Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn

2003 nr. 43 24. mars


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 2003. Breytt með: L. 23/2004 (tóku gildi 11. maí 2004). L. 46/2006 (tóku gildi 1. jan. 2007 nema 6. gr. og ákvæði til bráðabirgða sem tóku gildi 16. júní 2006). L. 82/2008 (tóku gildi 1. júní 2008, birt í Stjtíð. 19. júní 2008). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 32/2013 (tóku gildi 1. júní 2013). L. 59/2013 (tóku gildi 1. júlí 2013).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi taka til björgunarsveita og björgunarsveitarmanna sem starfa innan viðurkenndra heildarsamtaka björgunarsveita.
2. gr. Skilgreiningar.
Með björgunarsveit er átt við félag sem á grundvelli sjálfboðaliðastarfs tekur þátt í björgun, leit og gæslu að beiðni stjórnvalda.
Með björgunarsveitarmanni er átt við skráðan einstakling í björgunarsveit sem tekur þátt í björgun, björgunaræfingum, leit og gæslu.
Með stjórnvöldum er átt við öll stjórnvöld sem lögum samkvæmt fara með yfirstjórn björgunar- og leitarmála á hverjum tíma. Þau stjórnvöld sem nú eiga hlut að björgunarmálum eru [ráðuneytið],1) [almannavarna- og öryggismálaráð],2) almannavarnanefndir, [Samgöngustofa],3) [rannsóknarnefnd samgönguslysa],4) Landhelgisgæslan, ríkislögreglustjóri, [lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórinn á Suðurnesjum],5) sýslumenn sem lögreglustjórar og slökkviliðsstjórar.
Með björgun er átt við björgun manna eða verðmæta frá yfirvofandi hættu eða tjóni.
Með leit er átt við leit að mönnum eða verðmætum.
Með gæslu er átt við aðstoð við að gæta manna og verðmæta á svæðum sem lokað hefur verið vegna hættuástands.
   1)L. 126/2011, 364. gr. 2)L. 82/2008, 35. gr. 3)L. 59/2013, 23. gr. 4)L. 32/2013, 5. gr. 5)L. 46/2006, 10. gr.

II. kafli. Hlutverk, réttindi, skyldur og tryggingar björgunarsveita og björgunarsveitarmanna.
3. gr. Hlutverk björgunarsveita og björgunarsveitarmanna.
Hlutverk björgunarsveita og björgunarsveitarmanna er að starfa í þágu almannaheilla með þátttöku við björgun, leit og gæslu á ábyrgð stjórnvalda og í samvinnu við þau.
Stjórnvöld skulu í samráði við heildarsamtök björgunarsveita gera samkomulag um samskipti og samstarf björgunaraðila þar sem er kveðið á um skipulag björgunarmála, upplýsingaskyldu, útköll og boðskipti.
4. gr. Skyldur björgunarsveita og björgunarsveitarmanna.
Björgunarsveitum er skylt að hefja björgun, leit og gæslu ef stjórnvöld óska þess.
Björgunarsveitarmönnum er skylt að gæta þagmælsku um mál sem þeir fá vitneskju um við störf samkvæmt lögum þessum og leynt skulu fara samkvæmt fyrirmælum stjórnvalda og eðli máls.
5. gr. [Vátryggingar.
Björgunarsveitum er skylt að tryggja björgunarsveitarmenn vegna slysa er þeir kunna að verða fyrir í störfum sínum á vegum björgunarsveita.
Björgunarsveitum er skylt að kaupa eignatryggingu fyrir tjóni á persónulegum munum björgunarsveitarmanna sem verða kann í störfum þeirra á vegum björgunarsveita.
Björgunarsveitum er skylt að kaupa ábyrgðartryggingu fyrir tjóni sem björgunarsveitarmenn kunna að valda þriðja aðila í störfum sínum á vegum björgunarsveita. Um skaðabótaábyrgð björgunarsveita fer að almennum reglum skaðabótaréttar.
[Ráðherra]1) setur í reglugerð2) nánari reglur um vátryggingarskylduna, þar með talið gildissvið vátrygginga þessara og vátryggingarfjárhæðir.]3)
   1)L. 126/2011, 364. gr. 2)Rg. 21/2005. 3)L. 23/2004, 1. gr.

III. kafli. Gildistaka.
6. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2003.