Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

2004 nr. 97 9. júní


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. október 2004. Breytt með: L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 131/2011 (tóku gildi 1. jan. 2012).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eða umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að stuðla að náttúruvernd á Mývatns- og Laxársvæðinu í samræmi við meginregluna um sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins verði ekki stefnt í hættu af mannavöldum.
Lögin eiga að tryggja verndun líffræðilegrar fjölbreytni á vatnasviði Mývatns og Laxár ásamt verndun jarðmyndana og landslags með virkri náttúruvernd, einkum með tilliti til vísindalegra, félagslegra og fagurfræðilegra sjónarmiða.
2. gr. Gildissvið.
Ákvæði laganna taka til Mývatns og Laxár með eyjum, hólmum og kvíslum, allt að ósi árinnar við Skjálfandaflóa, ásamt 200 m breiðum bakka meðfram Mývatni öllu og Laxá báðum megin. Auk þess ná lög þessi til eftirtalinna votlendissvæða, ásamt 200 m bakka meðfram vötnum, ám og lækjum: Sortulækjar, Geirastaðahrauns, Sandvatns ytra, Belgjarskógar, Slýja, Neslandatanga, Framengja, Krákár frá Strengjabrekku að Laxá, Grænavatns, Helluvaðsár og Arnarvatns, ásamt votlendi sem því tilheyrir, sbr. kort í fylgiskjali I með lögum þessum.
Þá taka lögin enn fremur til vatnsverndar á vatnasviði Mývatns og Laxár, sbr. kort í fylgiskjali II með lögum þessum.
Ákvæði laganna um gerð verndaráætlunar taka til Skútustaðahrepps alls, auk Laxár með eyjum, hólmum og kvíslum, allt að ósi árinnar við Skjálfandaflóa, ásamt 200 m breiðum bakka meðfram Laxá báðum megin.

II. kafli. Verndun Mývatns- og Laxársvæðisins.
3. gr. Verndun Mývatns og Laxár.
Óheimilt er að valda spjöllum eða raski á lífríki, jarðmyndunum og landslagi á landsvæði því sem um getur í 1. mgr. 2. gr. Breytingar á hæð vatnsborðs stöðuvatna og rennsli straumvatna eru óheimilar nema til verndunar og ræktunar þeirra, enda komi til sérstakt leyfi Umhverfisstofnunar.
Leita skal leyfis Umhverfisstofnunar fyrir hvers konar framkvæmdum sem haft geta áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag á landsvæði því sem um getur í 1. mgr. 2. gr. Þó skulu heimilar án sérstaks leyfis Umhverfisstofnunar framkvæmdir samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi stofnunin fallist á skipulagsáætlun þá sem um er að ræða.
[Ráðherra]1) setur, að fenginni umsögn sveitarfélaga á svæðinu og Umhverfisstofnunar, reglugerð2) þar sem kveðið skal nánar á um verndun Mývatns og Laxár, þar á meðal takmarkanir á framkvæmdum á svæðinu og umferð og umferðarrétt almennings.
   1)L. 126/2011, 391. gr. 2)Rg. 665/2012.
4. gr. Verndun vatnasviðs Mývatns og Laxár.
Forðast skal að valda spjöllum á vatnasviði Mývatns og Laxár sem raskað gætu vernd vatnsins og árinnar samkvæmt ákvæðum laga þessara, sérstaklega gæðum og rennsli grunnvatns.
[Ráðherra]1) setur í reglugerð,2) að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og viðkomandi sveitarstjórna, nánari ákvæði um varnir gegn hvers konar mengun á vatnasviði Mývatns og Laxár, þar á meðal á grunnvatnskerfi. Skal þar m.a. kveðið á um kröfur til mengunarvarna atvinnufyrirtækja á svæðinu.
Verði breytingar á skilgreindu vatnasviði Laxár og Mývatns, sbr. fylgiskjal II með lögum þessum, vegna náttúrulegra breytinga eða aukinnar þekkingar, er ráðherra heimilt með reglugerð að skilgreina ný mörk vatnasviðsins í samræmi við þær breytingar.
   1)L. 126/2011, 391. gr. 2)Rg. 665/2012.

III. kafli. Umsjón verndarsvæðisins og gerð verndaráætlunar.
5. gr. Umsjón.
Umhverfisstofnun hefur umsjón með náttúruvernd á landsvæði því sem um getur í lögum þessum. Umhverfisstofnun er þó heimilt að fela öðrum umsjón svæðisins, í heild eða að hluta, í samræmi við ákvæði náttúruverndarlaga.
6. gr. Verndaráætlun.
Umhverfisstofnun ber ábyrgð á því að gerð sé verndaráætlun fyrir landsvæði það sem um getur í 3. mgr. 2. gr. Skal þar m.a. fjallað um nauðsynlegar verndaraðgerðir, friðlýsingu náttúruminja, landnýtingu, umferðarrétt almennings og aðgengi ferðamanna að svæðinu. Verndaráætlunin skal gerð í samvinnu við viðkomandi sveitarstjórnir, hagsmunaaðila og umhverfisverndarsamtök á svæðinu og stofnanir sem starfa lögum samkvæmt á sviði náttúruverndar, vatnsverndar og veiðinýtingar. Verndaráætlun skal endurskoða á fimm ára fresti. Tillögu að verndaráætlun skal auglýsa opinberlega og skulu athugasemdir hafa borist innan sex vikna frá birtingu auglýsingarinnar. Áætlunina skal birta sem auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þegar hún hefur hlotið staðfestingu [ráðherra].1)
   1)L. 126/2011, 391. gr.

IV. kafli. Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn.
7. gr. Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn.
Við Mývatn er starfrækt náttúrurannsóknastöð. Stöðin er sjálfstæð ríkisstofnun undir yfirstjórn [ráðherra].1)
Hlutverk stofnunarinnar er að stunda rannsóknir á náttúru og lífríki Mývatns og Laxár. Ráðherra skal setja í reglugerð2) nánari ákvæði um starfssvið og hlutverk náttúrurannsóknastöðvarinnar.
   1)L. 126/2011, 391. gr. 2)Rg. 664/2012, sbr. 225/2014.
8. gr. Forstöðumaður og fagráð.
[Ráðherra]1) skipar forstöðumann náttúrurannsóknastöðvarinnar til fimm ára í senn. Forstöðumaður fer með daglega stjórn stofnunarinnar og hefur umsjón með rekstri hennar. Forstöðumaður skal hafa háskólamenntun í náttúrufræðum sem nýtist honum í starfi. Skal í reglugerð2) setja nánari fyrirmæli um starfssvið og starfsskyldur forstöðumanns.
[Ráðherra]1) skal skipa fagráð náttúrurannsóknastöðvarinnar. Skal fagráð vera forstöðumanni náttúrurannsóknastöðvarinnar til ráðgjafar um vísindastarf stofnunarinnar, rannsóknastefnu og fagleg tengsl við aðrar stofnanir sem stunda rannsóknir á vatnasviði Mývatns og Laxár í samræmi við lög. Ráðherra setur í reglugerð2) nánari ákvæði um skipan og hlutverk fagráðsins.
   1)L. 126/2011, 391. gr. 2)Rg. 664/2012, sbr. 225/2014.

V. kafli. Ýmis ákvæði.
9. gr. Kostnaður við framkvæmd laganna.
Kostnaður við framkvæmd laga þessara greiðist úr ríkissjóði eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum.
10. gr. Refsiábyrgð og dagsektir.
Brot gegn lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Sektir renna í ríkissjóð.
Beita má dagsektum er renna í ríkissjóð, allt að 50.000 kr., til að knýja menn til framkvæmda á ráðstöfunum sem þeim er skylt að hlutast til um samkvæmt lögum þessum og reglugerðum eða láta af atferli sem er ólögmætt.
[11. gr. Kærur.
Ákvarðanir Umhverfisstofnunar er lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfis skv. 3. gr. sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.]1)
   1)L. 131/2011, 15. gr.
[12. gr.]1) Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. október 2004.
   1)L. 131/2011, 15. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Gerð verndaráætlunar skv. 6. gr. skal lokið fyrir 1. janúar 2006.
II.
Umhverfisstofnun skal þegar hefjast handa við undirbúning að friðlýsingu landsvæða sem ekki falla undir ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga þessara en eigi að síður er mikilvægt að vernda sakir mikilvægis þeirra fyrir lífríki Laxár og Mývatns eða vegna merkra jarðmyndana og landslagsgerða.
Umhverfisráðherra skal við gildistöku laga þessara tilkynna landeigendum, viðkomandi sveitarstjórnum og öðrum hagsmunaaðilum um hvaða landsvæði áformað er að friðlýsa samkvæmt framangreindu.
Að öðru leyti skal um friðlýsingu þessara svæða fara eftir ákvæðum náttúruverndarlaga, nr. 44/1999. Skal friðlýsingu samkvæmt ákvæði þessu vera lokið fyrir 1. janúar 2008.

Fylgiskjal I. 1)
   1)Sjá Stjtíð. A 2004, bls. 338.

Fylgiskjal II. 1)
   1)Sjá Stjtíð. A 2004, bls. 339.