Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir
2003 nr. 3 3. febrúar
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 7. febrúar 2003. Breytt með:
L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
L. 149/2012 (tóku gildi 3. jan. 2013).
L. 47/2018 (tóku gildi 26. maí 2018).
L. 42/2019 (tóku gildi 25. maí 2019).
L. 26/2021 (tóku gildi 1. júlí 2021).
L. 89/2021 (tóku gildi 8. júlí 2021).
L. 137/2022 (tóku gildi 1. apríl 2023).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Markmið.
1. gr.
Markmið laga þessara er að efla vísindarannsóknir og vísindamenntun á Íslandi með því að styrkja grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem starfa að vísindarannsóknum jafnframt því að tryggja áreiðanleika og gæði upplýsinga um vísindi og rannsóknir hér á landi.
II. kafli. Úthlutunarsjóðir.
2. gr. [Rannsóknasjóður.
Hlutverk Rannsóknasjóðs er að styrkja vísindarannsóknir og rannsóknartengt framhaldsnám. Sjóðurinn styrkir nemendur í rannsóknartengdu framhaldsnámi og skilgreind rannsóknarverkefni sem efla stöðu vísindastarfs á Íslandi. Rannsóknasjóður veitir styrki samkvæmt almennum áherslum [ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun]1) og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna, færni þeirra einstaklinga sem stunda rannsóknirnar og aðstöðu þeirra til að sinna verkefninu. Ákvörðun um styrkveitingu skal bundin hinu faglega mati.]2)
1)L. 137/2022, 8. gr. 2)L. 42/2019, 1. gr.
3. gr. …1)
1)L. 42/2019, 2. gr.
4. gr. [Stjórn Rannsóknasjóðs.
Ráðherra skipar fimm manna stjórn Rannsóknasjóðs til þriggja ára í senn samkvæmt tilnefningu [Vísinda- og nýsköpunarráðs].1) Tilnefndir skulu fimm einstaklingar sem hafa reynslu og þekkingu á vísindarannsóknum, þar af skal einn tilnefndur úr [Vísinda- og nýsköpunarráði].1) Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna.
Stjórnin tekur ákvarðanir um fjárveitingar úr Rannsóknasjóði að fengnum umsögnum fagráða sem skipuð eru skv. 5. gr. Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðsins getur veitt ef þurfa þykir.
Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
Ákvarðanir stjórnar um styrkveitingar samkvæmt lögum þessum sæta ekki stjórnsýslukæru.
Kostnaður við mat á umsóknum og við störf stjórnar skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins.
Stjórn er heimilt, að tillögu [Vísinda- og nýsköpunarráðs],1) að veita viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í vísindarannsóknum af ráðstöfunarfé Rannsóknasjóðs.]2)
1)L. 137/2022, 8. gr. 2)L. 42/2019, 3. gr.
5. gr. [Fagráð Rannsóknasjóðs.
[Stjórn Rannsóknasjóðs skipar fagráð sjóðsins]1) til tveggja ára í senn á helstu sviðum vísinda sem skulu hafa það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir stjórn við úthlutanir úr [sjóðnum].1) [Stjórnin]1) skipar formenn fagráða sérstaklega. Fagráð eru jafnframt ráðgefandi fyrir [ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun og Vísinda- og nýsköpunarráð]1) um fagleg efni eftir því sem óskað er. Í alþjóðlegum samstarfsverkefnum rannsóknasjóða er heimilt að byggja á niðurstöðum fagráða sem skipuð eru sameiginlega af samstarfsaðilum, enda séu sambærilegar kröfur gerðar til matsviðmiða, sbr. 2. mgr.
Fagráð Rannsóknasjóðs skal vera skipað allt að sjö einstaklingum með víðtæka reynslu af rannsóknum. Skulu þeir hvorki sitja í [Vísinda- og nýsköpunarráði]1) né stjórn úthlutunarsjóða samkvæmt lögum þessum. Fagráð metur umsóknir út frá vísindalegu gildi, færni og aðstöðu umsækjenda til að framkvæma verkið og líkum á að verkefnið skili mælanlegum árangri og ávinningi.]2)
1)L. 137/2022, 8. gr. 2)L. 42/2019, 4. gr.
6. gr. [Úthlutunarreglur Rannsóknasjóðs.
[Vísinda- og nýsköpunarráð markar úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs samkvæmt áherslum ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun.]1) Stjórn sjóðsins gefur út reglur um umsóknir, málsmeðferð þeirra og úthlutun eigi síðar en sex vikum fyrir lok umsóknarfrests og skulu þær kynntar ráðherra. Í reglunum skulu koma fram skilyrði umsókna og áherslur [ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun].1)]2)
1)L. 137/2022, 8. gr. 2)L. 42/2019, 5. gr.
[6. gr. a. Innviðasjóður.
Hlutverk Innviðasjóðs er að styðja við uppbyggingu rannsóknarinnviða á Íslandi. Við úthlutun eru höfð til hliðsjónar viðmið og áherslur sem birtast í stefnu [ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun]1) um rannsóknarinnviði hverju sinni.]2)
1)L. 137/2022, 8. gr. 2)L. 42/2019, 6. gr.
[6. gr. b. Stjórn Innviðasjóðs.
Ráðherra skipar fjögurra manna stjórn Innviðasjóðs til þriggja ára í senn samkvæmt tilnefningu [Vísinda- og nýsköpunarráðs].1) Að auki skipar ráðherra formann stjórnar án tilnefningar en varaformann úr hópi hinna fjögurra.
Stjórn byggir ákvarðanir um fjárveitingu á umsögnum fagráðs Innviðasjóðs og áherslum [ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun]1) um uppbyggingu rannsóknarinnviða. Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðsins getur veitt ef þurfa þykir.
Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
Ákvarðanir stjórnar um styrkveitingar samkvæmt lögum þessum sæta ekki stjórnsýslukæru.
Kostnaður við mat á umsóknum og við störf stjórnar skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins.]2)
1)L. 137/2022, 8. gr. 2)L. 42/2019, 6. gr.
[6. gr. c. Fagráð Innviðasjóðs.
[Stjórn Innviðasjóðs skipar fagráð sjóðsins]1) til tveggja ára í senn sem hefur það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir stjórn við úthlutanir úr Innviðasjóði. [Stjórnin skipar]1) formann fagráðs sérstaklega.
Fagráð Innviðasjóðs skal vera skipað allt að níu einstaklingum með víðtæka reynslu af rannsóknum og þekkingu á innlendu og erlendu rannsóknarumhverfi. Skulu fagráðsmeðlimir hvorki sitja í [Vísinda- og nýsköpunarráði]1) né stjórnum annarra úthlutunarsjóða samkvæmt lögum þessum. Fagráð metur gæði umsókna.]2)
1)L. 137/2022, 8. gr. 2)L. 42/2019, 6. gr.
[6. gr. d. Úthlutunarreglur Innviðasjóðs.
[Stjórn Innviðasjóðs markar úthlutunarstefnu Innviðasjóðs samkvæmt áherslum ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun.]1) Stjórn sjóðsins gefur út reglur um umsóknir, málsmeðferð þeirra og úthlutun eigi síðar en sex vikum fyrir lok umsóknarfrests sjóðsins og skulu þær kynntar ráðherra. Í reglunum skulu koma fram skilyrði umsókna og áherslur [ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun]1) í uppbyggingu rannsóknarinnviða. Rannsóknarinnviðir sem styrktir eru af opinberu fé skulu vera opnir vísindamönnum að uppfylltum faglegum kröfum.]2)
1)L. 137/2022, 8. gr. 2)L. 42/2019, 6. gr.
7. gr. [Markáætlun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar.
Í fjárlögum eru veittir styrkir til grunnrannsókna og hagnýtra verkefna undir formerkjum Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar. Markáætlun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar nær yfir stefnumótandi áætlanir þar sem um er að ræða tímabundinn forgang á fjármagni. Verkefni skulu unnin í nánu samstarfi fyrirtækja, rannsóknarstofnana og háskóla á einstökum sviðum eða þverfaglegum fræðasviðum á grundvelli vandaðra rannsóknaráætlana. Markmið verkefna skulu falla að almennum áherslum og markmiðum [ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun].1)]2)
1)L. 137/2022, 8. gr. 2)L. 149/2012, 5. gr.
8. gr. [Tekjur Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar.
Tekjur Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar eru:
1. Fjárveiting í fjárlögum ár hvert.
2. Önnur framlög.]1)
1)L. 149/2012, 5. gr.
9. gr. [Stjórn Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar.
Ráðherra skipar stjórn Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar til þriggja ára í senn. Stjórnin skal skipuð þremur einstaklingum úr stjórn Rannsóknasjóðs og þremur einstaklingum úr stjórn Tækniþróunarsjóðs, sem skipuð er skv. [3. gr. laga um Tækniþróunarsjóð],1) og jafnmörgum til vara. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna.
[Ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun.]2) markar áherslur nýrrar Markáætlunar. Stjórn Markáætlunar setur reglur varðandi umsóknir, mat þeirra og málsmeðferð í samræmi við áherslur [ráðherranefndarinnar].2)
Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar Markáætlunar og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
Kostnaður við mat á umsóknum og rekstur Markáætlunar skal greiddur af ráðstöfunarfé.
Ákvarðanir stjórnar um veitingu styrkja úr Markáætlun eru endanlegar á stjórnsýslustigi.]3)
1)L. 26/2021, 8. gr. 2)L. 137/2022, 8. gr. 3)L. 149/2012, 5. gr.
[10. gr. Niðurstöður rannsókna.
Niðurstöður rannsókna, sem kostaðar eru með styrkjum úr sjóðum er falla undir lög þessi, skulu birtar í opnum aðgangi og vera öllum tiltækar nema um annað sé samið. Styrkþegar skulu í öllum ritsmíðum sínum um niðurstöður rannsókna geta um þátt sjóðanna í viðkomandi verki.]1)
1)L. 149/2012, 5. gr.
[11. gr. Önnur verkefni.
Ráðherra getur falið stjórn úthlutunarsjóða, sbr. 4. gr., úthlutun annarra sjóða samkvæmt frekari ákvörðun þar um.]1)
1)L. 149/2012, 5. gr.
III. kafli. Rannsóknamiðstöð Íslands.
[12. gr.]1) Hlutverk.
Rannsóknamiðstöð Íslands er ríkisstofnun sem heyrir undir [ráðherra].2) Hlutverk hennar er að veita faglega aðstoð og þjónustu við undirbúning og framkvæmd [stefnu ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun].3) Í því felst að:
1. Annast umsýslu Rannsóknasjóðs, [Innviðasjóðs og Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar]4) sem heyra undir [ráðherra].2)
2. Annast umsýslu Tækniþróunarsjóðs sem heyrir undir [ráðherra sem fer með málefni atvinnuþróunar og nýsköpunar].2)
3. Annast umsýslu annarra sjóða samkvæmt nánari ákvörðun [ráðherra].2)
4. Annast þjónustu við fagráð og stjórnir framangreindra sjóða.
5. Annast gagnasöfnun og miðlun upplýsinga fyrir [ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun og Vísinda- og nýsköpunarráð]3) um vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun í landinu; afla upplýsinga og gagna varðandi þróun vísinda og tækni á alþjóðavettvangi.
6. Gangast fyrir mati á árangri rannsókna, þróunar og nýsköpunar í landinu með reglulegum hætti og taka þátt í fjölþjóðlegum samanburðarathugunum á því sviði fyrir hönd Íslands þegar þess er óskað.
7. Annast kynningu á rannsóknastarfsemi í landinu fyrir almenning.
8. Annast kynningu og ráðgjöf fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki um möguleika á styrkjum og stuðla að samvinnu um rannsóknarverkefni innan lands og utan.
9. Hafa samstarf við hliðstæðar erlendar stofnanir eða skrifstofur og fylgjast með þátttöku Íslands í fjölþjóðlegu vísindastarfi.
10. Sinna öðrum verkefnum sem [ráðherra]2) felur stofnuninni. Stofnunin getur átt samstarf við og tekið að sér verkefni á sviði vísinda- og tæknimála fyrir önnur ráðuneyti samkvæmt samkomulagi.
1)L. 149/2012, 5. gr. 2)L. 126/2011, 358. gr. 3)L. 137/2022, 8. gr. 4)L. 149/2012, 6. gr.
[12. gr. a. Vinnsla persónuupplýsinga.
Rannsóknamiðstöð Íslands er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem hún er nauðsynleg í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu, þ.m.t. vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar umsækjenda með sérstakar þarfir eða fötlun við undirbúning og veitingu styrkja.]1)
1)L. 89/2021, 10. gr.
[13. gr.]1) Forstöðumaður.
[Ráðherra]2) skipar forstöðumann Rannsóknamiðstöðvar Íslands til fimm ára í senn. Hann skal hafa háskólapróf og þekkingu á starfssviði stofnunarinnar. Forstöðumaður annast daglegan rekstur stofnunarinnar, er í fyrirsvari fyrir hana út á við og ber ábyrgð á rekstri hennar og að starfsemi hennar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Jafnframt annast forstöðumaður ráðningu annarra starfsmanna stofnunarinnar. [Ráðherra]2) setur forstöðumanni erindisbréf.
1)L. 149/2012, 5. gr. 2)L. 126/2011, 358. gr.
IV. kafli. Ýmis ákvæði.
[14. gr.]1) Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi. …
1)L. 149/2012, 5. gr.
[15. gr.]1) …
1)L. 149/2012, 5. gr.
Ákvæði til bráðabirgða.
[I.
Við gildistöku laga þessara skulu eignir og skuldbindingar Rannsóknarnámssjóðs falla til Rannsóknasjóðs og eignir og skuldbindingar Tækjasjóðs falla til Innviðasjóðs eins og þær standa í lok árs 2012.]1)
1)L. 149/2012, 7. gr.
[II.
Þeir sem þegið hafa styrk úr Rannsóknasjóði, Rannsóknarnámssjóði, Tækjasjóði og Markáætlun á sviði vísinda og tækni fyrir gildistöku laga þessara halda óbreyttum réttindum og skyldum samkvæmt þeim styrkveitingum.]1)
1)L. 149/2012, 7. gr.
[III.
Núverandi stjórnir Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs skulu halda umboði sínu og starfa þar til ný stjórn úthlutunarsjóða hefur verið skipuð skv. 4. gr.]1)
1)L. 149/2012, 7. gr.