Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Skaðabótalög
1993 nr. 50 19. maí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. júlí 1993. Breytt með:
L. 42/1996 (tóku gildi 1. júlí 1996).
L. 149/1997 (tóku gildi 14. jan. 1998).
L. 37/1999 (tóku gildi 1. maí 1999).
L. 111/2000 (tóku gildi 1. jan. 2001).
L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008).
L. 53/2009 (tóku gildi 1. maí 2009).
L. 124/2009 (tóku gildi 30. des. 2009).
L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011).
L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
L. 88/2015 (tóku gildi 1. jan. 2016).
L. 59/2022 (tóku gildi 1. júní 2023).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Bætur fyrir líkamstjón.
Líkamstjón sem veldur ekki dauða.
1. gr.
Sá sem bótaábyrgð ber á líkamstjóni skal greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hlýst og enn fremur þjáningabætur.
Ef líkamstjón hefur varanlegar afleiðingar skal einnig greiða bætur fyrir miska og bætur fyrir örorku, þ.e. varanlegan missi eða skerðingu á getu til að afla vinnutekna.
Verðmæti vinnu við heimilisstörf skal lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr.
Tímabundið atvinnutjón.
2. gr.
[Bætur fyrir atvinnutjón skal ákveða fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til heilsufar hans er orðið stöðugt.]1)
Frá skaðabótum skal draga laun í veikinda- eða slysaforföllum, [60% af greiðslu frá lífeyrissjóði, greiðslur frá sjúkrasjóði],1) dagpeninga og aðrar bætur frá opinberum tryggingum fyrir tímabundið atvinnutjón og vátryggingabætur þegar greiðsla vátryggingafélags er raunveruleg skaðabót, svo og sambærilegar greiðslur sem tjónþoli fær vegna þess að hann er ekki fullvinnufær.
1)L. 37/1999, 1. gr.
Þjáningar.
3. gr.
[Greiða skal þjáningabætur fyrir tímabilið frá því að tjón varð þar til heilsufar tjónþola er orðið stöðugt, 1.300 kr. fyrir hvern dag sem hann er rúmfastur og 700 kr. fyrir hvern dag sem hann er veikur án þess að vera rúmfastur. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að greiða þjáningabætur þótt tjónþoli sé vinnufær.]1) Nemi bætur meira en 200.000 kr. er heimilt að víkja frá fjárhæðum þeim sem greinir í 1. málsl.
[Um greiðslur frá þriðja manni fer eftir ákvæðum 1., 3., 4. og 5. málsl. 4. mgr. 5. gr.]2)
1)L. 37/1999, 2. gr. 2)L. 111/2000, 24. gr.
Varanlegur miski.
4. gr.
[Þegar fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska er ákveðin skal litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það veldur í lífi tjónþola. Varanlegur miski skal metinn til stiga og skal miða við heilsufar tjónþola eins og það er þegar það er orðið stöðugt.
Bætur fara eftir aldri tjónþola á tjónsdegi og skulu vera þessar fyrir algeran, 100 stiga, miska:
Aldur | Krónur | Aldur | Krónur |
49 ára og yngri | 4.000.000 | 62 ára | 3.480.000 |
50 ára | 3.960.000 | 63 ára | 3.440.000 |
51 árs | 3.920.000 | 64 ára | 3.400.000 |
52 ára | 3.880.000 | 65 ára | 3.360.000 |
53 ára | 3.840.000 | 66 ára | 3.320.000 |
54 ára | 3.800.000 | 67 ára | 3.280.000 |
55 ára | 3.760.000 | 68 ára | 3.240.000 |
56 ára | 3.720.000 | 69 ára | 3.200.000 |
57 ára | 3.680.000 | 70 ára | 3.160.000 |
58 ára | 3.640.000 | 71 árs | 3.120.000 |
59 ára | 3.600.000 | 72 ára | 3.080.000 |
60 ára | 3.560.000 | 73 ára | 3.040.000 |
61 árs | 3.520.000 | 74 ára eða eldri | 3.000.000 |
Við lægra miskastig lækka fjárhæðir þessar í réttu hlutfalli. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að ákveða hærri bætur, allt að 50% hærri en samkvæmt töflunni.
Um greiðslur frá þriðja manni fer eftir 4. mgr. 5. gr.]1)
1)L. 37/1999, 3. gr.
Varanleg örorka.
5. gr.
[Valdi líkamstjón, þegar heilsufar tjónþola er orðið stöðugt, varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna á tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku.]1)
Þegar tjón vegna örorku er metið skal líta til þeirra kosta sem tjónþoli á til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við.
Örorka tjónþola reiknast í hundraðshlutum (örorkustigum).
[Frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragast [eingreiddar örorkubætur [slysatrygginga samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga],2)]3) bætur frá slysatryggingu ökumanns eftir umferðarlögum og bætur frá sams konar slysatryggingu manns er slasast sem farþegi í eigin ökutæki. Greiðslur frá samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega dragast frá skaðabótakröfu hans á hendur vinnuveitanda þeim sem slysatrygginguna keypti. [Bætur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu skal einnig draga frá skaðabótakröfu.]4) Jafnframt skal draga frá skaðabótakröfu 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skal við útreikninginn miðað við 4,5% ársafvöxtun. Aðrar greiðslur sem tjónþoli fær frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem lífeyrissjóði eða vátryggingafélagi, dragast ekki frá skaðabótakröfu.]1)
1)L. 37/1999, 4. gr. 2)L. 88/2015, 25. gr. 3)L. 53/2009, 1. gr. 4)L. 111/2000, 24. gr.
6. gr.
[Bætur fyrir varanlega örorku skal meta til fjárhæðar á grundvelli örorkustigs tjónþola skv. 5. gr., árslauna hans skv. 7. gr. og eftirfarandi töflu, þannig að margfölduð séu saman örorkustig, árslaun og stuðull töflunnar í samræmi við aldur tjónþola á þeim tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við:
Aldur | Stuðull | Aldur | Stuðull | Aldur | Stuðull |
0 | 11,438 | 25 | 15,101 | 50 | 7,834 |
1 | 11,746 | 26 | 14,567 | 51 | 7,626 |
2 | 12,064 | 27 | 14,161 | 52 | 7,370 |
3 | 12,389 | 28 | 13,750 | 53 | 7,139 |
4 | 12,724 | 29 | 13,474 | 54 | 6,932 |
5 | 13,067 | 30 | 12,813 | 55 | 6,678 |
6 | 13,420 | 31 | 12,595 | 56 | 6,378 |
7 | 13,782 | 32 | 12,367 | 57 | 6,037 |
8 | 14,155 | 33 | 12,150 | 58 | 5,687 |
9 | 14,537 | 34 | 11,915 | 59 | 5,329 |
10 | 14,929 | 35 | 11,678 | 60 | 4,960 |
11 | 15,332 | 36 | 11,433 | 61 | 4,581 |
12 | 15,746 | 37 | 11,180 | 62 | 4,211 |
13 | 16,171 | 38 | 10,988 | 63 | 3,841 |
14 | 16,608 | 39 | 10,784 | 64 | 3,451 |
15 | 17,057 | 40 | 10,577 | 65 | 3,038 |
16 | 17,517 | 41 | 10,358 | 66 | 2,567 |
17 | 17,990 | 42 | 10,083 | 67 | 2,067 |
18 | 18,476 | 43 | 9,851 | 68 | 1,994 |
19 | 18,031 | 44 | 9,565 | 69 | 1,902 |
20 | 17,572 | 45 | 9,265 | 70 | 1,783 |
21 | 17,106 | 46 | 9,014 | 71 | 1,626 |
22 | 16,626 | 47 | 8,750 | 72 | 1,412 |
23 | 16,130 | 48 | 8,440 | 73 | 1,109 |
24 | 15,619 | 49 | 8,116 | 74 | 0,667 |
Sé tjónþoli orðinn 75 ára á þeim tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við, en hafi stundað vinnu þegar tjón varð, skal ákvarða honum bætur skv. 1. mgr. og skal þá notaður margfeldisstuðullinn 0,667.
Bótafjárhæðin skal greidd í einu lagi.]1)
1)L. 37/1999, 5. gr.
7. gr.
[Árslaun til ákvörðunar bóta skv. 6. gr. skulu teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.
Árslaun skulu þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.
Þrátt fyrir ákvæði 1.–2. mgr. skal ekki miða við lægri árslaun en tilgreint er í þessari töflu:
Aldur | Kr. |
66 ára og yngri | 1.200.000 |
67 ára | 1.100.000 |
68 ára | 1.000.000 |
69 ára | 900.000 |
70 ára | 800.000 |
71 árs | 700.000 |
72 ára | 600.000 |
73 ára | 500.000 |
74 ára | 400.000 |
Ekki skal miða við hærri árslaun en 4.500.000 kr.]1)
1)L. 37/1999, 6. gr.
8. gr.
[Bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skal ákvarða á grundvelli örorkustigs skv. 5. gr. Bætur skulu ákveðnar eftir reglum 5.–7. gr.]1)
1)L. 37/1999, 7. gr.
9. gr.
[Í 4. og 6. gr. eru töflugildin miðuð við upphaf aldursárs. Við útreikning bóta skal reiknað með að margfeldisstuðull breytist hlutfallslega jafnt milli töflugilda.]1)
1)L. 37/1999, 8. gr.
[Mat á örorku. Örorkunefnd.]1)
1)L. 37/1999, 9. gr.
10. gr.
[Þegar fyrir liggur sérfræðilegt álit um örorku- og/eða miskastig tjónþola, eða þá læknisfræðilegu þætti skv. 2. og 3. gr. sem meta þarf til þess að uppgjör bóta samkvæmt lögum þessum geti farið fram, getur hvor um sig, tjónþoli eða sá sem krafinn er bóta, borið álitið undir örorkunefnd. Heimilt er að óska álits örorkunefndar um ákvörðun örorku- og/eða miskastigs, án þess að fyrir liggi sérfræðilegt álit, ef málsaðilar standa sameiginlega að slíkri beiðni.
Í örorkunefnd eiga sæti þrír menn sem skipaðir eru af [ráðherra]1) til sex ára í senn. Skulu tveir nefndarmanna vera læknar, en einn lögfræðingur og er hann formaður nefndarinnar. Formaður skal fullnægja skilyrðum laga til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara. Ráðherra skipar varamenn eftir sömu reglum og aðalmenn. Ráðherra er heimilt, að ósk nefndarinnar, að fjölga nefndarmönnum tímabundið í því skyni að tryggja að afgreiðsla mála dragist ekki. Um hæfi nefndarmanna til þess að fara með mál skal fara eftir reglum laga um sérstakt hæfi dómara.
Örorkunefnd skal semja töflur um miskastig.
Ráðherra setur reglugerð2) um starfsháttu örorkunefndar. Í reglugerðinni skal m.a. vera heimild fyrir nefndina til þess að kveðja lækna og aðra sérfróða menn til starfa í þágu nefndarinnar og jafnframt ákveðið hvernig staðið skuli að birtingu helstu álitsgerða hennar. Í reglugerð skal og kveða á um gjald fyrir álitsgerðir nefndarinnar.]3)
1)L. 126/2011, 178. gr. 2)Rg. 335/1993, sbr. 19/1996, 549/1996, 594/2001, 338/2005, 183/2008, 183/2016 og 77/2021. 3)L. 37/1999, 9. gr.
Endurupptaka.
11. gr.
Að kröfu tjónþola er heimilt að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur. Skilyrði endurupptöku er að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Ef mál er endurupptekið er heimilt að skjóta ákvörðun um miskastig eða örorkustig aftur til úrlausnar örorkunefndar, sbr. 10. gr.
Missir framfæranda o.fl.
12. gr.
Sá sem skaðabótaábyrgð ber á dauða annars manns skal greiða hæfilegan útfararkostnað. Auk þess skal hann greiða þeim sem misst hefur framfæranda bætur fyrir tjón það er ætla má að af því leiði fyrir hann. Til framfærslu telst einnig verðmæti vinnu hins látna við heimilisstörf.
Um greiðslur frá þriðja manni fer eftir ákvæðum 4. mgr. 5. gr.
Bætur til maka eða sambúðarmaka.
13. gr.
Bætur fyrir missi framfæranda til maka eða sambúðarmaka skulu vera 30% af bótum þeim sem ætla má að hinn látni mundi hafa átt rétt á fyrir algera (100%) örorku, sbr. 5.–8. gr., [án frádráttar].1) Bætur skulu þó nema ekki minni fjárhæð en 3.000.000 kr. nema sérstaklega standi á.
…2)
1)L. 53/2009, 2. gr. 2)L. 37/1999, 10. gr.
Bætur til barns.
14. gr.
Bætur fyrir missi framfæranda til eftirlifandi barns, sem hinum látna var lögskylt að framfæra, skulu vera jafnháar heildarfjárhæð þeirra barnalífeyrisgreiðslna er barnið á rétt á eftir lögum um almannatryggingar frá því að tjón varð til 18 ára aldurs. Hafi hinn látni verið eini framfærandi barns hækka bætur um 100%.
Reikna skal fjárhæð barnalífeyris eins og hann er við andlát framfæranda.
Verðlagsbreytingar.
15. gr.
Fjárhæðir bóta, sem greindar eru í 3. gr., 1. mgr. 4. gr., 3. mgr. 7. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 13. gr., breytast mánaðarlega í hlutfalli við breytingar sem verða á lánskjaravísitölu frá gildistöku laganna. Fjárhæð skal hverju sinni hækka eða lækka þannig að hún standi á heilu eða hálfu þúsundi króna. Bótafjárhæðir þær, sem greinir í 1. málsl. 3. gr., skulu þó hækka eða lækka svo að fjárhæð standi á heilum tug króna.
Bætur skv. 1. mgr. skal ákveða á grundvelli fjárhæða sem gilda þegar bótafjárhæð er ákveðin. …1)
1)L. 37/1999, 11. gr.
Vextir.
16. gr.
[Bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska, tímabundið atvinnutjón og missi framfæranda bera vexti frá því að tjón varð. Bætur fyrir varanlega örorku bera vexti frá upphafsdegi metinnar örorku skv. 5. gr. Vextirnir skulu nema 4,5% á ári.]1)
Um dráttarvexti fer eftir reglum vaxtalaga.
1)L. 37/1999, 12. gr.
Endurkrafa.
17. gr.
Endurkrafa vegna greiðslu bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar verður ekki gerð á hendur þeim sem er skaðabótaskyldur. Sama á við um bótagreiðslur lífeyrissjóða eða vátrygginga og skiptir ekki máli hvers eðlis vátryggingin er, sbr. 2. mgr. 22. gr.
Vinnuveitandi, sem greitt hefur slasaða eða þeim sem misst hefur framfæranda laun eða aðrar launatengdar greiðslur vegna líkamstjóns, getur krafið hinn skaðabótaskylda um endurgreiðslu að því marki sem vinnuveitandi hefur orðið fyrir fjártjóni vegna slíkra greiðslna.
Aðilaskipti að bótakröfu.
18. gr.
Ekki er heimilt að framselja kröfu um bætur fyrir líkamstjón nema hún sé viðurkennd eða dæmd.
Krafa um bætur fyrir þjáningar eða varanlegan miska erfist hafi hún verið viðurkennd, einkamál verið höfðað til heimtu hennar eða viðurkenningar eða hún hefur verið gerð fyrir dómi í [sakamáli].1)
Bætur, sem greindar eru í 1. mgr. og telja má að ekki hafi verið eytt, koma ekki til skipta við fjárslit milli hjóna. Bæturnar teljast hjúskapareign þegar eigandi bótanna andast nema þær séu séreign samkvæmt kaupmála.
Reglur 1. og 3. mgr. eiga ekki við um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón.
1)L. 88/2008, 234. gr.
II. kafli. Skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem vátrygging tekur til.
19. gr.
Skaðabótaréttur stofnast ekki vegna tjóns sem munatrygging eða rekstrarstöðvunartrygging tekur til.
Regla 1. mgr. á ekki við ef
1. hinn skaðabótaskyldi hefur valdið tjóninu af ásetningi eða stórfelldu gáleysi eða
2. tjóninu er valdið í opinberri starfsemi eða í einkaatvinnurekstri eða sambærilegum rekstri.
Hafi starfsmaður valdið tjóni sem munatrygging, rekstrarstöðvunartrygging eða ábyrgðartrygging vinnuveitanda hans tekur til er starfsmaðurinn ekki skaðabótaskyldur nema tjónið verði rakið til ásetnings eða stórfellds gáleysis.
20. gr.
Um skaðabótarétt ríkissjóðs, sveitarfélags eða annars opinbers aðila, sem kaupir almennt ekki vátryggingu og hefur því hagsmuni sína í eigin áhættu, fer með sama hætti og vátrygging hefði verið keypt, sbr. 19. gr.
21. gr.
Ákvæði 19. og 20. gr. eiga ekki við um skaðabótakröfur samkvæmt
1. skaðabótareglum umferðarlaga,
2. lögum um flutningssamninga og ábyrgð við vöruflutninga á landi,
3. lögum um loftferðir,
4. siglingalögum eða
5. alþjóðasamningi um ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar, gerðum í Brussel 29. nóvember 1969.
22. gr.
Stofnist skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem skaðatrygging tekur til öðlast vátryggingafélagið rétt tjónþola á hendur hinum skaðabótaskylda að svo miklu leyti sem það hefur greitt bætur.
Sé um líftryggingu, slysa- eða sjúkratryggingu að ræða á félagið enga kröfu á hendur hinum skaðabótaskylda og skiptir ekki máli hvers eðlis vátryggingin er.
III. kafli. Ýmis ákvæði.
Bótaábyrgð starfsmanns.
23. gr.
Bætur, sem vinnuveitandi hefur greitt vegna saknæmrar hegðunar starfsmanns, er aðeins unnt að krefja starfsmanninn um að því marki sem telja má sanngjarnt þegar litið er til sakar og stöðu starfsmannsins og atvika að öðru leyti.
Skaðabótaábyrgð starfsmanns gagnvart tjónþola má skerða eða fella niður ef það verður talið sanngjarnt þegar litið er til atvika sem getið er í 1. mgr. og hagsmuna tjónþola. Bætur, sem starfsmaður hefur greitt, getur hann krafið úr hendi vinnuveitanda að því marki sem bótaábyrgð hvílir endanlega á vinnuveitanda eftir 1. mgr.
Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um kröfu vinnuveitanda á hendur starfsmanni vegna tjóns sem starfsmaðurinn veldur vinnuveitanda í starfi sínu.
[23. gr. a. Meðábyrgð starfsmanns vegna líkamstjóns í vinnuslysum.
Nú verður starfsmaður fyrir líkamstjóni í starfi sínu og skerðist þá ekki réttur hans til skaðabóta vegna meðábyrgðar nema hann hafi af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi átt þátt í að tjónsatburður varð.
Ef starfsmaður sem 1. mgr. tekur til deyr af völdum tjónsatburðar skulu bætur sem greiðast þeim er misst hafa framfæranda ekki skerðast vegna meðábyrgðar hins látna, nema hann hafi átt þátt í dauða sínum af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi.]1)
1)L. 124/2009, 1. gr., sbr. einnig 2. gr. s.l.
Almenn lækkunarregla.
24. gr.
Lækka má bótafjárhæð eða fella niður skaðabótaábyrgð ef ábyrgðin yrði hinum bótaskylda svo þungbær að ósanngjarnt má telja eða álíta verður að öðru leyti skerðingu eða niðurfellingu sanngjarna vegna mjög óvenjulegra aðstæðna. Þegar metið er hvort ástæða sé til að beita heimildinni skal líta til þess hve mikið tjónið er, eðlis bótaábyrgðar, aðstæðna tjónvalds, hagsmuna tjónþola, vátrygginga aðila og annarra atvika.
Þegar skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi má að nokkru eða öllu líta fram hjá því að tjónþoli er meðvaldur að tjóni. Regla þessi á einnig við um kröfu manns er misst hefur framfæranda sem var meðvaldur að dauða sínum.
Fleiri en einn bótaábyrgir.
25. gr.
Beri tveir eða fleiri óskipta bótaábyrgð skal ábyrgð þeirra innbyrðis skiptast eftir því sem sanngjarnt þykir þegar litið er til eðlis skaðabótaábyrgðar þeirra og atvika að öðru leyti.
Taki ábyrgðartrygging eins eða fleiri hinna bótaábyrgu til tjónsins skal fara eftir ákvæðum 1. og 2. mgr. 19. gr. og 21. gr. Í tilvikum, sem nefnd eru í 1. eða 2. tölul. 2. mgr. 19. gr. eða 21. gr., má, þegar bótaábyrgð er deilt á hina bótaábyrgu, taka tillit til ábyrgðartrygginga sem þeir höfðu. Þetta gildir einnig þegar ákvæði 20. gr. eiga við.
Bætur fyrir miska.
26. gr.
[Heimilt er að láta þann sem:
a. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni eða
b. ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns
greiða miskabætur til þess sem misgert var við.
Þeim sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur dauða annars manns má gera að greiða maka, börnum eða foreldrum miskabætur.]1)
1)L. 37/1999, 13. gr.
Bann gegn því að víkja frá lögunum með samningi.
27. gr.
Eigi má, áður en tjón verður, víkja með samningi frá reglum 1.–16. gr., 2. mgr. 24. gr. eða 26. gr. laga þessara ef það er í óhag þeim sem á skaðabótarétt.
Eigi má, áður en tjón verður, víkja með samningi frá reglum 1. mgr. 17. gr., 1. eða 3. mgr. 19. gr., 20. gr., 2. mgr. 22. gr., 23. gr., 1. mgr. 24. gr. eða 25. gr. laga þessara ef það er í óhag hinum skaðabótaskylda. Þó má víkja frá 25. gr. að því er varðar tjón sem valdið er í opinberri starfsemi eða í einkaatvinnurekstri eða sambærilegum rekstri.
[27. gr. a. Gjafsókn.
Stefnandi dómsmáls sem höfðað er til greiðslu skaða- eða miskabóta vegna háttsemi sem hefur verið til rannsóknar lögreglu sem hugsanlegt brot gegn 194.–198., 200.–202. og 218. gr. b almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, skal hafa gjafsókn í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti ef málstaður stefnanda gefur nægilegt tilefni til. Gjafsóknarnefnd tekur ákvörðun um veitingu gjafsóknar samkvæmt ákvæðinu.]1)
1)L. 59/2022, 1. gr.
IV. kafli. Gildistaka o.fl.
28. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1993 og eiga við um skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem verður eftir gildistöku laganna.
[29. gr.
Fjárhæðir samkvæmt lögum þessum eru miðaðar við lánskjaravísitölu eins og hún var 1. júlí 1993 (3282) og taka þær sömu breytingum og mælt er fyrir um í 15. gr., sbr. einnig lög nr. 12/1995, um vísitölu neysluverðs.]1)
1)L. 37/1999, 14. gr.
Brottfall lagaákvæða.
[30. gr.]1) …
1)L. 37/1999, 14. gr.
Ákvæði til bráðabirgða. …1)
1)L. 37/1999, 15. gr.