Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta

1998 nr. 58 10. júní


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 1998. Breytt með: L. 65/2000 (tóku gildi 26. maí 2000). L. 7/2005 (tóku gildi 24. febr. 2005). L. 19/2006 (tóku gildi 1. júní 2006). L. 167/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008). L. 70/2009 (tóku gildi 30. júní 2009 nema 1.–3. gr., 12.–26. gr. og brbákv. V og VI sem tóku gildi 1. júlí 2009, 4. gr. sem tók gildi 1. sept. 2009 og brbákv. IV sem tók gildi 16. júní 2009; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 29. gr., sbr. og l. 97/2009 (tóku gildi 3. sept. 2009)). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 86/2015 (tóku gildi 24. júlí 2015). L. 34/2020 (tóku gildi 19. maí 2020).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við forsætisráðherra eða forsætisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Skilgreiningar.
1. gr.
Í lögum þessum merkir:
   Eignarland: Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.
   Þjóðlenda: Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.
   Afréttur: Landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.

II. kafli. Þjóðlendur.
2. gr.
Íslenska ríkið er eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti.
1)
   1)L. 126/2011, 269. gr.
3. gr.
Enginn má hafa afnot þjóðlendu fyrir sjálfan sig, þar með talið að reisa þar mannvirki, gera jarðrask, nýta hlunnindi, vatns- og jarðhitaréttindi, sbr. þó 5. gr., nema að fengnu leyfi skv. 2. eða 3. mgr. og að uppfylltum skilyrðum laga að öðru leyti.
[Leyfi ráðherra þarf til að nýta vatns- og jarðhitaréttindi [og vindorku]1) innan þjóðlendu nema mælt sé fyrir um annað í lögum.]2) Ráðherra er jafnframt heimilt að leyfa nauðsynleg afnot af landi til hagnýtingar á þessum réttindum.
Til að nýta land og landsréttindi innan þjóðlendu að öðru leyti en greinir í 2. mgr. þarf leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Sé nýting heimiluð til lengri tíma en eins árs þarf jafnframt samþykki [ráðherra].3) [Þó þarf samþykki ráðherra fyrir allri nýtingu náma og annarra jarðefna.]1) Rísi ágreiningur um veitingu leyfa samkvæmt þessari málsgrein sker [ráðherra]3) úr honum.
[Ráðherra]3) er heimilt að ákvarða eða semja um endurgjald (leigu) fyrir nýtingu réttinda sem hann heimilar skv. 2. mgr. Með sama hætti er sveitarstjórn heimilt að fengnu samþykki [ráðherra]3) að semja um endurgjald vegna afnota sem hún heimilar skv. 3. mgr. …1) Tekjum af leyfum sem sveitarstjórn veitir skv. 3. mgr. skal varið til [uppbyggingar innviða, landbóta, umsjónar, eftirlits, skipulagsáætlanagerðar og sambærilegra verkefna innan þjóðlendna samkvæmt nánari ákvörðun sveitarstjórnar].1) Sveitarstjórn skal árlega gera [ráðherra]3) grein fyrir ráðstöfun fjárins.
[Ráðherra]3) skal árlega gefa Alþingi skýrslu um ráðstöfun lands og landsréttinda innan þjóðlendna og tekna af gjöldum fyrir slík réttindi. …1)
Heimildir skv. 2. og 3. mgr. taka ekki til réttinda sem eru háð einkaeignarrétti eða fengin öðrum með lögum. Leiði afnot til skerðingar á eignarréttindum sem aðrir eiga í þjóðlendunni getur viðkomandi krafist bóta úr hendi leyfishafa. Náist ekki samkomulag um greiðslu bóta skal skorið úr þeim ágreiningi samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.
[Þjóðlendur skulu undanþegnar öllum sköttum og gjöldum.]4)
Frá og með gildistöku laga þessara er ekki unnt að öðlast eignarréttindi innan þjóðlendna fyrir nám eða hefð.
   1)L. 34/2020, 1. gr. 2)L. 86/2015, 1. gr. 3)L. 126/2011, 269. gr. 4)L. 65/2000, 1. gr.
4. gr.
[Á vegum ráðherra skal starfa samstarfsnefnd um málefni þjóðlendna er í eiga sæti fulltrúi ráðherra, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, fulltrúar þeirra ráðherra er fara með skipulagsmál, sveitarstjórnarmál, málefni iðnaðar og málefni landbúnaðar og tveir fulltrúar tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.]1) Fulltrúi [ráðherra]1) er formaður nefndarinnar. Nefndin skal vera [ráðherra]1) til aðstoðar við stjórn og ráðstöfun réttinda innan þjóðlendna. …2)
Heimilt er [ráðherra]1) að setja í reglugerð3) nánari reglur um meðferð og nýtingu þjóðlendna samkvæmt lögum þessum, [þ.m.t. um jafnræði og gagnsæi við úthlutun afnota af landi og hvers konar landsréttindum og hlunnindum í þjóðlendum, endurgjald fyrir slík tímabundin afnot og tímalengd þeirra nota, innlausn mannvirkja sem afnotum fylgja við lok leigutíma og önnur skilyrði fyrir afnotum].2)
   1)L. 126/2011, 269. gr. 2)L. 34/2020, 2. gr. 3)Rg. 630/2023.
5. gr.
Þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendu sem afrétt fyrir búfénað eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja skulu halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um.
Sama gildir um önnur réttindi sem maður færir sönnur á að hann eigi.

III. kafli. Óbyggðanefnd.
6. gr.
Óbyggðanefnd skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum varamönnum.
[Ráðherra]1) skipar nefndarmenn. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi aðalmanna. Nefndarmenn skulu fullnægja skilyrðum til að gegna embætti héraðsdómara. [Heimilt er þó að víkja frá 70 ára aldurshámarki.]2)
Forfallist aðalmaður við meðferð máls skal formaður ákveða hver úr hópi varamanna taki sæti hans. Með sama hætti getur formaður ákveðið að varamaður taki sæti aðalmanns við meðferð máls telji hann þess þörf vegna fjölda eða umfangs mála sem nefndin fjallar um. Sé mál munnlega flutt skal þess jafnan gætt að sami maður taki þátt í meðferð þess frá því að aðilum er gefinn kostur á að tjá sig fyrir nefndinni og þar til hún kveður upp úrskurð í málinu.
Telji formaður þörf sérkunnáttu við úrlausn máls getur hann kvatt til mann eða menn sem hafa slíka sérkunnáttu. Sé ekki talin þörf á fleiri en einum sérfróðum manni skal varamaður taka sæti samkvæmt ákvörðun formanns þannig að nefndin verði skipuð fimm mönnum.
[…3) Óbyggðanefnd er …3) heimilt að ráða starfsfólk sér til aðstoðar og skapa sér skrifstofuaðstöðu í samráði við [ráðherra].1)]4)
   1)L. 126/2011, 269. gr. 2)L. 86/2015, 2. gr. 3)L. 19/2006, 1. gr. 4)L. 65/2000, 2. gr.
7. gr.
Hlutverk óbyggðanefndar skal vera:
   a. Að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda.
   b. Að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur.
   c. Að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.
8. gr.
Óbyggðanefnd skal að eigin frumkvæði taka til meðferðar og úrskurða um málefni sem undir hana heyra. [Skal hún ákveða hvaða landsvæði tekið er til meðferðar hverju sinni. Nefndin getur ákveðið síðar að minnka eða stækka það svæði. Nefndinni er heimilt að hafa til meðferðar fleiri en eitt svæði á sama tíma.]1) [Stefnt skal að því að nefndin ljúki verkinu á árinu [2024].2)]3)
   1)L. 65/2000, 3. gr. 2)L. 34/2020, 3. gr. 3)L. 19/2006, 2. gr.
9. gr.
Sá sem telur til eignarréttinda á ákveðnu svæði og vill fá úrskurð óbyggðanefndar um mál sem heyrir undir hana skal leggja fram skriflega beiðni þar um. Óbyggðanefnd skal taka beiðnina til meðferðar og tilkynna um þá ákvörðun með sama hætti og segir í 1. mgr. 10. gr. Nefndinni er heimilt að ákveða að slík beiðni verði ekki tekin til meðferðar fyrr en kemur að viðkomandi landsvæði eftir ákvörðun skv. 8. gr.
10. gr.
[Þegar nefndin hefur ákveðið að taka svæði til meðferðar skal hún tilkynna [hlutaðeigandi ráðherra],1) sbr. 1. mgr. 11. gr., ákvörðun sína og veita honum minnst þriggja en mest sex mánaða frest til að lýsa kröfum ríkisins um þjóðlendur á svæðinu, [sbr. þó 10. gr. a].2)
Þegar kröfulýsing ríkisins liggur fyrir skal óbyggðanefnd gefa út tilkynningu og láta birta í Lögbirtingablaði. Skal þar skorað á þá er telja til eignarréttinda eða annarra réttinda á því svæði sem ríkið gerir kröfu til að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd innan minnst þriggja en mest sex mánaða frá útgáfudegi þess tölublaðs sem tilkynningin er birt í. Jafnframt skal nefndin láta þinglýsa yfirlýsingu þessa efnis á þær eignir sem skráðar eru í þinglýsingabók og eru á viðkomandi svæði. Þá skal útdráttur úr efni tilkynningar birtur með auglýsingu í dagblaði.
Óbyggðanefnd getur samþykkt að veita aðila sem þess óskar viðbótarfrest.]3)
Samhliða kröfum sínum skulu aðilar leggja fram þær heimildir og gögn sem þeir byggja rétt sinn á.
Nefndin skal, þrátt fyrir ákvæði [1.–4. mgr.],3) hafa frumkvæði að því að afla heimilda og gagna um eignar- og afnotaréttindi yfir því landsvæði sem til meðferðar er og framkvæma rannsóknir og athuganir um staðreyndir og lagaatriði sem þýðingu hafa fyrir niðurstöðu í einstökum málum. Óbyggðanefnd getur heimilað að fram fari munnleg sönnunarfærsla fyrir nefndinni.
[Vilji ráðherra auka við kröfur ríkisins í máli sem er til meðferðar hjá óbyggðanefnd getur nefndin heimilað að hinar auknu kröfur komi til úrlausnar ef það verður ekki metið ríkinu til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í öndverðu og hinar auknu kröfur seinka ekki málsmeðferð um of að mati nefndarinnar. Um kynningu á hinum auknu kröfum og kröfulýsingarfrest annarra sem telja til eignarréttinda fer skv. 2. mgr.
Nefndinni er heimilt að taka til meðferðar svæði sem áður hafa sætt meðferð hennar ef hún hefur í úrskurði gert athugasemd við kröfugerð ráðherra. Jafnframt er nefndinni heimilt að taka til meðferðar almenninga stöðuvatna á landinu öllu. Um málsmeðferð fer eftir lögum þessum.]2)
   1)L. 126/2011, 269. gr. 2)L. 34/2020, 4. gr. 3)L. 65/2000, 4. gr.
[10. gr. a.
Þegar nefndin tekur landsvæði utan strandlengju meginlandsins til meðferðar er henni heimilt að skora á þá sem kalla til eignarréttinda þar að lýsa réttindum sínum fyrir nefndinni innan tiltekins frests, áður en kröfum ríkisins um þjóðlendur er lýst. Tilkynning um áskorunina skal birt í Lögbirtingablaði og veittur a.m.k. þriggja mánaða frestur til að lýsa réttindum. Eignarréttindi falla ekki niður þótt rétthafar láti hjá líða að lýsa þeim á þessu stigi málsmeðferðarinnar heldur geta þeir eftir sem áður lýst kröfum síðar, sbr. 2. mgr. 10. gr. Að fresti skv. 1. málsl. loknum afhendir óbyggðanefnd hlutaðeigandi ráðherra þau erindi sem borist hafa og veitir honum frest, sbr. 1. mgr. 10. gr., til að lýsa kröfum ríkisins um þjóðlendur. Að öðru leyti fer um málsmeðferð skv. 10. gr.
Nefndin getur jafnframt ákveðið málsmeðferð skv. 1. mgr. vegna almenninga stöðuvatna, sbr. 7. mgr. 10. gr.]1)
   1)L. 34/2020, 5. gr.
11. gr.
[Hlutaðeigandi ráðherra fer]1) með fyrirsvar fyrir hönd ríkisins og stofnana á vegum þess vegna krafna um eignarréttindi innan þjóðlendna og við úrlausn um hvort land teljist til eignarlands eða þjóðlendu.
Sé um að ræða sameiginlegt upprekstrarland skal beina tilkynningum vegna þeirra sem þar eiga upprekstrarrétt til viðkomandi sveitarstjórnar eða sveitarstjórna eða upprekstrarfélags sem stofnað hefur verið um þessi mál og skulu þau hafa umboð til að ráðstafa málefninu fyrir hönd einstakra rétthafa.
   1)L. 126/2011, 269. gr.
12. gr.
[Að liðnum kröfulýsingarfresti skv. 2. mgr. 10. gr. skal óbyggðanefnd gera yfirlit yfir lýstar kröfur á viðkomandi landsvæði og láta færa þær inn á uppdrátt. Skal yfirlit þetta ásamt uppdrætti (kröfulínukorti) liggja frammi á skrifstofu sýslumanns eða sýslumanna í því eða þeim umdæmum sem svæðið á undir í að minnsta kosti einn mánuð. Athugasemdir skulu hafa borist óbyggðanefnd innan sjö daga frá þeim degi þegar kynningu lauk.]1)
   1)L. 65/2000, 5. gr.
13. gr.
Óbyggðanefnd getur ákveðið að sameina meðferð og afgreiðslu mála varðandi einstök landsvæði í eitt mál eða fleiri og aðskilja mál óháð því hvernig aðilar kunna að hafa lagt mál fyrir nefndina eða hún tekið mál fyrir að eigin frumkvæði í upphafi.
1)
Komi það fram við meðferð máls að aðili, sem kann að telja til eignarréttinda, hafi ekki lýst kröfum sínum skal nefndin hafa frumkvæði að því að kanna hvort hann falli frá tilkalli, en ella gefa honum kost á að gerast aðili máls.
   1)L. 65/2000, 6. gr.
14. gr.
Úrlausnum óbyggðanefndar verður ekki skotið til ráðherra sem æðra stjórnvalds.
Mál sem heyrir undir óbyggðanefnd skv. 7. gr. verður ekki borið undir dómstóla fyrr en eftir að nefndin hefur lokið umfjöllun sinni um það.
15. gr.
Óbyggðanefnd leitar sátta með aðilum nema telja verði að sáttatilraun verði árangurslaus.
Telji nefndin að mál, sem borið er upp við hana, falli utan starfssviðs hennar skal hún synja um fyrirtöku málsins með úrskurði, en ávallt skal gefa aðila kost á að tjá sig sérstaklega um þetta atriði áður en úrskurður þar um er kveðinn upp.
Telji aðili að mál, sem óbyggðanefnd hefur til meðferðar, eigi ekki undir hana getur hann krafist þess að því verði vísað frá nefndinni.
16. gr.
Um form og efni úrskurða óbyggðanefndar sem fela í sér endanlegar lyktir máls fer eftir reglum stjórnsýslulaga um úrskurði í kærumáli.
17. gr.
[Kostnaður vegna starfa óbyggðanefndar samkvæmt lögum þessum greiðist úr ríkissjóði. Auk kostnaðar við rekstur nefndarinnar fellur hér undir nauðsynlegur kostnaður annarra en ríkisins vegna hagsmunagæslu fyrir nefndinni.
Óbyggðanefnd úrskurðar um kröfur aðila vegna kostnaðar samkvæmt síðari málslið 1. mgr. Við mat á því hvort um nauðsynlegan kostnað hafi verið að ræða er nefndinni heimilt að líta til þess hvort aðilar, sem svipaðra hagsmuna eiga að gæta, hafi sameinast um að nýta sér aðstoð sömu lögmanna og annarra sérfræðinga, enda rekist hagsmunir ekki á. Við mat á fjárhæð kostnaðar skal enn fremur litið til þess hvað telja má sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli.
Nefndinni er heimilt að gera aðila að bera málskostnað sinn og gagnaðila að nokkru eða öllu leyti telji hún málatilbúnað hans gefa tilefni til slíks.
Fullnægja má ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar um málskostnað með aðför.]1)
   1)L. 65/2000, 7. gr.
18. gr.
1)
Birta skal úrskurði óbyggðanefndar fyrir þeim aðilum sem lýst hafa kröfum og þeim sem úrskurðað er að eigi réttindi á viðkomandi svæði. Útdráttur úr úrskurði skal birtur í Lögbirtingablaði ásamt uppdrætti. Óbyggðanefnd skal annast um að úrskurðir hennar verði gefnir út.
[Ráðherra skal hafa frumkvæði að því að þinglýsa eignarheimildum sem varða þjóðlendur.]2) Ekki skal innheimta þinglýsingar- og stimpilgjöld af slíkum skjölum né heldur við þinglýsingar skv. [2. mgr.]1) 10. gr.
   1)L. 65/2000, 8. gr. 2)L. 86/2015, 4. gr.
19. gr.
Sá sem ekki vill una úrskurði óbyggðanefndar skal höfða einkamál innan sex mánaða frá útgáfudegi þess Lögbirtingablaðs sem útdráttur úr úrskurði er birtur í skv. [2. mgr.]1) 18. gr. Er þá unnt að leggja til úrlausnar dómstóla hverja þá kröfu sem gerð hefur verið fyrir nefndinni. [Jafnframt getur sá sem telur til eignarréttinda eða annarra réttinda á svæði sem úrskurður nefndarinnar lýtur að átt aðild að dómsmáli um úrskurðinn þrátt fyrir að hafa ekki lýst kröfu fyrir nefndinni, að uppfylltum skilyrðum laga um meðferð einkamála um aðild að dómsmálum, enda verði það ekki metið honum til vanrækslu að hafa ekki gert kröfu fyrir nefndinni. Að sömu skilyrðum uppfylltum getur aðili að máli fyrir nefndinni, að ríkinu frátöldu, gert nýjar eða auknar kröfur fyrir dómi.]1)
[Heimilt er að veita aðila gjafsókn í samræmi við reglur XX. kafla laga um meðferð einkamála. Þrátt fyrir skilyrði 126. gr. laga um meðferð einkamála er heimilt að veita aðila gjafsókn þegar úrlausn máls hefur:
   a. verulega almenna þýðingu eða
   b. varðar verulega miklu um hagsmuni umsækjanda og kostnaður af gæslu hagsmuna hans í málinu hefur fyrirsjáanlega mjög veruleg áhrif á efnahag hans.]2)
   1)L. 34/2020, 6. gr. 2)L. 7/2005, 4. gr.
[19. gr. a.
Eftir að óbyggðanefnd hefur kveðið upp úrskurð á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef úrskurður hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en skilyrði 2. mgr. þeirrar greinar um tímafresti og samþykki annarra málsaðila gilda ekki um endurupptökuna. Sama rétt eiga aðrir sem telja til eignarréttinda eða annarra réttinda á svæðinu, þrátt fyrir að hafa ekki lýst kröfu fyrir nefndinni, enda verði þeim ekki metið til vanrækslu að hafa ekki gert kröfu áður. Hafi verið höfðað einkamál vegna viðkomandi svæðis, sbr. 1. mgr. 19. gr., og dómur fallið fer þó um endurupptöku eftir ákvæðum laga um meðferð einkamála.]1)
   1)L. 34/2020, 7. gr.

IV. kafli. Ýmis ákvæði.
20. gr.
Hafi mál verið höfðað fyrir dómi þar sem kröfur eru gerðar um efni sem á undir óbyggðanefnd samkvæmt lögum þessum skal þeim málum lokið þar þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 14. gr.
[21. gr.
[Ráðherra]1) setur í reglugerð nánari ákvæði um starfshætti og málsmeðferð óbyggðanefndar, þ.m.t. frágang kröfulýsinga, uppdrátta og annarra gagna málsaðila, og tæknilega útfærslu á markalínum.]2)
   1)L. 126/2011, 269. gr. 2)L. 65/2000, 10. gr.
[22. gr.]1)
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1998.
   1)L. 65/2000, 10. gr.

[Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Um kostnað vegna hagsmunagæslu fyrir óbyggðanefnd sem fellur til fyrir gildistöku laga þessara fer eftir ákvæðum 17. gr. laganna eins og henni er breytt með 7. gr. laga þessara.]1)
   1)L. 65/2000, 11. gr.
[II.
Þrátt fyrir ákvæði 8. og 10. gr. laganna skal óbyggðanefnd ekki taka til meðferðar ný svæði né [hlutaðeigandi ráðherra]1) lýsa kröfum ríkis um þjóðlendur fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2012. Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er heimilt að ráða starfsmenn óbyggðanefndar tímabundið fram til ársloka 2011 til annarra sambærilegra starfa innan Stjórnarráðs Íslands.]2)
   1)L. 126/2011, 269. gr. 2)L. 70/2009, brbákv. VII.