Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um skipan opinberra framkvæmda

2001 nr. 84 31. maí


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 15. júní 2001. Breytt með: L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 21/2012 (tóku gildi 16. mars 2012).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr.
Opinber framkvæmd merkir í lögum þessum gerð, viðhald eða breytingu mannvirkis sem kostuð er af ríkissjóði að nokkru eða öllu leyti, enda nemi áætlaður kostnaður ríkissjóðs a.m.k. 5 millj. kr. Heimilt er [ráðuneytinu]1) að breyta áðurnefndri fjárhæð til samræmis við verðbreytingar. Ákvæði laganna taka einnig til kaupa og leigu á eignum, eftir því sem við getur átt.
Um útboð opinberra framkvæmda fer samkvæmt lögum um opinber innkaup.
   1)L. 126/2011, 327. gr.
2. gr.
Meðferð máls varðandi opinbera framkvæmd frá upphafi, uns henni er lokið, fer eftir ákveðinni boðleið er skiptist í fjóra áfanga svo sem hér segir: Frumathugun, sbr. 3.–5. gr., áætlunargerð, sbr. 6.–10. gr., verklega framkvæmd, sbr. 11.–15. gr., og skilamat, sbr. 16. gr.

II. kafli. Frumathugun.
3. gr.
Frumathugun er könnun og samanburður þeirra kosta er til greina koma við lausn þeirra þarfa sem framkvæmdinni er ætlað að fullnægja.
Í greinargerð um frumathugun skulu vera áætlanir um kosti. Þessar áætlanir skulu vera tvíþættar, annars vegar áætlun um stofnkostnað, þ.m.t. kostnað við áætlunargerð, og hins vegar áætlun um árlegan rekstrarkostnað, þ.m.t. lánsfjárkostnað og tekjur, ef við á. Í greinargerðinni skal skýrt frá þeim rökum er liggja að vali kosts þess sem tekinn er, þar á meðal hagkvæmnireikningum sem notaðir eru í samanburði. Greinargerð um frumathugun skulu auk þess fylgja tillögur um staðsetningu og stærð, svo og frumuppdrættir að fyrirhugaðri framkvæmd, eftir því sem við á.
4. gr.
Frumathugun fer fram á vegum hlutaðeigandi ráðuneytis, ríkisstofnunar, sveitarfélags eða annarra væntanlegra eignaraðila. Hafi annar aðili en ráðuneyti látið gera frumathugun skal greinargerð skv. 3. gr. send viðkomandi ráðuneyti.
Viðkomandi ráðuneyti gerir tillögur til [ráðuneytisins]1) um fjárveitingar til einstakra framkvæmda á grundvelli frumathugana og jafnframt um röð framkvæmda til ákvörðunar við gerð fjárlagafrumvarps. Tillögur um röð innan sama framkvæmdaflokks skulu lagðar fyrir fjárlaganefnd Alþingis áður en hún ákvarðar tillögur sínar um skiptingu framkvæmdafjár við afgreiðslu fjárlagafrumvarps.
Ef ráðuneyti telur ekki fært að gera tillögu til [ráðuneytisins]1) um fjárveitingu til framkvæmdar samkvæmt frumathugun, sem því hefur borist, skal sú ákvörðun tilkynnt aðilum svo fljótt sem verða má og gerð grein fyrir ástæðum.
   1)L. 126/2011, 327. gr.
5. gr.
Nú hefur verið ákveðið að veita fé til opinberrar framkvæmdar í fjárlögum, án þess að frumathugun hafi verið gerð, og skal þá frumathugun eigi að síður fara fram samkvæmt ákvæðum 3. og 4. gr. laga þessara.

III. kafli. Áætlunargerð.
6. gr.
Áætlunargerð um opinbera framkvæmd fer fram á vegum hlutaðeigandi ráðuneytis, ríkisstofnunar, sveitarfélags eða annarra væntanlegra eignaraðila í samráði við Framkvæmdasýslu ríkisins.
Þegar opinberri framkvæmd, sem ríkið og annar aðili standa að, er ráðstafað til áætlunargerðar skal gera samning milli væntanlegra eignaraðila og þeirra aðila er taka að sér áætlunargerð. Þátttaka ríkissjóðs í kostnaði vegna áætlunargerðar er háð skriflegu samþykki [ráðuneytisins]1) á þeim samningi.
   1)L. 126/2011, 327. gr.
7. gr.
Áætlunargerð um opinberar framkvæmdir skal vera í tvennu lagi:
   1. Fullnaðaruppdrættir og tæknileg verklýsing á þeirri framkvæmd sem fyrirhuguð er, skrá um efnisþörf, nákvæm kostnaðaráætlun um verkið, lýsing á ábyrgðarsviði og verkaskiptingu þeirra aðila sem standa að framkvæmd, tímaáætlun um framkvæmd þess og greiðslu- og fjáröflunaráætlun fyrir framkvæmdatímabilið. [Ráðherra]1) skal skilgreina kröfur um gerð og framsetningu kostnaðaráætlana og kynna þær fyrir ríki og ríkisaðilum.
   2. Rekstraráætlun sem nær til minnst fimm ára eftir að framkvæmd er lokið.
   1)L. 126/2011, 327. gr.
8. gr.
Að lokinni áætlunargerð skv. 7. gr. skal hlutaðeigandi ráðuneyti senda [ráðuneytinu]1) áætlunina til athugunar.
Áætluninni skulu fylgja skilríki um það að fullnægjandi lóðarréttindi og önnur réttindi, sem nauðsynleg eru vegna væntanlegrar framkvæmdar, verði fyrir hendi þegar á þarf að halda.
   1)L. 126/2011, 327. gr.
9. gr.
Nú er áætlun um opinbera framkvæmd í fullu samræmi við ákvæði 7. og 8. gr. og byggð á raunhæfum forsendum að áliti [ráðuneytisins],1) og skal þá áætlunin í heild eða skýrt afmarkaður hluti hennar, er nær nýtanlegum áfanga, koma til athugunar við gerð fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár.
Ef [ráðuneytið]1) tekur ekki slíka áætlun í fjárlagafrumvarp skal það tilkynnt hlutaðeigandi ráðuneyti svo fljótt sem verða má og jafnframt gerð grein fyrir ástæðum.
   1)L. 126/2011, 327. gr.
10. gr.
Í frumvarpi til fjárlaga skal tilfæra þá fjárhæð sem ætluð er á fjárlagaárinu til viðkomandi framkvæmdar, og í greinargerð skal tilfæra þær fjárskuldbindingar sem falla á seinni fjárlagaár í samræmi við áætlunina. Þegar um er að ræða fjárveitingar til einstakra framkvæmdaflokka skulu atriði þau, sem um getur í 1. málsl., koma fram í tillögum og sérstakri greinargerð fjárlaga Alþingis. Í fjárlagafrumvörpum næstu ára skal á sama hátt tilgreina fjárhæðir sem samkvæmt endurskoðaðri áætlun nægja til þess að ljúka framkvæmd á tilsettum tíma.

IV. kafli. Verkleg framkvæmd.
11. gr.
Verkleg framkvæmd merkir í lögum þessum gerð verksamninga, verkið sjálft, eftirlit með því og úttekt. Verk merkir bæði vinnu og efni.
Útboðslýsingar, verklýsingar og verksamningar skulu vera í samræmi við áætlun skv. 9. gr.
12. gr.
Verklega framkvæmd, sem greiða skal eingöngu af ríkisfé, er óheimilt að hefja fyrr en fyrir liggur:
   1. Heimild í fjárlögum.
   2. Ákvörðun hlutaðeigandi ráðuneytis um að nota þá heimild.
   3. Staðfesting [ráðuneytisins]1) á því að fjármagn verði handbært í samræmi við greiðsluáætlun skv. 7. gr.
Þegar um er að ræða sameiginlega framkvæmd ríkis og annars aðila er eigi heimilt að hefja opinbera framkvæmd fyrr en fé hefur verið veitt til hennar í fjárlögum og undirritaður hefur verið samningur viðkomandi ráðuneytis og aðilans með áritun [ráðuneytisins]1) er tryggi að fjármagn verði handbært á framkvæmdatímanum í samræmi við greiðsluáætlun skv. 7. gr.
Eigi sveitarfélag hlut að máli og sé í greiðsluáætlun gert ráð fyrir framlögum úr sveitarsjóði nægir um það atriði skrifleg yfirlýsing sveitarstjórnar um að á framkvæmdatímanum verði fjárhæðir teknar á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins í samræmi við greiðsluáætlun skv. 7. gr.
   1)L. 126/2011, 327. gr.
13. gr.
Þegar um er að ræða sameiginlega framkvæmd ríkis og sveitarfélags annast sveitarfélag útboð, undirbúning samningsgerðar við verktaka og reikningshald og greiðslur vegna verksins nema öðruvísi um semjist eða [ráðherra]1) ákveði annað.
Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir getur áskilið að sveitarfélag, er sér um útboð vegna framkvæmdar, skuli fá samþykki Framkvæmdasýslu ríkisins fyrir útboðslýsingu áður en útboð fer fram.
Þegar framlög til sameiginlegra framkvæmda ríkis og sveitarfélags eru miðuð við ákveðið einingarverð, sbr. XII. kafla laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, annast sveitarfélag útboð og verklega framkvæmd, nema öðruvísi um semjist.
   1)L. 126/2011, 327. gr.
14. gr.
Samningur við verktaka skal undirritaður af hlutaðeigandi ráðuneyti. Þegar um er að ræða sameiginlega framkvæmd ríkis og sveitarfélags eða annars eignaraðila skal samningur undirritaður af báðum eða öllum aðilum nema öðruvísi um semjist, sbr. þó 3. mgr. 13. gr.
15. gr.
Nú raskast kostnaðar- eða tímaáætlun verks vegna verðlagsbreytinga eða af tæknilegum orsökum, og skal þá hlutaðeigandi ráðuneyti svo fljótt sem auðið er gera tillögur til [ráðuneytisins]1) um breytta greiðsluáætlun. Samþykki [ráðuneytið]1) hina breyttu greiðsluáætlun skal miða við hana í frumvarpi til fjárlaga næsta árs. Sé um að ræða sameiginlega framkvæmd ríkis og annars aðila komi einnig til samþykki þess aðila á breyttri greiðsluáætlun.
   1)L. 126/2011, 327. gr.

V. kafli. Skilamat.
16. gr.
Að lokinni verklegri framkvæmd og úttekt skal fara fram skilamat. Í matinu skal gerð grein fyrir því hvernig framkvæmd hefur tekist miðað við áætlun. Enn fremur skal þar gerður samanburður við hliðstæðar framkvæmdir sem þegar hafa verið metnar.
Framkvæmdasýsla ríkisins setur nánari reglur1) um fyrirkomulag skilamats og sér um að greinargerðir um skilamat séu lagðar fyrir fjárlaganefnd Alþingis, samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og eignaraðila.
   1)Rgl. 717/2001.

VI. kafli. Yfirstjórn opinberra framkvæmda.
17. gr.
Opinberar framkvæmdir heyra undir [ráðherra]1) sem fer með framkvæmd laga þessara.
[Ráðuneytið]1) fer með fjármálalega yfirstjórn opinberra framkvæmda, þ.e. frumathugunar, sbr. 3.–5. gr., og áætlunargerðar, sbr. 6.–10. gr. Framkvæmdasýsla ríkisins fer með yfirstjórn verklegrar framkvæmdar, sbr. 11.–15. gr., og gerð skilamats, sbr. 16. gr.
Sveitarfélög eða aðrir eignaraðilar fara með stjórn þeirra þátta, sem ræddir eru í 4., 6. og 13. gr., eftir því sem þar segir nánar.
[Ráðuneytinu]1) er heimilt að fela einstökum ríkisstofnunum umsjón nánar skilgreindra flokka opinberra framkvæmda, enda hafi þessar stofnanir aðstöðu til að annast þessi verkefni.
   1)L. 126/2011, 327. gr.
18. gr.
Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir er [ráðuneytinu]1) til ráðuneytis um fjármálalega framkvæmd laga þessara, sbr. I.–IV. kafla. Í nefndinni eiga sæti þrír menn: formaður fjárlaganefndar Alþingis eða sérstaklega tilnefndur fulltrúi nefndarinnar, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins og [ráðuneytisstjórinn],2) sem er formaður nefndarinnar. Hlutaðeigandi ráðuneyti hafa rétt til að eiga fulltrúa á fundum þar sem fjallað er um mál sem eru innan verksviðs þeirra. Þegar nefndin fjallar um sameiginlegar framkvæmdir ríkis og sveitarfélags á fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga rétt á að sitja fundi hennar nema sveitarfélag óski sjálft að tilnefna fulltrúa til fundarsetu.
Nefndin hefur það hlutverk að leiða saman sjónarmið eignaraðila opinberrar framkvæmdar á undirbúnings- og framkvæmdastigi og rannsaka frumathugun og áætlunargerð sem er undanfari verklegrar framkvæmdar. Nefndin fylgist að öðru leyti með framkvæmd hinnar fjármálalegu hliðar opinberrar framkvæmdar.
Ef nefndin telur að óþarfa dráttur sé á afgreiðslu máls, sem sameignaraðili sendir hlutaðeigandi ráðuneyti, skal hún hlutast til um að úr sé bætt.
Ráðherra setur nefndinni nánari starfsreglur.3)
   1)L. 126/2011, 327. gr. 2)L. 21/2012, 9. gr. 3)Rgl. 716/2001.

VII. kafli. Starfsemi Framkvæmdasýslu ríkisins.
19. gr.
Á vegum ríkisins skal rekin stofnun, Framkvæmdasýsla ríkisins, sem fer með stjórn verklegra framkvæmda af hálfu ríkisins nema annað sé sérstaklega tilgreint í lögum þessum. Stofnunin veitir ráðuneytum og ríkisstofnunum ráðgjöf um byggingartæknileg málefni og undirbúning framkvæmda. Framkvæmdasýsla ríkisins heyrir undir [ráðuneytið].1)
   1)L. 126/2011, 327. gr.
20. gr.
Framkvæmdasýsla ríkisins skal beita sér fyrir að hagkvæmni sé gætt í skipan opinberra framkvæmda. Til að sinna þessu hlutverki skal hún:
   a. veita ráðgjöf og vinna að samræmingu við undirbúning og áætlunargerð við opinberar verkframkvæmdir,
   b. undirbúa og annast framkvæmd útboða og samninga við verktaka,
   c. sjá um reikningshald og greiðslur vegna verka nema öðruvísi um semjist eða [ráðherra]1) ákveði annað,
   d. hafa frumkvæði að útgáfu viðmiðana um stærð rýma og gæði opinberra mannvirkja,
   e. byggja upp og viðhalda skrá yfir fasteignir ríkisins sem gagnast ráðuneytum og ríkisstofnunum við stjórn fasteignaumsýslu,
   f. stuðla að þróun verktakamarkaðar og aukinni samkeppni,
   g. stuðla að skilvirkni og faglegum vinnubrögðum í tengslum við verklegar framkvæmdir.
Framkvæmdasýsla ríkisins getur falið einkaaðilum að annast einstök verkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt ákvæðum greinarinnar.
   1)L. 126/2011, 327. gr.
21. gr.
[Ráðherra]1) skipar forstjóra Framkvæmdasýslu ríkisins til fimm ára í senn og er hann ábyrgur fyrir rekstri stofnunarinnar. Forstjóri mótar helstu áherslur, verkefni og starfshætti stofnunarinnar ásamt því að ráða starfslið hennar.
   1)L. 126/2011, 327. gr.
22. gr.
Framkvæmdasýsla ríkisins selur ráðuneytum og ríkisstofnunum þjónustu sína samkvæmt gjaldskrá sem [ráðherra]1) staðfestir. Gjaldskráin skal miðast við að tekjur stofnunarinnar standi undir rekstri hennar.
   1)L. 126/2011, 327. gr.
23. gr.
[Ráðherra]1) getur í reglugerð2) kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara.
   1)L. 126/2011, 327. gr. 2)Rg. 715/2001, sbr. 834/2002.
24. gr.
Lög þessi taka þegar gildi.