Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Landflutningalög

2010 nr. 40 18. maí


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 22. maí 2010.

I. kafli. Gildissvið.
1. gr.
Lög þessi gilda um allan vöruflutning með ökutæki á landi án tillits til þess hvort greitt er fyrir flutninginn eða ekki enda annist flytjandi flutning.
Lögin gilda um vöruflutning með einu ökutæki, með samtengdum ökutækjum og með vagni eða í gámi þegar vagn eða gámur hefur verið festur við ökutæki, hvort sem slíkur vagn eða gámur er, við fermingu og/eða affermingu, tengdur við ökutæki eða ekki. Auk þess gilda lögin um lausan vagn eða gám sem tímabundið hefur verið aftengdur ökutæki meðan á vöruflutningi stendur.
Lögin gilda um réttarsamband flytjanda, sendanda og móttakanda vörunnar. Auk þess gilda þau um réttarsamband eiganda vöru og flytjanda, sé eigandi hvorki sendandi né móttakandi vörunnar.
Óheimilt er, nema annað sé tekið fram í lögunum, að víkja frá ákvæðum þeirra.
2. gr.
Í lögum þessum er merking eftirfarandi orða sem hér segir:
   1. Flytjandi: Sá sem með samningi tekur að sér vöruflutning með ökutæki fyrir annan, eiganda, sendanda og/eða móttakanda vörunnar, hvort sem hann ekur ökutækinu sjálfur eða ökumaður í hans þjónustu.
   2. Vöruflutningur: Allir vöruflutningar á Íslandi með ökutækjum, vögnum og gámum, hvort sem flutt er fyrir einn aðila eða fleiri í einu og hvort sem flutt er innan sama bæjarfélags eða milli landshluta.
   3. Gámur: Gámur hvort sem er lokaður eða opinn, fleti eða hvers kyns sambærileg flutningseining sem notuð er til að halda vörum saman.
   4. Vagn: Hvers konar eftirvagn og tengitæki sem hönnuð eru til að vera dregin af ökutæki en ganga ekki fyrir eigin vélarafli.
   5. Ökutæki: Tæki á hjólum, beltum, völtum, meiðum eða öðru sem ætlað er til aksturs á landi og eigi rennur á spori, þ.m.t., en þó ekki tæmandi, bifreið, bifhjól, dráttarvél og vinnuvél, hvort sem tækið er vélknúið eða ekki.
   6. Fjölþáttaflutningur: Vöruflutningur þar sem sami farmflytjandi tekur að sér flutninginn með fleiri en einni flutningsaðferð frá móttökustað til afhendingarstaðar.
3. gr.
Sé vagn, gámur og/eða ökutæki flutt hluta leiðar á skipi, án þess að vera jafnframt losað, gilda þessi lög um allan flutninginn.
Þurfi að skipta um vagn, gám og/eða ökutæki á leiðinni, eða áður en varan er komin á ákvörðunarstað, telst samt vera um einn flutning að ræða sem fellur undir lög þessi.
4. gr.
Lög þessi gilda einnig um starfsmenn, umboðsmenn og undirverktaka flytjanda, sendanda, móttakanda og eiganda vöru.
5. gr.
Lög þessi gilda ekki um póstflutninga sem falla undir lög um póstþjónustu.
Við flutning póstsendinga er flytjandi einungis ábyrgur gagnvart hlutaðeigandi póstþjónustu í samræmi við þær reglur sem aðilar hafa samið sérstaklega um að skuli gilda um flutninginn eða lög um póstþjónustu hafi ekki verið samið um slíkar reglur. Flytjandi ber ekki ábyrgð á flutningnum gagnvart sendanda, móttakanda og/eða eiganda póstsendingar.
6. gr.
Þegar eigandi ökutækis er jafnframt flytjandi vöru skulu lög þessi ganga framar umferðarlögum um ábyrgð á tjóni sem kann að verða á vörunni.

II. kafli. Flutningssamningar.
7. gr.
Fyrir sérhverja vörusendingu skal sendandi, sé ekki um annað samið, útfylla fylgibréf á þar til gert eyðublað sem flytjandi útvegar.
Í stað fylgibréfs skv. 1. mgr. er sendanda heimilt, með samþykki flytjanda, að senda flytjanda með rafrænum hætti, eða á annan þann hátt sem flytjandi fer fram á, þær upplýsingar sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 8. gr. Í slíkum tilvikum ber flytjanda að varðveita upplýsingar um flutninginn á þann hátt sem hann kýs, þ.m.t. á rafrænu formi.
Ef heimildar skv. 2. mgr. er neytt skal flytjandi afhenda sendanda kvittun sem gerir kleift að bera kennsl á vöruna og hefur að geyma þær upplýsingar sem varðveittar eru um flutninginn. Slík kvittun má vera á rafrænu formi.
8. gr.
Fylgibréf eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. er sönnun fyrir gerð flutningssamnings, skilmála hans og móttöku flytjanda á vörunni eins og henni er þar lýst nema annað sannist eða um annað sé samið.
Í fylgibréfi skv. 1. mgr. skulu a.m.k. vera eftirfarandi upplýsingar:
   1. Nafn og heimilisfang sendanda.
   2. Nafn og heimilisfang móttakanda.
   3. Dagsetning á móttöku flytjanda á vörunni.
   4. Fjöldi pakka, tilgreining vöru, pökkun, mál og vigt.
   5. Merking um meðferð og meðhöndlun vöru.
   6. Greiðsluskilmálar.
   7. Kröfuupphæðir sem innheimta á hjá móttakanda sé um slíkt að ræða.
   8. Tilgreining á verðmæti vörunnar ef sérstakar ástæður eru til.
   9. Sérstök og skýr tilgreining ef flytja á vöruna við ákveðið hitastig eða ef meðhöndla á vöruna á einhvern sérstakan eða gætilegan hátt.
   10. Sérstök tilgreining á því hvort um hættulega vöru er að ræða og nánari lýsing á eðli vörunnar ef um slíkt er að ræða.
9. gr.
Sendanda og flytjanda er heimilt að bæta í fylgibréfið eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. öðrum upplýsingum sem þeir telja nauðsynlegar vegna flutnings vörunnar. Flytjanda er jafnframt heimilt að bæta við nánari reglum um framkvæmd flutningsins.
10. gr.
Flytjandi staðfestir móttöku vörunnar með undirskrift sinni á fylgibréfið. Undirritun hans má vera prentuð eða stimpluð.
Sé heimildar 2. mgr. 7. gr. neytt staðfestir flytjandi móttöku vörunnar með kvittun skv. 3. mgr. 7. gr.
11. gr.
Þótt fylgibréf sé ekki gefið út, heimild 2. mgr. 7. gr. á ekki við eða fylgibréf eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. hefur glatast eða er ekki þess efnis sem mælt er fyrir um í lögum þessum er flutningssamningur engu að síður gildur og háður ákvæðum laga þessara.

III. kafli. Móttaka, flutningur og afhending vöru og flutningsgjald.
12. gr.
Sendanda ber að merkja vöruna greinilega með nafni, heimilisfangi og síma móttakanda, svo og með öðrum nauðsynlegum upplýsingum, áður en hún er afhent flytjanda.
13. gr.
Flytjanda ber að hafa þau lögbundnu leyfi sem krafist er vegna flutningsstarfseminnar, eftir því sem við á. Flytjanda ber jafnframt að sjá til þess með eðlilegri árvekni að ökutæki, vagn og gámur sé í fullnægjandi ástandi til móttöku, flutnings og varðveislu vöru og ber með eðlilegri árvekni að ferma, flytja, annast um og afferma vörur sem hann flytur.
14. gr.
Flutningur samkvæmt lögum þessum er talinn hefjast er flytjandi tekur við vöru til flutnings og lýkur við afhendingu hennar til móttakanda eða skv. 16. gr.
15. gr.
Við móttöku vöru skal flytjandi kanna hvort upplýsingar í fylgibréfi eða upplýsingar sem honum eru sendar skv. 2. mgr. 7. gr. eru réttar, eftir því sem séð verður. Flytjanda er heimilt að setja þá fyrirvara við upplýsingarnar sem hann telur nauðsynlega.
Hafi flytjandi ekki færi á að kanna hvort upplýsingar eru réttar er honum heimilt að geta um það í fylgibréfinu eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. og undanskilja sig með því þeirri skyldu sem mælt er fyrir um í þessari grein.
16. gr.
Flytjandi skal afhenda vöruna á ákvörðunarstað til þess aðila sem skráður er móttakandi í fylgibréfi eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. nema sendandi og flytjandi hafi samið um annað.
Ef móttakandi er ekki við því búinn að veita vöru viðtöku eða neitar að taka við vöru, móttakandi er ókunnur eða finnst ekki eða ómögulegt er að afhenda vöruna af öðrum orsökum, skal flytjandi koma vörunni í örugga geymslu á kostnað og áhættu sendanda og lýkur flutningnum við það, nema um annað sé samið. Flytjandi skal þá tilkynna sendanda um geymslu vörunnar og leita fyrirmæla hans um frekari meðferð hennar. Flytjanda er heimilt að krefja sendanda bæði um þann kostnað sem til fellur meðan beðið er eftir fyrirmælum frá sendanda og kostnað við að framfylgja þeim.
Komi til þess að endursenda þurfi vöru til sendanda ber honum að greiða flutningsgjald og aðrar kröfur sem flytjandi getur krafist greiðslu á samkvæmt fylgibréfi eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. vegna upphaflegs flutnings, sem og allan þann kostnað sem til fellur við endursendingu vörunnar.
Hafi flytjandi ekki innan fjórtán almanaksdaga, frá því að tilkynning skv. 2. mgr. er send af stað til sendanda með sannanlegum hætti, fengið fyrirmæli frá honum um meðferð vörunnar er flytjanda heimilt:
   a. að selja svo mikið af vörunni sem þarf til lúkningar á kröfum sem á henni hvíla, á hvern þann hátt sem hann telur að sé hagstæðastur hverju sinni, án þess að þörf sé undangenginnar áskorunar til sendanda, móttakanda og eiganda vörunnar, eða
   b. að farga allri vörunni eða hluta hennar á kostnað og áhættu sendanda enda sé sendanda tilkynnt skriflega með hæfilegum fyrirvara um þessa ráðstöfun flytjanda á vörunni, eða
   c. að koma allri vörunni eða því sem ekki er selt skv. a-lið eða sem ekki er fargað skv. b-lið í örugga geymslu á kostnað og áhættu sendanda enda sé sendanda tilkynnt skriflega um þessa ráðstöfun flytjanda á vörunni.
17. gr.
Þegar vara er komin á ákvörðunarstað getur móttakandi krafist afhendingar vörunnar gegn greiðslu þeirrar upphæðar sem innheimta skal samkvæmt fylgibréfinu eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. auk annarra gjalda sem hvíla á vörunni enda uppfylli hann öll þau skilyrði sem greinir í flutningssamningi.
Flytjanda er heimilt að krefjast þess af móttakanda að hann sanni á sér deili áður en varan er afhent en að öðrum kosti er flytjanda heimilt að neita afhendingu án þess að baka sér skaðabótaskyldu. Í slíku tilviki skulu ákvæði 2. og 3. mgr. 16. gr. gilda eftir því sem við á.
Verði ágreiningur um upphæð og gjöld sem móttakanda ber að greiða skv. 1. mgr. er flytjanda heimilt að neita að afhenda vöruna nema gegn tryggingu sem flytjandi metur fullnægjandi.
18. gr.
Hafi ekki verið samið um fjárhæð flutningsgjalds skal greiða það gjald sem fram kemur í gjaldskrá flytjanda en sé ekki um slíka gjaldskrá að ræða það gjald sem almennt var notað þegar flytjandi tók við vörunni.
Hafi verið flutt meira vörumagn en fylgibréf eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. getur um skal greiða flutningsgjald fyrir það sem umfram er í samræmi við 1. mgr.

IV. kafli. Ábyrgð flytjanda.
19. gr.
Skemmist vara eða glatist meðan á flutningi stendur ber flytjanda að bæta tjón sem af því hlýst nema hann sanni að hvorki hann né maður sem hann ber ábyrgð á eigi sök á tjóninu.
Flytjandi ber ábyrgð á tjóni sem verður af völdum óeðlilegra tafa í flutningi nema hann sanni að hann eða menn sem hann ber ábyrgð á hafi viðhaft þær aðgerðir við flutninginn sem sanngjarnt getur talist eða að ógerlegt hafi verið að framkvæma slíkar aðgerðir.
20. gr.
Skaðabætur skv. 19. gr. skal ákveða eftir verðmæti vörunnar samkvæmt vörureikningi að viðbættum flutningsgjöldum.
Liggi verðmæti vörunnar samkvæmt vörureikningi ekki fyrir skulu bætur ákveðnar eftir verðmæti slíkrar vöru á þeim stað og tíma þar sem og þegar afhending fer fram en sé ekki um slík verðmæti að ræða þá markaðsverði og sé hvorugu þessu til að dreifa þá venjulegu verði fyrir vöru sömu tegundar og af sömu gæðum. Sönnunarbyrði um verðmæti vöru hvílir á þeim sem bóta krefst.
Lækka má skaðabætur sem flytjanda ber að greiða eða fella þær alveg niður ef hann sannar að eigandi, sendandi eða móttakandi vörunnar eða einhver sem þeir bera ábyrgð á hafa verið valdir eða samvaldir að tjóninu vegna yfirsjónar eða vanrækslu.
21. gr.
Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. verður flytjanda aldrei gert að greiða hærri skaðabætur en sem nemur 12,5 SDR fyrir hvert kíló vöru sem skemmist eða glatast eða sem nemur fjárhæð flutningsgjalds sé um að ræða óeðlilegar tafir á afhendingu vöru og bótakrefjandi sannar að hann hafi orðið fyrir beinu fjártjóni vegna þeirra.
Flytjandi getur ekki borið fyrir sig ábyrgðartakmarkanir skv. 1. mgr. ef það sannast að hann hafi sjálfur valdið tjóninu af ásetningi eða stórfelldu gáleysi og honum mátti vera ljóst að tjón mundi sennilega hljótast af.
Með SDR er átt við sérstök dráttarréttindi eins og þau eru skilgreind af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og gengisskráningu Seðlabanka Íslands á þeim við sölu. Umreikningur í íslenskar krónur skal miðast við uppgjörsdag en dómsuppsögudag ef málinu verður ekki lokið utan réttar.
22. gr.
Heimilt er að semja um hærri hámarksbætur en nefndar eru í 21. gr.
Auk þess er heimilt að semja um aðrar hámarksbætur en nefndar eru í 21. gr. sé um að ræða fjölþáttaflutning. Slíkar hámarksbætur geta þó aldrei verið lægri en þær hámarksbætur sem mælt er fyrir um í siglingalögum eða loftferðalögum, eftir því sem við á, enda er heimild þessi bundin því skilyrði að sömu hámarksbætur gildi meðan á fjölþáttaflutningi stendur.
Hafi sendandi gefið upp í fylgibréfi hærra verðmæti vöru en kveðið er á um í 21. gr. og greitt flutningsgjald í samræmi við það skal það verð lagt til grundvallar um mörk ábyrgðar flytjanda ef það leiðir til hærri bóta en hámarksbóta skv. 21. gr.
23. gr.
Ákvæði þessa kafla koma ekki í veg fyrir að flytjandi geri fyrirvara í fylgibréfi eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. um undanþágu ábyrgðar:
   a. á flutningi á lifandi dýrum, eða
   b. á flutningi á vöru sem búið er að hlaða í gám þegar gámur er afhentur flytjanda til flutnings, eða
   c. á fermingu og/eða affermingu ökutækis, vagns eða gáms þegar sendandi, móttakandi eða eigandi vöru sjá um fermingu og/eða affermingu ökutækis, vagns eða gáms.

V. kafli. Ábyrgð sendanda.
24. gr.
Sendandi ber ábyrgð á að upplýsingar sem tilgreindar eru í fylgibréfi eða upplýsingar skv. 2. mgr. 7. gr. og merkingar vöru séu réttar. Hann er ábyrgur fyrir kostnaði og tjóni sem hlýst af því að upplýsingarnar eru rangar, ónákvæmar, ógreinilegar eða að öðru leyti ófullkomnar.
25. gr.
Sendanda ber að sjá til þess að ástand, frágangur og pökkun vörunnar sé með þeim hætti að hún þoli umsaminn flutning og að flytjandi geti auðveldlega og örugglega fermt hana um borð í ökutæki, vagn eða gám, flutt hana og affermt.
Sendanda ber að skýra sérstaklega frá því og merkja vöruna ef hún þarfnast sérstakrar umönnunar eða gætilegrar meðferðar.
Sendandi er ábyrgur gagnvart flytjanda vegna tjóns sem vörusending hans veldur á ökutæki, vagni, gámi, mönnum, efni eða annarri vöru vegna þess að umbúðir eru lélegar eða ófullnægjandi. Þetta gildir þó ekki ef framangreint ástand umbúðanna er sýnilegt eða flytjanda er kunnugt um það og hann tekur við vörunni án fyrirvara um ástand umbúða.
26. gr.
Sendandi skal sjá um og ber ábyrgð á að vara sem hefur í för með sér bruna- eða sprengihættu eða er að öðru leyti hættuleg ökutæki, vagni, gámi, öðrum vörum og/eða mönnum, svo og sýrur eða önnur fljótandi efni sem skemmt geta út frá sér, sé merkt samkvæmt gildandi reglum um flutning á hættulegum varningi og sé í fullnægjandi umbúðum.
Áður en hættuleg vara skv. 1. mgr. er afhent til flutnings skal sendandi gefa nákvæmar upplýsingar um í hverju hættan er fólgin og hvaða varúðarráðstafanir verði að viðhafa við flutning hennar. Sendanda er einnig skylt að veita þá fræðslu um vöruna sem nauðsynleg er til að varna tjóni.
Nú hefur vara sem um getur í 1. mgr. verið afhent til flutnings án þess að sendandi hafi upplýst flytjanda um þessa eiginleika hennar og er flytjanda þá heimilt, án þess að baka sér skaðabótaskyldu, að skilja vöruna eftir þar sem hann er staddur og gera hana óskaðlega eða eyðileggja með þeim hætti að ekki valdi öðrum tjóni en þess skal ávallt gætt að sendandi verði fyrir sem minnstum skaða.
Aðgerðir sem flytjanda er heimilt að grípa til samkvæmt ákvæði þessu fara fram á kostnað og ábyrgð sendanda.

VI. kafli. Ábyrgð móttakanda.
27. gr.
Móttakandi skal taka við vöru á ákvörðunarstað eins fljótt og verða má og eigi síðar en fimm dögum eftir að honum er kunnugt um að varan sé tilbúin til afhendingar.
Með móttöku vöru skuldbindur móttakandi sig til að greiða flutningsgjald og aðrar kröfur sem flytjandi getur krafist greiðslu á samkvæmt fylgibréfi eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr., nema um annað sé samið.
Um móttöku, afhendingu og flutning vörunnar skal að öðru leyti fara samkvæmt ákvæðum III. kafla.
28. gr.
Flytjandi hefur haldsrétt í vörunni þar til greitt hefur verið flutningsgjald og kröfur sem flytjandi getur krafist greiðslu á samkvæmt fylgibréfi eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr., sem og aðrar kröfur og annar kostnaður sem af flutningi stafa.
Flytjanda er heimilt að selja svo mikið af vörunni sem þarf til lúkningar kröfum sem á henni hvíla á þann hátt sem hann kýs án þess að þörf sé undangenginnar áskorunar til sendanda, móttakanda eða eiganda hennar. Haldsréttur skv. 1. mgr. nær jafnframt til alls kostnaðar við slíka sölu, þ.m.t. kostnaðar við fermingu, affermingu og geymslu meðan á sölumeðferð stendur.
29. gr.
Þegar móttakandi tekur við vöru án fyrirvara skal litið svo á að varan hafi verið afhent óskemmd og í samræmi við lýsingu í fylgibréfi, þar til annað sannast.
30. gr.
Móttakandi skal tilkynna flytjanda um tjón á vörunni jafnskjótt og þess verður vart og í síðasta lagi þremur dögum eftir móttöku vörunnar. Að öðrum kosti telst varan hafa verið afhent í því ástandi sem lýst er í fylgibréfi, kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. eða annarri móttökukvittun ef ekki eru færðar sannanir gegn því.
Ef um töf er að ræða skal tilkynning hafa borist flytjanda í síðasta lagi fjórtán dögum frá því að afhenda átti vöruna enda skal gengið út frá því að um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða hafi vara ekki verið afhent innan þess tíma.
Tilkynning samkvæmt þessari grein skal vera skrifleg og send með sannanlegum hætti innan þeirra tímafresta sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr.

VII. kafli. Ýmis ákvæði.
31. gr.
Kröfur sem rísa kunna í tengslum við flutning á grundvelli laga þessara fyrnast á einu ári frá því að móttakandi kvittar fyrir móttöku vörunnar eða á einu ári og tveimur mánuðum frá því að vara var afhent til flutnings sé ekki um kvittun móttakanda að ræða.
Samningar sem mæla fyrir um að kröfur sem rísa á grundvelli laga þessara skuli ekki fyrnast eða að þeim skuli fylgja lengri eða styttri fyrningarfrestur en mælt er fyrir um í ákvæði þessu eru ógildir.
32. gr.
Ákvæðum laga þessara skal beita hvort heldur krafa byggist á samningi eða ábyrgð utan samninga.
33. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
Flutningur sem hefst en er ólokið fyrir gildistöku laga þessara skal fara eftir ákvæðum laga nr. 24/1982.