Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi
1999 nr. 43 22. mars
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 30. mars 1999. Breytt með:
L. 177/2000 (tóku gildi 29. des. 2000).
L. 129/2004 (tóku gildi 31. des. 2005).
L. 159/2006 (tóku gildi 31. des. 2006).
L. 39/2009 (tóku gildi 8. apríl 2009).
L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
L. 158/2011 (tóku gildi 31. des. 2011).
L. 58/2016 (tóku gildi 31. des. 2016).
L. 147/2019 (tóku gildi 28. des. 2019).
L. 83/2021 (tóku gildi 7. júlí 2021; um lagaskil sjá 8. gr.).
L. 76/2022 (tóku gildi 14. júlí 2022).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar- og viðskiptaráðherra eða menningar- og viðskiptaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli.
[Markmið. Gildissvið.]1)
1)L. 177/2000, 1. gr.
1. gr.
[Markmið laga þessara er að stuðla að eflingu innlendrar menningar og kynningar á sögu landsins og náttúru með tímabundnum stuðningi við kvikmyndir og sjónvarpsefni sem framleitt er hér á landi.]1)
1)L. 177/2000, 1. gr.
2. gr.
[Heimilt er að endurgreiða úr ríkissjóði hlutfall af framleiðslukostnaði sem til fellur við framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi. [Við útreikning á endurgreiðslu er tekið mið af heildarframleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis án tillits til þess hvaða þáttur í framleiðslunni skapar þann kostnað.]1)
Nú fellur meira en 80% af heildarframleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis til á Íslandi og skal þá endurgreiðsla reiknast af þeim heildarframleiðslukostnaði sem til fellur á Evrópska efnahagssvæðinu [auk Grænlands og Færeyja].2)
Með framleiðslukostnaði er átt við allan kostnað sem fellur til hér á landi og heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt …,3) [sbr. þó 5. gr. a].4) Laun og verktakagreiðslur teljast eingöngu til framleiðslukostnaðar séu þau sannanlega skattlögð hér á landi.]5)
1)L. 158/2011, 1. gr. 2)L. 147/2019, 1. gr. 3)L. 129/2004, 133. gr. 4)L. 83/2021, 1. gr. 5)L. 177/2000, 2. gr.
II. kafli.
Umsókn.
3. gr.
[Umsókn um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar skal send nefnd um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, sbr. 2. mgr. Umsókn um endurgreiðslu, ásamt fylgigögnum, skal berast áður en framleiðsla hefst hér á landi.
Ráðherra skipar nefnd um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og skulu ráðherra sem fer með kvikmyndir og ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins og fjármál tilnefna sinn fulltrúa hvor, en sá þriðji skal skipaður án tilnefningar og vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Atkvæði formanns ræður úrslitum falli atkvæði jöfn.
Nefnd skv. 2. mgr. fer yfir umsóknir um endurgreiðslur. Ef nefnd um endurgreiðslur telur umsókn uppfylla skilyrði fyrir endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar skal hún veita umsóknaraðila vilyrði fyrir endurgreiðslu, ella skal umsókn hafnað.]1)
1)L. 58/2016, 1. gr.
Skilyrði endurgreiðslu.
4. gr.
[Við mat á því hvort endurgreiða skuli hlutfall af framleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis skal eftirfarandi skilyrðum vera fullnægt:
a. [að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru eða að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu og listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa],1)
b. [að viðkomandi framleiðsla uppfylli þau menningar- og framleiðsluskilyrði sem fram koma í reglugerð sem ráðherra setur skv. 8. gr.],2)
c. [að bókhald og uppgjör hvers verkefnis sé sérstaklega aðgreint frá öðrum verkefnum þannig að ávallt sé unnt að greina þann kostnað sem tilheyrir hverju verkefni fyrir sig],3)
d. að fyrir liggi upplýsingar um helstu aðstandendur kvikmyndar eða sjónvarpsefnis,
e. að fyrir liggi upplýsingar um innlenda aðila og hlutdeild þeirra við framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis,
f. að fyrir liggi sundurliðuð áætlun um framleiðslukostnað og fjármögnun, auk staðfestingar fjármögnunaraðila, ásamt greinargerð umsækjanda um að framleiðslan falli að markmiðum laganna,
g. að fyrir liggi upplýsingar um efni fyrirhugaðrar framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis, svo sem handrit og upplýsingar um tökustaði,
h. [að fyrir liggi hvernig staðið verði að almennri dreifingu],1)
i. að efni kvikmyndar eða sjónvarpsefnis stríði hvorki gegn ákvæðum laga [um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum]2) né ákvæðum almennra hegningarlaga um klám,
[j. að ekki séu fyrir hendi vangreiddir skattar eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga eða aðrar vangoldnar kröfur hér á landi vegna framleiðslunnar; [leggja skal fram gögn um greidda staðgreiðslu eða um undanþágu frá skattskyldu hér á landi]3)].1)
Verði breyting á áætluðum framleiðslukostnaði, sbr. f-lið 1. mgr., eftir að framleiðsla hefst skal [nefnd um endurgreiðslur]3) send ný kostnaðaráætlun.
Við mat á umsókn um endurgreiðslu skal nefnd skv. 3. gr. hafa heimild til þess að afla álits sérfróðra aðila [um skilyrði endurgreiðslunnar].1)
[Auglýsinga- og fréttatengt efni, stuttmyndir, upptökur af íþróttaviðburðum og skemmtunum, efni sem fyrst og fremst er ætlað til kynningar á tiltekinni vöru eða þjónustu, svo og framleiðsla efnis sem fyrst og fremst er ætlað til sýninga í eigin dreifikerfi, skal eigi njóta endurgreiðslu samkvæmt lögum þessum.]1)
Nú er framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis ekki lokið innan þriggja ára frá dagsetningu vilyrðis fyrir endurgreiðslu sem veitt er á grundvelli 3. gr. og fellur þá vilyrðið úr gildi. [Þegar sérstaklega stendur á getur nefnd um endurgreiðslur, sbr. 3. gr., veitt undanþágu frá þessu skilyrði í að hámarki fimm ár frá dagsetningu vilyrðis.]1)
[Við sýningu á myndefni sem hlotið hefur endurgreiðslu samkvæmt lögum þessum skal koma fram að framleiðslan hafi hlotið stuðning frá íslenska ríkinu, eins og nánar skal útfært í reglugerð sem ráðherra setur skv. 8. gr.
Þeir sem njóta endurgreiðslu skulu veita Íslandsstofu, henni að kostnaðarlausu, aðgang að kynningarefni sem tengist verkefninu svo nýta megi það við markaðssetningu. Upplýsa ber um hömlur sem kunna að vera á notkun kynningarefnis.]2)]4)
1)L. 158/2011, 3. gr. 2)L. 83/2021, 2. gr. 3)L. 58/2016, 2. gr. 4)L. 159/2006, 1. gr.
III. kafli.
Endurgreiðsla.
5. gr.
[Hlutfall endurgreidds framleiðslukostnaðar skal vera [25%]1) af framleiðslukostnaði skv. 2. gr. [og 5. gr. a].2)
[Þrátt fyrir 1. mgr. skal hlutfall endurgreidds framleiðslukostnaðar vera 35% af framleiðslukostnaði skv. 2. gr. og 5. gr. a fyrir framleiðslu sem, auk annarra skilyrða laga þessara, uppfyllir öll eftirfarandi skilyrði:
1. Framleiðslukostnaður sem fellur til við framleiðslu viðkomandi kvikmyndar eða sjónvarpsefnis hér á landi er að lágmarki 350 millj. kr.
2. Um er að ræða framleiðslu þar sem starfsdagar hér á landi eru að lágmarki 30, hvort sem um er að ræða tökudaga eða starfsdaga við skilgreinda eftirvinnslu verkefnis. Af 30 starfsdögum skv. 1. málsl. skulu þó ávallt að lágmarki vera 10 tökudagar hér á landi.
3. Fjöldi starfsmanna sem vinna beint að verkefninu er að lágmarki 50 og nemi sú vinna að lágmarki 50 starfsdögum. Skilyrði er að launa- eða verktakagreiðslur þessara starfsmanna séu skattlagðar hér á landi.]3)
[Nefnd um endurgreiðslur skal send beiðni um útborgun og skal nefndin ákvarða endurgreiðslur skv. 3. gr. Berist beiðnin eftir að sex mánuðir hafa liðið frá lokum framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis skal hafna henni. Lok framleiðslu teljast vera í síðasta lagi við frumsýningu. Þegar um framleiðslu þáttaraðar er að ræða teljast lok framleiðslu vera við frumsýningu síðasta þáttar í stakri þáttaröð.]2)
…4)
[Skilyrði endurgreiðslu er að umsækjandi færi bókhald vegna þess kostnaðar sem hann æskir endurgreiðslu á í samræmi við lög um bókhald og falli félagið undir lög um ársreikninga skulu reikningsskil félagsins vera í samræmi við þau lög.
Nemi endurgreiðsla lægri fjárhæð en 3 millj. kr. skal stjórn og framkvæmdastjóri umsækjanda staðfesta að kostnaðaruppgjör sé í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra á grundvelli þeirra. Nemi endurgreiðsla hærri fjárhæð en 3 millj. kr. skal kostnaðaruppgjör verkefnis staðfest af endurskoðanda sem jafnframt skal staðfesta, ásamt stjórn og framkvæmdastjóra umsækjanda, að uppgjörið samræmist lögum þessum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.
Nefnd skv. 3. gr. getur óskað eftir þeim upplýsingum frá skattyfirvöldum og úr bókhaldi félagsins sem henni eru nauðsynlegar til að staðreyna kostnaðaruppgjör umsækjanda. Sé kostnaðaruppgjör og/eða fylgigögn þess ófullnægjandi skal nefndin veita umsóknaraðila frest til að skila inn fullnægjandi gögnum. Berist nefndinni ekki fullnægjandi gögn að loknum veittum fresti eða bendi gögn málsins til þess að kostnaðaruppgjör sé ekki í samræmi við ákvæði laga þessara skal nefndin hafna beiðni um endurgreiðslu.]2)]5)
1)L. 58/2016, 3. gr. 2)L. 83/2021, 3. gr. 3)L. 76/2022, 1. gr. 4)L. 158/2011, 4. gr. 5)L. 177/2000, 5. gr.
[5. gr. a Framleiðslukostnaður sem myndar stofn til endurgreiðslu.
Framleiðslukostnaður sem myndar stofn til endurgreiðslu telst vera kostnaður:
a. sem heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt,
b. sem fellur til hér á landi við framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis, og eftir atvikum í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið auk Grænlands og Færeyja, sbr. 2. mgr. 2. gr., og
c. sem tengist undirbúningstímabili, aðalframleiðslutímabili eða eftirvinnslutímabili framleiðslu.
Framleiðslukostnaður skal skráður í fjárhagsbókhald umsækjanda.
Þrátt fyrir 1. mgr. telst eftirtalinn kostnaður ekki vera hluti af stofni til endurgreiðslu:
a. kostnaður sem fellur til eftir að framleiðslu er lokið skv. [3. mgr. 5. gr.],1)
b. kostnaður sem greiddur er til aðila sem ekki eru skattskyldir hér á landi, sama hvort um er að ræða laun, verktakagreiðslur eða greiðslur vegna veittrar þjónustu eða vörukaupa, sbr. þó 2. mgr. 2. gr.,
c. kaup eða afskriftir af varanlegum rekstrarfjármunum eða eignum vegna framleiðslunnar,
d. kostnaður, svo sem óbeinn stjórnunarkostnaður, hlutdeild í rekstrarkostnaði eða framlag til framleiðanda, sem metinn er sem hlutfall af veltu móðurfélags, fari framleiðsla fram hjá dótturfélagi,
e. kostnaður skráður á grundvelli reikninga milli aðila sem tengjast framleiðslunni eða vegna hagnýtingar á búnaði og aðstöðu sem ekki er á markaðsvirði,
f. sektir eða greiðsla opinberra gjalda eða skatta.]2)
1)L. 76/2022, 2. gr. 2)L. 83/2021, 4. gr.
[6. gr. Kæruleiðir.
Ákvörðun nefndar um endurgreiðslur skv. 3. og 5. gr. er kæranleg til ráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.
Ákvörðun nefndar …1) er varðar mat á því hvað teljist vera framleiðslukostnaður skv. 3. mgr. 2. gr. [og 5. gr. a],1) fjárhæð endurgreiðslu eða hvað teljist vera heildarframleiðslukostnaður er kæranleg til yfirskattanefndar.
Kærufrestur skv. 1. og 2. mgr. er 30 dagar og reiknast frá dagsetningu ákvörðunar nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar.]2)
1)L. 83/2021, 5. gr. 2)L. 58/2016, 4. gr.
[7. gr.]1)
[Hafi umsækjandi hlotið styrk [frá opinberum aðilum]2) til framleiðslu sömu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis dregst styrkurinn frá þeirri upphæð sem telst innlendur framleiðslukostnaður.
[Samanlagður styrkur opinberra aðila og heildarfjárhæð endurgreiðslu skv. 5. gr. skal ekki fara yfir 85% af heildarframleiðslukostnaði sömu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis.]2)]3)
1)L. 58/2016, 4. gr. 2)L. 158/2011, 5. gr. 3)L. 177/2000, 7. gr.
IV. kafli.
[8. gr.]1)
[[Ráðherra]2) setur reglugerð3) um framkvæmd laga þessara. [Í henni skal m.a. kveðið á um framkvæmd endurgreiðslna samkvæmt lögum þessum, heimildir nefndar um endurgreiðslur til að fresta endurgreiðslum sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni, skilyrði endurgreiðslna, aðgreiningu bókhalds skv. c-lið 1. mgr. 4. gr., umsóknir, afgreiðslu umsókna, [menningar- og framleiðsluskilyrði skv. b-lið 1. mgr. 4. gr., útfærslu stuðnings skv. 6. mgr. 4. gr., kröfur varðandi staðfestingu endurskoðanda á grundvelli [6. mgr. 5. gr.]4)]5) og um ákvörðun um endurgreiðslu.]6)]7)
1)L. 58/2016, 4. gr. 2)L. 126/2011, 286. gr. 3)Rg. 450/2017, sbr. 346/2020. 4)L. 76/2022, 3. gr. 5)L. 83/2021, 6. gr. 6)L. 58/2016, 5. gr. 7)L. 177/2000, 8. gr.
Gildistaka.
[9. gr.]1)
Lög þessi öðlast þegar gildi. [Lögin falla úr gildi 31. desember [2025].2) Endurgreiðslubeiðnir sem samþykktar hafa verið fyrir þau tímamörk halda þó gildi sínu.]3)
1)L. 58/2016, 4. gr. 2)L. 83/2021, 7. gr. 3)L. 58/2016, 6. gr.
[Ákvæði til bráðabirgða. …1)]2)
1)L. 58/2016, 7. gr. 2)L. 159/2006, 3. gr.