Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
[Lög um bókmenntir]1)
2007 nr. 91 28. mars
1)L. 137/2012, 4. gr.
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 3. maí 2007. Breytt með:
L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
L. 137/2012 (tóku gildi 1. jan. 2013).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar- og viðskiptaráðherra eða menningar- og viðskiptaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Markmið og yfirstjórn.
1. gr.
Markmið laga þessara er að efla íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu og búa íslenskri bókmenningu hagstæð skilyrði.
[Ráðherra]1) fer með yfirstjórn málefna er varða bókmenntir samkvæmt lögum þessum.
1)L. 126/2011, 469. gr.
II. kafli. [Miðstöð íslenskra bókmennta og bókmenntasjóður.]1)
1)L. 137/2012, 1. gr.
[2. gr. Miðstöð íslenskra bókmennta.
Viðfangsefni Miðstöðvar íslenskra bókmennta eru að:
a. styrkja útgáfu íslenskra ritverka og útgáfu erlendra bókmennta á íslenskri tungu með fjárframlögum úr bókmenntasjóði, sbr. 4. gr.,
b. kynna íslenskar bókmenntir hér á landi og erlendis og stuðla að útbreiðslu þeirra og
c. efla bókmenningu á Íslandi.]1)
1)L. 137/2012, 1. gr.
[3. gr. Stjórn.
Ráðherra skipar fimm manna stjórn fyrir Miðstöð íslenskra bókmennta til þriggja ára í senn. Rithöfundasamband Íslands tilnefnir tvo fulltrúa, Félag íslenskra bókaútgefenda tilnefnir einn fulltrúa, Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna tilnefnir einn fulltrúa og einn fulltrúi er skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Varaformaður skal skipaður úr hópi stjórnarmanna. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í stjórn miðstöðvarinnar lengur en tvö samfelld starfstímabil.
Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta ákveður árlega skiptingu ráðstöfunarfjár á fjárlögum á milli viðfangsefna hennar, sbr. 2. gr., og úthlutar úr bókmenntasjóði. Hún gerir tillögur til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi miðstöðvarinnar og bókmenntasjóðs, sbr. 4. gr., til þriggja ára. Hún veitir einnig umsögn um erindi sem ráðuneytið vísar til hennar og getur einnig að eigin frumkvæði beint ábendingum og tillögum um bókmenntamálefni til ráðuneytisins.
Ráðherra felur stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila að annast þjónustu í nafni miðstöðvarinnar.
Þóknun til stjórnarmanna og annar kostnaður við störf stjórnarinnar greiðist af fjárveitingu Miðstöðvar íslenskra bókmennta.]1)
1)L. 137/2012, 1. gr.
[4. gr. Bókmenntasjóður.
Bókmenntasjóður starfar á vegum Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Hlutverk hans er að efla íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu. Hlutverk sitt rækir sjóðurinn með því að styrkja:
a. útgáfu frumsaminna íslenskra skáldverka,
b. útgáfu vandaðra rita sem eru til þess fallin að efla íslenska menningu,
c. útgáfu vandaðra erlendra bókmennta á íslenskri tungu.]1)
1)L. 137/2012, 1. gr.
[5. gr. Úthlutun.
Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta tekur ákvörðun um veitingu styrkja úr bókmenntasjóði. Við mat á umsóknum er stjórninni heimilt að leita umsagnar fagaðila.
Ákvarðanir um úthlutun úr bókmenntasjóði verða ekki kærðar til æðra stjórnvalds.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi bókmenntasjóðs.]1)
1)L. 137/2012, 1. gr.
[6. gr. Kostnaður.
Tekjur Miðstöðvar íslenskra bókmennta og bókmenntasjóðs eru árlegt framlag í fjárlögum og annað sjálfsaflafé. Fjárveitingar, sbr. 2. gr., skulu sérgreindar í fjárlögum hverju sinni.]1)
1)L. 137/2012, 1. gr.
III. kafli. Greiðslur fyrir afnot á bókasöfnum.
[7. gr.]1)
Höfundar sem eru ríkisborgarar eða búsettir í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins eiga rétt á greiðslum fyrir notkun bóka þeirra á bókasöfnum, sem eru rekin á kostnað ríkissjóðs eða sveitarfélaga, af árlegri fjárveitingu Alþingis fyrir afnot á bókasöfnum. Hér er bæði átt við útlán og afnot bóka á lestrarsölum bókasafna.
Rétt til úthlutunar samkvæmt þessari grein eiga rithöfundar, þýðendur, myndhöfundar og tónskáld, auk annarra einstaklinga sem átt hafa þátt í ritun bóka, enda hafi bækur þeirra verið gefnar út á íslensku, nema um sé að ræða þýðingu eða endursamið verk, endursögn eða staðfærslu á texta úr erlendu máli, og framlag þeirra sé skráð hjá Landskerfi bókasafna eða á annan sannanlegan hátt. Fyrir afnot hljóðrita og stafræns útgefins efnis er úthlutað á sama hátt. Þýðendur og þeir sem enduryrkja, endursegja eða staðfæra erlendar bækur á íslensku eiga þó rétt til úthlutunar samkvæmt þessari grein sem nemur tveimur þriðju af fullri úthlutun. Aðrir rétthafar eiga rétt á óskertri úthlutun. Réttur til úthlutunar samkvæmt þessari grein er persónulegur réttur sem er bundinn við framangreinda rétthafa og fellur niður við framsal höfundaréttar, hvort sem um er að ræða framsal að hluta eða að öllu leyti.
Rétt til úthlutunar skv. 2. mgr. eftir andlát rétthafa eiga eftirlifandi maki eða eftirlifandi sambúðaraðili, enda hafi sambúð staðið í fimm ár hið skemmsta, eða börn yngri en 18 ára, enda sé hitt foreldrið látið eða njóti ekki réttar samkvæmt lögum þessum. Séu framangreindir vandamenn fleiri en einn skiptist úthlutunin jafnt á milli þeirra. Rétthafar samkvæmt þessari málsgrein fá aðeins helming af þeirri greiðslu sem rétthafa skv. 2. mgr. hefði borið.
Greiðslur fyrir útlán bóka skulu byggðar á upplýsingum frá Landskerfi bókasafna. Við úthlutun á greiðslum fyrir afnot bóka á lestrarsölum bókasafna er heimilt að meta fjölda titla og eintaka bóka hvers höfundar, sem eru til afnota á lestrarsölum bókasafna, sem jafngildi tiltekins fjölda útlána á grundvelli stigagjafar þar sem tekið er tillit til tegundar, umfjöllunarefnis eða lengdar bóka.
1)L. 137/2012, 1. gr.
[8. gr.]1)
Úthlutunarnefnd annast úthlutun skv. [7. gr.]2) Í nefndinni eiga sæti fimm menn skipaðir til þriggja ára af [ráðherra].3) Af þeim skulu Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna, Rithöfundasamband Íslands og Myndstef tilnefna einn fulltrúa hvert. Tveir nefndarmenn skulu skipaðir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Sömu menn skulu ekki skipaðir oftar en tvö samfelld tímabil í úthlutunarnefnd.
[Ráðherra]3) setur sérstakar reglur4) um umsóknir og úthlutun skv. [7. gr.]2) Heimilt er í þeim reglum að setja lágmark á greiðslur úr sjóðnum þannig að eingöngu þeir höfundar sem ávinna sér greiðslur umfram tilskilið lágmark eigi rétt til greiðslna úr sjóðnum.
Ákvarðanir um úthlutun verða ekki kærðar til æðra stjórnvalds. Heimilt er [ráðherra]3) að fela úthlutunarnefnd skv. 1. mgr. að semja við til þess bæra aðila að annast umsýslu umsókna og greiðslur til rétthafa skv. 2. og 3. mgr. [7. gr.]2)
Þóknun til úthlutunarnefndar og annar kostnaður við störf nefndarinnar greiðist af árlegri fjárveitingu Alþingis fyrir afnot á bókasöfnum.
1)L. 137/2012, 1. gr. 2)L. 137/2012, 2. gr. 3)L. 126/2011, 469. gr. 4)Rgl. 323/2008. Rgl. 250/2021.
IV. kafli. Önnur ákvæði.
[9. gr.]1)
[Ráðherra]2) er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
1)L. 137/2012, 1. gr. 2)L. 126/2011, 469. gr.
[10. gr.]1)
Lög þessi öðlast þegar gildi …
1)L. 137/2012, 1. gr.
[Ákvæði til bráðabirgða.
Ráðherra skal skipa fimm manna samráðsnefnd. Félag íslenskra bókaútgefenda og Námsgagnastofnun tilnefna einn fulltrúa hvort. Ráðherra skipar þrjá fulltrúa án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður samráðsnefndarinnar. Skipun samráðsnefndarinnar gildir til 1. september 2013.
Samráðsnefndin skal skila ráðherra skýrslu þar sem fjallað verði um framtíðarsýn og starfsumhverfi íslenskrar bókaútgáfu, miðlun og bókmenningu, kennsluefni og fagefni fyrir skóla og fyrirtæki, svo og almenna bókaútgáfu. Nefndinni verði m.a. falið að leggja fram tillögur og marka skýra stefnu um aukna rafbókavæðingu á Íslandi, stafrænan aðgang almennings að höfundarréttarvörðu efni, kerfisbundin innkaup bókasafna, greiðslur fyrir aðgengi almennings að prentuðum og rafrænum bókum, eflingu námsgagnaútgáfu og hvernig megi auka aðgengi nemenda að innlendum námsbókum. Ráðherra verði heimilt að fela samráðsnefndinni frekari verkefni ef þörf er á.]1)
1)L. 137/2012, 3. gr.