Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

2008 nr. 125 7. október


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 7. október 2008. Breytt með: L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 91/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020 nema 133. gr. sem tók gildi 16. júlí 2019). L. 38/2022 (tóku gildi 1. júlí 2022 nema 76. gr., a-liður 82. gr., d-liður 177. gr., d-liður 206. gr. og 65. gr. sem tóku gildi skv. fyrirmælum í 215. gr. EES-samningurinn: IX. viðauki reglugerð 575/2013, 2015/62, 2016/1014, 2017/2188, 2017/2395, 2019/630, 2019/876, 2020/873).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.
1. gr.
Við sérstakar og mjög óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði er [ráðherra]1) fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta.
Með sérstökum og mjög óvenjulegum aðstæðum á fjármálamarkaði, sbr. 1. mgr., er átt við sérstaka fjárhags- og/eða rekstrarerfiðleika hjá fjármálafyrirtæki, m.a. líkur á að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum, forsendur afturköllunar starfsleyfis séu líklega fyrir hendi eða líkur standi til að það geti ekki uppfyllt kröfur um lágmarks eigið fé og að úrræði Fjármálaeftirlitsins séu ekki líkleg til þess að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Þá er með sérstökum aðstæðum m.a. átt við ef fjármálafyrirtæki hefur óskað eftir eða fengið heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamninga eða óskað eftir gjaldþrotaskiptum eða verið úrskurðað gjaldþrota.
Ákvæði laga um fjármálafyrirtæki gilda ekki hvað varðar heimild ríkisins til að eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki samkvæmt þessum lögum. Ákvæði laga um verðbréfaviðskipti um yfirtökuskyldu og lýsingar gilda ekki um öflun og meðferð eignarhlutar ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum samkvæmt þessum lögum. Ákvæði laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum gilda ekki um yfirtöku fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta samkvæmt lögum þessum. Við stofnun hlutafélags í því skyni að taka við rekstri fjármálafyrirtækis að hluta til eða í heild sinni skal það félag undanþegið ákvæðum hlutafélagalaga um lágmarksfjölda hluthafa skv. 2. mgr. 3. gr. svo og ákvæðum 6.–8. gr. laganna um sérfræðiskýrslu. Fyrirtæki sem stofnað er samkvæmt þessari grein hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt ákvæðum …2) 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
   1)L. 126/2011, 498. gr. 2)L. 38/2022, 155. gr.
2. gr.
Við þær sérstöku aðstæður sem greinir í 1. gr. er [ráðherra]1) fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að leggja sparisjóði til fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé hans. Ríkissjóður fær stofnfjárbréf eða hlutabréf í sparisjóðnum sem endurgjald í samræmi við eiginfjárframlag sem lagt er til. Fjárhæð útgefinna stofnfjárhluta til ríkissjóðs skal að nafnverði nema sömu upphæð og það fjárframlag sem innt er af hendi og skal það stofnfé njóta sömu stöðu og aðrir stofnfjárhlutir í viðkomandi sjóði. [Seðlabanka Íslands]2) er heimilt að setja sérstakar reglur um viðskipti með stofnbréf í slíkum tilvikum. Þegar um er að ræða sparisjóð sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki skal hið nýja hlutafé nema sama hlutfalli gagnvart öðru útgefnu hlutafé og fjárframlagið er í hlutfalli við bókfært eigið fé félagsins. Ákvæði þetta tekur jöfnum höndum til stofnfjársparisjóða og þeirra sparisjóða sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum laga þessara eftir því sem við á. Ef stjórn sparisjóðs samþykkir er heimilt að víkja frá ákvæðum [70. gr.]3) laga um fjármálafyrirtæki um boðun fundar stofnfjáreigenda og forgangsrétt þeirra til aukningar stofnfjár eða hlutafjár.
   1)L. 126/2011, 498. gr. 2)L. 91/2019, 86. gr. 3)L. 38/2022, 156. gr.
3.–13. gr.

VI. kafli. Gildistaka.
14. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað binda lög þessi alla þegar við birtingu.
Ákvæði til bráðabirgða.
Lög þessi skulu endurskoðuð fyrir 1. janúar 2010.