Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

1995 nr. 51 7. mars


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 9. mars 1995. Breytt með: L. 136/2003 (tóku gildi 30. des. 2003). L. 152/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 142/2012 (tóku gildi 1. jan. 2013). L. 140/2013 (tóku gildi 31. des. 2013 nema 1.–2., 4.–12., 16.–18., 23.–29., 31.–32., 34.–38. og 40.–48. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2014 og 21. gr. sem tók gildi 1. jan. 2016; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 49. gr.). L. 25/2020 (tóku gildi 1. apríl 2020).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við félags- og vinnumarkaðsráðherra eða félags- og vinnumarkaðsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna atvinnuleysisbóta fiskvinnslufólks, sem nýtur réttar til kauptryggingar samkvæmt almennum kjarasamningum, skulu inntar af hendi til fiskvinnslufyrirtækja eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.
Vinnuveitandi, sem greiðir starfsfólki sínu föst laun fyrir dagvinnu í tímabundinni vinnslustöðvun í samræmi við ákvæði kjarasamnings um kauptryggingu verkafólks í fiskvinnslu, skal eiga rétt á greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði eftir því sem segir í lögum þessum og reglugerð settri samkvæmt þeim. Með tímabundinni vinnslustöðvun er í lögum þessum átt við að hráefnisskortur [eða aðrar viðlíka ástæður]1) valdi því að vinnsla liggur niðri á annars venjubundnum vinnslutíma fyrirtækis.
[Fyrirtæki, sem starfrækir fiskvinnslu og fullnægir skilyrðum 2. mgr., skal eiga rétt á greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir hvern heilan vinnudag sem það greiðir starfsmönnum laun meðan á tímabundinni vinnslustöðvun stendur að undanskildum fyrstu [fimm]2) dögunum [á tímabilinu 1. janúar til 30. júní og fyrstu [fimm]2) dögunum á tímabilinu 1. júlí til 31. desember á hverju almanaksári, sbr. þó einnig 4. mgr. Enn fremur á fyrirtæki ekki rétt á greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði er tímabundna vinnslustöðvun ber upp á föstudag og fimmtudagurinn á undan er lögbundinn frídagur.]3)]1)
Greiðsla samkvæmt þessari grein skal nema fjárhæð [óskertra grunnatvinnuleysisbóta]4) samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar …3) fyrir hvern starfsmann í fullu starfi sem orðið hefur verkefnalaus vegna vinnslustöðvunar meðan hún varir, þó ekki lengur en [15 greiðsludaga]3) í senn og aldrei lengur en [35 greiðsludaga]3) á hverju almanaksári. Vegna starfsmanna í hlutastarfi skal greiðslan vera í samræmi við samningsbundið starfshlutfall hlutaðeigandi starfsmanna.
[Þrátt fyrir takmarkanir 4. mgr. á heildarfjölda greiðsludaga á ári hverju er Vinnumálastofnun heimilt að veita undanþágur þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi er leiða til þess að hráefnisskortur veldur því að vinnsla liggur niðri á annars venjubundnum vinnslutíma fyrirtækis.]1)
   1)L. 136/2003, 1. gr. 2)L. 140/2013, 31. gr. 3)L. 142/2012, 18. gr. 4)L. 152/2007, 1. gr.
2. gr.
[Fyrirtæki, sem hyggst sækja um greiðslu skv. 1. gr., skal tilkynna skriflega um fyrirhugaða vinnslustöðvun með eins sólarhrings fyrirvara til Vinnumálastofnunar. Skal fyrirtæki staðfesta tilkynninguna með umsókn um greiðslur ásamt nauðsynlegum upplýsingum um fyrirhugaða vinnslustöðvun, þar á meðal ástæður hennar, innan mánaðar frá því að vinnslustöðvun hófst. Hafi hvorki umsókn né tilskilin gögn borist Vinnumálastofnun innan þriggja mánaða frá því að vinnslustöðvun hófst mun réttur fyrirtækisins til greiðslna falla niður að því er varðar umrædda vinnslustöðvun.]1)
[Vinnumálastofnun]1) metur hvort skilyrði greiðslu eru fyrir hendi og ákvarðar fjárhæð bóta í samræmi við starfshlutfall starfsmanna samkvæmt kauptryggingarsamningum. …1)
Ef ágreiningur rís um rétt til greiðslu sker stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs úr honum.
   1)L. 136/2003, 2. gr.
3. gr.
Skylt er fyrirtæki, sem nýtur greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvæðum þessara laga, að tilkynna [Vinnumálastofnun]1) þegar í stað ef breyting verður á fjölda starfsmanna sem hafa gildandi kauptryggingarsamninga og eru verkefnalausir af völdum vinnslustöðvunar. Hafi starfsmaður, sem gert hefur kauptryggingarsamning, hafið störf annars staðar meðan vinnslustöðvun varir og launagreiðslur fyrirtækisins fallið niður fellur greiðsla sjóðsins niður frá sama tíma.
[Vinnumálastofnun skal hafa aðgang að launa- og framleiðslubókhaldi fyrirtækis ásamt kauptryggingarsamningum sem í gildi eru milli fyrirtækis og starfsmanna þess. Starfsmenn Vinnumálastofnunar skulu fara með allar upplýsingar sem þeir komast að við framkvæmd á lögum þessum og varða persónuleg málefni eða rekstur fyrirtækja sem trúnaðarmál.]1)
[Hafi fyrirtæki fengið hærri fjárhæðir úr Atvinnuleysistryggingasjóði en það á rétt á samkvæmt lögum þessum á grundvelli rangra eða ófullnægjandi upplýsinga ber því að endurgreiða þær. Þá er Vinnumálastofnun heimilt að draga ofgreiddar fjárhæðir frá greiðslum sem fyrirtækið getur átt rétt á síðar samkvæmt lögunum.
[Ráðherra]2) setur í reglugerð nánari reglur um hvers konar gögn skulu fylgja umsókn fyrirtækis sem sækir um greiðslur samkvæmt lögum þessum.]1)
   1)L. 136/2003, 3. gr. 2)L. 126/2011, 208. gr.
4. gr.
Fyrirtækjum, sem nýta rétt sinn til greiðslu skv. 1. gr., er skylt að hlutast til um að starfsfræðslunámskeið fyrir fiskvinnslufólk verði fyrst og fremst haldin á þeim tíma sem vinnslustöðvun varir. Verði því með engu móti við komið á fyrirtæki rétt á greiðslu fyrir þær vinnustundir hvers starfsmanns sem tapast vegna setu á námskeiðum sem haldin eru [samkvæmt vottuðum námskrám viðurkenndra fræðsluaðila, sbr. lög um framhaldsfræðslu],1) þó ekki meira en 40 stundir vegna hvers einstaklings. Þegar svo stendur á fer um tilkynningu og ákvörðun greiðslu eftir ákvæðum 2. gr. eftir því sem við á. Auk þess er þar greinir skal leggja fram staðfestingu þess aðila er stendur fyrir námskeiði um námskeiðshaldið, tíma og efni. Greiðslur þessar teljast hluti þeirra greiðslna sem um ræðir í 1. gr.
   1)L. 142/2012, 19. gr.
5. gr.
Ráðherra setur reglugerð1) um nánari framkvæmd laga þessara.
   1)Rg. 556/2004.
6. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
[Ákvæði til bráðabirgða.
I.1)]2)
   1)Ákvæðið gilti til 31. des. 2009 skv. 3. mgr. 2)L. 152/2007, 2. gr.
[II.1)]2)
   1)Ákvæðið gilti til og með 31. des. 2020 skv. 2. mgr. 2)L. 25/2020, 19. gr.