Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um vatnsveitur sveitarfélaga
2004 nr. 32 7. maí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 26. maí 2004. Breytt með:
L. 21/2016 (tóku gildi 5. apríl 2016).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innviðaráðherra eða innviðaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr. Gildissvið.
Í þéttbýli skulu sveitarfélög starfrækja vatnsveitu í þeim tilgangi að fullnægja vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja, þar á meðal hafna, eftir því sem kostur er, nema í þeim tilvikum sem um ræðir í 3. mgr. þessarar greinar og í 4. gr.
Í dreifbýli er sveitarstjórn heimilt að starfrækja vatnsveitu, sbr. 1. mgr., og leggja í framkvæmdir við gerð hennar enda sýni rannsóknir og kostnaðaráætlanir að hagkvæmt sé að leggja veituna og reka hana.
Ákvæði þessara laga gilda ekki um vatnsveitur sem vatnsveitufélög eða aðrir starfrækja samkvæmt ákvæðum vatnalaga, nr. 15/1923.
Ákvæði 4. gr. um einkarétt sveitarfélaga til að eiga og reka vatnsveitu gilda ekki um landsvæði þar sem ekki er talið hagkvæmt að leggja vatnsveitu, sbr. 2. mgr.
2. gr. Stjórn vatnsveitu.
Sveitarstjórn fer með stjórn vatnsveitu í sveitarfélaginu nema annað rekstrarform hafi sérstaklega verið ákveðið.
Sveitarstjórn er heimilt að kjósa sérstaka stjórn til að hafa yfirumsjón með starfsemi vatnsveitunnar og fara með þau verkefni sem sveitarstjórn eru falin með lögum þessum. Sveitarstjórn getur ráðið vatnsveitustjóra til að annast daglegan rekstur vatnsveitunnar.
Með orðunum „stjórn vatnsveitu“ er í lögum þessum átt við þann aðila sem ber ábyrgð á daglegri stjórn vatnsveitunnar, hvort sem um er að ræða sveitarstjórn, sérstaka stjórn vatnsveitu sem skipuð er skv. 2. mgr. eða annan þann aðila sem fer með málefni vatnsveitu skv. 3. eða 4. gr.
Sveitarstjórn skal fylgjast reglubundið með því að þjónusta vatnsveitu við íbúa sé í samræmi við það sem lög eða samningar kveða á um.
3. gr. Samvinna sveitarfélaga.
Sveitarstjórnum er heimilt að leggja og reka sameiginlega vatnsveitu. Sveitarstjórnir skulu gera með sér samkomulag um með hvaða hætti veitan skuli lögð og rekin. [Ákvæði sveitarstjórnarlaga gilda um samvinnu sveitarfélaga á þessu sviði, eftir því sem við á.]1)
1)L. 21/2016, 1. gr.
4. gr. Heimild til ráðstöfunar á einkarétti sveitarfélags.
Sveitarfélag hefur einkarétt á rekstri vatnsveitu og sölu vatns sem hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélagsins, sbr. þó ákvæði 3. og 4. mgr. 1. gr. Sveitarstjórn er heimilt að fela stofnun eða félagi, sem að meiri hluta er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, skyldur sínar og réttindi samkvæmt þessum lögum.
Við ráðstöfun skv. 1. mgr. skal, eftir því sem við á, kveðið á um eignarrétt á stofnkerfi vatnsveitu, verð til notenda veitunnar, innlausnarrétt sveitarfélagsins á stofnkerfi og fastafjármunum vatnsveitunnar í samningi aðila auk annarra atriða sem sveitarstjórn telur nauðsynleg.
Ef ekki er kveðið á um annað í samningi aðila skal innlausnarverð stofnkerfis og fastafjármuna skv. 2. mgr. miðast við afskrifað endurstofnverð þessara eigna. Ef ágreiningur verður um verð skera dómkvaddir matsmenn úr nema samningsaðilar verði ásáttir um að leysa ágreininginn á annan hátt.
5. gr. Vatnsæðar.
Eigandi vatnsveitu sér um lagningu og viðhald allra vatnsæða hennar, þ.e. aðalæða, dreifiæða og heimæða. Heimæðar í einkaeigu sem lagðar hafa verið fyrir 1. janúar 1992 verða eign vatnsveitu í framhaldi af endurnýjun á þeim. Vatnsveitu er skylt að yfirtaka heimæðar að skriflegri beiðni eiganda.
Eigandi eða rétthafi lóðar við veg eða opið svæði, þar sem dreifiæð liggur, á rétt á að fá eina heimæð lagða frá vatnsveitulögn. Óski hann þess að fá fleiri en eina heimæð inn á lóðina af hagkvæmnisástæðum skal hann hlíta þeim reglum um tæknileg atriði sem stjórn vatnsveitu setur og skal sú heimæð teljast einkaeign hans nema sérstakt samkomulag hafi verið gert um annað. Beiðni um lagningu heimæðar skal senda til vatnsveitu.
Þurfi að gera breytingar á heimæð vegna framkvæmda á vegum lóðarhafa skal hann sækja um leyfi til vatnsveitu. Lóðarhafi ber sjálfur kostnað af breytingunum.
Vatn, sem tekið er úr stofnkrana innan húss, er eingöngu heimilt að nota til venjulegra heimilisþarfa. Að öðrum kosti þarf leyfi stjórnar vatnsveitu. Vatnsinntak skal að jafnaði vera á þeirri hlið húss sem snýr að vatnslögn þeirri sem leggja á heimæð frá nema stjórn vatnsveitu samþykki annars konar fyrirkomulag. Stjórn vatnsveitu er heimilt að gera kröfu um gerð, staðsetningu og frágang inntaksrýmis. Hvers konar tenging dælubúnaðar við heimæð af hálfu eiganda, m.a. til að auka þrýsting vatns, er óheimil nema með sérstöku leyfi.
Vatnsveitu er skylt að sjá um að nægilegt vatn og vatnsþrýstingur sé fyrir hendi til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað þar sem hans er krafist enda verði því við komið.
Réttur til að tengjast vatnsveitu skuldbindur ekki vatnsveitu til þess að tryggja að þrýstingur í dreifiæðum sé ávallt nægilegur. Ef vatnsæðar hafa ekki verið lagðar þar sem eigandi óskar eftir vatnsnotkun getur stjórn vatnsveitu sett það skilyrði fyrir lagningu vatnsæða að fyrir fram ákveðinn hluti kostnaðar við lagningu þeirra skuli endurgreiddur af eiganda fasteignarinnar. Sama gildir ef nauðsynlegt er vegna stærðar og/eða nýtingar fasteignar að auka vatnsþrýsting til hennar.
Eiganda ber að greiða gjald fyrir lagningu heimæðar og skal gjaldið og gjalddagi þess ákveðið í gjaldskrá skv. 10. gr. Gjaldið skal miðað við gerð, stærð og lengd heimæða og má það nema allt að meðalkostnaði við lagningu heimæða í sveitarfélaginu samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Heimæðargjald er fyrst gjaldkræft við úthlutun lóðar, sem er í eigu sveitarfélags eða það hefur ráðstöfunarrétt á, og við útgáfu byggingarleyfis á öðrum lóðum.
6. gr. Vatnsgjald.
[Hafi vatnsveita verið tengd við mannvirki á fasteign er heimilt að leggja á hana almennt vatnsgjald. Mannvirki telst tengt vatnsveitu þegar heimæð hefur verið tengd frá vatnsveitulögn í vatnsinntak notanda. Gjaldið skal þá vera hlutfall af fasteignamati fasteignarinnar í heild, sbr. 3. mgr., þó aldrei hærra en 0,5% af heildarmatsverði hennar. Í þeim tilvikum þegar matsverð fasteignar liggur ekki fyrir við álagningu vatnsgjalds er heimilt að ákveða upphæð vatnsgjalds með hliðsjón af áætluðu fasteignamati eignarinnar fullfrágenginnar og ber þá að taka mið af fasteignamati sambærilegra fasteigna í sveitarfélaginu.
Geti eigandi eða umráðamaður fasteignar sýnt fram á að tiltekið mannvirki á fasteign, sem sérstaklega er aðgreint í fasteignaskrá, geti ekki tengst vatnsveitu af landfræðilegum eða tæknilegum ástæðum eða vegna eðlis þess getur hann beint erindi til vatnsveitu um að álagning almenns vatnsgjalds taki mið af því. Þá skulu hlunnindi, ræktað land og önnur sérstök fasteignaréttindi sem skilgreind eru í fasteignaskrá sem hluti fasteignarinnar vera undanþegin við álagningu almenns vatnsgjalds ef þau mynda umtalsverðan hluta af matsverði.
Fasteign samkvæmt lögum þessum telst vera afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt, eins og hún er nánar skilgreind í fasteignaskrá hverju sinni. Þá telst eignarhluti í fjöleignarhúsi vera sérstök fasteign.
Í stað þess að miða við fasteignamat, sbr. 1. mgr., er heimilt að miða vatnsgjaldið við fast gjald á hverja fasteign fyrir sig, sbr. 3. mgr., auk álags vegna annars eða hvors tveggja af eftirfarandi:
a. Stærðar allra mannvirkja sem tilheyra fasteign samkvæmt flatarmáli og/eða rúmmáli.
b. Notkunar samkvæmt mæli.
Álagning samkvæmt þessari málsgrein skal aldrei vera hærri en segir í 1. mgr. Með sama hætti og tilgreint er í 2. mgr., og að fullnægðum sömu skilyrðum, er við álagningu samkvæmt þessari málsgrein hægt að sækja um undanþágu frá því að álagning taki til tilgreindra mannvirkja á fasteign.
Heimilt er að innheimta vatnsgjald með fasteignaskatti. Skulu þá gjalddagar vatnsgjalds vera þeir sömu og sveitarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu vatnsgjalds hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts.]1)
1)L. 21/2016, 2. gr.
7. gr. Notkunargjald.
Þar sem vatn frá vatnsveitu er notað til atvinnustarfsemi eða annars en venjulegra heimilisþarfa er vatnsveitu heimilt að innheimta sérstakt notkunargjald er miðast við notkun mælda í rúmmetrum. Notkunargjald skal að jafnaði innheimta eftir á samkvæmt mældri notkun, en verði því eigi við komið ákveður stjórn vatnsveitu gjaldið samkvæmt áætlaðri notkun. [Notkunargjald kemur til viðbótar vatnsgjaldi skv. 6. gr.]1)
Vatnsveita lætur þeim er greiða skulu notkunargjald í té löggilta vatnsmæla þar sem þeim verður við komið en notandi skal sjá fyrir aðstöðu fyrir mæli. Vatnsveita er eigandi vatnsmælanna og skal notandi greiða gjald fyrir leigu mælis samkvæmt gjaldskrá. Óheimilt er að rjúfa innsigli mælis nema með leyfi vatnsveitu.
Endurgjald hafnarsjóðs til vatnsveitu vegna vatnssölu til skipa, báta og annarra úr vatnsdreifikerfi hafnar skal miðast við mælda notkun í rúmmetrum samkvæmt gjaldskrá. Hafnarstjórn ákveður verð fyrir hvern rúmmetra vatns sem seldur er til skipa og báta. Heimilt er að áætla vatnsnotkun ef ekki er unnt að mæla hana.
[Við skammtímanotkun vatns frá vatnsveitu, svo sem vegna byggingarframkvæmda, eða þegar óskað er sérstakrar tengingar við vatnsveitu, og gjaldtaka samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara á ekki við, er vatnsveitu heimilt að heimta sérstök tengi- og notkunargjöld til viðbótar við heimæðargjald skv. 5. gr. ef við á. Gjöld má innheimta fyrir vinnu við tengingu og/eða aftengingu vatns, sem föst gjöld, t.d. fyrir þá daga sem tenging varir, á grundvelli mælingar og/eða áætlaðrar notkunar.]1)
Heimilt er í gjaldskrá að skipta greiðendum notkunargjalds í mismunandi gjaldflokka eftir magni og/eða notkun. Í þeim tilvikum þegar um óvenjumikil kaup á vatni er að ræða eða vatn er keypt til sérstakrar framleiðslu er heimilt að gera sérstakt samkomulag við kaupanda um endurgjald fyrir vatnið.
1)L. 21/2016, 3. gr.
8. gr. Endurgjald til annarra vatnsveitna.
Selji vatnsveita annarri vatnsveitu vatn skal endurgjald fyrir það ákveðið með samkomulagi aðila eða með mati dómkvaddra matsmanna, náist ekki samkomulag. Við mat skal þess gætt að endurgjaldið verði aldrei minna en sannanlegur kostnaður við söluna, ásamt allt að 5% álagi.
9. gr. Innheimta o.fl.
Skráður eigandi fasteignar ber ábyrgð á greiðslu vatnsgjalds og heimæðargjalds en notandi, ef hann er annar en fasteignareigandi, ber ábyrgð á greiðslu notkunargjalds.
Vatnsgjaldi og heimæðargjaldi, ásamt innheimtukostnaði og vöxtum, fylgir lögveðsréttur í fasteigninni í tvö ár frá gjalddaga. Lögveð þetta gengur fyrir eldri sem yngri samnings- og aðfararveðum og yngri lögveðum. Ef hús brennur eftir að vatnsgjald eða heimæðargjald gjaldfellur er sami forgangsréttur í brunabótafjárhæð fasteignarinnar.
Heimilt er að loka fyrir heimæðar hjá þeim sem vanrækja að greiða notkunargjald að undangenginni skriflegri aðvörun. Notkunargjald og leigugjald fyrir vatnsmæli, ásamt áföllnum kostnaði og vöxtum, má taka fjárnámi.
Heimilt er að loka fyrir heimæðar hjá þeim sem eyða vatni óhóflega og einnig þegar gera þarf við bilanir á vatnsæðum.
10. gr. Gjaldskrá vatnsveitu.
[Stjórn vatnsveitu skal semja gjaldskrá þar sem kveðið er nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda samkvæmt lögum þessum. Miða skal við að vatnsgjald ásamt öðrum tekjum vatnsveitu standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar, ásamt kostnaði við að standa undir þeirri skyldu veitunnar að tryggja nægilegt vatn og vatnsþrýsting til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað þar sem hans er krafist, sbr. 5. mgr. 5. gr.]1)
Heimilt er að skipta starfssvæði vatnsveitu í veitusvæði og setja sérstaka gjaldskrá fyrir hvert veitusvæði.
Stjórn vatnsveitu skal auglýsa gjaldskrána og breytingar á henni á þann hátt sem venja er að birta opinberar auglýsingar í sveitarfélaginu.
1)L. 21/2016, 4. gr.
11. gr. Reglugerð.
Ráðherra skal setja reglugerð1) fyrir vatnsveitur sveitarfélaga þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd vatnsveitumála, m.a. um stjórn og fjármál vatnsveitu, gjaldtöku, vatnsæðar o.fl.
1)Rg. 401/2005, sbr. 317/2011.
12. gr. Gildistaka o.fl.
Lög þessi öðlast þegar gildi. …