Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um vinnustaðanámssjóð

2012 nr. 71 26. júní


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 4. júlí 2012.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við mennta- og barnamálaráðherra eða mennta- og barnamálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Gildissvið og yfirstjórn.
Vinnustaðanámssjóður veitir styrki til fyrirtækja og stofnana vegna vinnustaðanáms og starfsþjálfunar sem er skilgreindur hluti af starfsnámi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla.
Um vinnustaðanám fer eftir ákvæðum laga um framhaldsskóla.
Ráðherra fer með yfirstjórn vinnustaðanámssjóðs.
2. gr. Hlutverk vinnustaðanámssjóðs.
Hlutverk vinnustaðanámssjóðs er að bæta stöðu starfsmenntunar og stuðla að eflingu vinnustaðanáms með því að:
   a. auðvelda nemendum að ljúka tilskildu námi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla,
   b. koma til móts við kostnað fyrirtækja og stofnana af vinnustaðanámi og
   c. auðvelda fyrirtækjum og stofnunum að taka nemendur á náms- eða starfsþjálfunarsamning.
3. gr. Stjórn vinnustaðanámssjóðs.
Ráðherra skipar níu aðalmenn og níu til vara í stjórn vinnustaðanámssjóðs til fjögurra ára í senn. Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Félag íslenskra framhaldsskóla, Samband íslenskra framhaldsskólanema, Kennarasamband Íslands og fjármálaráðuneyti tilnefna einn aðalmann og einn varamann í stjórn sjóðsins. Formaður og varamaður hans eru skipaðir án tilnefningar.
Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í stjórn vinnustaðanámssjóðs lengur en tvö samfelld tímabil.
4. gr. Úthlutanir úr vinnustaðanámssjóði.
Stjórn vinnustaðanámssjóðs tekur ákvörðun um veitingu styrkja og er grundvöllur fyrir styrkveitingu að fyrir liggi samningur milli nemanda, framhaldsskóla og fyrirtækis eða stofnunar um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað samkvæmt ákvæðum reglugerðar um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað. Við mat á umsóknum er stjórninni heimilt að leita umsagnar fagaðila.
Ákvarðanir um úthlutun úr vinnustaðanámssjóði verða ekki kærðar til æðra stjórnvalds.
Stjórn vinnustaðanámssjóðs skal birta opinberlega yfirlit yfir styrkveitingar sínar.
Ráðherra setur úthlutunarreglur fyrir vinnustaðanámssjóð að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins.
Ráðherra er heimilt að semja við þar til bæran aðila um að annast umsýslu sjóðsins.
5. gr. Tekjustofnar vinnustaðanámssjóðs.
Framlög í vinnustaðanámssjóð eru ákveðin af Alþingi í fjárlögum hvers árs.
6. gr. Mat og eftirlit.
Stjórn vinnustaðanámssjóðs hefur eftirlit með nýtingu fjármuna sjóðsins og getur kallað eftir upplýsingum frá umsýsluaðila um meðferð og nýtingu fjárins verði nýtt heimild í 5. mgr. 4. gr. til að fela þar til bærum aðila umsýslu sjóðsins. Stjórnin skilar árlega skýrslu til ráðherra.
7. gr.
Lög þessi taka þegar gildi.