Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi

2010 nr. 26 31. mars


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 2010. EES-samningurinn: VII. viðauki tilskipun 2005/36/EB. Breytt með: L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 63/2012 (tóku gildi 29. júní 2012). L. 90/2018 (tóku gildi 15. júlí 2018; EES-samningurinn: XI. viðauki reglugerð 2016/679). L. 16/2020 (tóku gildi 12. mars 2020; EES-samningurinn: VII. og X. viðauki tilskipun 2013/55/ESB).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Gildissvið.
Lög þessi taka til þess þegar meta þarf hvort einstaklingur, sem hefur hug á að starfa hér á landi sem launþegi eða sjálfstætt starfandi, uppfyllir skilyrði til að starfa í starfsgrein, sem til þarf leyfi, löggildingu eða aðra jafngilda viðurkenningu stjórnvalds, á grundvelli faglegrar menntunar og hæfis sem hann hefur aflað sér í öðru landi.
[Lög þessi gilda einnig um takmarkaða viðurkenningu til starfa í lögverndaðri starfsgrein og um viðurkenningu á starfsþjálfunartíma í öðru ríki.]1)
Lög þessi gilda enn fremur þegar tilkynna skal um þjónustu sem veitt er hér á landi tímabundið eða með hléum og háð er leyfi, löggildingu eða annarri jafngildri viðurkenningu stjórnvalds.
   1)L. 16/2020, 1. gr.
2. gr. Réttindi.
Einstaklingar sem eru ríkisborgarar í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða í landi þar sem samið hefur verið um gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda eiga rétt á að gegna hér á landi starfi, hvort heldur er sjálfstætt eða sem launþegar, með sömu skilmálum og gilda um íslenska ríkisborgara, [framvísi þeir hæfnisvottorði eða vitnisburði um þá formlegu menntun og hæfi sem krafist er],1) enda uppfylli þeir skilyrði:
   a. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, sem og viðauka við hana eins og þeir eru á hverjum tíma,
   b. í samningum sem ríkisstjórnir Norðurlanda gera og öðlast hafa gildi að því er Ísland varðar og kveða á um almennar reglur um gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda,
   c. Hoyvíkursamningsins, dags. 31. ágúst 2005, milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar.
[Rétturinn til starfa tekur einnig til ríkisborgara í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins sem verið hafa í starfsþjálfun í öðru landi en heimalandinu og handhafa evrópsks fagskírteinis.
Rétturinn til starfa gildir einnig um þá aðila sem hlotið hafa menntun á grundvelli sameiginlegra menntunarkrafna sem staðfestar hafa verið af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eða sameiginlegs lokaprófs sem staðfest hefur verið með sama hætti.
Einstaklingar sem fá viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi skulu búa yfir nauðsynlegri tungumálakunnáttu til að geta lagt stund á starfið á Íslandi.
Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um skilyrði viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi samkvæmt þessari grein.]1)
   1)L. 16/2020, 2. gr.
3. gr. Lögbær stjórnvöld.
Einstaklingur sem fellur undir tilskipunina eða samninga um viðurkenningu starfsréttinda, sbr. 2. gr., og óskar eftir því að starfa hér á landi skal beina umsókn sinni til [ráðuneytisins],1) nema öðru stjórnvaldi sé með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum falin úrlausn málsins. [Umsækjandi getur valið milli þess að sækja um evrópskt fagskírteini þegar sá kostur býðst í heimalandi hans eða að sækja um viðurkenningu eftir hefðbundnum leiðum við komuna til Íslands. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um útgáfu evrópsks fagskírteinis.]2)
Einstaklingur sem ekki fellur undir tilskipunina eða samninga um viðurkenningu starfsréttinda, sbr. 2. gr., skal beina umsókn sinni til [ráðuneytisins]1) nema öðru stjórnvaldi sé með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum falin úrlausn málsins.
Það stjórnvald sem veitir leyfi, löggildingu eða viðurkenningu til þess að gegna starfi í starfsgrein hér á landi kannar hvort skilyrði tilskipunarinnar eða samninga skv. b- og c-lið [1. mgr.]2) 2. gr. og þau skilyrði sem um starfið gilda að öðru leyti séu uppfyllt.
[Lögbær stjórnvöld hér á landi skulu veita takmarkaða viðurkenningu til starfa í einstökum tilvikum að uppfylltum skilyrðum sem nánar eru útfærð í reglugerð.]2)
Einstaklingur sem óskar eftir því að gegna hér starfi sem launþegi eða sjálfstætt starfandi, tímabundið eða með hléum, skal áður senda hlutaðeigandi stjórnvaldi skriflega tilkynningu um fyrirætlan sína, sbr. 5. gr.
[Lögbærum stjórnvöldum er heimilt að krefjast þess að umsækjandi gangist undir uppbótarráðstafanir, hæfnispróf eða aðlögun ef menntun hans eða starfsreynsla er verulega frábrugðin því sem krafist er hér á landi.]2)
   1)L. 126/2011, 522. gr. 2)L. 16/2020, 3. gr.
4. gr. Tímabundin þjónusta eða með hléum.
Einstaklingur sem fellur undir skilyrði tilskipunarinnar á rétt á að veita hér á landi þjónustu tímabundið og með hléum ef hann:
   a. hefur lögfesta búsetu í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og á rétt til þess að stunda þar sama starf og
   b. [hefur unnið við starfið í einu eða nokkrum aðildarríkjum í að minnsta kosti eitt ár á síðastliðnum tíu árum áður en þjónustan er veitt og það er ekki lögverndað í því ríki].1) Skilyrði um [eins árs]1) starfsreynslu gildir ekki þegar annaðhvort starfsgreinin eða menntun til starfsins er háð leyfi, löggildingu eða viðurkenningu stjórnvalds.
Við mat á eðli þjónustu sem veitt er tímabundið og óreglubundið skal í hverju tilviki líta til tímalengdar, tíðni, reglufestu og samfellu þjónustunnar.
   1)L. 16/2020, 4. gr. Í Stjtíð. er vísað til b-liðar 1. málsl. 1. mgr. við fyrri breytinguna og 2. málsl. 1. mgr. við síðari breytinguna en þar mun átt við 1. málsl. b-liðar 1. mgr. annars vegar og 2. málsl. b-liðar 1. mgr. hins vegar.
5. gr. Yfirlýsing vegna þjónustu sem veitt er tímabundið eða með hléum.
Sá sem óskar eftir því að veita þjónustu hér á landi í fyrsta sinn, sbr. 4. gr., skal áður en hún hefst gefa skriflega yfirlýsingu til hlutaðeigandi stjórnvalds, þar sem m.a. er getið þeirra vátrygginga sem hann nýtur. Yfirlýsingin skal endurnýjuð árlega ef óskað er eftir því að halda áfram að veita þjónustu tímabundið eða með hléum.
Hlutaðeigandi stjórnvald getur krafist þess að yfirlýsingu umsækjanda, sem óskar eftir að veita þjónustu á sínu sviði í fyrsta sinn, eða þegar um er að ræða mikilvægar breytingar á aðstæðum sem byggt hefur verið á, fylgi eftirtalin gögn:
   a. sönnun fyrir þjóðerni umsækjanda,
   b. vottorð um að umsækjandi sé með lögfesta búsetu í aðildarríki til þess að stunda þar sama starf og að hann hafi til þess leyfi þegar hann afhendir vottorðið,
   c. prófskírteini sem sýnir fram á menntun og hæfi umsækjanda til starfsréttinda,
   d. sönnun þess að starfið hafi verið stundað í að minnsta kosti [eitt]1) ár á síðastliðnum tíu árum, sbr. b-lið 1. mgr. 4. gr.,
   e. [vottorð sem staðfestir að umsækjandi hafi ekki sætt tímabundnum eða endanlegum brottrekstri úr starfi eða hlotið dóm fyrir saknæmt athæfi í störfum sem varðar sviptingu eða takmörkun á starfsréttindum í öryggisþjónustu, heilbrigðisgreinum og störfum sem tengjast uppeldi og menntun ólögráða einstaklinga, þ.m.t. í leik-, grunn- og framhaldsskólum, þegar slíkrar staðfestingar er krafist hér á landi],1)
   [f. yfirlýsing um nauðsynlega íslenskukunnáttu umsækjanda ef um er að ræða starf sem varðar öryggi sjúklinga og kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum].1)
[Stjórnvaldi er heimilt að kanna faglega menntun og hæfi umsækjanda áður en þjónusta er veitt í fyrsta skipti ef starfið varðar lýðheilsu og almannaöryggi og nýtur ekki sjálfkrafa viðurkenningar. Nánari ákvæði um könnun á faglegri menntun og hæfi skal setja í reglugerð.]1)
   1)L. 16/2020, 5. gr.
6. gr. Upplýsingar.
[Ef réttmætur vafi er til staðar geta stjórnvöld sem í hlut eiga kallað eftir upplýsingum hjá lögbærum stjórnvöldum heimaaðildarríkis um lögmæti staðfesturéttar þjónustuveitanda og hvort hann hafi sætt agaviðurlögum eða réttindamissi vegna starfa sinna. Ef viðkomandi stjórnvald ákveður að kanna faglega menntun þjónustuveitanda getur það óskað eftir upplýsingum frá lögbærum stjórnvöldum heimaaðildarríkis um menntun og þjálfun þjónustuveitanda að því marki sem það er nauðsynlegt til þess að meta umtalsverðan mun á menntun og þjálfun sem heilsu og öryggi almennings gæti stafað hætta af.]1)
   1)L. 16/2020, 6. gr.
7. gr. Vinnsla og miðlun upplýsinga.
Íslensk stjórnvöld skulu eiga samstarf við stjórnvöld þeirra ríkja sem fara með framkvæmd tilskipunarinnar, þar á meðal um miðlun upplýsinga, og haft geta áhrif á rétt til þess að stunda starf sem til þarf leyfi, löggildingu eða aðra jafngilda viðurkenningu. [Upplýst skal um agaviðurlög eða dóma fyrir saknæmt athæfi sem umsækjandi hefur hlotið og talið er að geti haft áhrif á störf í öryggisþjónustu og heilbrigðisgreinum og störf sem tengjast uppeldi og menntun ólögráða einstaklinga, þ.m.t. í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Lögbær stjórnvöld skulu gera öllum öðrum aðildarríkjum viðvart um tilvik þar sem dómstólar hafa takmarkað eða bannað, að hluta eða með öllu, einnig tímabundið, faglega starfsemi aðila á yfirráðasvæði sínu. Nánar er kveðið á um slíkar viðvaranir í reglugerðum.]1)
Stjórnvald sem hefur með höndum viðurkenningu starfsréttinda sem fellur undir tilskipunina hefur heimild til vinnslu persónuupplýsinga og annarra upplýsinga sem nauðsynlegar teljast vegna framkvæmdar tilskipunarinnar. Er stjórnvaldi í þeim tilgangi heimilt að halda sérstaka skrá um upplýsingarnar og miðla þeim til annarra lögbærra yfirvalda í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, enda fari slík miðlun upplýsinga um evrópskt upplýsingakerfi (e. Internal Market Information System) og gætt sé ákvæða [16. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga].2) Með sama hætti er stjórnvaldi heimilt að taka við upplýsingum úr slíku kerfi og varðveita þær í sérstakri skrá. Miðlun upplýsinga með öðrum hætti er óheimil.
Stjórnvöld og aðilar sem lögum samkvæmt er falið að hafa með höndum viðurkenningu menntunar og hæfis samkvæmt tilskipuninni eða hafa eftirlit með störfum þeirra sem hlotið hafa leyfi til þess að starfa hér á landi á grundvelli tilskipunarinnar skulu hafa aðgang að upplýsingum sem skráðar eru.
Um vinnslu upplýsinga, sbr. 2. mgr., skal að öðru leyti gæta ákvæða [laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, þar á meðal um að veita þeim einstaklingum sem upplýsingar eru skráðar um fræðslu um vinnslu upplýsinganna, sbr. 17. gr. þeirra laga].2) Það stjórnvald sem viðurkennir eða veitir hlutaðeigandi starfsréttindi telst ábyrgðaraðili í skilningi þeirra laga.
   1)L. 16/2020, 7. gr. 2)L. 90/2018, 54. gr.
8. gr. Heimildir til setningar stjórnvaldsfyrirmæla. Gjaldtaka.
Ráðherra sem í hlut á getur með reglugerð1) veitt undanþágu frá ákvæðum í lögum er varða ríkisfang, búsetu eða viðurkenningu á prófum að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er felast í tilskipuninni eða samningum skv. 2. gr.
Ráðherra sem í hlut á setur reglur um hæfnispróf eða viðbótarmenntun eftir því sem við á. Hann getur einnig ákveðið að umsækjandi skuli greiða kostnað vegna mats á hæfni og/eða viðbótarmenntunar. Fjárhæð gjaldsins má nema kostnaði við þýðingu gagna, kennslu, námsmat og aðra umsýslu vegna viðbótarnáms á umræddu sviði.
[Ráðherra sem í hlut á setur reglur um gjöld er krefja má við afgreiðslu umsóknar um heimild til að gegna starfi hér á landi, vinnslu umsóknar um evrópskt fagskírteini og vegna mats á gögnum. Gjöldum skal stillt í hóf og miðast við umfang þeirrar vinnu sem felst í faglegu mati umsókna.]2)
   1)Rg. 243/2018. 2)L. 16/2020, 8. gr.
9. gr. Samræming, reglugerð o.fl.
[Ráðuneytið]1) skal sjá um og samræma framkvæmd tilskipunarinnar og samninga sem falla undir 2. gr.
[Ráðherra]1) setur nánari fyrirmæli í reglugerð2) um innleiðingu og framkvæmd tilskipunarinnar, þar á meðal um heimildir til þess að afla upplýsinga hjá þeim stjórnvöldum sem veita leyfi eða löggildingu samkvæmt tilskipuninni. Í slíkri reglugerð skal enn fremur kveðið nánar á um tilhögun mats og málsmeðferð þegar stjórnvald fjallar um umsóknir um viðurkenningu til að gegna lögvernduðu starfi hér á landi.
[Ráðherra sem í hlut á, í samræmi við löggjöf og reglur um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, er heimilt að gefa út reglugerðir3) með samsvarandi hætti og segir í 2. mgr. fyrir þær starfsstéttir sem undir hann heyra.]4)
[Ráðherra]1) getur með samningi falið þar til bærum aðila að sjá um hæfnispróf og veita viðbótarmenntun skv. 2. mgr. 8. gr. Jafnframt má fela slíkum aðila að annast mat á því hvort umsækjandi uppfyllir lögmælt skilyrði til að gegna starfinu og til að taka við og afgreiða umsóknir, sbr. 2. og 3. mgr. 3. gr. Ákvörðun stjórnvalds sem tekin er á grundvelli slíks samnings er endanleg og sætir ekki kæru til æðra stjórnvalds.
[Ráðherra]1) er enn fremur heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um vinnslu og miðlun upplýsinga sem nauðsynlegar eru við framkvæmd tilskipunarinnar, enda sé þar gætt fyrirmæla [laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga].5)
   1)L. 126/2011, 522. gr. 2)Rg. 374/2010. Rg. 375/2010. Rg. 376/2010. Rg. 585/2011, sbr. 1324/2011. Rg. 544/2012. Rg. 414/2013. Rg. 477/2020, sbr. 403/2022 og 1061/2023. 3)Rg. 510/2020. 4)L. 63/2012, 1. gr. 5)L. 90/2018, 54. gr.
10. gr. Innleiðing tilskipunarinnar.
Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007, sem birt var 10. apríl 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 19/2008.
[Með lögum þessum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/55/ESB frá 20. nóvember 2013 um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 um samvinnu á sviði stjórnsýslu fyrir tilstilli upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn („reglugerðin um IM-upplýsingakerfið“), eins og þessi gerð er tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2017 sem birt var 7. febrúar 2019 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 11/2019.]1)
   1)L. 16/2020, 9. gr.
11. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2010.
12. gr. Breytingar á öðrum lögum.