Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um útflutning hrossa
2011 nr. 27 1. apríl
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 6. apríl 2011. Breytt með:
L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
L. 124/2018 (tóku gildi 1. jan. 2019).
L. 71/2021 (tóku gildi 29. júní 2021 nema 29. gr. sem tók gildi 1. júlí 2021).
L. 60/2023 (tóku gildi 7. júlí 2023).
L. 102/2023 (tóku gildi 1. jan. 2024 nema 8. gr. sem tekur gildi 1. jan. 2034, a-liður 11. gr. og 22. gr. sem taka gildi 1. jan. 2025 og 1. mgr. 27. gr. og 28. gr. sem tóku gildi 30. des. 2023; um lagaskil sjá 36. gr).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við matvælaráðherra eða matvælaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr.
[Ráðherra]1) fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.
Útflutningur á hrossum er heimill án sérstakra leyfa að uppfylltum skilyrðum laga þessara og stjórnvaldsfyrirmæla sem eru sett samkvæmt þeim. Þó má ekki flytja úr landi yngri hross en fjögurra mánaða né fylfullar hryssur sem gengnar eru með sjö mánuði eða lengur.
1)L. 126/2011, 539. gr.
2. gr.
Óheimilt er að flytja úr landi hross nema héraðsdýralæknir eða eftirlitsdýralæknir Matvælastofnunar hafi skoðað það í útflutningshöfn, metið það hæft til útflutnings með tilliti til dýraverndar og smitsjúkdóma og staðfest að það sé rétt merkt og uppfylli kröfur sem gerðar eru af hlutaðeigandi yfirvöldum í innflutningslandi.
Öll útflutningshross skulu vera örmerkt.
[Fyrir eftirlit, umsýslu og skjalaskoðun Matvælastofnunar samkvæmt lögum þessum skulu útflytjendur hrossa greiða gjald sem ekki er hærra en raunkostnaður til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum:
a. launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits, umsýslu og skjalaskoðunar,
b. öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. kostnaði af aðstöðu, áhöldum, búnaði, þjálfun og ferðalögum, svo og tengdum kostnaði,
c. kostnaði vegna sýnatöku opinberra eftirlitsaðila og kostnaði sem opinberar rannsóknastofur innheimta vegna sýnatöku, greiningar, prófunar og sjúkdómsgreininga sem framkvæmdar eru á opinberum rannsóknastofum.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um eftirlit, umsýslu og skjalaskoðun Matvælastofnunar og skal hann gefa út gjaldskrá fyrir eftirlit Matvælastofnunar að fengnum tillögum stofnunarinnar.
Við gerð reglugerðar og gjaldskrár opinberra eftirlitsaðila er heimilt að taka tillit til eftirfarandi atriða:
a. hvers konar fyrirtæki um er að ræða og viðkomandi áhættuþátta,
b. hagsmuna fyrirtækja með litla framleiðslu,
c. hefðbundinna aðferða við framleiðslu, vinnslu og dreifingu,
d. þarfa fyrirtækja með aðsetur á svæðum sem líða fyrir landfræðilegar takmarkanir.
Matvælastofnun skal afla umsagnar hlutaðeigandi hagsmunasamtaka og kynna þeim efni og forsendur reglugerðar og/eða gjaldskrár stofnunarinnar með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara. Hafi umsagnir þeirra ekki borist Matvælastofnun að mánuði liðnum er ráðherra þó heimilt að setja reglugerð og gjaldskrá án umsagna þeirra.
Eftirlitsgjald skal greiða samkvæmt framlögðum reikningi opinbers eftirlitsaðila.
Innheimta má eftirlitsgjaldið með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Opinberum eftirlitsaðilum er heimilt að krefjast dráttarvaxta af ógreiddri fjárkröfu vegna eftirlits frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.]1)
1)L. 60/2023, 6. gr.
3. gr.
Flutningsför fyrir hross við útflutning skulu hafa fullnægjandi rými, loftræstingu og brynningu. Tryggja skal fóður, fóðrun og eftirlit með hrossunum á flutningstímanum. Matvælastofnun hefur eftirlit með að reglum um aðbúnað og umhirðu sé fylgt.
Óheimilt er að flytja hross frá Íslandi með flutningsfari sem samtímis flytur dýr frá öðrum löndum. Hafi flutningsfar áður verið notað til flutnings á dýrum erlendis skal það þrifið og sótthreinsað áður en það kemur til landsins. Matvælastofnun hefur eftirlit með að reglum um þrif og sótthreinsun sé fylgt.
Á tímabilinu 1. október til 15. maí er einungis heimilt að flytja hross til útlanda með flugvélum.
4. gr.
Matvælastofnun getur ákveðið við sérstakar aðstæður að dýralæknir sé um borð í flutningsfari og hafi yfirumsjón með eftirliti hrossa í flutningi.
Flutningsaðili greiðir allan kostnað sem fellur til vegna veru dýralæknis í flutningsfari.
5. gr.
Hrossum sem eru flutt úr landi skal fylgja hestavegabréf …1) er staðfesti uppruna, ætterni, eiganda og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru, meðal annars til að uppfylla kröfur þær sem innflutningslönd gera hverju sinni.
Útflytjendur hrossa greiða gjald fyrir kostnað við útgáfu hestavegabréfa samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur að fenginni tillögu Bændasamtaka Íslands.
1)L. 71/2021, 23. gr.
6. gr. …1)
1)L. 102/2023, 29. gr.
7. gr. …1)
1)L. 71/2021, 24. gr.
8. gr.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð1) nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar með talið um skoðun og merkingu útflutningshrossa, aðstöðu í útflutningshöfn og í flutningsfari, sóttvarnir og upplýsingar sem útflytjendum er skylt að leggja fram vegna útgáfu hestavegabréfa.
1)Rg. 1151/2021.
9. gr.
Brot gegn lögum þessum og stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Mál út af brotum gegn lögum þessum sæta meðferð samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
10. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi. …
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 2. gr. er heimilt til 1. nóvember 2011 að flytja út hross sem eru ekki örmerkt hafi þau verið frostmerkt.