Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
2006 nr. 40 12. júní
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. september 2006. Breytt með:
L. 61/2011 (tóku gildi 15. júní 2011).
L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
L. 22/2015 (tóku gildi 17. mars 2015).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar- og viðskiptaráðherra eða menningar- og viðskiptaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag og heyrir undir [ráðherra].1) Stofnunin hefur náin tengsl við Háskóla Íslands eins og nánar greinir í lögum þessum og er hluti af fræðasamfélagi hans.
1)L. 126/2011, 419. gr.
2. gr.
Ríkisstjórn Íslands er verndari handrita og skjalagagna sem afhent voru samkvæmt sáttmála milli Danmerkur og Íslands um flutning hluta af handritum Stofnunar Árna Magnússonar og Konunglega bókasafnsins í Kaupmannahöfn í vörslu og umsjón Háskóla Íslands, dagsettum 1. júlí 1965 og fullgiltum 1. apríl 1971. Gögn þessi mynda Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi og er hún falin Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum til varðveislu og umsjónar.
3. gr.
Hlutverk Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er að vinna að rannsóknum í íslenskum fræðum og skyldum fræðigreinum, einkum á sviði íslenskrar tungu og bókmennta, að miðla þekkingu á þeim fræðum og varðveita og efla þau söfn sem henni eru falin eða hún á. Hlutverk sitt rækir stofnunin einkum með því að:
a. afla frumgagna á fræðasviði sínu og varðveita þau, safna þjóðfræðum og heimildum um íslenskan orða- og nafnaforða og gera þessi gögn aðgengileg fyrir fræðimenn og almenning;
b. rannsaka handrit, þjóðfræðasöfn og aðrar heimildir um íslenska tungu, bókmenntir og sögu, sinna orðfræði- og nafnfræðirannsóknum og verkefnum á sviði tungutækni;
c. stuðla að aukinni þekkingu á íslenskri tungu, eflingu hennar og varðveislu í ræðu og riti og veita ráðgjöf og leiðbeiningar um málfarsleg efni á fræðilegum grundvelli, þar á meðal um íðorð og nýyrði;
d. efla samstarf á fræðasviðum stofnunarinnar á innlendum og erlendum vettvangi og auka þekkingu á íslenskum fræðum meðal almennings og í alþjóðlegu fræðasamfélagi og taka þátt í samstarfi um kennslu í íslensku og íslenskum fræðum erlendis;
e. gefa út fræðirit, texta eftir handritum, þjóðfræðaefni og orða- og nafnabækur;
[f. vera til ráðgjafar fyrir almenning og stofnanir um söfnun, skráningu og varðveislu örnefna og jafnframt um nýjar nafngiftir].1)
1)L. 22/2015, 11. gr.
4. gr.
[Ráðherra]1) skipar stofnuninni fimm manna stjórn til fjögurra ára í senn. Skulu þrír skipaðir samkvæmt tilnefningu háskólaráðs Háskóla Íslands og tveir án tilnefningar og er annar þeirra formaður stjórnar.
Hlutverk stjórnar er að vera forstöðumanni til ráðgjafar og veita honum umsagnir um starfsáætlanir og skipulag stofnunarinnar.
Þeir sem ráðnir eru til rannsóknarstarfa við stofnunina mynda húsþing sem forstöðumaður kallar saman og starfar í samræmi við nánari ákvæði reglugerðar.
[Ráðherra]1) kveður á um skipulag stofnunarinnar í reglugerð að fenginni tillögu forstöðumanns og umsögnum stjórnar og húsþings.
1)L. 126/2011, 419. gr.
5. gr.
[Ráðherra]1) skipar forstöðumann Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum til fimm ára í senn að fenginni umsögn stjórnar stofnunarinnar. Forstöðumaður skal hafa hæfi sem prófessor á fræðasviði stofnunarinnar að mati þriggja manna dómnefndar sem [ráðherra]1) skipar. Skal einn nefndarmanna skipaður samkvæmt tilnefningu stjórnar stofnunarinnar og er hann jafnframt formaður, einn samkvæmt tilnefningu húsþings og einn án tilnefningar.
Um hæfi dómnefndarmanna og störf dómnefndar fer eftir hliðstæðum reglum og við ráðningu sérfræðinga og kennara við Háskóla Íslands.
Forstöðumaður stjórnar starfsemi og rekstri stofnunarinnar. Hann ræður starfsmenn stofnunarinnar og er í fyrirsvari fyrir hana. Hann ber ábyrgð á rekstri stofnunarinnar og að starfsemi hennar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.
1)L. 126/2011, 419. gr.
6. gr.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gerir samstarfssamninga við Háskóla Íslands um starfstengsl, fjárhagsleg samskipti og skipan sameiginlegra starfa. Stofnunin á samstarf við aðrar stofnanir á háskólastigi samkvæmt sérstökum samningum.
Starfsmenn stofnunarinnar sem ráðnir eru til rannsóknarstarfa leiðbeina stúdentum í meistara- og doktorsnámi og kenna í námskeiðum á sérsviði sínu eftir því sem um semst við deildir Háskóla Íslands.
7. gr.
Við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skulu vera tvær sérstakar rannsóknarstöður. Skal önnur vera sérstaklega tengd nafni Árna Magnússonar en hin með sama hætti tengd nafni Sigurðar Nordals. Forstöðumaður getur að fenginni umsögn húsþings ráðið í þessar stöður til tiltekins tíma án þess að þær séu auglýstar lausar til umsóknar.
8. gr.
Við ráðningu til rannsóknarstarfa við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skal fylgja hliðstæðum reglum og gert er við ráðningu kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands. Þriggja manna dómnefnd sem forstöðumaður skipar metur hæfi umsækjenda. Skal einn nefndarmanna skipaður samkvæmt tilnefningu stjórnar stofnunarinnar og er hann jafnframt formaður, einn samkvæmt tilnefningu húsþings og einn samkvæmt tilnefningu [ráðherra].1) Forstöðumaður skal leita umsagnar húsþings við ráðningu til rannsóknarstarfa.
Starfsheiti þeirra sem ráðnir eru til rannsóknarstarfa skulu vera rannsóknarlektor, rannsóknardósent og rannsóknarprófessor.
Stofnunin setur sér siðareglur, m.a. um fræðilegt sjálfstæði starfsmanna.
1)L. 126/2011, 419. gr.
9. gr. …1)
1)L. 61/2011, 14. gr.
10. gr.
Kostnaður við rekstur Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.
Stofnuninni er heimilt að innheimta gjöld fyrir afrit gagna úr segulbandasöfnum, fyrir gerð og birtingu ljósmynda úr handritum, fyrir hvers konar sérunnin afrit af gögnum í vörslu stofnunarinnar, fyrir afnot af rannsóknaraðstöðu, fyrir veitta sérfræðiþjónustu vegna yfirlesturs gagna og gagnaöflunar, og fyrir aðgang að sýningum á vegum stofnunarinnar. Stofnunin setur gjaldskrá um framangreinda gjaldtöku.
[Ráðherra]1) er heimilt að setja í reglugerð2) nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.
1)L. 126/2011, 419. gr. 2)Rg. 861/2008.
11. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. september 2006.
…
Ákvæði til bráðabirgða.
Við gildistöku laga þessara tekur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum við eignum og skuldbindingum Íslenskrar málstöðvar, Orðabókar Háskólans, Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnunar Sigurðar Nordals og Örnefnastofnunar Íslands. Í því felst m.a. að starfsmenn framangreindra stofnana verða starfsmenn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. verða störf forstöðumanna þeirra stofnana, sem sameinast í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, lögð niður. Þeir skulu þó vera forstöðumanni sem skipaður verður skv. 4. mgr. til aðstoðar og starfa þannig áfram við stofnunina til 31. október 2006. Niðurlagning á störfum forstöðumanna Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi og Orðabókar Háskólans hefur þó ekki áhrif á ráðningu þeirra í störf prófessora við hugvísindadeild Háskóla Íslands. Öllum fráfarandi forstöðumönnum skulu boðin rannsóknarstörf við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum frá og með 1. nóvember 2006 og skulu þeir við ráðningu í þau störf halda öllum áunnum réttindum sínum úr fyrra starfi.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga þessara skal hugvísindadeild Háskóla Íslands, í stað húsþings, tilnefna einn mann í dómnefnd til að meta hæfi forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum vegna skipunar hans í embætti skv. 4. mgr.
Þrátt fyrir ákvæði 11. gr. skal stjórn skv. 4. gr. skipuð eigi síðar en 1. júlí 2006, til að veita umsögn um skipun í embætti forstöðumanns skv. 5. gr. Dómnefnd skv. 5. gr. skal einnig skipuð eigi síðar en 1. júlí 2006, til að meta hæfi umsækjenda um starf forstöðumanns. Gengið skal frá skipun forstöðumanns skv. 5. gr. eigi síðar en 1. september 2006.
Ónýttar fjárheimildir á fjárlögum 2006 fyrir Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Íslenska málstöð, Orðabók Háskólans, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun Íslands við gildistöku laga þessara renna til Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.