Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um samræmda neyðarsvörun

2008 nr. 40 28. maí


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 5. júní 2008. Breytt með: L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 90/2018 (tóku gildi 15. júlí 2018; EES-samningurinn: XI. viðauki reglugerð 2016/679). L. 71/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019). L. 75/2021 (tóku gildi 1. júlí 2021).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Markmið laganna.
Samræmd neyðarsvörun fyrir Ísland sinnir viðtöku tilkynninga um fólk, eignir og umhverfi í neyð og beiðnum um aðstoð lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita og sjúkraflutningaliðs og aðra neyðaraðstoð. Neyðarsvörun þessi skal jafnframt fullnægja skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
2. gr. Samræmt neyðarnúmer.
Samræmt neyðarnúmer fyrir Ísland er 112.
Óheimilt er að nota töluna 112 sem símanúmer eða annað auðkenni í fjarskiptakerfi á Íslandi eða fyrir aðra starfsemi. Einnig er óheimilt að nota orðin „neyðarnúmer“ og „neyðarsímanúmer“ ein og sér eða í orðasamböndum um aðra starfsemi hér á landi en lög þessi kveða á um.
[Fjarskiptastofa],1) opinberir aðilar sem fjalla um síma- og fjarskiptamál og þeir einkaaðilar sem heimild hafa til reksturs á þessu sviði skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að allir notendur geti, þar sem því verður við komið, náð sambandi við neyðarþjónustu 112 sér að kostnaðarlausu. Sömu aðilar skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar berist sjálfvirkt með rafrænum hætti nýjustu gögn um notendur, auðkenni þeirra og staðsetningu, eftir því sem við verður komið.
   1)L. 75/2021, 32. gr.
3. gr. Vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar.
Í vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar skal vera aðstaða til þess að taka við og vinna úr tilkynningum sem berast um samræmt neyðarnúmer. Vaktstöðin miðlar þeim upplýsingum sem þannig berast tafarlaust til viðbragðsaðila á eða nærri vettvangi í samræmi við gildandi lög og skipulag. Vaktstöðvar skulu vera tvær og önnur þeirra í Reykjavík og skulu þær samtengdar í samræmdu kerfi.
Vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar veitir samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna samkvæmt lögum um almannavarnir nauðsynlega þjónustu vegna leitar-, björgunar- og almannavarnaaðgerða.
4. gr. Réttindi og skyldur viðbragðsaðila.
Öllum viðbragðsaðilum er skylt að tengjast vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar a.m.k. með svörun og símtalsflutningi og veita vaktstöð fullnægjandi upplýsingar um hverjir veiti viðtöku beiðnum um aðstoð af þeirra hálfu ásamt upplýsingum um þá þjónustu sem í boði er, menntunar- og þjálfunarstig þeirra sem hana veita og tækjabúnað sem tiltækur er til þess að sá sem óskar aðstoðar fái hana viðstöðulaust. Óski viðbragðsaðili þess er vaktstöðinni heimilt að veita viðbragðsaðilum víðtækari þjónustu. [Ráðherra]1) er heimilt í reglugerð að ákveða til hvaða aðila framangreind skylda tekur og kveða nánar á um fyrirkomulag á upplýsingagjöfinni.
Vaktstöð skal tilkynna viðbragðsaðilum umsvifalaust stöðvist reksturinn af einhverjum ástæðum.
Allir viðbragðsaðilar skulu hafa aðgang að öryggis- og fjarskiptakerfi samræmdrar neyðarsvörunar.
   1)L. 162/2010, 192. gr.
5. gr. Skráning upplýsinga.
Í vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar skal skrá og afrita allar tilkynningar sem berast. Skráningin skal að lágmarki ná til eftirtalinna atriða:
   a. hvaðan er hringt,
   b. hvenær er hringt,
   c. hver hringir,
   d. hvers vegna er hringt.
Svo sem kostur er skal tilgreina nákvæmlega staðinn sem hringt er frá og úr hvaða síma, klukkan hvað hringt er, fullt nafn þess sem hringir og hvert tilefnið er.
Afrita skal samskipti tilkynnanda og vaktstöðvar allt þar til símtalsflutningur til viðbragðsaðila á sér stað. Samskipti vaktstöðvar við viðbragðsaðila skulu afrituð.
Þeir sem leita eftir aðstoð með tilkynningu til vaktstöðvar skulu, svo sem kostur er, gefa greinargóðar upplýsingar um atburð og það ástand sem er tilefni tilkynningar. Verði einstaklingur uppvís að því að senda vísvitandi ranga tilkynningu til samræmdrar neyðarsvörunar eða misnota að öðru leyti þjónustu hennar varðar það refsingu skv. 120. gr. og 120. gr. a almennra hegningarlaga.
6. gr. Varðveisla upplýsinga.
Skrár yfir tilkynningar og afrit af samskiptum tilkynnanda og vaktstöðvar skv. 5. gr. skulu varðveittar í a.m.k. sex mánuði frá því að tilkynning barst og skal farið með efni þeirra sem trúnaðarmál. [Ráðherra]1) setur nánari reglur um varðveislu upplýsinganna, aðgengi að þeim og notkun í samræmi við ákvæði laga þessara og lög um persónuvernd og [vinnslu]2) persónuupplýsinga.
   1)L. 162/2010, 192. gr. 2)L. 90/2018, 54. gr.
7. gr. Skyldur starfsfólks vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar.
[Starfsfólk vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar er bundið þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga.]1) Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Skal starfsfólk undirrita þagnarheit áður en það hefur störf.
   1)L. 71/2019, 5. gr.
8. gr. Rekstur vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar.
Rekstur vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar skal vera í höndum hlutafélags um rekstur slíkrar stöðvar. [Ráðherra]1) semur við rekstraraðila um fyrirkomulag, fjármögnun og þátttöku í rekstrinum.
Vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar er heimilt í samráði við ráðherra að gera þjónustusamninga við aðra aðila.
Kostnaður við uppbyggingu og rekstur vaktstöðvar, að því marki sem hann er ekki greiddur af tekjum fyrir þá þjónustu sem vaktstöðin veitir, greiðist úr ríkissjóði.
Rekstur þess hluta starfsemi rekstraraðila sem telst í frjálsri samkeppni við aðra aðila skal fjárhagslega aðskilinn rekstri vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar.
   1)L. 162/2010, 192. gr.
9. gr. Reglugerðarheimild.
[Ráðherra]1) fer með framkvæmd laga þessara og setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þeirra, þ.m.t. um starfsemi vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar, um menntun og þjálfun starfsfólks, lágmarksfjölda starfsfólks og um þátttöku stöðvarinnar í æfingum á sviði almannavarna. Einnig skal í reglugerð mæla fyrir um ráðstafanir sem gerðar eru í því skyni að tryggja öryggi vaktstöðvarinnar, þar á meðal um eftirlit og vöktun aðgengis að vaktstöð, um samskiptaleiðir við lögreglu og um varaafl fyrir reksturinn. Í reglugerð skal enn fremur mæla fyrir um hverjir teljast viðbragðsaðilar samkvæmt lögum þessum.
   1)L. 126/2011, 477. gr.
10. gr. Gildistaka og brottfallin lög.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli sem sett eru samkvæmt eldri lögum skulu halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau fara ekki í bága við lög þessi. Þá skulu samningar sem gerðir voru í tíð eldri laga halda gildi sínu þar til þeir verða endurskoðaðir af hálfu samningsaðila.