Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um réttaraðstoð við alþjóðadómstólinn sem fjallar um stríðsglæpi í fyrrum Júgóslavíu
1994 nr. 49 9. maí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 20. maí 1994. Breytt með:
L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008).
L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011).
L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Gildissvið o.fl.
1. gr.
Ef alþjóðadómstóllinn, sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna setti á stofn til að fjalla um mál manna sem eru grunaðir um, ákærðir eða dæmdir fyrir alvarleg brot á alþjóðlegum mannúðarreglum, framin í fyrrum Júgóslavíu, fer þess á leit að hér á landi fari fram aðgerðir vegna rannsóknar eða meðferðar máls skal farið með slíkar beiðnir í samræmi við ákvæði þessara laga. Sama gildir um fullnustu dóma alþjóðadómstólsins.
2. gr.
Beiðni samkvæmt lögum þessum getur borist hvort sem er frá deildum dómstólsins eða saksóknara hans. Beiðni skal send [ráðherra]1) sem hefur að öðru leyti forræði á samskiptum við alþjóðadómstólinn.
1)L. 126/2011, 188. gr.
II. kafli. Framsal.
3. gr.
Fari alþjóðadómstóllinn fram á að maður, grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir verknað sem fellur undir lögsögu dómstólsins og er staddur innan lögsögu íslenska ríkisins, verði framseldur til dómstólsins skal [ráðherra]1) verða við slíkri beiðni.
Þegar beiðni um framsal skv. 1. mgr. er athuguð skulu ákvarðanir dómstólsins um handtöku eða gæsluvarðhald eða tilkynning um dóm lagðar til grundvallar.
[Ráðherra]1) getur hafnað beiðni ef ráða má af henni eða öðrum gögnum að hún sé bersýnilega röng.
1)L. 162/2010, 132. gr.
4. gr.
Sé beiðni ekki þegar hafnað skv. 3. mgr. 3. gr. skal hún send ríkissaksóknara sem sér um að nauðsynleg rannsókn og aðgerðir verði framkvæmdar.
Ákvæði [laga um meðferð sakamála]1) gilda um rannsókn. Sama gildir um meðferð kröfu fyrir dómi skv. 5.–7. gr.
1)L. 88/2008, 234. gr.
5. gr.
Heimilt er að handtaka þann sem óskast framseldur og setja í gæsluvarðhald eða beita hann öðrum þvingunaraðgerðum samkvæmt [lögum um meðferð sakamála].1)
Gæsluvarðhaldi eða beitingu annarra þvingunaraðgerða skal markaður ákveðinn tími sem má ekki vara lengur en þar til endanleg ákvörðun er tekin um að hafna beiðni um framsal eða ákvörðun um framsal er framkvæmd.
Sá sem úrskurðaður er í gæsluvarðhald vegna beiðni um framsal getur þegar 30 dagar eru liðnir frá úrskurði krafist úrskurðar um hvort hann skuli sitja áfram í gæsluvarðhaldi.
1)L. 88/2008, 234. gr.
6. gr.
Þegar alþjóðadómstóllinn hefur lýst eftir manni sem er staddur hér á landi og heimilt er að framselja samkvæmt lögum þessum má handtaka hann, setja í gæsluvarðhald eða beita hann öðrum þvingunarráðstöfunum samkvæmt [lögum um meðferð sakamála].1) Slíkar aðgerðir skulu þegar tilkynntar [ráðherra].2)
Gæsluvarðhaldi eða öðrum þvingunarráðstöfunum skv. 1. mgr. verður ekki beitt um lengri tíma en 30 daga nema beiðni um framsal berist innan þess tíma. Gilda þá ákvæði 3.–5. gr.
1)L. 88/2008, 234. gr. 2)L. 162/2010, 132. gr.
7. gr.
Að lokinni rannsókn og öðrum nauðsynlegum aðgerðum tekur [ráðherra]1) ákvörðun um hvort af framsali til alþjóðadómstólsins verði og með hvaða hætti.
Maður sá, sem framselja á, getur krafist úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga fyrir framsali séu fyrir hendi. Skal honum kynnt þessi heimild. Krafa um úrskurð skal berast ríkissaksóknara eða [ráðherra]1) eigi síðar en einum sólarhring eftir að honum er tilkynnt að ákveðið hafi verið að verða við beiðni um framsal. Hafi úrskurðar verið krafist skal framsal ekki fara fram fyrr en endanlegur dómsúrskurður hefur verið kveðinn upp.
Þegar maður er framseldur frá öðru ríki til alþjóðadómstólsins er heimilt að flytja hann um íslenskt yfirráðasvæði.
1)L. 162/2010, 132. gr.
III. kafli. Beiðnir um aðra réttaraðstoð.
8. gr.
Þegar alþjóðadómstóllinn biður um að aðgerðir vegna rannsóknar fari fram hér á landi í máli sem fellur undir lögsögu dómstólsins skal verða við beiðni og hún send ríkissaksóknara til meðferðar. Ríkissaksóknari ákveður hvernig staðið skuli að rannsókn máls og hverjum skuli falin rannsóknin. Rannsókn skal fara fram samkvæmt ákvæðum [laga um meðferð sakamála].1)
1)L. 88/2008, 234. gr.
9. gr.
Þegar alþjóðadómstóllinn fer þess á leit að skýrsla verði tekin af manni fyrir dómi skal ríkissaksóknari senda beiðni þar um til viðkomandi héraðsdómstóls og skal skýrslutaka fara þar fram í samræmi við ákvæði [laga um meðferð sakamála].1)
1)L. 88/2008, 234. gr.
10. gr.
Saksóknarinn við alþjóðadómstólinn eða fulltrúi hans á rétt á að vera viðstaddur skýrslutöku fyrir lögreglu eða dómi og við framkvæmd annarra rannsóknaraðgerða samkvæmt þessum kafla laganna.
IV. kafli. Flutningur á frjálsræðissviptum manni til skýrslugjafar.
11. gr.
[Ráðherra]1) getur ákveðið að maður, sem sviptur er frjálsræði hér á landi, verði fluttur til alþjóðadómstólsins til skýrslutöku eða samprófunar vegna rannsóknar máls eða málsmeðferðar ef skýrslutakan eða samprófunin varðar brot annars manns en hins frjálsræðissvipta. Flutningur er þó aðeins heimill að viðkomandi maður samþykki það sjálfur.
1)L. 162/2010, 132. gr.
V. kafli. Fullnusta dóma alþjóðadómstólsins.
12. gr.
Samkvæmt beiðni alþjóðadómstólsins er heimilt að fullnægja hér á landi dómum hans. Þegar fullnusta á dómum alþjóðadómstólsins fer fram hér á landi gilda ákvæði laga um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, eftir því sem við á. Dómum má fullnægja þótt dómþoli sé ekki íslenskur ríkisborgari eða búsettur hér á landi.
Þegar fullnægja á viðurlögum samkvæmt dómum alþjóðadómstólsins hér á landi gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 23. gr. laga um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma.
Alþjóðadómstóllinn tekur ákvörðun um eftirgjöf refsingar.
VI. kafli. Önnur ákvæði.
13. gr.
Maður verður ekki ákærður eða dæmdur hér á landi fyrir verknað sem er til rannsóknar eða meðferðar eða hefur verið dæmt um hjá alþjóðadómstólnum.
14. gr.
Þegar beitt er aðgerðum gagnvart manni sem er grunaður, ákærður eða dæmdur af alþjóðadómstólnum vegna verknaðar sem dómstóllinn hefur lögsögu yfir skal sá maður að eigin vali eiga rétt á að fá sér skipaðan réttargæslumann eða verjanda vegna meðferðar málsins hér á landi. Gilda þá ákvæði [laga um meðferð sakamála].1)
1)L. 88/2008, 234. gr.
15. gr.
[Ráðherra]1) er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara og um bein samskipti annarra við alþjóðadómstólinn.
1)L. 162/2010, 132. gr.
16. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.