Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um stofnun Landsnets hf.
2004 nr. 75 7. júní
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 18. júní 2004. Breytt með:
L. 30/2008 (tóku gildi 19. apríl 2008; EES-samningurinn: IV. viðauki tilskipun 2001/77/EB).
L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
L. 24/2018 (tóku gildi 15. maí 2018).
L. 74/2021 (tóku gildi 1. júlí 2021; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 20. gr., sbr. l. 37/2022, 1. gr.).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eða umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr.
[Ráðherra]1) skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags er skal annast raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003.
[Ráðherra]1) annast undirbúning að stofnun Landsnets hf. og fer með framkvæmd laga þessara.
1)L. 126/2011, 386. gr.
2. gr.
[Hlutverk Landsnets hf. er að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003, og er því óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem því er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt raforkulögum eða öðrum lögum.]1) Hlutafélaginu er þó heimilt að reka raforkumarkað. Stjórn Landsnets hf. skal vera sjálfstæð gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, dreifingu eða sölu raforku eftir því sem nánar er ákveðið í samþykktum þess.
1)L. 30/2008, 12. gr.
3. gr. …1)
1)L. 24/2018, 8. gr.
4. gr.
Landsnet hf. skal frá 1. janúar 2005 annast rekstur þeirra flutningsvirkja er falla undir skilgreiningu 6. tölul. 3. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Fram að þeim tíma skal það undirbúa reksturinn m.a. með því að koma fram gagnvart eigendum flutningsvirkja við mat á verðmæti slíkra eigna, sbr. ákvæði til bráðabirgða XI í sömu lögum.
Heimilt skal að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Landsneti hf. þegar flutningsvirki skv. 6. tölul. 3. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, hafa verið metin endanlegu mati og fyrir liggur hvort eigendur þeirra kjósa að leggja flutningsvirkin inn í Landsnet hf. sem hlutafé. …1)
1)L. 74/2021, 19. gr.
5. gr.
Í stofnyfirlýsingu Landsnets hf. skal mælt fyrir um þau atriði sem áskilið er að fram komi í stofnsamningi samkvæmt hlutafélagalögum að öðru leyti en getið er um í lögum þessum.
6. gr.
Um skattskyldu Landsnets hf. skal fara eins og um skattskyldu annarra orkufyrirtækja.
7. gr.
Stofna skal Landsnet hf. á stofnfundi sem haldinn skal eigi síðar en 1. júní 2004. Á fundinum skal kjósa stjórn Landsnets hf. og skal hún starfa þar til ný stjórn hefur verið kosin á fyrsta aðalfundi eftir að lokaniðurstaða verðmats flutningsvirkja samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XI í raforkulögum, nr. 65/2003, liggur fyrir. Fram að því tímamarki skal Landsnet hf. hafa það verkefni að undirbúa starfsemi sína.
8. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.