Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um vernd Breiðafjarðar

1995 nr. 54 8. mars


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 9. mars 1995. Breytt með: L. 93/1996 (tóku gildi 1. jan. 1997). L. 82/1998 (tóku gildi 1. okt. 1998). L. 164/2002 (tóku gildi 1. jan. 2003). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 131/2011 (tóku gildi 1. jan. 2012). L. 138/2011 (tóku gildi 1. jan. 2012).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eða umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Tilgangur laga þessara er að stuðla að verndun Breiðafjarðar, einkum landslags, jarðmyndana, lífríkis og menningarminja.
2. gr.
Ákvæði laganna taka til allra eyja, hólma og skerja á Breiðafirði ásamt fjörum í innri hluta fjarðarins sem markast af línu dreginni frá Ytranesi á Barðaströnd við fjörðinn norðanverðan í Hagadrápssker um Oddbjarnarsker, Stagley og Höskuldsey í Vallabjarg að sunnanverðu.
3. gr.
[Ráðherra]1) fer með stjórn mála er varða vernd Breiðafjarðar samkvæmt lögum þessum. Um vernd menningarsögulegra minja fer samkvæmt þjóðminjalögum.
   1)L. 126/2011, 210. gr.
4. gr.
Breiðafjarðarnefnd er [ráðherra]1) til ráðgjafar um allt það er lýtur að framkvæmd laga þessara. Í nefndinni eiga sæti sjö menn, sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn sem hér segir: [Sveitarfélög sem liggja að Breiðafirði tilnefna fjóra fulltrúa á þann hátt sem ráðherra ákveður í reglugerð],2) Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur á Vesturlandi og Vestfjörðum einn sameiginlega og einn er tilnefndur af þjóðminjaráði. [Ráðherra]1) skipar einn mann í nefndina án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
Nefndin skal í samráði við sveitarfélögin láta gera verndaráætlun þar sem fram kemur hvernig ná skuli þeim markmiðum sem sett eru með vernd svæðisins. Áætlun þessi skal send ráðherra til staðfestingar.
Í starfi sínu skal nefndin gæta samráðs við sveitarstjórnir, náttúruverndarnefndir, [Umhverfisstofnun],3) minjaverði og yfirvöld þjóðminjavörslu.
Nefndin skal árlega gefa ráðherra skýrslu um störf sín.
   1)L. 126/2011, 210. gr. 2)L. 138/2011, 134. gr. 3)L. 164/2002, 31. gr.
5. gr.
[Ráðherra]1) setur, að fengnum tillögum Breiðafjarðarnefndar og umsögnum viðkomandi sveitarstjórna um þær, reglugerð þar sem kveðið skal á um verndaraðgerðir á grundvelli laganna, varnir gegn hvers konar mengun og aðgang ferðamanna að tilteknum stöðum á svæðinu sem viðkvæmir eru vegna náttúrufars.
[Ráðherra er fer með málefni menningarminja]1) setur, að fengnum tillögum Breiðafjarðarnefndar og að fenginni umsögn þjóðminjaráðs og húsafriðunarnefndar ríkisins eftir því sem við á, reglugerð um vernd menningarsögulegra minja á svæðinu, þar á meðal byggðarheildar gamalla húsa í Flatey og vernd sjóminja.
   1)L. 126/2011, 210. gr.
6. gr.
Við gerð skipulagsáætlana á því svæði sem um getur í 2. gr. skulu sveitarfélög leita umsagnar Breiðafjarðarnefndar. Í skipulagsáætlunum ber að taka tillit til verndaráætlunar Breiðafjarðarnefndar.
Þar sem ekki eru fyrir hendi samþykktar skipulagsáætlanir á því landsvæði sem um getur í 2. gr. er hvers konar mannvirkjagerð óheimil, svo og jarðrask, nema að fengnu [leyfi Umhverfisstofnunar].1)
Framkvæmdir, sem nauðsynlegar og eðlilegar teljast til búskapar á lögbýlum, eru leyfilegar nema spjöllum valdi á menningarsögulegum minjum, náttúruminjum eða lífríki að [mati Umhverfisstofnunar]1) eða þjóðminjaráðs þegar um fornleifar er að ræða.
[Ákvarðanir sem Umhverfisstofnun tekur og varða veitingu, endurskoðun eða afturköllun leyfis samkvæmt þessari grein sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.]2)
   1)L. 164/2002, 32. gr. 2)L. 131/2011, 22. gr.
7. gr.
Með rannsóknum á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands, náttúrustofu Vestfjarða og náttúrustofu á Vesturlandi, sbr. lög nr. 60/1992, skal markvisst unnið að því að auka þekkingu á náttúru Breiðafjarðarsvæðisins til að tryggja sem best verndun þess. Breiðafjarðarnefnd skal í samráði við þessa aðila láta gera áætlun um æskilegar rannsóknir á svæðinu og endurskoða hana reglulega.
Ráðherra getur með reglugerð heimilað framangreindum stofnunum að standa sameiginlega að starfrækslu náttúrurannsóknastöðvar á svæðinu á grundvelli laga nr. 60/1992. Rannsóknastöðin getur leitað eftir fjárstuðningi innlendra og erlendra aðila við starfsemi sína og einstök verkefni.
8. gr.
Kostnaður við framkvæmd laga þessara greiðist úr ríkissjóði eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum.
9. gr.
Brot gegn lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum [eða fangelsi allt að 2 árum].1) Sektir renna í ríkissjóð.
Beita má dagsektum er renna í ríkissjóð, allt að 50 þúsund krónum, til að knýja menn til framkvæmda á ráðstöfunum sem þeim er skylt að hlutast til um samkvæmt lögum þessum og reglugerðum eða láta af atferli sem er ólögmætt.
2)
   1)L. 82/1998, 222. gr. 2)L. 88/2008, 233. gr.
10. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.