Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum

2004 nr. 47 1. júní


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júní 2004. Breytt með: L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 140/2009 (tóku gildi 31. des. 2009). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 85/2019 (tóku gildi 1. júní 2020). L. 100/2021 (tóku gildi 13. júlí 2021).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eða umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Þingvellir við Öxará og grenndin þar skal vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga sem þjóðgarður.
Mörk þjóðgarðsins á Þingvöllum og hins friðhelga lands skulu vera: Að sunnan eru mörkin um línu sem dregin er úr landamerkjum jarðanna Arnarfells og Mjóaness á Langatanga, vestur yfir vatnið og í Grjótnes sem er á landamerkjum jarðanna Skálabrekku og Kárastaða. Þaðan ráða landamerki þeirra jarða að landamerkjum Selkots og síðan landamerki Selkots og Kárastaða að sýslumörkum Árnessýslu og Kjósarsýslu á Há-Kili. Þaðan ráða sýslumörk til norðausturs til upptaka Öxarár við Myrkavatn og í hátind Háusúlu og þaðan bein stefna til austurs í efsta tind Gatfells. Þaðan liggja mörkin til suðurs í Hrafnabjörg og með austur- og suðurmörkum jarðarinnar Gjábakka og með austurmörkum jarðarinnar Arnarfells í Langatanga.
Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.
2. gr.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum skal vera undir stjórn Þingvallanefndar.
Alþingi skal í upphafi hvers [kjörtímabils]1) kjósa sjö alþingismenn í Þingvallanefnd og jafnmarga til vara. Umboð þeirra varir þangað til ný nefnd hefur verið kjörin. [Ráðherra]2) skipar formann og varaformann úr hópi aðalmanna en nefndin skiptir að öðru leyti sjálf með sér verkum.
[Ráðuneytið]2) fer með yfirstjórn mála er varða þjóðgarðinn á Þingvöllum, þ.m.t. úrskurðarvald í stjórnsýslukærum vegna ákvarðana Þingvallanefndar.
[Þjóðgarðurinn er að öllu leyti undanþeginn lögum um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús.]1)
   1)L. 140/2009, 1. gr. 2)L. 126/2011, 384. gr.
3. gr.
Land þjóðgarðsins skal vera friðað í því skyni að varðveita ásýnd þess sem helgistaðar þjóðarinnar og til að viðhalda eins og kostur er hinu upprunalega náttúrufari. Almenningur skal eiga kost á að njóta svæðisins samkvæmt þeim reglum sem Þingvallanefnd setur. Jarðmyndanir, gróður og dýralíf á svæðinu skal vera friðað en Þingvallanefnd er þó heimilt að gera ráðstafanir til eyðingar á þeim dýrum sem ekki samrýmast markmiðum friðunarinnar. Þjóðgarðurinn skal, eftir því sem Þingvallanefnd ákveður, varinn fyrir lausagöngu búfjár og nefndin skal setja sérstakar reglur um búskap á bújörðum sem eru í byggð innan þjóðgarðsins.
4. gr.
Innan þjóðgarðsins er óheimilt að gera nokkuð það sem getur spillt eða mengað vatn þar, bæði vatn á yfirborði og grunnvatn.
Vernda skal lífríki Þingvallavatns og gæta þess að raska ekki búsvæðum og hrygningarstöðvum bleikjuafbrigða og urriðastofna sem nú lifa í vatninu.
Þingvallanefnd er heimilt að setja sérstakar reglur til að framfylgja þessum ákvæðum um vatnsvernd innan þjóðgarðsins.
5. gr.
Óheimilt er að gera nokkurt jarðrask eða reisa mannvirki innan þjóðgarðsins á Þingvöllum nema að fengnu samþykki Þingvallanefndar og tekur bann þetta m.a. til húsabygginga, vegagerðar, lagningar raf- og símalína, borunar eftir vatni, töku jarðefna og vinnslu auðlinda úr jörðu og ræktunarframkvæmda. Þingvallanefnd er heimilt að binda samþykki á framkvæmdum innan þjóðgarðsins þeim skilyrðum sem hún telur nauðsynleg vegna friðunar samkvæmt lögum þessum.
[5. gr. a.
[Óheimilt er að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án tímabundins nýtingarsamnings um slíka starfsemi við Þingvallanefnd. Slík starfsemi skal rekin í samræmi við atvinnustefnu þjóðgarðsins. Í samningnum skal setja þau skilyrði fyrir starfseminni sem talin er þörf á, m.a. vegna verndarmarkmiða þjóðgarðsins og samræmis við atvinnustefnu.]1)
Þingvallanefnd skal móta atvinnustefnu vegna reksturs innan þjóðgarðsins, þ.m.t. móta skilyrði fyrir því að aðilar megi stunda atvinnu innan þjóðgarðsins, m.a. með tilliti til verndarmarkmiða þjóðgarðsins, og samninga þar um. Þingvallanefnd er heimilt að setja reglugerð, sem ráðherra staðfestir, þar sem mælt er nánar fyrir um skilyrði fyrir rekstri, málsmeðferð og gerð samninga samkvæmt ákvæði þessu.
Ákvæði þetta gengur framar ákvæðum laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.
[Um rekstrarleyfissamninga, sérleyfissamninga, auglýsingu þeirra og framkvæmd að öðru leyti fer eftir lögum um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni. Hugtökin nýtingarsamningur, rekstrarleyfissamningur og sérleyfissamningur í þessu lagaákvæði skulu hafa sömu þýðingu og í fyrrgreindum lögum.]1)]2)
   1)L. 100/2021, 28. gr. 2)L. 85/2019, 1. gr.
6. gr.
Þingvallanefnd er heimilt, eftir því sem fjárveitingar á fjárlögum leyfa, að kaupa einstakar fasteignir, mannvirki og nytjaréttindi sem eru innan þjóðgarðsins og ekki eru í eigu íslenska ríkisins.
Þingvallanefnd er heimilt, að fengnu samþykki [ráðherra],1) að taka eignarnámi einstakar fasteignir, mannvirki og nytjaréttindi innan þjóðgarðsins til þess að framkvæma friðun sem lög þessi mæla fyrir um. Um mat á bótum fer eftir lögum um framkvæmd eignarnáms.
Hver sá er fyrir fjártjóni verður vegna friðunar samkvæmt lögum þessum á rétt til skaðabóta úr ríkissjóði. Ef samkomulag næst ekki um bætur skulu þær ákveðnar í samræmi við ákvæði laga um framkvæmd eignarnáms.
   1)L. 126/2011, 384. gr.
7. gr.
Þingvallanefnd semur reglugerð1) um þjóðgarðinn, verndun og meðferð hans, en [ráðherra]2) staðfestir. Í reglugerð má ákveða að taka gestagjöld innan þjóðgarðsins fyrir veitta þjónustu og dvöl þar til að mæta kostnaði við þjónustuna og eftirlit með dvalargestum [og taka gjöld vegna samninga skv. 5. gr. a sem skulu standa undir kostnaði við veitingu leyfa, umsjón og eftirlit vegna hinnar leyfisskyldu starfsemi].3)
Þingvallanefnd getur einnig sett sérstakar tímabundnar reglur um umferð innan þjóðgarðsins, þ.m.t. bann við akstri utan vega og dvöl á ákveðnum svæðum, og sama gildir um veiðar dýra og fugla innan hans. Þá getur Þingvallanefnd sett reglur um meðferð spilliefna, frárennslis og annars sem hætta er á að mengi jarðveg og/eða vatn innan þjóðgarðsins, þ.m.t. Þingvallavatn, og flutning hættulegra efna og mengandi efna innan þjóðgarðsins.
   1)Rg. 848/2005. Rgl. 214/2013. Rgl. 620/2015. 2)L. 126/2011, 384. gr. 3)L. 85/2019, 2. gr.
8. gr.
Þingvallanefnd ræður framkvæmdastjóra fyrir þjóðgarðinn á Þingvöllum sem jafnframt er þjóðgarðsvörður. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk þjóðgarðsins.
9. gr.
Brot gegn ákvæðum laga þessara, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi ef sakir eru miklar. …1)
   1)L. 88/2008, 233. gr.
10. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2004
Ákvæði til bráðabirgða.
Þingvallanefnd sem nú situr skal halda umboði sínu þar til ný nefnd hefur verið kjörin í samræmi við ákvæði 2. gr. Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. skal 2. mgr. 2. gr. ekki öðlast gildi fyrr en eftir næstu alþingiskosningar.