Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um varnir gegn fisksjúkdómum

2006 nr. 60 14. júní


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 2006. Breytt með: L. 167/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008). L. 81/2008 (tóku gildi 1. júlí 2008). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 157/2012 (tóku gildi 3. jan. 2013). L. 113/2015 (tóku gildi 1. júlí 2016). L. 101/2019 (tóku gildi 19. júlí 2019 nema 15. gr., b- og c-liður 17. gr. og 18., 19. og 22. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2020). L. 88/2020 (tóku gildi 22. júlí 2020 nema 14. gr. sem tók gildi 1. jan. 2021).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við matvælaráðherra eða matvælaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Markmið, gildissvið, skilgreiningar og stjórnsýsla.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að vernda lífríki vatna, vatnafisk og lagardýr sem alin eru í eldisstöð á landi eða í sjó með því að sporna við sjúkdómum og sníkjudýrum.
2. gr. Gildissvið.
Lög þessi taka til vatnafisks og innflutnings fisks og hrogna á íslenskt forráðasvæði. Við framkvæmd laganna skal gætt samræmis við framkvæmd laga um lax- og silungsveiði, laga um fiskrækt [og laga um fiskeldi].1)
   1)L. 81/2008, 6. gr.
3. gr. Skilgreiningar.
Í lögum þessum, reglugerðum og reglum, settum á grundvelli þeirra, er merking hugtaka sem hér segir:
   1. Alifiskur: Fiskur sem alinn er eða látinn ganga sjálfala í tjörnum eða ílátum.
   2. Eldisdýr: Lifandi fiskur, krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð, óháð þroskastigi, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð fyrir eldisstöð.
   3. Fiskeldi: Geymsla, gæsla og fóðrun vatnafiska og annarra vatnadýra, klak- og seiðaeldi, hvort sem er í söltu eða ósöltu vatni.
   4. Fiskeldisstöð: Staður þar sem vatn, sjór, land eða mannvirki er nýtt í þágu fiskeldis.
   5. Fiskrækt: Hvers konar aðgerðir sem ætla má að skapi eða auki fisk í veiðivatni.
   6. Fiskstofn: Hópur fiska sömu tegundar sem hrygnir á tilteknum stað og tíma, en gerir það ekki í neinum mæli með öðrum hópum á öðrum stað eða tíma.
   7. Fiskur: Fiskur í merkingu laga þessara tekur til allra tegunda lagardýra sem lifa í vatni og sjó, hvort sem er við náttúrulegar aðstæður eða í eldi.
   8. Geldstofn: Vatnafiskur sem ekki framleiðir frjóar kynfrumur.
   9. Göngusilungur: Silungur er gengur úr sjó í ósalt vatn, svo sem sjóbirtingur (urriði) og sjóreyður (bleikja).
   10. Hafbeit: Slepping gönguseiða til sjógöngu og föngun þeirra sem fullvaxta fiska á sleppistað þegar þeir ganga úr sjó í ferskvatn, annaðhvort til slátrunar eða flutnings í annað veiðivatn til endurveiða.
   11. Lagardýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni.
   12. Laxastofn: Hópur laxa sem hrygnir á tilteknum stað og tíma, en gerir það ekki í neinum mæli með öðrum hópum á öðrum stað eða tíma.
   13. Sjávarfiskur: Fiskur sem lifir allan sinn lífsferil í sjó.
   14. Sjór: Salt vatn utan árósa.
   15. Straumvatn: Ósalt vatn, á eða ósasvæði sem í er greinilegur straumur, þá er enginn vöxtur er í, og um stórstraumsfjöru.
   16. Stöðuvatn: Ósalt vatn sem eigi er í greinilegur straumur annar en sá sem stafar af sjávarföllum, vindi eða aðrennsli í leysingum.
   17. Vatn: Ósalt vatn með föstu legi eða farvegi, straumvatn eða stöðuvatn.
   18. Vatnadýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa að hluta eða allan sinn lífsferil í fersku vatni.
   19. Vatnafiskur: Lax (Salmo salar), silungur (urriði (Salmo trutta), bleikja (Salvelinus alpinus) og regnbogasilungur (Oncorhynchus mykiss)), áll (Anguilla anguilla) eða annar vatnafiskur ef ræktaður verður.
   20. Vatnasilungur: Silungur sem elur allan aldur sinn í ósöltu vatni, svo sem vatnaurriði, vatnableikja (reyður), lækjasilungur og murta.
   21. Veiðivatn: Á eða stöðuvatn sem veiði er í eða mætti í vera ef fiskur væri ræktaður þar.
   22. Villtur fiskstofn: Fiskstofn þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum.
4. gr. Stjórnsýsla.
[Ráðherra]1) fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Framkvæmd stjórnsýslunnar er að öðru leyti í höndum [Matvælastofnunar]2) sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt.
[Matvælastofnun]2) til ráðgjafar við framkvæmd laganna er fisksjúkdómanefnd. [Ráðherra skipar fimm manna fisksjúkdómanefnd: einn samkvæmt tilnefningu Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, tvo samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunar og skal annar vera sérfróður um ferskvatnsfiska en hinn um sjávardýr og einn samkvæmt tilnefningu Fiskistofu og yfirdýralækni, sem jafnframt skal vera formaður nefndarinnar.]3) Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. [Matvælastofnun]2) skal hafa forgöngu um að stundaðar séu fisksjúkdómarannsóknir og gera tillögur til ráðherra um aðferðir til varnar gegn útbreiðslu fisksjúkdóma, sem getur um í lögum þessum, og annað er að fisksjúkdómum lýtur.
[Matvælastofnun er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl., nr. 24/2006, að annast framkvæmd eftirlits samkvæmt sérstökum samningi. Þeir skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd eftirlitsins og leynt á að fara. Um þagnarskylduna gilda ákvæði 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og skal brot á henni varða refsingu skv. 136. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.]4)
   1)L. 126/2011, 427. gr. 2)L. 167/2007, 79. gr. 3)L. 113/2015, 5. gr. 4)L. 101/2019, 25. gr.

II. kafli. Um innflutning á lifandi fiski og hrognum.
5. gr. Innflutningur lifandi ferskvatnsfiska.
Um innflutning lifandi laxfiska og annarra fiska er lifa í ósöltu vatni, óháð þroskastigi, þ.m.t. hrogna og svilja, gilda ákvæði 2. og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1990, um innflutning dýra. Óheimilt er að sleppa í veiðivatn lifandi fiskum, lagardýrum eða vatnaplöntum sem fluttar hafa verið til landsins.
6. gr. Um innflutning skrautfiska.
[Matvælastofnun]1) er heimilt að leyfa innflutning skrautfiska og hrogna þeirra með þeim skilyrðum sem nauðsynleg eru svo að markmið laga þessara náist. Ráðherra skal í reglugerð setja nánari fyrirmæli þar að lútandi.
   1)L. 167/2007, 79. gr.
7. gr. Tímabundin viðkoma vegna flutnings á fiski.
Ef fiskur er fluttur milli landa með viðkomu á Íslandi skal sá flutningur fara fram undir eftirliti [Matvælastofnunar]1) og hlíta þeim fyrirmælum sem stofnunin setur. Ráðherra skal í reglugerð setja nánari reglur um slíkan flutning.
   1)L. 167/2007, 79. gr.
8. gr. Sótthreinsun veiðitækja og veiðibúnaðar.
Skylt er að sótthreinsa veiðitæki, veiðibúnað, báta og annan sambærilegan búnað, sem notaður hefur verið erlendis, áður en leyfilegt er að [nota hann við veiðar í íslensku veiðivatni],1) enda liggi ekki fyrir fullnægjandi vottorð, að mati [Matvælastofnunar],2) um að búnaðurinn hafi verið sótthreinsaður erlendis. [Matvælastofnun getur falið umráðamönnum veiðistaða framkvæmd aðgerða samkvæmt þessari grein í samræmi við reglur sem stofnunin setur auk þess að fela tollyfirvöldum framkvæmd aðgerða, eftir því sem við á.]1)
   1)L. 88/2020, 14. gr. 2)L. 167/2007, 79. gr.
9. gr. Innflutningur á dauðum fiski.
[Matvælastofnun]1) er rétt að banna innflutning á dauðum fiski, ferskum eða frystum, ef ástæða þykir til, t.d. vegna hættu á sjúkdómum og sníkjudýrum í vatnafiski. Slík fyrirmæli [Matvælastofnunar]1) skulu birt í B-deild Stjórnartíðinda.
   1)L. 167/2007, 79. gr.

III. kafli. Ýmis ákvæði.
10. gr. Viðbrögð vegna sjúkdóma og sníkjudýra í veiðivatni eða fiskeldisstöð.
Ef upp kemur smitandi sjúkdómur eða sníkjudýr í veiðivatni eða í fiskeldisstöð er [Matvælastofnun]1) heimilt, að höfðu samráði við fisksjúkdómanefnd og með hliðsjón af lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að hefta útbreiðslu þeirra. Við framkvæmd slíkra ráðstafana skal þar að auki og eftir föngum haft samráð við viðkomandi veiðifélag, veiðiréttarhafa, hafi veiðifélag ekki verið stofnað, eða rekstrarleyfishafa fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar. [Sé um að ræða ráðstafanir vegna sjúkdóma eða sníkjudýra í sjókvíaeldi skal leita samráðs um ráðstafanir við Hafrannsóknastofnun.]2)
   1)L. 167/2007, 79. gr. 2)L. 101/2019, 26. gr.
11. gr. Setning reglugerða.
Ráðherra skal, að höfðu samráði við [Matvælastofnun],1) fisksjúkdómanefnd, [Hafrannsóknastofnun]2) og erfðanefnd landbúnaðarins, eftir því sem við á, setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara í reglugerð.3)
Í reglugerð skal mælt fyrir um skilyrði innflutnings lifandi fisks, hrogna og svilja þar sem m.a. skal kveðið á um að fyrir hendi sé heilbrigðisvottorð og að fisksjúkdómanefnd mæli ekki gegn slíkum innflutningi. Þá skal nánar mælt fyrir um sótthreinsun hrogna, íláta og umbúða innfluttra fiska, sem og meðferð þeirra að öðru leyti. Enn fremur skal í reglugerð mælt fyrir um framkvæmd sótthreinsunar veiðibúnaðar. Jafnframt skal kveðið á um nánari skilyrði sem [Matvælastofnun]1) getur sett fyrir innflutningi á dauðum fiski.
Í reglugerð skal einnig mælt fyrir um heilbrigðiseftirlit í eldisstöðvum, um töku sýnishorna, um sóttvarnaraðgerðir og um kostnað af nauðsynlegum ráðstöfunum og annað það sem nauðsynlegt kann að teljast til þess að ná þeim markmiðum laga þessara að tryggja heilbrigði í vatnafiski. [Ráðherra skal, að höfðu samráði við Matvælastofnun, setja reglugerð sem mælir fyrir um aðgerðir vegna sníkjudýra í fiskeldi, svo sem um skyldu rekstraraðila til að telja laxalús og tiltekin viðmiðunarmörk um viðbrögð og aðgerðir vegna útbreiðslu laxalúsar.]4)
   1)L. 167/2007, 79. gr. 2)L. 113/2015, 6. gr. 3)Rg. 449/2005, sbr. 712/2006. Rg. 739/2006. Rg. 740/2006. Rg. 1254/2008, sbr. 303/2009 og 367/2013. Rg. 1077/2011. Rg. 346/2012. Rg. 119/2013. Rg. 220/2013. Rg. 221/2013. Rg. 271/2013. Rg. 272/2013. Rg. 273/2013. Rg. 300/2018, sbr. 1061/2021 og 1447/2021. Rg. 462/2021, sbr. 634/2021, 1059/2021, 1369/2021, 717/2022, 1033/2022 og 283/2023. Rg. 463/2021, sbr. 1247/2023. Rg. 464/2021, sbr. 1248/2023. Rg. 580/2021, sbr. 61/2022, 383/2022, 443/2022, 524/2022, 525/2022, 711/2022, 927/2022, 1031/2022, 1143/2022, 1236/2022, 1393/2022 og 1547/2022. Rg. 581/2021, sbr. 453/2022, 715/2022, 1202/2023 og 162/2024. Rg. 637/2021, sbr. 1548/2022 og 1123/2023. Rg. 1069/2021. Rg. 1376/2021. Rg. 1377/2021, sbr. 708/2022 og 1041/2022. Rg. 450/2022, sbr. 712/2022. Rg. 454/2022, sbr. 721/2022, 1032/2022 og 1472/2022. Rg. 930/2022. Rg. 1034/2022. Rg. 1137/2022. 4)L. 101/2019, 27. gr.

IV. kafli. Refsi- og gildistökuákvæði.
12. gr. Um refsingar.
Það varðar mann sektum eða fangelsi allt að einu ári brjóti hann gegn ákvæðum 7. gr. af ásetningi eða gáleysi. Það varðar sömu refsingu brjóti maður af ásetningi eða gáleysi fyrirmæli [Matvælastofnunar]1) skv. 9. gr. um bann við innflutningi á dauðum, ferskum eða frystum fiski.
   1)L. 167/2007, 79. gr.
13. gr. Gildistaka o.fl.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006.

Ákvæði til bráðabirgða.1)
   1)L. 88/2020, 15. gr.