjónusta.
Fatlað fólk skal eiga kost á akstursþjónustu sem miðar að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.
Jafnframt skal fatlað fólk eiga rétt á akstursþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar þjónustu sem það nýtur samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
Ráðherra setur nánari leiðbeiningar um akstursþjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks þar sem m.a. skal kveðið á um tilhögun á akstri utan sveitarfélags og kostnaðarskiptingu vegna akstursþjónustu í dreifbýli. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Þá er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir akstursþjónustu samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórnir skulu setja og skal gjaldið vera sambærilegt gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði.]1)
   1)L. 37/2018, 5. gr.

VIII. kafli. Málefni barna og ungmenna.
[30. gr.]1)
Félagsmálanefnd er skylt, í samvinnu við foreldra, forráðamenn og aðra þá aðila sem hafa með höndum uppeldi, fræðslu og heilsugæslu barna og ungmenna, að gæta velferðar og hagsmuna þeirra í hvívetna.
Félagsmálanefnd skal sjá til þess að börn fái notið hollra og þroskavænlegra uppvaxtarskilyrða, t.d. leikskóla og tómstundaiðju. Einnig skal félagsmálanefnd gæta þess að aðbúnaði barna sé ekki áfátt og ekki séu þær aðstæður í umhverfi barna sem þeim stafar hætta af.
   1)L. 34/1997, 9. gr.
[31. gr.]1)2)
   1)L. 34/1997, 9. gr. 2)L. 107/2021, 44. gr.
[32. gr.]1)
[Félagsþjónustunni er heimilt að fela teymi fagfólks samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir að annast mat á umönnunarþörf fatlaðra og langveikra barna vegna umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.]2)
   1)L. 34/1997, 9. gr. 2)L. 37/2018, 6. gr.
[33. gr.]1)2)
   1)L. 34/1997, 9. gr. 2)L. 37/2018, 7. gr.
[34. gr.]1)
[Félagsmálanefnd eða önnur nefnd samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar hefur umsjón með daggæslu barna í heimahúsum og rekstri gæsluvalla fyrir börn. Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála veitir rekstrarleyfi til daggæslu barna í heimahúsum og reksturs gæsluvalla fyrir börn.
[Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um starfsemi og rekstur gæsluvalla og daggæslu í heimahúsum samkvæmt þessari grein.]2)]3)
   1)L. 34/1997, 9. gr. 2)L. 10/2024, 5. gr. 3)L. 88/2021, 25. gr.

IX. kafli. 1)
   1)L. 37/2018, 7. gr.

X. kafli. Þjónusta við aldraða.
[38. gr.]1)
Sveitarstjórn skal stuðla að því að aldraðir geti búið við eðlilegt heimilislíf í umgengni við aðra svo lengi sem verða má. Jafnframt verði tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf.
[Í hverju sveitarfélagi, eða í sveitarfélögum sem eiga samstarf um öldrunarmál og þjónustu við aldraða, skal starfa formlegur samráðsvettvangur er nefnist öldungaráð, þar sem fjallað er um þjónustu við aldraða og framkvæmd og þróun öldrunarmála. Í öldungaráði skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara, auk eins fulltrúa frá heilsugæslunni. Eigi tvö eða fleiri sveitarfélög samstarf um öldrunarþjónustu skulu viðkomandi sveitarfélög og félög eldri borgara á þjónustusvæðinu koma sér saman um samsetningu öldungaráðs.]2)
   1)L. 34/1997, 9. gr. 2)L. 37/2018, 8. gr.
[39. gr.]1)
[Félagsmálanefnd, eða öldrunarmálaráð, skal leitast við að tryggja framboð á hentugu húsnæði fyrir aldraða og jafnframt skipuleggja félagslega heimaþjónustu.]2)
   1)L. 34/1997, 9. gr. 2)L. 31/1994, 2. gr.
[40. gr.]1)
Sveitarstjórn skal sjá um að félagsþjónusta aldraðra sé fyrir hendi í sveitarfélaginu eftir þörfum. Hér er m.a. átt við heimaþjónustu, félagsráðgjöf og heimsendingu matar. Jafnframt skal tryggja öldruðum aðgang að félags- og tómstundastarfi við þeirra hæfi. Í því sambandi skal lögð sérstök áhersla á fræðslu og námskeiðahald um réttindi aldraðra og aðlögun að breyttum aðstæðum sem fylgja því að hætta þátttöku á vinnumarkaði. [Sveitarfélagi er ekki skylt að veita þjónustu samkvæmt þessari grein á sjúkrahúsi eða öldrunarstofnun.]2)
   1)L. 34/1997, 9. gr. 2)L. 37/2018, 9. gr.
[41. gr.]1)
Aldraðir eiga rétt á almennri þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum þessum en að öðru leyti fer um málefni þeirra eftir sérlögum um málefni aldraðra.
   1)L. 34/1997, 9. gr.

XI. kafli. Þjónusta við [fatlað fólk].1)
   1)L. 115/2015, 9. gr.
[42. gr.]1)
Félagsmálanefnd skal vinna að því að [fötluðu fólki],2) hvort sem heldur er af líkamlegum eða andlegum ástæðum, séu tryggð sambærileg lífskjör og jafnrétti á við aðra þjóðfélagsþegna. Jafnframt skulu [fötluðu fólki]2) sköpuð skilyrði til að lifa sem eðlilegustu lífi miðað við getu hvers og eins.
[Í hverju sveitarfélagi, eða í sveitarfélögum sem eiga samstarf um þjónustu við fatlað fólk, skal starfa formlegur samráðsvettvangur er nefnist samráðshópur um málefni fatlaðs fólks þar sem fjallað er um þjónustu við fatlað fólk og framkvæmd og þróun þjónustunnar. Í samráðshópnum skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af hagsmunasamtökum fatlaðs fólks. Eigi tvö eða fleiri sveitarfélög samstarf um þjónustu við fatlað fólk skulu viðkomandi sveitarfélög og hagsmunasamtök fatlaðs fólks á þjónustusvæðinu koma sér saman um samsetningu hópsins.]3)
   1)L. 34/1997, 9. gr. 2)L. 115/2015, 9. gr. 3)L. 37/2018, 10. gr.
[43. gr.]1)2)
   1)L. 34/1997, 9. gr. 2)L. 37/2018, 11. gr.
[44. gr.]1)
[Fatlað fólk á rétt á almennri þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum þessum og skal því]2) veitt þjónusta á almennum stofnunum eftir því sem unnt er og við á.
Að öðru leyti fer um málefni [þess]2) eftir sérlögum um málefni [fatlaðs fólks].2)
3)
   1)L. 34/1997, 9. gr. 2)L. 115/2015, 9. gr. 3)L. 37/2018, 11. gr.

XII. kafli. Húsnæðismál.
[45. gr.]1)
Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.
[[Sveitarfélög skulu veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur á grundvelli leiðbeininga ráðherra um sérstakan húsnæðisstuðning skv. 4. mgr. Reglur sveitarstjórnar um sérstakan húsnæðisstuðning skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda.]2)
Sveitarfélög skulu veita foreldrum eða forsjáraðilum 15–17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum vegna náms fjarri lögheimili húsnæðisstuðning. Stuðningurinn skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjármanna og ekki yfir 75% af húsnæðiskostnaði vegna leigunnar.
[Ráðherra skal, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, gefa út leiðbeiningar til sveitarstjórna um úthlutun félagslegs íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga samkvæmt lögum þessum sem og um framkvæmd stuðnings skv. 2. og 3. mgr. ásamt viðmiðunarfjárhæðum.]2)]3)
   1)L. 34/1997, 9. gr. 2)L. 148/2019, 13. gr. 3)L. 75/2016, 32. gr.
[46. gr.]1)
Félagsmálanefndir skulu sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.
   1)L. 34/1997, 9. gr.
[47. gr.]1) [Húsnæði á vegum sveitarfélaga.
[Sveitarstjórn skal setja sér reglur á grundvelli leiðbeininga ráðherra skv. 4. mgr. 45. gr. um úthlutun félagslegs íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga samkvæmt lögum þessum, þar á meðal um meðferð umsókna, sem hafa það að markmiði að tryggja þeim sem á þurfa að halda félagslegt íbúðarhúsnæði og lágmarka biðtíma eftir slíku húsnæði eins og kostur er. Reglur sveitarstjórnar um úthlutun félagslegs íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda.]2) Jafnframt tekur sveitarstjórn afstöðu til þess hvaða aðili í stjórnkerfi sveitarfélagsins tekur ákvörðun um úthlutun. Um uppsögn leigusamnings um húsnæði sem hefur verið úthlutað á grundvelli laga þessara gilda sömu reglur og um úthlutun þess.
Um kröfur til húsnæðis á vegum sveitarfélags skv. 1. mgr. fer eftir fyrirmælum í skipulagslögum og lögum um mannvirki og reglugerðum settum samkvæmt þeim lögum. Jafnframt skal farið eftir því sem segir um sértæk húsnæðisúrræði í húsnæðisáætlun og stefnumörkun stjórnvalda um ráðstöfun stofnframlaga.]3)
   1)L. 34/1997, 9. gr. 2)L. 148/2019, 13. gr. 3)L. 37/2018, 12. gr.

XIII. kafli. [Vímuvarnir og aðstoð við einstaklinga með fíknivanda.]1)
   1)L. 37/2018, 15. gr.
[48. gr.]1)
Heimilt er sveitarstjórnum að fela félagsmálanefndum lögbundin verkefni áfengisvarnarnefndar, sbr. áfengislög, nr. 82/1969,2) að hluta til eða að öllu leyti.
   1)L. 34/1997, 13. gr. 2)l. 75/1998.
[49. gr.]1)
Félagsmálanefndir skulu stuðla að forvörnum í áfengis- og vímugjafamálum í samstarfi við viðeigandi aðila, svo sem lögreglu, heilbrigðisþjónustu og skóla.
   1)L. 34/1997, 13. gr.
[50. gr.]1)
[Félagsmálanefndir skulu aðstoða þá sem eiga við fíknivanda að stríða við að leita sér viðeigandi meðferðar og aðstoðar.]2) Þá skal veita aðstandendum og fjölskyldum [þeirra sem eiga við fíknivanda að stríða]2) ráðgjöf og aðstoð eftir því sem við á.
   1)L. 34/1997, 13. gr. 2)L. 37/2018, 13. gr.
[51. gr.]1)
Félagsmálanefndir skulu stuðla að því að [einstaklingar með fíknivanda],2) sem fengið hafa meðferð og læknishjálp, fái nauðsynlegan stuðning og aðstoð til að lifa eðlilegu lífi að meðferð lokinni.
   1)L. 34/1997, 13. gr. 2)L. 37/2018, 14. gr.

XIV. kafli. 1)
   1)L. 37/2018, 16. gr.

XV. kafli. Starfshættir félagsmálanefnda.
[55. gr.]1)
Um félagsmálanefndir og starfslið sveitarfélaga gilda ákvæði VI. og VII. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986,2) og ákvæði IV. og V. kafla sömu laga eftir því sem við á.
Að öðru leyti gilda ákvæði laga þessara og reglna sem sveitarstjórnir setja um félagsmálanefndir, starfssvið þeirra og meðferð mála.
   1)L. 34/1997, 13. gr. 2)l. 45/1998.

XVI. kafli. Almennar reglur um meðferð einstakra mála.
[56. gr.]1)
Berist félagsmálanefnd umsókn um aðstoð samkvæmt lögum þessum skal nefndin kanna aðstæður umsækjanda eins fljótt og unnt er.
Fái félagsmálanefnd með öðrum hætti upplýsingar um nauðsyn á aðstoð eða aðgerðum skal mál kannað með sama hætti.
   1)L. 34/1997, 13. gr.
[57. gr.]1)
[Að því marki sem nauðsynlegt er vegna vinnslu umsókna um þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum þessum skulu félagsmálanefndir og starfsmenn þeirra óska eftir upplýsingum frá umsækjanda, opinberum aðilum og einkaaðilum um aðstæður umsækjanda, svo sem um tekjur, gjöld, eignir, skuldir, ábyrgðir og framfærslu- og húsnæðiskostnað. Ber framangreindum aðilum að veita umbeðnar upplýsingar án endurgjalds búi þeir yfir þeim.
Þá er heimilt að kalla eftir læknisvottorði frá lækni umsækjanda eða trúnaðarlækni sveitarfélags þegar um er að ræða umsóknir sem eru tilkomnar vegna heilsufarslegra ástæðna.
Félagsmálanefndum og starfsmönnum þeirra ber að upplýsa umsækjanda um fyrirhugaða upplýsingaöflun samkvæmt ákvæði þessu í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sbr. 14. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679.]2)
   1)L. 34/1997, 13. gr. 2)L. 48/2019, 12. gr.
[58. gr.]1)
Við meðferð mála og ákvörðunartöku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við skjólstæðing eftir því sem unnt er, að öðrum kosti við talsmann ef hann er fyrir hendi. [Barn á rétt á að láta í ljós skoðanir sínar á málum sem það varða miðað við aldur þess og þroska.]2)
Sé talið nauðsynlegt vegna almannahagsmuna eða velferðar viðkomandi einstaklings að hafa uppi þvingunaraðgerðir skal með þau mál farið eftir ákvæðum laga um lögræði, laga um vernd barna og ungmenna og annarra þeirra laga er slíkar heimildir veita.
Kynna skal niðurstöðu mála eins fljótt og unnt er. Ef niðurstaða er umsækjanda óhagstæð skal hún skýrð og rökstudd og tilkynnt honum tryggilega. Í slíku tilfelli getur umsækjandi eða talsmaður hans krafist skriflegs rökstuðnings. Sé um skerðingu á réttindum skjólstæðings að ræða skal niðurstaða ávallt rökstudd skriflega og tilkynnt með sérstökum tryggilegum hætti.
   1)L. 34/1997, 13. gr. 2)L. 19/2013, 4. gr.
[59. gr.]1)
Skjólstæðingur á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að svo miklu leyti sem það stangast ekki á við trúnað gagnvart öðrum.
   1)L. 34/1997, 13. gr.
[60. gr.]1)
Fulltrúar í félagsmálanefndum og starfsmenn skulu varðveita málsgögn, er varða persónulega hagi einstaklinga, með tryggilegum hætti þannig að óviðkomandi fái þar ekki aðgang. Hafi þeir kynnst einkamálum skjólstæðinga í starfi er þeim óheimilt að ræða þau mál við óviðkomandi aðila nema að fengnu samþykki skjólstæðings eða forráðamanna hans.
   1)L. 34/1997, 13. gr.
[61. gr.]1)
Kynna skal aðila sérstaklega rétt hans til málskots.
   1)L. 34/1997, 13. gr.
[62. gr.]1)
Opinberir aðilar, [þ.m.t. stofnanir ríkisins],2) sem fást við verkefni eða reka stofnanir á sviði félagsþjónustu sveitarfélaga eða fara með verkefni sem tengjast henni, skulu hafa sem nánasta samvinnu bæði hvað varðar skipulag þjónustu og málefni einstakra skjólstæðinga.
3)
   1)L. 34/1997, 13. gr. 2)L. 37/2018, 17. gr. 3)L. 48/2019, 13. gr.

XVII. kafli. 1)
   1)L. 88/2021, 25. gr.

[XVIII. kafli. Ýmis ákvæði.]1)
   1)L. 34/1997, 17. gr.
[66. gr.
Veitt aðstoð til íslenskra ríkisborgara hjá umboðsmönnum ríkisins erlendis og kostnaður við heimferð greiðist úr ríkissjóði. [Ráðherra]1) er heimilt að setja reglur2) um aðstoð samkvæmt ákvæði þessu.]3)
   1)L. 162/2010, 8. gr. 2)Rg. 606/2018. 3)L. 34/1997, 17. gr.
Gildistaka.
[67. gr.]1)
Lög þessi öðlast þegar gildi.
   1)L. 34/1997, 17. gr.
Ákvæði til bráðabirgða.
Lög þessi skal endurskoða innan fimm ára frá gildistöku þeirra.