Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála
2012 nr. 120 30. nóvember
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 5. desember 2012 og komu til framkvæmda 1. júlí 2013. Breytt með:
L. 59/2013 (tóku gildi 1. júlí 2013).
L. 47/2018 (tóku gildi 26. maí 2018).
L. 150/2018 (tóku gildi 8. jan. 2019).
L. 71/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innviðaráðherra eða innviðaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Hlutverk og markmið.
Vegagerðin er sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra.
Vegagerðin hefur það hlutverk að byggja upp, viðhalda og reka samgöngukerfi ríkisins samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum sem stofnunin starfar eftir.
Vegagerðin skal í starfsemi sinni stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum. Þá skal stofnunin stuðla að því að samgöngur þróist í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið.
2. gr. Skipulag stofnunarinnar o.fl.
Ráðherra skipar forstjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn og staðfestir skipurit hennar.
Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi og rekstri stofnunarinnar, mótar helstu áherslur, verkefni og starfshætti og annast daglega stjórn hennar.
Forstjóri ræður annað starfsfólk til stofnunarinnar.
Vegagerðin skal árlega birta skýrslu um starfsemi sína.
[Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um hlutverk og starfshætti Vegagerðarinnar með reglugerð.]1)
1)L. 59/2013, 42. gr.
3. gr. Samvinna og samráð.
Vegagerðin skal hafa samvinnu og samráð við þá aðila, félög, samtök og stofnanir sem tengjast starfsemi hennar.
Ráðherra getur sett á stofn fagráð með fulltrúum stofnunarinnar, hagsmunaaðila og annarra aðila í þeim tilgangi að vera vettvangur samráðs og upplýsingaskipta á fagsviði stofnunarinnar. [Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um starfsemi fagráðs á starfssviði Vegagerðarinnar.]1)
1)L. 59/2013, 42. gr.
II. kafli. Verkefni.
4. gr. Almennt.
Vegagerðin skal vera ráðgefandi fyrir ráðherra, veita honum aðstoð við undirbúning að setningu laga og reglugerða á starfssviði sínu og aðstoða við stefnumótun og ákvarðanatöku í samgöngumálum.
Vegagerðin tekur þátt í gerð samgönguáætlunar. Stofnunin mótar almenna stefnu og viðmið um byggingu, viðhald og þjónustu samgöngumannvirkja, annast forsendugreiningu og frumrannsóknir vegna þeirra, greinir og ber saman ólíka valkosti, gerir tillögu að forgangsröðun verkefna, frumhannar mannvirki og metur kostnað, arðsemi og umhverfisáhrif þeirra. Þá sér stofnunin um framkvæmd samgönguáætlunar, þ.e. verkhönnun framkvæmda, útboð verkefna, samninga við verktaka, eftirlit á framkvæmdatíma, skilamat og uppgjör.
Vegagerðin skal annast upplýsingamiðlun um samgöngumál eftir því sem við á.
Vegagerðin annast rekstur tölvu- og upplýsingakerfa er lúta að starfsemi stofnunarinnar. [Vegagerðinni er heimilt að viðhafa rafræna vöktun eða taka myndir með reglulegu millibili á samgöngumannvirkjum í þeim tilgangi að stuðla að auknu samgönguöryggi. Stofnuninni er heimilt að miðla upplýsingum sem þannig er aflað til vegfarenda með rafrænum hætti að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Vegagerðinni er einnig heimilt að miðla upplýsingum til lögreglu og rannsóknarnefndar samgönguslysa með rafrænum hætti þegar rannsakað er sakamál, mannshvarf eða samgönguslys.]1)
Vegagerðin tekur afstöðu til tillagna sem berast frá rannsóknarnefnd samgönguslysa.
1)L. 150/2018, 9. gr.
5. gr. Framkvæmdir og viðhald samgöngumannvirkja.
Vegagerðin annast uppbyggingu vega, sjóvarnargarða og leiðsögu- og eftirlitskerfa. Jafnframt hefur stofnunin umsjón með framkvæmdum við samgöngumannvirki og samgöngukerfi sem njóta beinna ríkisstyrkja.
Vegagerðin annast viðhald þeirra mannvirkja sem hún fer með eignarhald á.
6. gr. Eignarhald og rekstur.
Vegagerðin annast rekstur samgöngumannvirkja og samgöngukerfa og fer með eignarhald þeirra fyrir hönd ríkissjóðs. Í þessu sambandi sinnir stofnunin eða felur öðrum að sinna:
1. rekstri og umsjón vegakerfisins,
2. eftirliti með burðarþoli vega og brúa; og ákveður stofnunin takmarkanir á heildarþunga og ásþunga ökutækja, ef þörf krefur,
3. rekstri og viðhaldi vita og sjómerkja,
4. rekstri og viðhaldi leiðsögu-, vöktunar-, upplýsinga- og eftirlitskerfa,
5. rekstri Landeyjahafnar og ferjubryggja.
Vegagerðinni er heimilt að taka að sér uppbyggingu, rekstur og viðhald flugvalla samkvæmt samningi við þar til bæra aðila.
7. gr. Almenningssamgöngur.
Vegagerðin annast rekstrarverkefni ríkisins á sviði almenningssamgangna. Skal stofnunin m.a. annast:
1. útboð, gerð og eftirfylgd þjónustusamninga vegna almenningssamgangna,
2. umsjón með styrkveitingum vegna almenningssamgangna,
3. umsjón með ferjum og öðrum eignum ríkisins sem nýttar eru í almenningssamgöngum.
8. gr. Samgönguöryggi.
Vegagerðin vinnur að auknu öryggi í samgöngum með því markmiði að fækka slysum og draga úr tjóni af völdum þeirra. Stofnunin skal m.a.:
1. vinna að bættu öryggi innviða samgöngukerfisins með öryggisstjórnun, greiningu á öryggisþáttum og slysum og aðgerðaáætlunum,
2. annast framkvæmd öryggisstjórnunar samgöngumannvirkja og samgöngukerfa,
3. annast ráðgjöf um umbætur sem stuðla að auknu samgönguöryggi.
9. gr. Alþjóðlegt samstarf.
Vegagerðin tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi á starfssviði sínu eftir því sem kveðið er á um í lögum, alþjóðasamningum eða með ákvörðun ríkisstjórnar.
10. gr. Rannsóknir og þróunarstarf.
Vegagerðin tekur þátt í og annast rannsóknir, greiningu og þróun á starfssviði sínu.
Ráðherra skal setja reglugerð um hlutverk Vegagerðarinnar á sviði rannsókna, greiningar og þróunar.
11. gr. Framsal verkefna.
Vegagerðinni er heimilt að framselja eða fela öðrum framkvæmd einstakra verkefna eða verkþátta á starfssviði stofnunarinnar.
III. kafli. Gjaldtaka.
12. gr. Fjármögnun.
[Verkefni Vegagerðarinnar og rekstur skal fjármagna með fjárveitingu á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum.]1)
Heimilt er að ákveða í samgönguáætlun að veghald einstakra kafla þjóðvega skuli kostað að hluta eða öllu leyti með veggjaldi af umferð eða með notkunargjaldi.
Vegagerðinni er heimilt að taka gjald fyrir tæknilegan og fjárhagslegan undirbúning verka sem hún hefur umsjón með.
1)L. 47/2018, 7. gr.
13. gr. Tekjur.
Vegagerðinni er heimilt að afla tekna með sölu á sérhæfðri þjónustu og vöru- og efnissölu, sem og af rannsóknar- og þróunarstarfsemi.
Gjaldtaka skv. 1. mgr. skal ákveðin í viðmiðunargjaldskrá sem Vegagerðin setur.
Þann hluta starfsemi Vegagerðarinnar sem rekinn er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði skal skilja fjárhagslega frá öðrum þáttum rekstrarins og skal endurgjald taka mið af markaðsverði. Sala á slíkri þjónustu skal byggjast á samningum.
Ráðherra staðfestir gjaldskrá samkvæmt þessari grein.
IV. kafli. Ýmis ákvæði.
14. gr. Rekstur o.fl.
Vegagerðinni er heimilt, með samþykki ráðherra, að kaupa og fara með hlut ríkisins í rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum. Jafnframt er stofnuninni heimilt að bjóða fram sérþekkingu á alþjóðamarkaði og afla tekna með útflutningi sérfræðiþekkingar sem hún býr yfir.
Vegagerðinni er heimilt, með samþykki ráðherra, að stofna félag eða félög sem hafa það hlutverk að sinna framkvæmda- og þjónustuverkefnum stofnunarinnar.
15. gr. Kæruheimild.
Ákvarðanir Vegagerðarinnar sæta kæru til ráðherra í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.
16. gr. [Þagnarskylda, veiting upplýsinga og persónuvernd.]1)
[Á starfsmönnum Vegagerðarinnar hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga. Sama gildir um sjálfstæða sérfræðinga sem starfa á vegum Vegagerðarinnar.]2)
[Vegagerðinni er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal upplýsinga um fjárhagsstöðu og annarra upplýsinga sem hinn skráði lætur í té, í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.]1)
1)L. 150/2018, 10. gr. 2)L. 71/2019, 5. gr.
17. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi en koma ekki til framkvæmda fyrr en 1. júlí 2013. …
Ákvæði til bráðabirgða.
1. Starfsmönnum stofnana, sem sinnt hafa þeim verkefnum sem munu heyra undir Vegagerðina samkvæmt lögum þessum og eru í starfi við gildistöku laga þessara, skal boðið starf hjá hinni nýju stofnun. Um réttarvernd starfsmanna til starfa hjá Vegagerðinni fer eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, og laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, eins og við á hverju sinni. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessum tölulið.
2. Þrátt fyrir 1. tölul. þessa ákvæðis verða embætti starfsmanna þeirra stofnana sem sameinast í Vegagerðina lögð niður þegar lög þessi koma til framkvæmda. Ráðherra er heimilt að taka ákvörðun um að flytja forstöðumann úr hópi núverandi forstöðumanna samgöngustofnana í embætti forstjóra Vegagerðarinnar, sbr. 36. gr. laga nr. 70/1996. Þeim embættismönnum sem ekki hljóta áframhaldandi skipun skulu boðin störf í Vegagerðinni eða [Samgöngustofu].1)
1)L. 59/2013, 42. gr.