Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um fyrirtækjaskrá

2003 nr. 17 20. mars


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 2003. Breytt með: L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 137/2013 (tóku gildi 1. jan. 2014). L. 64/2017 (tóku gildi 1. jan. 2018). L. 82/2019 (tóku gildi 6. júlí 2019; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2015/849). L. 119/2019 (tóku gildi 11. okt. 2019). L. 32/2021 (tóku gildi 1. nóv. 2021 nema 7. og 8. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2022). L. 110/2021 (tóku gildi 1. nóv. 2021). L. 133/2021 (tóku gildi 31. des. 2021 nema 3. gr. og 9.–19. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2022; um lagaskil sjá 26. gr.).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar- og viðskiptaráðherra eða menningar- og viðskiptaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Markmið og stjórnsýsla.
1. gr.
Halda skal skrá, fyrirtækjaskrá, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.
Ríkisskattstjóri starfrækir fyrirtækjaskrá og annast útgáfu á kennitölum til annarra en einstaklinga.
[Ráðherra]1) fer með mál sem varða fyrirtækjaskrá.
   1)L. 126/2011, 360. gr.

II. kafli. Skráning og útgáfa á kennitölu.
2. gr.
Fyrirtækjaskrá skal geyma upplýsingar um:
   1. Einstaklinga, félög og aðra aðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.
   2. Stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins.
   3. Stofnanir og fyrirtæki í eigu sveitarfélaga.
   4. Félög, [félög til almannaheilla],1) [félög til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri],2)3) samtök og aðila, aðra en einstaklinga, sem hafa með höndum eignaumsýslu, eru skattskyldir eða bera aðrar skattalegar skyldur, [erlenda fjárvörslusjóði eða sambærilega aðila].4)
   5. Aðra starfsemi sem ríkisskattstjóri sér ástæðu til að skrá í fyrirtækjaskrá.
   1)L. 110/2021, 37. gr. 2)L. 119/2019, 24. gr. 3)L. 133/2021, 23. gr. 4)L. 82/2019, 22. gr.
3. gr.
Í fyrirtækjaskrá skal halda aðgreinanlegar skrár yfir hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög, [sameignarfélög, samlagsfélög, firmu eins manns],1) [félög til almannaheilla],2) [félög til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri]3)4) og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur samkvæmt þeim lögum sem gilda um þessi félög og stofnanir.
   1)L. 137/2013, 4. gr. 2)L. 110/2021, 37. gr. 3)L. 119/2019, 24. gr. 4)L. 133/2021, 23. gr.
4. gr.
Í fyrirtækjaskrá skal skrá eftirfarandi upplýsingar eftir því sem við á:
   1. Heiti.
   2. Kennitölu.
   3. Heimilisfang.
   4. Rekstrar- eða félagsform.
   5. Stofndag.
   6. Nafn, lögheimili og kennitölu forráðamanna.
   7. Atvinnugreinarnúmer samkvæmt atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands.
   8. Slit félags.
   [9. Raunverulega eigendur samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda.
   10. Í tilviki erlendra fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila, upplýsingar um fjárvörsluaðila, stofnaðila, ábyrgðaraðila, raunverulegan eiganda eða hóp þeirra og aðra einstaklinga sem hafa yfirráð yfir sjóðnum, samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda, eftir því sem við á.
   11. Netfang félags og forsvarsmanna.]1)
   [12.]1) Önnur þau atriði sem skylt er að skrá um starfsemi félaga og fyrirtækja samkvæmt lögum eða nauðsynlegt eða hagkvæmt þykir að skrá vegna hagsmuna opinberra aðila eða miðlunar upplýsinga til opinberra aðila, fyrirtækja og almennings.
[Tilkynningarskyldir aðilar skulu senda ríkisskattstjóra upplýsingar skv. 1. mgr. ásamt viðeigandi gögnum við nýskráningu í fyrirtækjaskrá.
Ríkisskattstjóri metur hvort veittar upplýsingar séu réttar og fullnægjandi og krefur eftir því sem við á tilkynningarskylda aðila um frekari upplýsingar eða aflar þeirra sjálfstætt.
Í tengslum við skráningu samkvæmt lögum þessum er einstaklingum og lögaðilum skylt að láta ríkisskattstjóra í té án tafar allar upplýsingar og gögn sem honum eru nauðsynleg til að tryggja rétta skráningu samkvæmt lögum þessum. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varði þann aðila sem beiðninni er beint til eða annan aðila sem hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit samkvæmt lögum þessum. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Þetta gildir þó ekki um upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið. Vegna starfa sinna getur ríkisskattstjóri gert vettvangskannanir eða óskað upplýsinga á þann hátt og svo oft sem hann telur þörf á.]1)
   1)L. 82/2019, 22. gr.
5. gr.
Þeir aðilar sem falla undir 1.–4. tölul. 2. gr. eða óska skráningar skv. 5. tölul. 2. gr. skulu tilkynna sig til skráningar í fyrirtækjaskrá.
Tilkynningar skv. 1. mgr. skulu vera á sérstökum eyðublöðum sem ríkisskattstjóri lætur gera. Tilkynningar mega vera á rafrænu formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
Ríkisskattstjóra er heimilt að færa aðila sem falla undir 1.–4. tölul. 2. gr. í fyrirtækjaskrá ef þeir vanrækja tilkynningarskyldu skv. 1. mgr.
[Eingöngu lánastofnunum er heimilt að skrá fjárvörslusjóði og sambærilega aðila skv. 4. tölul. 2. gr. að undangenginni fullnægjandi áreiðanleikakönnun.]1)
   1)L. 82/2019, 22. gr.
6. gr.
Við skráningu í fyrirtækjaskrá skal hinum skráða [úthlutað kennitölu].1) Með kennitölu er átt við einkvæmt auðkennisnúmer hins skráða.
Einstaklingar með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skulu auðkenndir í fyrirtækjaskrá með kennitölu þeirra samkvæmt þjóðskrá.
Við nýskráningu í fyrirtækjaskrá ásamt útgáfu á kennitölu skal ríkisskattstjóri taka skráningargjald samkvæmt reglugerð2) sem [ráðherra]3) setur.
[Kennitölu skv. 1. mgr. verður ekki úthlutað fyrr en fullnægjandi upplýsingar samkvæmt þessum og öðrum viðeigandi lögum liggja fyrir.]1)
   1)L. 82/2019, 22. gr. 2)Rg. 162/2006, sbr. 455/2007 og 223/2022. 3)L. 126/2011, 360. gr.
7. gr.
Þeim sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá er skylt að tilkynna ríkisskattstjóra allar breytingar er varða skráningu skv. 1.–8. tölul. 4. gr. Opinberir aðilar skulu og láta ríkisskattstjóra í té upplýsingar sem þeir kunna að hafa og þörf er á til skráningar í fyrirtækjaskrá.
Ríkisskattstjóri uppfærir fyrirtækjaskrá eftir tilkynningum og upplýsingum skv. 1. mgr., svo og eftir öðrum óyggjandi heimildum um starfsemi skráðra fyrirtækja.

III. kafli. Aðgangur að upplýsingum úr fyrirtækjaskrá.
8. gr.
Ríkisskattstjóri skal veita opinberum aðilum, fyrirtækjum og almenningi upplýsingar úr fyrirtækjaskrá. [Um aðgang að upplýsingum um raunverulega eigendur, sbr. 9. og 10. tölul. 1. mgr. 4. gr., fer samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda.]1)
[Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, eftirlitsaðilar og stjórnvöld sem gegna réttarvörslu samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skulu tímanlega hafa óheftan aðgang að öllum skráðum upplýsingum í fyrirtækjaskrá.]1)
[Ráðherra]2) setur með reglugerð3) nánari ákvæði um aðgang að fyrirtækjaskrá, veitingu upplýsinga úr henni svo og um gjaldtöku fyrir upplýsingar úr skránni, svo sem fyrir útgáfu vottorða og staðfestinga og önnur afnot af upplýsingum skrárinnar. [Engin gjaldtaka skal þó vera fyrir rafræna uppflettingu í skránni og skulu allar upplýsingar birtast í rafrænni uppflettingu.]4)
   1)L. 82/2019, 22. gr. 2)L. 126/2011, 360. gr. 3)Rg. 162/2006, sbr. 455/2007 og 223/2022. 4)L. 64/2017, 1. gr.
9. gr.
Hagstofu Íslands er heimilt að hagnýta gögn úr fyrirtækjaskrá til hagskýrslugerðar og í því skyni tengja hana öðrum skrám ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri skal láta Hagstofunni í té afrit af skránni eða upplýsingar úr henni eftir því sem hún óskar og án þess að gjald komi fyrir. Hagstofunni er skylt að fara með skrána og önnur gögn tengd henni sem hagskýrslugögn sem um gildir trúnaður.
[9. gr. a.
Komi í ljós að tilkynningarskyldur aðili fylgir ekki ákvæðum laga þessara skal ríkisskattstjóri krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.]1)
   1)L. 82/2019, 22. gr.

IV. kafli. Ýmis ákvæði.
10. gr.
[Ríkisskattstjóri getur lagt dagsektir á tilkynningarskyldan aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests. Greiðast dagsektirnar þangað til farið hefur verið að kröfum ríkisskattstjóra. Dagsektirnar geta numið frá 10 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag og er heimilt að ákveða þær sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri tilkynningarskylds aðila. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila.
Dagsektir skulu ákveðnar með úrskurði ríkisskattstjóra.
Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.
Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum ríkisskattstjóra nema ríkisskattstjóri samþykki lækkun eða niðurfellingu þeirra með úrskurði.
Ákvarðanir um dagsektir samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar.
Innheimtar dagsektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
Heimilt er að kveða nánar á um ákvörðun og innheimtu dagsekta í reglugerð.]1)
   1)L. 82/2019, 22. gr.
[10. gr. a.
Ríkisskattstjóri getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglum settum á grundvelli þeirra:
   1. 4. gr. um að veita ríkisskattstjóra upplýsingar eða ef aðili veitir rangar eða villandi upplýsingar og
   2. 7. gr. um að tilkynna ríkisskattstjóra ekki um breytingar er varða skráningu skv. 4. gr.
Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 5 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 80 millj. kr. en geta þó verið hærri eða allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu og brot er framið til hagsbóta fyrir annan lögaðila í samstæðunni eða annar lögaðili í samstæðunni hefur notið hagnaðar af brotinu.
Við ákvörðun sekta samkvæmt ákvæði þessu skal m.a. tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftirfarandi:
   a. alvarleika brots,
   b. hvað brotið hefur staðið lengi,
   c. ábyrgðar hins brotlega hjá lögaðilanum,
   d. fjárhagsstöðu hins brotlega,
   e. ávinnings af broti eða taps sem forðað er með broti,
   f. hvort brot hafi leitt til taps þriðja aðila,
   g. hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins,
   h. samstarfsvilja hins brotlega,
   i. fyrri brota og
   j. hvort um ítrekað brot er að ræða.
Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar með úrskurði ríkisskattstjóra og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun ríkisskattstjóra skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Gera má lögaðila stjórnvaldssekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðilans má gera honum refsingu, auk þess að gera lögaðilanum stjórnvaldssekt.
Ef einstaklingur eða lögaðili brýtur gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra, og fyrir liggur að hann hafi hlotið fjárhagslegan ávinning af broti, er heimilt að ákvarða hinum brotlega sektarfjárhæð sem getur, þrátt fyrir 1. og 2. málsl. 2. mgr., numið allt að tvöfaldri fjárhæð fjárhagslegs ávinnings hins brotlega.]1)
   1)L. 82/2019, 22. gr.
[10. gr. b.
Heimild ríkisskattstjóra til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar eftirlitsaðili tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.]1)
   1)L. 82/2019, 22. gr.
[10. gr. c.
Nú vill aðili ekki una ákvörðun skv. 10. gr. a eða 10. gr. b og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar né heimild til aðfarar samkvæmt henni.
Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir eða stjórnvaldssektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.]1)
   1)L. 82/2019, 22. gr.
11. gr.
[Ráðherra]1) er heimilt að setja með reglugerð2) nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
   1)L. 126/2011, 360. gr. 2)Rg. 841/2018.
12. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2003 og skal fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands þá flytjast til ríkisskattstjóra og vera stofn fyrirtækjaskrár samkvæmt lögum þessum.