Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um byggingarvörur
2014 nr. 114 26. nóvember
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 4. desember 2014 nema 2. mgr. 6. gr. sem tók gildi 1. janúar 2016. EES-samningurinn: II. viðauki reglugerð 305/2011. Breytt með:
L. 137/2019 (tóku gildi 31. des. 2019).
L. 25/2021 (tóku gildi 1. júlí 2021).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innviðaráðherra eða innviðaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Merking hugtaka.
Merking hugtaka í lögum þessum skal vera í samræmi við skilgreiningar 2. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 305/2011.
2. gr. Notkun byggingarvöru og ábyrgð eiganda mannvirkis.
Byggingarvörur sem markaðssettar eru til notkunar í mannvirki skulu uppfylla skilyrði laga þessara og reglugerðar ESB nr. 305/2011.
Eigandi mannvirkis ber ábyrgð á að við byggingu þess og rekstur sé einungis notuð byggingarvara sem uppfyllir ákvæði laga þessara, laga um mannvirki og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.
II. kafli. Framkvæmd reglugerðar ESB nr. 305/2011.
3. gr. Vörutengiliður fyrir byggingariðnaðinn.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) gegnir hlutverki vörutengiliðs fyrir byggingariðnaðinn til að annast upplýsingagjöf samkvæmt ákvæðum reglugerðar ESB nr. 305/2011.
Upplýsingar skv. 1. mgr. skulu veittar án endurgjalds. Fyrir viðbótarupplýsingar og athuganir er [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) heimilt að taka gjald sem nemur kostnaði við þjónustuna og skal það ákveðið í gjaldskrá [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]1) skv. 52. gr. laga um mannvirki. Upphæð gjaldsins skal taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni og skal byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd eru þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður.
1)L. 137/2019, 19. gr.
4. gr. Tungumál.
Yfirlýsing um nothæfi byggingarvöru skal lögð fram á íslensku.
Þegar byggingarvara er boðin fram á markaði skulu framleiðendur, innflytjendur og dreifendur sjá til þess að vörunni fylgi leiðbeiningar um notkun og upplýsingar um öryggi á íslensku.
Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða að yfirlýsing um nothæfi, leiðbeiningar um notkun eða upplýsingar um öryggi byggingarvöru fyrir tilteknar vörur eða vöruflokka megi vera á ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku, með hliðsjón af notkunarsviði vörunnar og mikilvægi hennar með tilliti til grunnkrafna.
Framleiðendur, innflytjendur og dreifendur skulu, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun],1) afhenda stofnuninni allar upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru til að sýna fram á að byggingarvaran sé í samræmi við yfirlýsinguna um nothæfi og aðrar viðeigandi kröfur í reglugerð ESB nr. 305/2011, á íslensku eða öðru tungumáli sem [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) samþykkir.
1)L. 137/2019, 19. gr.
5. gr. Tilnefning tæknimatsstofnunar.
Ráðherra tilnefnir tæknimatsstofnun samkvæmt ákvæðum V. kafla reglugerðar ESB nr. 305/2011 að fenginni umsögn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]1) og annast eftirlit með tæknimatsstofnunum. Ekki er skylt að tilnefna tæknimatsstofnun.
Ráðherra setur í reglugerð2) nánari ákvæði um framkvæmd mats á tæknimatsstofnunum, þær kröfur sem tæknimatsstofnanir þurfa að uppfylla og um eftirlit með þeim. Ráðherra er heimilt að fela [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) að annast eftirlit með tæknimatsstofnunum.
Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans sem óskar eftir að fá evrópskt tæknimat fyrir byggingarvöru skal greiða allan kostnað við öflun þess.
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)Rg. 383/2015.
6. gr. Tilkynningaryfirvald og tilkynntur aðili.
Ráðherra gegnir hlutverki tilkynningaryfirvalds og tilkynnir viðeigandi stjórnvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu um þá aðila sem hafa heimild til að framkvæma verkefni þriðja aðila við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess samkvæmt ákvæðum VII. kafla reglugerðar ESB nr. 305/2011. Ráðherra annast einnig eftirlit með tilkynntum aðilum.
Tilkynntur aðili skal hafa faggildingu og faglega þekkingu til að framkvæma mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess. Um faggildinguna fer samkvæmt lögum nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., og ákvæðum laga þessara.
Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans ber allan kostnað af mati á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess.
Sé tilkynntur aðili ekki opinber stofnun eða ríkisfyrirtæki skal hann hafa ábyrgðartryggingu sem nær til skaðabótaábyrgðar gagnvart öllum þeim sem hann kann að valda tjóni með starfsemi sinni.
Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja nánari ákvæði um kröfur sem gerðar eru til tilkynntra aðila og um eftirlit með þeim. Ráðherra er heimilt að fela [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) að annast eftirlit með tilkynntum aðilum.
1)L. 137/2019, 19. gr.
7. gr. Nánari framkvæmd.
Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja ákvæði um eftirfarandi atriði eins og nánar greinir m.a. í 60. gr. reglugerðar ESB nr. 305/2011:
1. Ákvörðun mikilvægra eiginleika eða viðmiðunargilda í tilteknum flokkum byggingarvara.1)
2. Skilyrði fyrir rafrænni vinnslu yfirlýsingar um nothæfi.
3. Breytingar á því tímabili sem framleiðandi á að varðveita tæknileg gögn og yfirlýsingu um nothæfi eftir að byggingarvara hefur verið sett á markað.
4. Breytingar á II. viðauka reglugerðar ESB nr. 305/2011 og samþykkt á viðbótarreglum um málsmeðferð.
5. Aðlögun á III. viðauka reglugerðar ESB nr. 305/2011, töflu 1 í IV. viðauka og V. viðauka vegna tækniframfara.2)
6. Innleiðingu og aðlögun á nothæfisflokkum vegna tækniframfara.
7. Skilyrði fyrir því að byggingarvara teljist uppfylla tiltekið nothæfisstig eða tiltekinn nothæfisflokk án prófana eða án frekari prófana.
8. Aðlögun, innleiðingu og endurskoðun á kerfum fyrir mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess.
9. Breytingar á ákvæðum VIII. kafla reglugerðar ESB nr. 305/2011 um markaðseftirlit og verndarráðstafanameðferð.
1)Rg. 424/2015, sbr. 275/2017, 549/2018, 440/2021 og 1229/2021. 2)Rg. 384/2015. Rg. 385/2015.
8. gr. Birting samhæfðra evrópskra staðla.
Samhæfðir evrópskir staðlar sem samþykktir eru á grundvelli ákvæða reglugerðar ESB nr. 305/2011 og innleiddir af Staðlaráði Íslands eru skyldubundnir í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) birtir lista yfir slíka samhæfða evrópska staðla á vefsíðu sinni. Ráðherra getur með reglugerð2) falið öðru stjórnvaldi eða Staðlaráði Íslands birtingu staðla samkvæmt þessari málsgrein.
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)Rg. 665/2016.
III. kafli. Byggingarvara sem fellur ekki undir kröfu um CE-merkingu.
9. gr. Gildissvið.
Ákvæði þessa kafla gilda um byggingarvörur sem falla ekki undir kröfu um CE-merkingu.
Ákvæði kaflans gilda þó ekki um eftirfarandi:
1. Byggingarvöru sem er sérframleidd í einstökum tilvikum eða sérsniðin að tilteknum þörfum eftir sérstakri pöntun á grundvelli hönnunargagna sem samþykkt hafa verið af útgefanda byggingarleyfis í samræmi við ákvæði laga um mannvirki og varan er sett upp í einu tilteknu mannvirki af iðnmeistara sem ber ábyrgð á þeim verkþætti samkvæmt ákvæðum þeirra laga. Sé um að ræða verk sem háð er eftirliti og áfangaúttektum útgefanda byggingarleyfis skal hann upplýstur um vinnu við viðkomandi einingar eða byggingarhluta áður en hún hefst og skal hann kallaður til áfangaúttekta samkvæmt nánari ákvæðum byggingarreglugerðar um áfangaúttektir.
2. Byggingarvöru sem framleidd er á byggingarsvæði til ísetningar í tiltekið mannvirki í samræmi við ákvæði laga um mannvirki og á ábyrgð þeirra sem bera ábyrgð á öruggri framkvæmd verksins samkvæmt ákvæðum þeirra laga.
3. Byggingarvöru sem framleidd er með hefðbundnum hætti, eða á þann hátt sem er viðeigandi fyrir varðveislu menningararfleifðar og er ekki iðnaðarframleiðsla, í því skyni að endurnýja með fullnægjandi hætti mannvirki sem njóta opinberrar verndar sem hluti af tilgreindu umhverfi eða vegna sérstaks byggingarlistarlegs eða sögulegs gildis.
10. gr. Markaðssetning og nothæfi byggingarvöru.
Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans, innflytjandi og dreifandi skulu tryggja að gerð sé fullnægjandi grein fyrir nothæfi byggingarvöru í samræmi við ákvæði kafla þessa með útgáfu yfirlýsingar um nothæfi áður en varan er markaðssett eða notuð í mannvirki.
Skylt er í yfirlýsingu um nothæfi að lýsa yfir nothæfi varðandi þá eftirfarandi eiginleika eða þætti sem varða fyrirhugaða notkun byggingarvörunnar í mannvirkjum og skal a.m.k. lýsa yfir nothæfi vegna eins eiginleika eða þáttar:
1. Viðbragðs við bruna.
2. Brunamótstöðu.
3. Burðarþols og styrks efnis.
4. Einangrunargildis.
5. Hljóðeinangrunar og annarra þátta er varða hljóðvist.
6. Loftþéttleika.
7. Slagregnsþéttleika.
8. Hitaþols.
9. Frostþols.
10. Efnaþols.
11. Gufuþéttleika.
12. Að varan spilli ekki gæðum neysluvatns (t.d. með útfellingu þungmálma).
13. Uppgufunar/losunar mengandi efna.
14. Innihalds efna sem falla undir 57. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1907/2006 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir, að því er varðar efni (REACH), sbr. reglugerð nr. 750/2008 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni („REACH“).
Yfirlýsing um nothæfi sem felur í sér þá eiginleika eða þætti sem fram koma í 2. mgr. skal afhent á pappírsformi við afhendingu byggingarvöru eða vera aðgengileg á heimasíðu framleiðanda, innflytjanda og/eða dreifanda. Yfirlýsingin skal vera á íslensku. Ráðherra er þó heimilt með reglugerð að ákveða að yfirlýsing um nothæfi fyrir tilteknar vörur eða vöruflokka megi vera á ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku, með hliðsjón af notkunarsviði vörunnar og mikilvægi hennar með tilliti til grunnkrafna, sbr. 3. mgr. 4. gr. Óheimilt er að láta koma fram í yfirlýsingunni upplýsingar sem eru rangar eða hægt er að mistúlka varðandi eiginleika eða nothæfi vöru.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) er heimilt að krefjast gagna um aðra eiginleika eða þætti en tilgreindir eru í 2. mgr. þegar slíkt er nauðsynlegt til að tryggja örugga notkun vörunnar í mannvirkjum.
Við greiningu, staðfestingu og yfirlýsingu eiginleika og þátta byggingarvöru samkvæmt þessari grein skal styðjast við viðurkennda hönnunar- og prófunarstaðla, svo og aðra viðeigandi staðla sem ætlaðir eru til slíkrar greiningar og skráningar.
Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um að í yfirlýsingu um nothæfi skuli lýsa yfir nothæfi varðandi fleiri eiginleika eða þætti byggingarvöru en kveðið er á um í 2. mgr.
1)L. 137/2019, 19. gr.
11. gr. Framleiðslustýring og gerðarprófun.
Byggingarvara sem fellur undir þennan kafla skal vera gerðarprófuð í samræmi við yfirlýsingu um nothæfi, sbr. 10. gr., og vera framleidd undir skjalfestri og stöðugri innri framleiðslustýringu sem tryggir stöðugleika framleiðslunnar þannig að hún hafi tilgreinda eiginleika og uppfylli tilskilið nothæfi.
Óháðum aðila skv. 12. gr. er heimilt að krefjast frekari gerðarprófunar byggingarvöru eftir atvikum hjá óháðum, viðurkenndum prófunaraðila, eftir eðli vörunnar með hliðsjón af notkunarsviði og mikilvægi hennar með tilliti til grunnkrafna.
12. gr. Krafa um staðfestingu óháðs aðila.
Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans skal afla staðfestingar [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]1) eða annars aðila sem ráðherra viðurkennir á nothæfi byggingarvöru með tilliti til brunaþols og brunaeiginleika byggingarvöru, sbr. 1. og 2. tölul. 2. mgr. 10. gr.
Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans skal afla staðfestingar …2) aðila sem ráðherra viðurkennir á nothæfi byggingarvöru með tilliti til þeirra eiginleika og þátta sem falla undir 2. mgr. 10. gr., að undanskildum 1. og 2. tölul., og 4. mgr. 10. gr.
Sá sem óskar staðfestingar samkvæmt þessari grein skal greiða þann kostnað sem af henni hlýst. Gjald fyrir staðfestingu skal ákveðið í gjaldskrá viðkomandi stofnunar. Upphæð gjaldsins skal taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni og skal byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd eru þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður.
Við staðfestingu, þ.m.t. ákvörðun um frekari gerðarprófun skv. 2. mgr. 11. gr., skal höfð hliðsjón af kröfum sem settar eru fram í ákvörðunum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um hlutverk framleiðanda og tilkynnts aðila við staðfestingu á samræmi við kröfur, en ef ekki liggja fyrir samþykktir frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um einstaka vöruflokka skal höfð hliðsjón af ákvörðunum um hliðstæðar vörur.
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 25/2021, 11. gr.
13. gr. Yfirlýsing um nothæfi o.fl.
Í yfirlýsingu um nothæfi byggingarvöru sem fellur undir þennan kafla skulu fylgja eftirfarandi upplýsingar:
1. Nafn og heimili framleiðanda og ábyrgðaraðila sé hann annar en framleiðandi.
2. Lýsing og auðkenni vöru, svo sem gerð, númer, notkunarsvið og þess háttar.
3. Yfirlýstir eiginleikar og þættir vörunnar, sbr. 10. gr., með tilvísun til staðla, prófana og annars þess sem stuðst er við til að kanna eiginleika vörunnar.
4. Tilvísun til gæðakerfis framleiðanda.
5. Skilmálar er varða notkun vörunnar.
6. Nafn og heimili þess aðila sem staðfestir nothæfi vörunnar, sbr. 12. gr.
7. Nafn og staða þess sem undirritar yfirlýsinguna fyrir hönd ábyrgðaraðila.
Þegar byggingarvara er boðin fram á markaði skulu framleiðendur, innflytjendur og dreifendur sjá til þess að vörunni fylgi leiðbeiningar um notkun og upplýsingar um öryggi á íslensku. Ráðherra er þó heimilt með reglugerð að ákveða að leiðbeiningar um notkun eða upplýsingar um öryggi byggingarvöru fyrir tilteknar vörur eða vöruflokka megi vera á ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku, með hliðsjón af notkunarsviði vörunnar og mikilvægi hennar með tilliti til grunnkrafna, sbr. 3. mgr. 4. gr.
14. gr. Gagnkvæm viðurkenning.
Gögn frá viðurkenndum aðilum á Evrópska efnahagssvæðinu um prófun byggingarvöru og eftirlit skulu tekin gild hér á landi til jafns við gögn frá [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) …2) eða öðrum aðilum sem ráðherra viðurkennir, sbr. 12. gr., enda feli þau í sér staðfestingu á að varan henti til fyrirhugaðra nota. Ávallt ber að láta fylgja vörunni samsvarandi skjöl og staðfestingar og tilgreind eru í þessum kafla.
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 25/2021, 11. gr.
IV. kafli. Opinbert markaðseftirlit, réttarúrræði o.fl.
15. gr. Opinbert markaðseftirlit.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) hefur eftirlit með því að byggingarvara á markaði uppfylli ákvæði laga þessara, laga um mannvirki og reglugerða settra samkvæmt þeim. Stofnunin fylgist með byggingarvöru á markaði, aflar á skipulegan hátt upplýsinga um slíka vöru og tekur við ábendingum þess efnis frá byggingarfulltrúum, hönnuðum, byggingarstjórum, iðnmeisturum, neytendum og öðrum aðilum.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) getur falið faggiltri skoðunarstofu að annast markaðseftirlit eða faggiltri prófunarstofu að prófa og meta hvort byggingarvara uppfyllir ákvæði laga þessara. Um faggildinguna gilda ákvæði laga nr. 24/2006, um faggildingu o.fl. Beiting réttarúrræða skv. 17. gr. skal vera í höndum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar].1)
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) getur haft samstarf við tollyfirvöld um markaðseftirlit með byggingarvöru við innflutning.
Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja nánari ákvæði um markaðseftirlit með byggingarvöru.
1)L. 137/2019, 19. gr.
16. gr. Heimild til skoðunar og upplýsingaskylda.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) eða eftir atvikum þeim sem hefur verið falið markaðseftirlit með byggingarvörum, sbr. 2. mgr. 15. gr., er heimilt að skoða byggingarvöru hjá framleiðendum, innflytjendum og dreifendum, taka sýnishorn af byggingarvöru til rannsókna og krefja þá um allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn, svo sem aðgang að skrá yfir þá sem hafa vöruna á boðstólum, yfirlýsingu um nothæfi, vottorð um stöðugleika nothæfis, samræmisvottorð, skýrslur um prófanir eða útreikninga og tæknileg gögn.
Framleiðandi, innflytjandi eða dreifandi ber kostnað vegna þeirra sýnishorna sem tekin eru til rannsóknar skv. 1. mgr. Að lokinni rannsókn skal sýnishornum skilað eða þau eyðilögð með öruggum hætti eftir atvikum. Sýnishorn byggingarvöru samkvæmt þessari grein er að jafnaði eitt eintak vöru eða lágmarksfjöldi sem nauðsynlegur er til rannsóknar.
Framleiðandi, innflytjandi eða dreifandi ber allan kostnað af innköllun byggingarvöru. Sé vara ekki í samræmi við settar reglur skal hann bera þann kostnað sem hlýst af skoðun, rannsókn og prófun, svo og annan kostnað. Framleiðandi, innflytjandi eða dreifandi greiðir allan kostnað af tilkynningum um hættulega vöru sem beint er til almennings, svo sem kostnað við tilkynningar í fjölmiðlum. Framleiðanda, innflytjanda eða dreifanda er heimilt að annast tilkynningu um þetta til almennings, enda sé það gert með þeim hætti að eðlileg varnaðaráhrif náist.
Sá sem ber ábyrgð á markaðssetningu byggingarvöru hér á landi skal halda skrá yfir allar vörur sem hann hefur á boðstólum og hafa tiltæk afrit af tæknilegum gögnum um vöruna. Enn fremur skal hann að beiðni [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]1) afhenda skrá með upplýsingum um birgja og þá sem bjóða fram vörur hans ef það er að mati stofnunarinnar nauðsynlegt í tengslum við rannsókn máls.
1)L. 137/2019, 19. gr.
17. gr. Réttarúrræði [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar].1)
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) getur fyrirskipað innköllun, tekið af markaði eða bannað sölu eða afhendingu byggingarvöru ef hún uppfyllir ekki skilyrði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, svo sem um merkingar, þ.m.t. CE-merkingar, leiðbeiningar og gögn sem ber að útbúa og hafa tiltæk, svo sem yfirlýsingu um nothæfi, vottorð um stöðugleika nothæfis, samræmisvottorð, skýrslur um prófanir eða útreikninga og tæknileg gögn.
Leiki rökstuddur grunur á að byggingarvara nái ekki tilgreindu nothæfi og skapi hættu á því að grunnkröfum um mannvirki verði ekki fullnægt getur [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) fyrirskipað innköllun hennar, innkallað eða ákveðið tímabundið bann við sölu eða afhendingu hennar á meðan mat á viðkomandi vöru fer fram. Ef í ljós kemur að vara sem lýst hefur verið yfir að samræmist ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim skapar hættu á því að grunnkröfum um mannvirki verði ekki fullnægt hvað varðar heilbrigði eða öryggi manna eða varðandi aðra vernd almannahagsmuna getur [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) fyrirskipað innköllun þeirrar vöru eða bannað eða takmarkað markaðssetningu hennar. Um málsmeðferð og úrræði gilda jafnframt ákvæði 56.–59. gr. reglugerðar ESB nr. 305/2011.
1)L. 137/2019, 19. gr.
18. gr. Dagsektir.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) er heimilt að beita dagsektum, allt að 500.000 kr. á dag, til að knýja á um þær skyldur sem lögin kveða á um eða láta af ólögmætu atferli. Dagsektir skulu renna í ríkissjóð. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir og kostnað skv. 16. gr. má innheimta með fjárnámi.
1)L. 137/2019, 19. gr.
19. gr. Förgun byggingarvöru og lagfæring.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) er heimilt í tengslum við beitingu ákvæða 17. gr. að skylda framleiðanda, innflytjanda eða dreifanda til að eyðileggja öll eintök byggingarvöru og farga henni með öruggum hætti. Ávallt skal þó áður gefa rekstraraðila kost á að bæta úr ágöllum vöru eða fylgigögnum hennar innan hæfilegs frests nema varan teljist sérlega hættuleg.
1)L. 137/2019, 19. gr.
20. gr. Tilkynningarskylda og birting eftirlitsskýrslna.
Verði byggingarfulltrúi, hönnuður, byggingarstjóri eða iðnmeistari var við að á markaði sé byggingarvara sem ekki uppfyllir kröfur laga þessara skal hann tilkynna það til [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar].1)
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) er heimilt að birta skýrslur um niðurstöður markaðseftirlits á vefsíðu stofnunarinnar, enda hafi rekstraraðilum verið veittur sanngjarn frestur til úrbóta. [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út verklagsreglur um nánari framkvæmd þessa ákvæðis og birta á vefsíðu stofnunarinnar.
1)L. 137/2019, 19. gr.
21. gr. Úrskurðir.
Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga þessara sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
22. gr. Viðurlög.
Það varðar sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum að bjóða byggingarvöru fram á markaði eða nota slíka vöru til mannvirkjagerðar án þess að fullnægjandi gögn og upplýsingar samkvæmt lögum þessum og reglugerð ESB nr. 305/2011 fylgi vörunni, án þess að varan sé CE-merkt þegar slíkt er skylt eða í þeim tilvikum sem varan er ranglega CE-merkt án þess að skilyrði séu uppfyllt. Það varðar sömu viðurlögum að bjóða byggingarvöru fram á markaði sem við venjulega eða fyrirhugaða notkun getur valdið alvarlegri hættu hvað varðar heilbrigði manna, öryggi eða umhverfi.
Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot.
23. gr. Innleiðing reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 305/2011.
Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 305/2011 frá 9. mars 2011 um samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 89/106/EBE skulu hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem bókunin er lögfest. Reglugerðin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 113/2013 frá 14. júní 2013. Reglugerðin er birt sem fylgiskjal með lögum þessum. Ákvæði III. kafla laga þessara hafa verið tilkynnt í samræmi við ákvæði tilskipunar 98/34/EB sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra staðla og reglugerða.
24. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó öðlast 2. mgr. 6. gr. gildi 1. janúar 2016.
25. gr. Breytingar á öðrum lögum. …
Fylgiskjal.
Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 305/2011 frá 9. mars 2011 um samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 89/106/EBE (Texti sem varðar EES)
EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 114. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópusambandsins (Stjtíð. ESB C 218, 11.9.2009, bls. 15.),
í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð (Afstaða Evrópuþingsins frá 24. apríl 2009 (Stjtíð. ESB C 184 E, 8.7.2010, bls. 441), afstaða ráðsins eftir fyrstu umræðu frá 13. september 2010 (Stjtíð. ESB C 282 E, 19.10.2010, bls. 1), afstaða Evrópuþingsins frá 18. janúar 2011 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum) og ákvörðun ráðsins frá 28. febrúar 2011.),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Í reglum aðildarríkjanna er þess krafist að mannvirki séu þannig hönnuð og byggð að öryggi einstaklinga, húsdýra eða eigna sé ekki ógnað og valdi ekki umhverfisspjöllum.
2) Þessar reglur hafa bein áhrif á kröfur um byggingarvörur. Af þessum sökum endurspeglast þessar kröfur í landsstöðlum fyrir viðkomandi vöru, landsbundnu tæknisamþykki og öðrum landsbundnum tækniforskriftum og ákvæðum er varða byggingarvörur. Vegna misræmis á milli þeirra hindra þessar kröfur verslun í Sambandinu.
3) Þessi reglugerð skal ekki hafa áhrif á rétt aðildarríkjanna til að tiltaka þær kröfur sem þau telja nauðsynlegar til að tryggja verndun heilsu, umhverfis og starfsmanna þegar byggingarvörurnar eru notaðar.
4) Aðildarríkin hafa innleitt ákvæði, þ.m.t. kröfur, sem varða ekki einungis öryggi bygginga og annarra mannvirkja heldur einnig heilbrigði, endingu, orkusparnað, umhverfisvernd, efnahagslega þætti og aðra þætti sem eru mikilvægir hagsmunum almennings. Lög og stjórnsýslufyrirmæli eða dómaframkvæmd varðandi mannvirki, sem er innleidd annaðhvort á vettvangi Sambandsins eða aðildarríkjanna, getur haft áhrif á kröfur um byggingarvörur. Þar sem áhrif þeirra á starfsemi innri markaðarins eru líklega mjög svipaðs eðlis er rétt að telja slík lög og stjórnsýslufyrirmæli eða dómaframkvæmd sem „ákvæði“ að því er varðar þessa reglugerð.
5) Eftir atvikum ákvarða ákvæði um áformuð not byggingarvöru í aðildarríki, sem miða að því að uppfylla grunnkröfur um mannvirki, hvaða mikilvæga eiginleika eigi að tilgreina nothæfi fyrir. Til að komast hjá innihaldslausri yfirlýsingu um nothæfi skal tilgreina a.m.k. einn af þeim mikilvægu eiginleikum byggingarvöru sem skipta máli fyrir tilgreinda notkun.
6) Markmið tilskipunar ráðsins 89/106/EBE frá 21. desember 1988 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna um byggingarvörur (Stjtíð. EB L 40, 11.2.1989, bls. 12.) var að ryðja úr vegi tæknilegum viðskiptahindrunum á sviði byggingarvara í því skyni að stuðla að frjálsum flutningi þeirra á innri markaðinum.
7) Til að ná þessu markmiði var í tilskipun 89/106/EBE kveðið á um gerð samhæfðra staðla fyrir byggingarvörur og um veitingu evrópsks tæknisamþykkis.
8) Í því skyni að einfalda og skýra gildandi ramma og til að bæta gagnsæi og skilvirkni gildandi ráðstafana skal tilskipun 89/106/EBE skipt út.
9) Í þessari reglugerð skal tillit tekið til lagaramma, sem hefur lárétt réttaráhrif, um markaðssetningu á vörum á innri markaðinum, sem settur var með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 765/2008 um kröfur varðandi faggildingu og markaðseftirlit í tengslum við markaðssetningu á vörum (Stjtíð. ESB L 218, 13.8.2008, bls. 30.) og ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 768/2008/EB frá 9. júlí 2008 um sameiginlegan ramma um markaðssetningu á vörum (Stjtíð. ESB L 218, 13.8.2008, bls. 82.).
10) Aðeins er hægt að fjarlægja tæknilegar hindranir í byggingariðnaði með því að setja samhæfðar tækniforskriftir í þeim tilgangi að meta nothæfi byggingarvara.
11) Þessar samhæfðu tækniforskriftir skulu ná yfir prófanir, útreikninga og aðrar leiðir sem skilgreindar eru í samhæfðum stöðlum og evrópskum matsskjölum til að meta nothæfi að því er varðar mikilvæga eiginleika byggingarvara.
12) Aðferðirnar, sem aðildarríkin nota í kröfum sínum um mannvirki, sem og aðrar landsreglur, sem varða mikilvæga eiginleika byggingarvara, skulu vera í samræmi við samhæfðar tækniforskriftir.
13) Til að taka mið af mismunandi stigum grunnkrafna um mannvirki að því er varðar tiltekin mannvirki sem og mun á veðurfarslegum, jarðfræðilegum og landfræðilegum skilyrðum og öðrum mismunandi skilyrðum sem ríkja í aðildarríkjunum skal hvatt til þess, eftir því sem við á, að í samhæfðum stöðlum séu notaðir flokkar nothæfis að því er varðar mikilvæga eiginleika byggingarvara. Á grundvelli endurskoðaðs umboðs skulu evrópsku staðlastofnanirnar hafa heimild til að koma á slíkum flokkum ef framkvæmdastjórnin hefur ekki þegar komið þeim á.
14) Ef áformuð not krefjast þess að byggingarvörur í aðildarríkjunum uppfylli viðmiðunargildi fyrir mikilvæga eiginleika skulu þessi gildi fastsett í samhæfðu tækniforskriftunum.
15) Við mat á nothæfi byggingarvöru skal einnig taka tillit til heilbrigðis- og öryggisþátta sem varða notkun hennar á öllum vistferlinum.
16) Viðmiðunargildi, sem framkvæmdastjórnin ákvarðar samkvæmt þessari reglugerð, skulu vera almennt viðurkennd gildi fyrir mikilvæga eiginleika viðkomandi byggingarvöru að því er varðar ákvæði í aðildarríkjunum og skulu tryggja hátt verndarstig í skilningi 114. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins.
17) Viðmiðunargildi geta verið á sviði tækni eða reglusetningar og geta átt við um einn eiginleika eða fleiri.
18) Staðlasamtök Evrópu (CEN) og Rafstaðlasamtök Evrópu (CENELEC) eru viðurkennd sem þar til bærar stofnanir til að samþykkja samhæfða staðla, í samræmi við almennar viðmiðunarreglur um samstarf milli framkvæmdastjórnarinnar og þessara tveggja stofnana, sem voru undirritaðar 28. mars 2003. Framleiðendur skulu nota þessa samhæfðu staðla þegar tilvísun í þá hefur verið birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og í samræmi við viðmiðanirnar sem settar voru með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/34/EB frá 22. júní 1998 sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra staðla og reglugerða sem og reglna um þjónustu í upplýsingasamfélaginu (Stjtíð. EB L 204, 21.7.1998, bls. 37.). Þegar fullnægjandi tæknileg og vísindaleg sérþekking um alla viðkomandi þætti hefur fengist skal auka notkun samhæfðra staðla að því er varðar byggingarvörur, þ.m.t., eftir því sem við á og að höfðu samráði við fastanefndina um byggingarmál, með því að krefjast þess, með veitingu umboðs, að þessir staðlar séu þróaðir á grundvelli gildandi evrópskra matsskjala.
19) Rétt er að einfalda málsmeðferðina í tilskipun 89/106/EBE til að meta nothæfi að því er varðar mikilvæga eiginleika byggingarvara, sem falla ekki undir samhæfðan staðal, í því skyni að gera hana gagnsærri og draga úr kostnaði fyrir framleiðendur byggingarvara.
20) Til að gera framleiðanda byggingarvöru kleift að gera yfirlýsingu um nothæfi byggingarvöru, sem fellur ekki undir eða fellur að hluta til undir samhæfðan staðal, er nauðsynlegt að kveða á um evrópskt tæknimat.
21) Framleiðendur byggingarvara skulu hafa heimild til að fara fram á að evrópskt tæknimat verði gefið út fyrir vörur þeirra á grundvelli viðmiðunarreglna um evrópskt tæknisamþykki sem komið var á með tilskipun 89/106/EBE. Því skal tryggja réttinn til að nota þessar viðmiðunarreglur sem evrópsk matsskjöl.
22) Tæknimatsstofnanir, sem aðildarríkin tilnefna, skulu annast gerð draganna að evrópskum matsskjölum og útgáfu á evrópsku tæknimati. Til að sjá til þess að tæknimatsstofnanir búi yfir nægri hæfni til að framkvæma þessi verkefni skulu kröfurnar um tilnefningu þeirra settar fram á vettvangi Sambandsins.
23) Tæknimatsstofnanir skulu koma á fót samtökum (hér á eftir nefnd „samtök tæknimatsstofnana“), mögulega með fjármögnun Sambandsins, til að samræma málsmeðferðina við gerð draganna að evrópskum matsskjölum og við útgáfu á evrópsku tæknimati og tryggja gagnsæi og nauðsynlegan trúnað í tengslum við þessa málsmeðferð.
24) Þegar byggingarvara, sem fellur undir samhæfðan staðal eða sem evrópskt tæknimat hefur verið gefið út fyrir, er sett á markað skal henni fylgja yfirlýsing um nothæfi að því er varðar mikilvæga eiginleika byggingarvörunnar í samræmi við viðkomandi samhæfðar tækniforskriftir, að undanskildum þeim tilvikum sem sett eru fram í þessari reglugerð.
25) Eftir atvikum skal yfirlýsingunni um nothæfi fylgja upplýsingar um innihald hættulegra efna í byggingarvörunni til að auka möguleikana á sjálfbærum byggingum og til að auðvelda þróun á umhverfisvænum vörum. Slíkar upplýsingar skulu veittar án þess að það hafi áhrif á þær skyldur, einkum að því er varðar merkingar, sem mælt er fyrir um í öðrum lagagerningum Sambandsins, sem gilda um hættuleg efni, og þær skulu gerðar tiltækar á sama tíma og á sama formi og yfirlýsingin um nothæfi þannig að þær nái til allra hugsanlegra notenda byggingarvara. Upplýsingar um innihald hættulegra efna takmarkast í upphafi við efnin sem um getur í 31. og 33. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1907/2006 frá 18. desember 2006 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir, að því er varðar efni (efnareglurnar (REACH)), og um stofnun Efnastofnunar Evrópu (Stjtíð. ESB L 396, 30.12.2006, bls. 1.). Hin sérstaka þörf á upplýsingum um innihald hættulegra efna í byggingarvörum skal hins vegar rannsökuð nánar í því skyni að fullgera listann yfir viðeigandi efni til að tryggja öfluga vernd að því er varðar heilbrigði og öryggi starfsmanna sem nota byggingarvörur og notenda mannvirkja, þ.m.t. með tilliti til krafna um endurvinnslu og/eða endurnotkun á hlutum eða smíðaefni. Þessi reglugerð hefur ekki áhrif á réttindi og skyldur aðildarríkjanna samkvæmt öðrum lagagerningum Sambandsins sem geta gilt um hættuleg efni, einkum tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/8/EB frá 16. febrúar 1998 um markaðssetningu sæfiefna (Stjtíð. EB L 123, 24.4.1998, bls. 1.), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB frá 23. október 2000 um aðgerðaramma Bandalagsins um stefnu í vatnsmálum (Stjtíð. EB L 327, 22.12.2000, bls. 1.), reglugerð (EB) nr. 1907/2006, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/98/EB frá 19. nóvember 2008 um úrgang (Stjtíð. ESB L 312, 22.11.2008, bls. 3.) og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1272/2008 frá 16. desember 2008 um flokkun, merkingu og pökkun efna og blandna (Stjtíð. ESB L 353, 31.12.2008, bls. 1.).
26) Rétt er að hægt sé að tölusetja yfirlýsinguna um nothæfi í samræmi við tilvísunarnúmer gerðareintaksins.
27) Það er nauðsynlegt að kveða á um einfaldaða málsmeðferð fyrir gerð yfirlýsingar um nothæfi í því skyni að létta á fjárhagslegri byrði fyrirtækja, einkum lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
28) Til að tryggja að yfirlýsingin um nothæfi sé nákvæm og áreiðanleg skal nothæfi byggingarvörunnar metið og eftirlit haft með framleiðslunni í verksmiðjunni í samræmi við viðeigandi kerfi til að meta nothæfi byggingarvöru og sannprófa stöðugleika þess. Hægt er að velja mörg kerfi fyrir tiltekna byggingarvöru til að taka tillit til þeirra sérstöku tengsla sem eru milli einstakra mikilvægra eiginleika vörunnar og grunnkrafnanna um mannvirki.
29) Sökum þess hve sérhæfar byggingarvörur eru og þeirrar sérstöku áherslu sem lögð er á kerfið, sem notað er til að meta þær, eiga samræmismatsaðferðin, sem kveðið er á um í ákvörðun nr. 768/2008/EB, og aðferðareiningarnar, sem taldar eru upp þar, ekki við. Því skal innleiða sértækar aðferðir til að meta nothæfi byggingarvöru að því er varðar mikilvæga eiginleika hennar og sannprófa stöðugleika þess.
30) Sökum þess hve þýðing CE-merkisins er mismunandi fyrir byggingarvörur, í samanburði við almennu meginreglurnar sem settar eru fram í reglugerð (EB) nr. 765/2008, skal setja fram sértæk ákvæði til að tryggja að skyldan um áfestingu CE-merkisins á byggingarvörur og afleiðingar þess séu skýr.
31) Með því að festa CE-merkið eða hafa fest slíkt merki á byggingarvöru skulu framleiðendur tilgreina að þeir taki ábyrgð á því að varan sé í samræmi við tilgreint nothæfi hennar.
32) Festa skal CE-merkið á allar byggingarvörur sem framleiðandinn hefur gert samræmisyfirlýsingu fyrir í samræmi við þessa reglugerð. Ef samræmisyfirlýsing hefur ekki verið gerð skal ekki festa CE-merkið á.
33) CE-merkið skal vera eina merkið á byggingarvörunni sem sýnir samræmi hennar við tilgreint nothæfi og við viðeigandi kröfur að því er varðar samhæfingarlöggjöf Sambandsins. Hins vegar má nota aðrar merkingar að því tilskildu að þær stuðli að því að bæta vernd notenda byggingarvara og að þær falli ekki undir gildandi samhæfingarlöggjöf Sambandsins.
34) Til að forðast óþarfa prófanir á byggingarvörum, sem sýnt hefur verið fram á nothæfi fyrir með fullnægjandi hætti með stöðugum niðurstöðum úr prófunum eða öðrum fyrirliggjandi gögnum, skal framleiðanda heimilt að tilgreina tiltekið stig eða tiltekinn flokk nothæfis án prófana eða án frekari prófana í samræmi við þau skilyrði sem sett eru fram í samhæfðum tækniforskriftum eða í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar.
35) Til að forðast tvítekningu prófana sem þegar hafa farið fram skal framleiðanda byggingarvöru heimilt að nota niðurstöður úr prófunum sem fengnar eru frá þriðja aðila.
36) Skilgreina skal skilyrði fyrir notkun einfaldaðrar málsmeðferðar fyrir mat á nothæfi byggingarvara í því skyni að draga eins og hægt er úr kostnaði við setningu þeirra á markað án þess að dregið sé úr öryggi. Framleiðendur sem nota þessa einfölduðu málsmeðferð skulu sýna með fullnægjandi hætti fram á að þessi skilyrði séu uppfyllt.
37) Til þess að auka áhrif ráðstafana vegna markaðseftirlits gildir einfaldaða málsmeðferðin, sem kveðið er á um í þessari reglugerð, fyrir mat á nothæfi byggingarvara aðeins um einstaklinga eða lögaðila sem framleiða vörurnar sem þeir setja á markað.
38) Til að draga enn frekar úr kostnaði örfyrirtækja við að setja á markað byggingarvörur sem þau hafa framleitt er nauðsynlegt að kveða á um einfaldaða málsmeðferð fyrir mat á nothæfi þegar viðkomandi vörur varða ekki öryggi og þær uppfylla viðkomandi kröfur, óháð uppruna þessara krafna. Fyrirtæki sem nota þessa einfölduðu málsmeðferð skulu að auki sýna fram á að þau uppfylli kröfur til að teljast örfyrirtæki. Enn fremur skulu þau fylgja viðeigandi málsmeðferð um sannprófun á stöðugleika nothæfis, sem kveðið er á um í samhæfðum tækniforskriftum fyrir vörur þeirra.
39) Fyrir byggingarvörur sem eru hannaðar og framleiddar í stykkjatali skal framleiðanda heimilt að nota einfaldaða málsmeðferð fyrir mat á nothæfi ef hægt er að sýna fram á að varan sem sett er á markað sé í samræmi við viðeigandi kröfur.
40) Að höfðu samráði við fastanefndina um byggingarmál skal framkvæmdastjórnin setja fram túlkunarramma um skilgreininguna „framleiðsluferli utan raðar“ sem nota á fyrir mismunandi byggingarvörur sem heyra undir þessa reglugerð.
41) Allir rekstraraðilar sem koma að aðfangakeðjunni og dreifingarferlinu skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að þeir bjóði aðeins fram eða setji á markað byggingarvörur sem eru í samræmi við kröfur þessarar reglugerðar sem miða að því að tryggja nothæfi byggingarvara og uppfylla grunnkröfur um mannvirki. Innflytjendur og dreifendur byggingarvara skulu einkum vera meðvitaðir um mikilvæga eiginleika, sem ákvæði liggja fyrir um á markaði Sambandsins, og sértækar kröfur í aðildarríkjunum í tengslum við grunnkröfur um mannvirki og þeir skulu nota þessa þekkingu í viðskiptagjörningum sínum.
42) Mikilvægt er að tryggja aðgengi að tæknireglum aðildarríkis þannig að fyrirtæki, einkum lítil og meðalstór fyrirtæki, geti aflað áreiðanlegra og nákvæmra upplýsinga um gildandi lög í aðildarríkinu þar sem fyrirhugað er að setja eða bjóða fram vörur fyrirtækisins á markaði. Aðildarríki skulu því tilnefna vörutengiliði fyrir byggingariðnaðinn í því skyni. Til viðbótar við verkefnin sem skilgreind eru í 1. mgr. 10. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 764/2008 um málsmeðferð við beitingu tiltekinna innlendra tæknireglna vegna löglega markaðssettrar vöru í öðru aðildarríki (Stjtíð. ESB L 218, 13.8.2008, bls. 21.), skulu vörutengiliðir fyrir byggingariðnaðinn einnig veita upplýsingar um reglur sem gilda um ísetningu, samsetningu eða uppsetningu tiltekinnar byggingarvöru.
43) Til að auðvelda frjálsa vöruflutninga skulu vörutengiliðir fyrir byggingariðnaðinn veita upplýsingar, án endurgjalds, um ákvæði sem miða að uppfyllingu grunnkrafna um mannvirki sem gilda um áformuð not einstakra byggingarvara á yfirráðasvæði hvers aðildarríkis. Vörutengiliðir fyrir byggingariðnaðinn geta einnig látið rekstraraðilum í té viðbótarupplýsingar eða athuganir. Vörutengiliðum fyrir byggingariðnaðinn er heimilt að krefjast þóknunar fyrir slíkar viðbótarupplýsingar eða athuganir í réttu hlutfalli við útlagðan kostnað af þeim. Aðildarríki skulu enn fremur sjá til þess að vörutengiliðir fyrir byggingariðnaðinn hafi til ráðstöfunar fullnægjandi úrræði.
44) Aðildarríkin ættu að geta komið á fót vörutengiliðum fyrir byggingariðnaðinn í samræmi við svæðisbundnar eða staðbundnar valdheimildir þar sem slíkt ætti ekki að hafa áhrif á skiptingu verkefna milli lögbærra yfirvalda innan eftirlitskerfa aðildarríkjanna. Í því skyni að koma í veg fyrir ónauðsynlega fjölgun tengiliða og til að einfalda stjórnsýslumeðferð geta aðildarríkin falið núverandi tengiliðum, sem komið hefur verið á fót í samræmi við aðra gerninga Sambandsins, hlutverk vörutengiliða fyrir byggingariðnaðinn. Í því skyni að hækka ekki stjórnsýslukostnað fyrirtækja og lögbærra yfirvalda geta aðildarríkin falið, ekki aðeins núverandi stofnunum innan opinberrar stjórnsýslu heldur einnig SOLVIT-stöðvum, verslunarráði, faglegum samtökum og einkaaðilum í aðildarríkjunum, hlutverk vörutengiliða fyrir byggingariðnaðinn.
45) Vörutengiliðir fyrir byggingariðnaðinn skulu geta rækt störf sín þannig að ekki komi til hagsmunaárekstra, einkum að því er varðar málsmeðferðina við að fá CE-merki.
46) Í þeim tilgangi að tryggja jafngilda og samræmda framkvæmd samhæfingarlöggjafar Sambandsins skulu aðildarríkin annast skilvirkt markaðseftirlit. Í reglugerð (EB) nr. 765/2008 er kveðið á um grunnskilyrði fyrir slíkt markaðseftirlit, einkum hvað varðar áætlanir, fjármögnun og viðurlög.
47) Ábyrgð aðildarríkja hvað varðar öryggi, heilbrigði og önnur mál sem falla undir grunnkröfur um mannvirki á yfirráðasvæði þeirra skal viðurkennd í verndarákvæði þar sem kveðið er á um viðeigandi verndarráðstafanir.
48) Þar sem nauðsynlegt er að tryggja samræmi í frammistöðu stofnana sem framkvæma mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess og þar sem allar slíkar stofnanir skulu framkvæma störf sín með sama hætti og samkvæmt skilyrðum um sanngjarna samkeppni skal fastsetja kröfur fyrir þær stofnanir sem sækjast eftir því að vera tilkynntar í skilningi þessarar reglugerðar. Einnig skal setja ákvæði um aðgengi að fullnægjandi upplýsingum um slíkar stofnanir og eftirlit með þeim.
49) Til að tryggja samræmt gæðastig á mati á nothæfi byggingarvöru og sannprófun á stöðugleika þess er einnig nauðsynlegt að setja kröfur sem gilda um yfirvöld sem bera ábyrgð á að tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum um þær stofnanir sem annast þessi verkefni.
50) Samkvæmt 291. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins skal mæla fyrirfram fyrir um reglur og almennar meginreglur um eftirlit aðildarríkjanna með framkvæmdastjórninni þegar hún beitir framkvæmdarvaldi sínu í reglugerð sem samþykkt er í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð. Þar til þessi nýja reglugerð verður samþykkt, gildir ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdarvalds sem framkvæmdastjórninni er falið (Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.) áfram að undanskilinni reglunefndarmeðferðinni með grannskoðun, sem gildir ekki lengur.
51) Í þeim tilgangi að ná fram markmiðum þessarar reglugerðar skal framkvæmdastjórnin hafa umboð til þess að samþykkja tilteknar framseldar gerðir í samræmi við 290. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Einkum er mikilvægt að framkvæmdastjórnin hafi viðeigandi samráð meðan á undirbúningsvinnu hennar stendur, þ.m.t. við sérfræðinga.
52) Framkvæmdastjórnin skal einkum hafa umboð til að samþykkja framseldar gerðir sem tilgreina skilyrði um notkun vefseturs til að gera yfirlýsingu um nothæfi tiltæka.
53) Þar sem þörf er á tíma til að tryggja að settur sé rammi fyrir rétta framkvæmd þessarar reglugerðar skal beitingu reglugerðarinnar frestað að undanskildum ákvæðum varðandi tilnefningu tæknimatsstofnana, tilkynningaryfirvalda og tilkynntra aðila, stofnun samtaka tæknimatsstofnana og stofnun fastanefndar um byggingarmál.
54) Framkvæmdastjórnin og aðildarríkin skulu, í samstarfi við hagsmunaaðila, setja af stað upplýsingaherferðir til að upplýsa byggingageirann, einkum rekstraraðila og notendur byggingarvara, um innleiðingu á sameiginlegu fagmáli, dreifingu ábyrgðar á milli einstakra rekstraraðila og notenda, festingu CE-merkisins á byggingarvörur, endurskoðun á grunnkröfum um mannvirki og kerfi fyrir mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess.
55) Í grunnkröfunni um mannvirki varðandi sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda skal einkum taka tillit til endurvinnanleika mannvirkja, byggingarefna þeirra og hluta eftir niðurrif, endingu mannvirkja og notkun umhverfisvænna hráefna og endurunninna efna í mannvirkjum.
56) Fyrir mat á sjálfbærri nýtingu auðlinda og á áhrifum mannvirkja á umhverfið skal nota umhverfisyfirlýsingu vöru ef hún er fyrirliggjandi.
57) Þegar hægt er skal mæla fyrir um samræmdar evrópskar aðferðir til að staðfesta að grunnkröfurnar sem settar eru fram í I. viðauka séu uppfylltar.
58) Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar reglugerðar, þ.e. að tryggja eðlilega starfsemi innri markaðarins með því að nota samhæfðar tækniforskriftir til að lýsa yfir nothæfi byggingarvara, og því verður betur náð á vettvangi Evrópusambandsins, vegna umfangs og áhrifa aðgerðarinnar, er Evrópusambandinu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari reglugerð til að ná þessu markmiði.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Efni
Í þessari reglugerð er mælt fyrir um skilyrði fyrir því að byggingarvörur séu settar eða boðnar fram á markaði með því að setja samræmdar reglur um hvernig sýna eigi fram á nothæfi byggingarvara með hliðsjón af mikilvægum eiginleikum þeirra og um notkun CE-merkja á þessum vörum.
2. gr. Skilgreiningar
Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1. „byggingarvara“: allar vörur eða samstæður sem eru framleiddar og settar á markað til varanlegrar ísetningar í mannvirki eða hluta þeirra og sem nothæfi þeirra hefur áhrif á nothæfi mannvirkjanna að því er varðar grunnkröfur um mannvirkið,
2. „samstæða“: byggingarvara sem einn framleiðandi setur á markað sem sérstakt sett gert úr a.m.k. tveimur aðskildum íhlutum sem þarf að setja saman til að hægt sé að setja þá í mannvirkið,
3. „mannvirki“: byggingar og önnur mannvirki,
4. „mikilvægir eiginleikar“: þeir eiginleikar byggingarvörunnar sem tengjast grunnkröfum um mannvirki,
5. „nothæfi byggingarvöru“: nothæfi sem tengist viðkomandi mikilvægum eiginleikum, gefið upp sem stig eða flokkur eða í lýsingu,
6. „stig“: niðurstaða mats á nothæfi byggingarvöru að því er varðar mikilvæga eiginleika hennar, gefið upp sem tölugildi,
7. „flokkur“: stig yfir nothæfi byggingarvöru sem eru afmörkuð með lágmarksgildi og hámarksgildi,
8. „viðmiðunargildi“: lágmarks- eða hámarksstig að því er varðar nothæfi vegna mikilvægra eiginleika byggingarvöru,
9. „gerðareintak“: safn nothæfisstiga eða -flokka sem eru dæmigerð með tilliti til mikilvægra eiginleika byggingarvöru, sem framleidd er með tiltekinni samsetningu hráefna eða annarra þátta í tilteknu framleiðsluferli,
10. „samhæfðar tækniforskriftir“: samhæfðir staðlar og evrópsk matsskjöl,
11. „samhæfður staðall“: staðall sem ein af evrópsku staðlastofnununum sem tilgreindar eru í I. viðauka við tilskipun 98/34/EB hefur tekið upp á grundvelli beiðni frá framkvæmdastjórninni í samræmi við 6. gr. þeirrar tilskipunar,
12. „evrópskt matsskjal“: skjal sem samþykkt er af samtökum tæknimatsstofnana í þeim tilgangi að gefa út evrópskt tæknimat,
13. „evrópskt tæknimat“: skjalfest mat á nothæfi byggingarvöru með tilliti til mikilvægra eiginleika hennar í samræmi við viðkomandi evrópskt matsskjal,
14. „áformuð not“: áformuð not byggingarvöru eins og þau eru skilgreind í gildandi samhæfðri tækniforskrift,
15. „sértæk tæknigögn“: gögn sem sýna að aðferðum í viðeigandi kerfi fyrir mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess hafi verið skipt út fyrir aðrar aðferðir, með þeim skilyrðum að niðurstöðurnar sem fengnar eru með þeim aðferðum séu jafngildar þeim niðurstöðum sem fást með prófunaraðferðunum í samsvarandi samhæfðum staðli,
16. „að bjóða fram á markaði“: öll afhending byggingarvöru til dreifingar eða notkunar á markaði Sambandsins á meðan á viðskiptastarfsemi stendur, hvort sem það er gegn greiðslu eða án endurgjalds,
17. „setning á markað“: það að byggingarvara er boðin fram í fyrsta sinn á markaði Sambandsins,
18. „rekstraraðili“: framleiðandi, innflytjandi, dreifandi eða viðurkenndur fulltrúi,
19. „framleiðandi“: einstaklingur eða lögaðili sem framleiðir byggingarvöru eða lætur hanna eða framleiða slíka vöru og markaðssetur vöruna undir eigin nafni eða eigin vörumerki,
20. „dreifandi“: einstaklingur eða lögaðili í aðfangakeðjunni, annar en framleiðandi eða innflytjandi, sem býður byggingarvöru fram á markaði,
21. „innflytjandi“: einstaklingur eða lögaðili með staðfestu innan Sambandsins sem setur byggingarvöru frá þriðja landi á markað Sambandsins,
22. „viðurkenndur fulltrúi“: einstaklingur eða lögaðili með staðfestu í Sambandinu sem hefur skriflegt umboð frá framleiðandanum til að koma fram fyrir hans hönd í tengslum við tilgreind verkefni,
23. „vara tekin af markaði“: hvers konar ráðstöfun sem miðar að því að koma í veg fyrir að byggingarvara í aðfangakeðjunni sé boðin fram á markaði,
24. „innköllun“: hvers konar ráðstöfun sem miðar að því að byggingarvöru, sem þegar er aðgengileg endanlegum notanda, sé skilað til baka,
25. „faggilding“: eins og skilgreint er í reglugerð (EB) nr. 765/2008,
26. „framleiðslustýring verksmiðju“: skjalfest og stöðug innri framleiðslustýring í verksmiðju í samræmi við viðkomandi samhæfðar tækniforskriftir,
27. „örfyrirtæki“: örfyrirtæki eins og þau eru skilgreind í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar frá 6. maí 2003 um skilgreininguna á örfyrirtækjum, litlum fyrirtækjum og meðalstórum fyrirtækjum (Stjtíð. ESB L 124, 20.5.2003, bls. 36.),
28. „vistferill“: samfelld og samtengd stig á ferli byggingarvöru frá öflun hráefna eða framleiðslu þeirra úr náttúruauðlindum til endanlegrar förgunar.
3. gr. Grunnkröfur um mannvirki og mikilvægir eiginleikar byggingarvara
1. Grunnkröfurnar um mannvirki sem settar eru fram í I. viðauka skulu vera grundvöllur fyrir undirbúningi á stöðlunarumboðum og samhæfðum tækniforskriftum.
2. Mæla skal fyrir um mikilvæga eiginleika byggingarvara í samhæfðum tækniforskriftum í tengslum við grunnkröfurnar um mannvirki.
3. Fyrir tiltekna flokka byggingarvara, sem falla undir samhæfðan staðal, skal framkvæmdastjórnin ákvarða, með framseldum gerðum í samræmi við 60. gr., eftir því sem við á og í tengslum við áformuð not vörunnar eins og þau eru skilgreind í samhæfðum stöðlum, þá mikilvægu eiginleika sem framleiðandinn á að tilgreina nothæfi vörunnar fyrir þegar hún er sett á markað.
Eftir því sem við á skal framkvæmdastjórnin einnig ákvarða, með framseldum gerðum í samræmi við 60. gr., viðmiðunargildi fyrir nothæfi að því er varðar þá mikilvægu eiginleika sem á að tilgreina.
II. kafli. Yfirlýsing um nothæfi og CE-merking.
4. gr. Yfirlýsing um nothæfi
1. Ef byggingarvara fellur undir samhæfðan staðal eða samræmist evrópsku tæknimati sem hefur verið gefið út fyrir hana skal framleiðandi gera yfirlýsingu um nothæfi þegar varan er sett á markað.
2. Ef byggingarvara fellur undir samhæfðan staðal, eða samræmist evrópsku tæknimati sem hefur verið gefið út fyrir hana, má aðeins veita upplýsingar um nothæfi hennar að því er varðar þá mikilvægu eiginleika hennar sem skilgreindir eru í gildandi samhæfðri tækniforskrift ef þær koma fram og eru tilgreindar í yfirlýsingunni um nothæfi nema yfirlýsing um nothæfi hafi ekki verið gerð í samræmi við 5. gr.
3. Með samningu yfirlýsingar um nothæfi skal framleiðandinn taka á sig ábyrgð á samræmi byggingarvörunnar við tilgreint nothæfi. Ef annað kemur ekki fram skulu aðildarríki gera ráð fyrir því að yfirlýsing framleiðanda um nothæfi sé nákvæm og áreiðanleg.
5. gr. Undanþágur frá gerð yfirlýsingar um nothæfi
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 4. gr. og ef ekki liggja fyrir Sambandsákvæði eða ákvæði aðildarríkjanna þar sem krafist er yfirlýsingar um mikilvæga eiginleika, þar sem fyrirhugað er að nota byggingarvörurnar, getur framleiðandi látið það ógert að gera yfirlýsingu um nothæfi þegar hann setur á markað byggingarvöru sem fellur undir samhæfðan staðal ef:
a) byggingarvaran er framleidd í stykkjatali eða sérsmíðuð eftir sérstakri pöntun, og ekki er um raðframleiðslu að ræða, og hún sett upp í einu tilteknu mannvirki af framleiðanda, sem ber ábyrgð á öruggri ísetningu vörunnar í mannvirkið, í samræmi við gildandi landsreglur og á ábyrgð þeirra aðila sem bera ábyrgð á öruggri framkvæmd verksins og viðurkenndir til þess samkvæmt viðeigandi landsreglum,
b) byggingarvaran er framleidd á byggingarsvæðinu til ísetningar í viðkomandi mannvirki í samræmi við gildandi landsreglur og á ábyrgð þeirra sem bera ábyrgð á öruggri framkvæmd verksins og eru viðurkenndir til þess samkvæmt viðeigandi landsreglum, eða
c) byggingarvaran er framleidd með hefðbundnum hætti, eða á þann hátt sem er viðeigandi fyrir varðveislu menningararfleifðar, og ekki er um iðnaðarframleiðslu að ræða, í því skyni að endurnýja með fullnægjandi hætti mannvirki sem njóta opinberrar verndar sem hluti af tilgreindu umhverfi eða vegna sérstaks byggingarlistarlegs eða sögulegs gildis í samræmi við gildandi landsreglur.
6. gr. Innihald yfirlýsingar um nothæfi
1. Yfirlýsing um nothæfi skal lýsa nothæfi byggingarvara í tengslum við mikilvæga eiginleika þeirra í samræmi við viðkomandi samhæfðar tækniforskriftir.
2. Yfirlýsingin um nothæfi skal einkum innihalda eftirfarandi upplýsingar:
a) tilvísun í gerðareintakið sem yfirlýsingin um nothæfi hefur verið gerð fyrir,
b) kerfið eða kerfin til að meta nothæfi byggingarvöru og sannprófa stöðugleika þess, sbr. V. viðauka,
c) tilvísunarnúmer og útgáfudagur samhæfða staðalsins eða evrópska tæknimatsins sem hefur verið notað við mat á öllum mikilvægum eiginleikum,
d) eftir atvikum, tilvísunarnúmer sértækra tæknigagna sem notuð eru og kröfurnar sem framleiðandi fullyrðir að varan sé í samræmi við.
3. Yfirlýsingin um nothæfi skal að auki innihalda:
a) áformuð not byggingarvörunnar í samræmi við viðeigandi samhæfða tækniforskrift,
b) skrá yfir mikilvæga eiginleika, eins og þeir eru ákvarðaðir í samhæfðu tækniforskriftinni fyrir tilgreind, áformuð not,
c) nothæfi minnst eins af mikilvægum eiginleikum byggingarvörunnar sem skiptir máli fyrir tilgreind, áformuð not,
d) eftir atvikum, nothæfi byggingarvörunnar, gefið upp í stigum eða flokkum, eða í lýsingu, ef þörf krefur á grundvelli útreikninga í tengslum við mikilvæga eiginleika hennar sem ákvarðaðir eru í samræmi við 3. mgr. 3. gr.,
e) nothæfi þeirra mikilvægu eiginleika byggingarvörunnar sem tengjast áformuðum notum, að teknu tilliti til ákvæða í tengslum við áformuð not á því svæði þar sem framleiðandinn hyggst bjóða vöruna fram á markaði,
f) fyrir skráða mikilvæga eiginleika, sem ekki er gerð yfirlýsing um nothæfi fyrir, skal nota stafina „NPD“ (e. No Performance Determined – ekkert nothæfisstig ákvarðað),
g) ef evrópskt tæknimat hefur verið gefið út fyrir vöruna, nothæfi byggingarvörunnar gefið upp í stigum eða flokkum, eða í lýsingu, í tengslum við alla mikilvæga eiginleika sem eru tilgreindir í samsvarandi evrópsku tæknimati.
4. Yfirlýsingin um nothæfi skal gerð í samræmi við fyrirmyndina sem sett er fram í III. viðauka.
5. Upplýsingarnar sem um getur í 31. gr. eða, eftir því sem við á, 33. gr. reglugerðar (EB) nr. 1907/2006 skulu veittar ásamt yfirlýsingunni um nothæfi.
7. gr. Yfirlýsing um nothæfi lögð fram
1. Afrit af yfirlýsingu um nothæfi hverrar vöru sem boðin er fram á markaði skal lagt fram annaðhvort á pappír eða með rafrænum hætti.
Ef hins vegar ein framleiðslulota af sömu vöru er afhent einum notanda má eitt eintak af yfirlýsingunni um nothæfi fylgja með henni, annaðhvort á pappír eða með rafrænum hætti.
2. Ef viðtakandi fer fram á það skal eintak af yfirlýsingunni um nothæfi afhent á pappír.
3. Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er heimilt að gera eintak af yfirlýsingunni um nothæfi aðgengilegt á vefsetri í samræmi við skilyrði sem framkvæmdastjórnin setur fram í framseldum gerðum í samræmi við 60. gr. Slík skilyrði skulu m.a. tryggja að yfirlýsingin um nothæfi sé aðgengileg a.m.k. þann tíma sem um getur í 2. mgr. 11. gr.
4. Yfirlýsingin um nothæfi skal lögð fram á því tungumáli eða þeim tungumálum sem krafist er af aðildarríkinu þar sem varan er boðin fram.
8. gr. Almennar meginreglur og notkun CE-merkja
1. Almennu meginreglurnar sem settar eru fram í 30. gr. reglugerðar (EB) nr. 765/2008 gilda um CE-merkið.
2. Festa skal CE-merkið á þær byggingarvörur sem framleiðandinn hefur gert yfirlýsingu um nothæfi fyrir í samræmi við 4. og 6. gr.
Ef framleiðandi hefur ekki gert yfirlýsingu um nothæfi í samræmi við 4. og 6. gr. skal CE-merkið ekki fest á vöruna.
Með því að festa eða hafa fest CE-merkið á byggingarvöru gefa framleiðendur til kynna að þeir beri ábyrgð á því að hún samræmist tilgreindu nothæfi og öllum gildandi kröfum sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð og í öðrum viðeigandi samræmingarlöggjöfum Sambandsins þar sem kveðið er á um áfestingu merkisins á vöruna.
Reglur um áfestingu CE-merkisins á vöruna sem kveðið er á um í öðrum viðeigandi samræmingarlöggjöfum Sambandsins gilda með fyrirvara um þessa málsgrein.
3. Fyrir allar byggingarvörur sem falla undir samhæfðan staðal, eða sem evrópskt tæknimat hefur verið gefið út fyrir, skal CE-merkið vera eina merkingin sem staðfestir samræmi byggingarvörunnar við tilgreint nothæfi að því er varðar mikilvæga eiginleika sem falla undir samhæfða staðalinn eða evrópska tæknimatið.
Í þessu tilliti skulu aðildarríkin ekki taka upp aðrar tilvísanir en CE-merkið og skulu draga til baka allar tilvísanir í ráðstafanir aðildarríkis í aðrar merkingar sem staðfesta samræmi við tilgreint nothæfi að því er varðar mikilvæga eiginleika sem falla undir samhæfðan staðal.
4. Aðildarríki skulu ekki banna eða hindra að byggingarvörur sem bera CE-merkið séu boðnar fram á markaði eða notaðar á yfirráðasvæði þeirra eða þar sem það ber ábyrgð ef tilgreint nothæfi uppfyllir kröfur um slíka notkun í aðildarríkinu.
5. Aðildarríki skulu sjá til þess að notkun byggingarvara sem bera CE-merkið sé ekki hindruð með reglum eða skilyrðum sem sett eru af opinberum aðilum eða einkaaðilum, sem starfa sem opinbert fyrirtæki eða starfa sem opinber aðili á grundvelli einokunarstöðu eða samkvæmt opinberu umboði, ef tilgreint nothæfi uppfyllir kröfur um slíka notkun í aðildarríkinu.
6. Aðferðirnar sem aðildarríkin nota í kröfum sínum fyrir mannvirki skulu, eins og aðrar landsreglur sem varða mikilvæga eiginleika byggingarvara, vera í samræmi við samhæfða staðla.
9. gr. Reglur og skilyrði fyrir áfestingu CE-merkisins
1. Festa skal CE-merkið á byggingarvöruna, eða áfestan merkimiða, þannig að það sé sýnilegt, læsilegt og óafmáanlegt. Ef því verður ekki komið við eða það er ástæðulaust vegna eðlis vörunnar skal festa merkið á umbúðir vörunnar eða fylgiskjöl hennar.
2. Á eftir CE-merkinu skulu koma síðustu tveir tölustafirnir í árinu þegar það var fyrst fest á, nafn og skráð heimilisfang framleiðanda eða auðkennismerki sem gerir kleift að auðkenna nafn og heimilisfang framleiðanda auðveldlega og án nokkurrar tvíræðni, sérstakur auðkenniskóði gerðareintaksins, tilvísunarnúmer yfirlýsingar um nothæfi, stig eða flokkur tilgreinds nothæfis, tilvísun í samhæfðu tækniforskriftina sem er notuð, auðkenniskóði tilkynnts aðila, ef við á, og áformuð not eins og mælt er fyrir um í samhæfðu tækniforskriftinni sem notuð er.
3. CE-merkið skal fest á áður en byggingarvaran er sett á markað. Merkingunni má fylgja táknmynd eða annað merki sem gefur einkum til kynna sérstaka áhættu eða notkun.
10. gr. Vörutengiliðir fyrir byggingariðnaðinn
1. Aðildarríki skulu tilnefna vörutengilið fyrir byggingariðnaðinn skv. 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 764/2008.
2. Ákvæði 10. og 11. gr. reglugerðar (EB) nr. 764/2008 skulu gilda um vörutengiliði fyrir byggingariðnaðinn.
3. Að því er varðar verkefnin sem skilgreind eru í 1. mgr. 10. gr. reglugerðar (EB) nr. 764/2008 skulu öll aðildarríki sjá til þess að vörutengiliðir fyrir byggingariðnaðinn veiti gagnsæjar og auðskiljanlegar upplýsingar um ákvæðin á yfirráðasvæði sínu sem miða að því að uppfylla grunnkröfur um mannvirki sem gilda um áformuð not einstakra byggingarvara, eins og kveðið er á um í e-lið 3. mgr. 6. gr. þessarar reglugerðar.
4. Vörutengiliðir fyrir byggingariðnaðinn skulu geta rækt störf sín þannig að ekki komi til hagsmunaárekstra, einkum að því er varðar málsmeðferðina við að fá CE-merkið.
III. kafli. Skyldur rekstraraðila.
11. gr. Skyldur framleiðenda
1. Framleiðendur skulu gera yfirlýsingu um nothæfi í samræmi við 4. og 6. gr. og festa CE-merkið á í samræmi við 8. og 9. gr.
Sem grunnur að yfirlýsingu um nothæfi skulu framleiðendur útbúa tæknigögn sem lýsa öllum viðeigandi þáttum sem tengjast kerfinu sem krafist er til að meta nothæfi og sannprófa stöðugleika þess.
2. Framleiðendur skulu varðveita tæknigögnin og yfirlýsinguna um nothæfi í tíu ár eftir að byggingarvaran hefur verið sett á markað.
Eftir því sem við á, getur framkvæmdastjórnin, með framseldum gerðum í samræmi við 60. gr., breytt því tímabili fyrir tiltekna flokka byggingarvara á grundvelli væntanlegs endingartíma eða mikilvægi byggingarvörunnar í mannvirkjunum.
3. Framleiðendur skulu tryggja að málsmeðferð sé til staðar til að tryggja að tilgreindu nothæfi sé viðhaldið í raðframleiðslu. Taka skal fullnægjandi tillit til breytinga á gerðareintakinu og á gildandi samhæfðum tækniforskriftum.
Ef það er talið viðeigandi í því skyni að tryggja nákvæmni, áreiðanleika og stöðugleika tilgreinds nothæfis byggingarvöru skulu framleiðendur framkvæma úrtaksprófanir á byggingarvörum, sem eru settar eða boðnar fram á markaði, rannsaka og, ef nauðsyn krefur, halda skrá yfir kvartanir, vörur sem uppfylla ekki kröfur og innköllun vara og upplýsa dreifendur um slíka vöktun.
4. Framleiðendur skulu tryggja að á byggingarvörum þeirra sé gerðar-, framleiðslueiningar- eða raðnúmer eða annað sem gerir kleift að bera kennsl á vörurnar eða, ef það er ekki hægt vegna stærðar eða eðlis vöru, að tilskildar upplýsingar séu veittar á umbúðunum eða í skjali sem fylgir byggingarvörunni.
5. Framleiðendur skulu tilgreina á byggingarvörunni eða, ef það er ekki hægt, á umbúðum hennar eða í fylgiskjali, nafn sitt, skráð viðskiptaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfangið þar sem hægt er að ná í þá. Heimilisfangið skal tilgreina einn stað þar sem hægt er að hafa samband við framleiðandann.
6. Þegar byggingarvara er boðin fram á markaði skulu framleiðendur sjá til þess að vörunni fylgi leiðbeiningar og upplýsingar um öryggismál á tungumáli sem ákveðið er af hlutaðeigandi aðildarríki og sem notendur hafa á valdi sínu.
7. Framleiðendur sem telja eða hafa ástæðu til að ætla að byggingarvara sem þeir hafa sett á markað sé ekki í samræmi við yfirlýsinguna um nothæfi eða ekki í samræmi við aðrar viðkomandi kröfur í þessari reglugerð skulu tafarlaust gera þær ráðstafanir til úrbóta sem nauðsynlegar eru til að byggingarvaran verði í samræmi við kröfur eða, ef við á, til að taka hana af markaði eða innkalla. Ef áhætta stafar af vörunni skulu framleiðendur enn fremur tafarlaust upplýsa lögbær landsyfirvöld aðildarríkjanna þar sem byggingarvaran var boðin fram á markaði þar um, einkum um tilvik þar sem ekki er farið að ákvæðum og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til úrbóta.
8. Framleiðendur skulu, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá lögbæru landsyfirvaldi, afhenda því allar upplýsingar og skjöl sem nauðsynleg eru til að sýna fram á að byggingarvaran sé í samræmi við yfirlýsinguna um nothæfi og aðrar viðeigandi kröfur í þessari reglugerð á tungumáli sem það yfirvald hefur á valdi sínu. Þeir skulu hafa samvinnu við þetta yfirvald, að beiðni þess, að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af byggingarvörum sem þeir hafa sett á markað.
12. gr. Viðurkenndir fulltrúar
1. Framleiðanda er heimilt að tilnefna viðurkenndan fulltrúa með skriflegu umboði.
Gerð tæknigagna er ekki hluti af umboði viðurkennds fulltrúa.
2. Viðurkenndur fulltrúi skal inna af hendi þau verkefni sem tilgreind eru í umboðinu. Umboðið skal a.m.k. veita viðurkennda fulltrúanum heimild til:
a) að varðveita yfirlýsinguna um nothæfi og tæknigögnin svo þau séu tiltæk fyrir landsbundin eftirlitsyfirvöld á því tímabili sem um getur í 2. mgr. 11. gr.,
b) að afhenda, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá lögbæru landsyfirvaldi, yfirvaldinu allar upplýsingar og skjöl sem nauðsynleg eru til að sýna fram á að byggingarvara sé í samræmi við yfirlýsinguna um nothæfi og aðrar viðeigandi kröfur í þessari reglugerð,
c) að hafa samvinnu við lögbær landsyfirvöld, að beiðni þeirra, að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af byggingarvörum sem falla undir umboð viðurkennda fulltrúans.
13. gr. Skyldur innflytjenda
1. Innflytjendur skulu aðeins setja byggingarvörur á markað í Sambandinu sem uppfylla viðeigandi kröfur þessarar reglugerðar.
2. Áður en byggingarvara er sett á markað skulu innflytjendur tryggja að framleiðandi hafi annast mat og sannprófun á stöðugleika nothæfis. Þeir skulu tryggja að framleiðandi hafi útbúið tæknigögnin sem um getur í annarri undirgrein 1. mgr. 11. gr. og yfirlýsinguna um nothæfi í samræmi við 4. og 6. gr. Þeir skulu einnig tryggja að varan, ef krafist er, beri CE-merkið, að vörunni fylgi þau skjöl sem krafist er og að framleiðandinn hafi uppfyllt kröfurnar sem settar eru fram í 4. og 5. mgr. 11. gr.
Ef innflytjandi telur eða hefur ástæðu til að ætla að byggingarvaran sé ekki í samræmi við yfirlýsinguna um nothæfi eða sé ekki í samræmi við aðrar viðeigandi kröfur í þessari reglugerð skal innflytjandinn ekki setja byggingarvöruna á markað fyrr en hún samræmist meðfylgjandi yfirlýsingu um nothæfi og öðrum viðeigandi kröfum í þessari reglugerð eða þar til yfirlýsingin um nothæfi hefur verið leiðrétt. Ef áhætta stafar af byggingarvörunni skal innflytjandi enn fremur upplýsa framleiðandann og markaðseftirlitsyfirvöld þar um.
3. Innflytjendur skulu tilgreina á byggingarvörunni eða, ef það er ekki hægt, á umbúðum hennar eða í fylgiskjali með vörunni, nafn sitt, skráð viðskiptaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfangið þar sem hægt er að ná í þá.
4. Innflytjendur skulu sjá til þess þegar byggingarvara er boðin fram á markaði að vörunni fylgi leiðbeiningar og upplýsingar um öryggismál á tungumáli sem ákveðið er af hlutaðeigandi aðildarríki og sem notendur hafa á valdi sínu.
5. Innflytjendur skulu tryggja að á meðan byggingarvara er á þeirra ábyrgð tefli geymslu- eða flutningsskilyrði ekki í tvísýnu samræmi hennar við yfirlýsinguna um nothæfi og aðrar viðeigandi kröfur í þessari reglugerð.
6. Ef það er talið viðeigandi í því skyni að tryggja nákvæmni, áreiðanleika og stöðugleika tilgreinds nothæfis byggingarvöru skulu innflytjendur framkvæma úrtaksprófanir á byggingarvörum sem eru settar eða boðnar fram á markaði, rannsaka og, ef þörf er á, halda skrá yfir kvartanir, yfir vörur sem uppfylla ekki kröfur og yfir innköllun vara, og skulu upplýsa dreifendur um slíka vöktun.
7. Innflytjendur sem telja eða hafa ástæðu til að ætla að byggingarvara sem þeir hafa sett á markað sé ekki í samræmi við yfirlýsingu um nothæfi eða ekki í samræmi við aðrar viðkomandi kröfur í þessari reglugerð skulu tafarlaust gera þær ráðstafanir til úrbóta sem nauðsynlegar eru til að byggingarvaran verði í samræmi við kröfur eða, ef við á, til að taka hana af markaði eða innkalla. Ef áhætta stafar af vörunni skulu innflytjendur enn fremur tafarlaust upplýsa lögbær landsyfirvöld aðildarríkjanna þar sem byggingarvaran var boðin fram á markaði þar um, einkum um tilvik þar sem ekki er farið að ákvæðum og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til úrbóta.
8. Innflytjendur skulu, í þann tíma sem tilgreindur er í 2. mgr. 11. gr., varðveita afrit af yfirlýsingunni um nothæfi og hafa hana tiltæka fyrir markaðseftirlitsyfirvöld og tryggja að þessi yfirvöld geti haft aðgang að tæknigögnunum, sé þess óskað.
9. Innflytjendur skulu, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá lögbæru landsyfirvaldi, afhenda yfirvaldinu allar upplýsingar og skjöl sem nauðsynleg eru til að sýna fram á að byggingarvaran sé í samræmi við yfirlýsinguna um nothæfi og aðrar viðeigandi kröfur í þessari reglugerð, á tungumáli sem það yfirvald hefur á valdi sínu. Þeir skulu hafa samvinnu við þetta yfirvald, að beiðni þess, að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af byggingarvörum sem þeir hafa sett á markað.
14. gr. Skyldur dreifenda
1. Þegar byggingarvara er boðin fram á markaði skulu dreifendur gæta þess vandlega að varan sé í samræmi við kröfur þessarar reglugerðar.
2. Áður en byggingarvara er boðin fram á markaði skulu dreifendur sjá til þess að varan beri CE-merkið, sé þess krafist, og að henni fylgi þau gögn sem krafist er samkvæmt þessari reglugerð ásamt leiðbeiningum og upplýsingum um öryggismál á tungumáli sem ákveðið er af hlutaðeigandi aðildarríki og sem notendur hafa á valdi sínu. Dreifendur skulu einnig tryggja að framleiðandinn og innflytjandinn hafi uppfyllt kröfurnar sem settar eru fram í 4. og 5. mgr. 11. gr. annars vegar og 3. mgr. 13. gr. hins vegar.
Ef dreifandi telur eða hefur ástæðu til að ætla að byggingarvara sé ekki í samræmi við yfirlýsinguna um nothæfi eða aðrar viðeigandi kröfur í þessari reglugerð skal dreifandinn ekki bjóða vöruna fram á markaði fyrr en hún samræmist meðfylgjandi yfirlýsingu um nothæfi og öðrum viðeigandi kröfum í þessari reglugerð eða þar til yfirlýsingin um nothæfi hefur verið leiðrétt. Ef áhætta stafar af vörunni skal dreifandinn enn fremur upplýsa framleiðandann eða innflytjandann sem og markaðseftirlitsyfirvöld þar um.
3. Dreifendur skulu tryggja að á meðan byggingarvara er á þeirra ábyrgð tefli geymslu- eða flutningsskilyrði ekki í tvísýnu samræmi hennar við yfirlýsinguna um nothæfi og aðrar viðeigandi kröfur í þessari reglugerð.
4. Dreifendur sem telja eða hafa ástæðu til að ætla að byggingarvara, sem þeir hafa boðið fram á markaði, sé ekki í samræmi við yfirlýsinguna um nothæfi eða aðrar viðkomandi kröfur í þessari reglugerð skulu ganga úr skugga um að gerðar séu þær ráðstafanir til úrbóta sem nauðsynlegar eru til að varan verði í samræmi við kröfur, til að taka hana af markaði eða innkalla, eftir því sem við á. Ef áhætta stafar af vörunni skulu dreifendur enn fremur tafarlaust upplýsa lögbær landsyfirvöld aðildarríkjanna þar sem varan var boðin fram á markaði þar um, einkum um tilvik þar sem ekki er farið að ákvæðum og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til úrbóta.
5. Dreifendur skulu, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá lögbæru landsyfirvaldi, afhenda yfirvaldinu allar upplýsingar og skjöl sem nauðsynleg eru til að sýna fram á samræmi byggingarvöru við yfirlýsinguna um nothæfi og aðrar viðeigandi kröfur í þessari reglugerð, á tungumáli sem það yfirvald hefur á valdi sínu. Þeir skulu hafa samvinnu við þetta yfirvald, að beiðni þess, að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af byggingarvörum sem þeir hafa boðið fram á markaði.
15. gr. Tilvik þar sem skyldur framleiðenda gilda um innflytjendur og dreifendur
Í skilningi þessarar reglugerðar telst innflytjandi eða dreifandi vera framleiðandi og skal hann gegna sömu skyldum og framleiðandi skv. 11. gr. þegar hann setur vöru á markað undir eigin nafni eða eigin vörumerki eða gerir breytingar á byggingarvöru, sem þegar hefur verið sett á markað, þannig að breytingarnar kunni að hafa áhrif á samræmi við yfirlýsinguna um nothæfi.
16. gr. Rekstraraðilar tilgreindir
Að ósk markaðseftirlitsyfirvalda og á því tímabili sem um getur í 2. mgr. 11. gr. skulu rekstraraðilar greina þeim frá eftirfarandi:
a) öllum rekstraraðilum sem hafa afhent þeim vöru,
b) öllum rekstraraðilum sem þeir hafa afhent vöru.
IV. kafli. Samhæfðar tækniforskriftir.
17. gr. Samhæfðir staðlar
1. Evrópskar staðlastofnanir, sem skráðar eru í I. viðauka við tilskipun 98/34/EB, skulu semja samhæfða staðla samkvæmt beiðni (hér á eftir nefnd „umboð“) sem framkvæmdastjórnin gefur út í samræmi við 6. gr. þeirrar tilskipunar að höfðu samráði við fastanefndina um byggingarmál sem um getur í 64. gr. þessarar reglugerðar (hér á eftir nefnd „fastanefndin um byggingarmál“).
2. Ef hagsmunaaðilar taka þátt í þróun samhæfðra staðla samkvæmt þessari grein skulu evrópskar staðlastofnanir sjá til þess að hinir ýmsu hópar hagsmunaaðila njóti í öllum tilvikum fyrirsvars með sanngjörnum og réttmætum hætti.
3. Í samhæfðum stöðlum skal kveðið á um aðferðir og viðmiðanir við mat á nothæfi byggingarvara í tengslum við mikilvæga eiginleika þeirra.
Ef kveðið er á um það í viðkomandi umboði skal samhæfður staðall vísa til áformaðra nota þeirra vara sem falla undir staðalinn.
Samhæfðir staðlar skulu, eftir því sem við á og án þess að stofna nákvæmni, áreiðanleika eða stöðugleika niðurstaðnanna í hættu, innihalda aðferðir sem eru kostnaðarminni og prófanir til að meta nothæfi byggingarvara í tengslum við mikilvæga eiginleika þeirra.
4. Evrópsku staðlastofnanirnar skulu ákvarða viðeigandi framleiðslustýringu í verksmiðju í samhæfðum stöðlum þar sem tillit skal tekið til sérstakra skilyrða framleiðsluferlis viðkomandi byggingarvöru.
Samhæfðu staðlarnir skulu innihalda tæknilegar upplýsingar sem eru nauðsynlegar við innleiðingu kerfis fyrir mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess.
5. Framkvæmdastjórnin skal meta hvort samhæfðu staðlarnir, sem evrópsku staðlastofnanirnar hafa samið, séu í samræmi við viðkomandi umboð.
Framkvæmdastjórnin skal birta í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins skrá yfir tilvísanir í samhæfða staðla sem eru í samræmi við viðkomandi umboð.
Fyrir hvern samhæfðan staðal í skránni skulu eftirfarandi atriði tilgreind:
a) tilvísanir í samhæfðar tækniforskriftir sem leystar eru af hólmi, ef einhverjar,
b) upphafsdagsetning samhliða gildistímabils,
c) lokadagsetning samhliða gildistímabils.
Framkvæmdastjórnin skal birta allar uppfærslur á þeirri skrá.
Frá upphafsdagsetningu samhliða gildistímabilsins skal vera unnt að nota samhæfðan staðal til að gera yfirlýsingu um nothæfi fyrir byggingarvöru sem fellur undir hann. Landsbundnum staðlastofnunum ber skylda til að innleiða samhæfðu staðlana í samræmi við tilskipun 98/34/EB.
Með fyrirvara um 36. til 38. gr. skal samhæfði staðallinn, frá lokadagsetningu samhliða gildistímans, vera eina aðferðin sem notuð er til að gera yfirlýsingu um nothæfi byggingarvöru, sem fellur undir þennan staðal.
Í lok samhliða gildistímabilsins skal fella ósamrýmanlega landsstaðla úr gildi og aðildarríki skulu fella úr gildi öll ósamrýmanleg ákvæði landslaga.
18. gr. Formleg andmæli gegn samhæfðum stöðlum
1. Ef aðildarríki eða framkvæmdastjórnin telur að samhæfður staðall fullnægi ekki að öllu leyti kröfunum sem settar eru fram í viðkomandi umboði skal hlutaðeigandi aðildarríki eða framkvæmdastjórnin, að höfðu samráði við fastanefndina um byggingarmál, leggja málið fyrir nefndina sem komið var á fót með 5. gr. tilskipunar 98/34/EB og greina frá ástæðunum fyrir því. Nefndin skal, að höfðu samráði við viðkomandi evrópskar staðlastofnanir, skila áliti sínu án tafar.
2. Framkvæmdastjórnin skal, á grundvelli álits nefndarinnar sem komið var á fót með 5. gr. tilskipunar 98/34/EB, ákveða að birta, birta ekki, birta með takmörkunum, viðhalda, viðhalda með takmörkunum eða draga til baka tilvísanir í viðkomandi samhæfðan staðal í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
3. Framkvæmdastjórnin skal veita viðkomandi evrópskri staðlastofnun upplýsingar um ákvörðun sína og, ef nauðsyn krefur, óska eftir endurskoðun á viðkomandi samhæfðum staðli.
19. gr. Evrópskt matsskjal
1. Að fenginni beiðni um evrópskt tæknimat frá framleiðanda skulu samtök tæknimatsstofnana gera og samþykkja evrópskt matsskjal fyrir allar byggingarvörur, sem ekki falla undir eða falla ekki að fullu undir samhæfðan staðal, sem ekki er hægt að meta að fullu nothæfi fyrir í tengslum við mikilvæga eiginleika samkvæmt gildandi samhæfðum staðli, m.a. vegna þess:
a) að varan fellur ekki undir gildissvið fyrirliggjandi samhæfðra staðla,
b) að matsaðferðin sem kveðið er á um í samhæfða staðlinum er ekki viðeigandi fyrir a.m.k. einn mikilvægan eiginleika vörunnar eða
c) að í samhæfða staðlinum er ekki kveðið á um neina matsaðferð í tengslum við a.m.k. einn mikilvægan eiginleika vörunnar.
2. Við málsmeðferð til samþykktar evrópska matsskjalsins skal tillit tekið til meginreglnanna sem settar eru fram í 20. gr. og skal hún vera í samræmi við 21. gr. og II. viðauka.
3. Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framseldar gerðir í samræmi við 60. gr. til að breyta II. viðauka og setja viðbótarreglur um málsmeðferð fyrir þróun og samþykkt evrópsks matsskjals.
4. Framkvæmdastjórnin skal, eftir því sem við á og að höfðu samráði við fastanefndina um byggingarmál, taka fyrirliggjandi evrópsk matsskjöl til grundvallar umboðunum sem gefa á út skv. 1. mgr. 17. gr. í því skyni að þróa samhæfða staðla að því er varðar vörurnar sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar.
20. gr. Meginreglur um þróun og samþykkt evrópskra matsskjala
1. Málsmeðferðin fyrir þróun og samþykkt evrópskra matsskjala skal:
a) vera gagnsæ fyrir viðkomandi framleiðanda,
b) skilgreina viðeigandi skyldubundin tímamörk í því skyni að komast hjá ótilhlýðilegum töfum,
c) taka tilhlýðilegt tillit til verndunar viðskiptaleyndar og trúnaðarkvaða,
d) gera ráð fyrir fullnægjandi þátttöku framkvæmdastjórnarinnar,
e) vera kostnaðarhagkvæm fyrir framleiðandann og
f) tryggja fullnægjandi samvinnu og samræmingu á milli tæknimatsstofnana sem tilnefndar eru fyrir viðkomandi vöru.
2. Tæknimatsstofnanir skulu, ásamt samtökum tæknimatsstofnana, bera allan kostnað við þróun og samþykkt evrópskra matsskjala.
21. gr. Skyldur tæknimatsstofnunarinnar sem tekur við beiðni um evrópskt tæknimat
1. Tæknimatsstofnun, sem tekur við beiðni um evrópskt tæknimat, skal tilkynna framleiðandanum um það hvort byggingarvaran falli að fullu eða að hluta til undir samhæfða tækniforskrift með eftirfarandi hætti:
a) ef varan fellur að fullu undir samhæfðan staðal skal tæknimatsstofnunin tilkynna framleiðandanum um að ekki sé hægt að gefa út evrópskt tæknimat í samræmi við 1. mgr. 19. gr.,
b) ef varan fellur að fullu undir evrópskt matsskjal skal tæknimatsstofnunin tilkynna framleiðandanum um að það skjal verði notað sem grunnur að evrópska tæknimatinu sem gefið verður út,
c) ef varan fellur ekki, eða fellur ekki að fullu, undir neina samhæfða tækniforskrift skal tæknimatsstofnunin beita málsmeðferðinni, sem sett er fram í II. viðauka eða sem komið er á í samræmi við 3. mgr. 19. gr.
2. Í þeim tilvikum sem um getur í b- og c-lið 1. mgr. skal tæknimatsstofnunin tilkynna samtökum tæknimatsstofnana og framkvæmdastjórninni um efni beiðninnar og um tilvísun í viðkomandi ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess, sem tæknimatsstofnunin hyggst nota fyrir vöruna, eða um að slík ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar sé ekki til.
3. Ef framkvæmdastjórnin telur að viðeigandi ákvörðun um mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess sé ekki til fyrir byggingarvöruna þá gildir 28. gr.
22. gr. Birting
Evrópsk matsskjöl, sem samþykkt eru af samtökum tæknimatsstofnana, skulu send framkvæmdastjórninni sem á að birta skrá yfir tilvísanir í endanleg evrópsk matsskjöl í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Framkvæmdastjórnin skal birta allar uppfærslur á þeirri skrá.
23. gr. Lausn deilumála ef ágreiningur er á milli tæknimatsstofnana
Ef tæknimatsstofnanir ná ekki samkomulagi um evrópska matsskjalið innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um skulu samtök tæknimatsstofnana leggja málið fyrir framkvæmdastjórnina til viðeigandi úrlausnar.
24. gr. Efni evrópska matsskjalsins
1. Evrópskt matsskjal skal a.m.k. innihalda almenna lýsingu á byggingarvörunni, skrá yfir mikilvæga eiginleika sem skipta máli fyrir not vörunnar, eins og þau eru áformuð af framleiðanda og sem samkomulag ríkir um milli framleiðandans og samtaka tæknimatsstofnana, sem og aðferðir og viðmið við mat á nothæfi vörunnar í tengslum við þessa mikilvægu eiginleika.
2. Evrópska matsskjalið skal innihalda þær meginreglur sem nota á fyrir viðkomandi framleiðslustýringu í verksmiðju að teknu tilliti til skilyrða vegna framleiðsluferlis byggingarvörunnar sem um er að ræða.
3. Ef hægt er að meta nothæfi sumra mikilvægra eiginleika vörunnar á viðeigandi hátt með aðferðum og viðmiðunum, sem þegar hefur verið komið á í öðrum samhæfðum tækniforskriftum eða í þeim viðmiðunarreglum sem um getur í 3. mgr. 66. gr. eða sem notaðar eru í samræmi við 9. gr. tilskipunar 89/106/EBE fyrir 1. júlí 2013 í tengslum við útgáfu evrópsks tæknisamþykkis, skulu þessar fyrirliggjandi aðferðir og viðmiðanir teknar upp sem hluti af evrópska matsskjalinu.
25. gr. Formleg andmæli gegn evrópskum matsskjölum
1. Ef aðildarríki eða framkvæmdastjórnin telur að evrópskt matsskjal uppfylli ekki fyllilega kröfurnar í tengslum við grunnkröfur um mannvirki sem settar eru fram í I. viðauka skal hlutaðeigandi aðildarríki eða framkvæmdastjórnin leggja málið fyrir fastanefndina um byggingarmál og rökstyðja mál sitt. Fastanefndin um byggingarmál skal, að höfðu samráði við samtök tæknimatsstofnana, skila áliti sínu án tafar.
2. Framkvæmdastjórnin ákveður, á grundvelli álits fastanefndarinnar um byggingarmál, að birta, birta ekki, birta með takmörkunum, viðhalda, viðhalda með takmörkunum eða draga til baka tilvísanir í viðkomandi evrópsk matsskjöl í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
3. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna samtökum tæknimatsstofnana um það og, ef nauðsyn krefur, óska eftir endurskoðun á evrópska matsskjalinu sem um er að ræða.
26. gr. Evrópskt tæknimat
1. Tæknimatsstofnun skal gefa út evrópskt tæknimat að beiðni framleiðanda á grundvelli evrópsks matsskjals sem unnið er í samræmi við málsmeðferðina sem sett er fram í 21. gr. og II. viðauka.
Að því tilskildu að evrópskt matsskjal liggi fyrir má gefa út evrópskt tæknimat, jafnvel í tilvikum þar sem umboð fyrir samhæfðan staðal hefur verið gefið út. Slík útgáfa skal vera möguleg fram að upphafi samhliða gildistímabilsins eins og það er ákvarðað af framkvæmdastjórninni í samræmi við 5. mgr. 17. gr.
2. Evrópskt tæknimat skal innihalda það nothæfi, sem tilgreina skal, gefið upp í stigum eða flokkum, eða í lýsingu, í tengslum við þá mikilvægu eiginleika sem samkomulag ríkir um milli framleiðandans og tæknimatsstofnunarinnar sem tekur við beiðninni um evrópskt tæknimat fyrir tilgreind, áformuð not, og tæknilegar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að framkvæma mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess.
3. Til að tryggja samræmda framkvæmd þessarar greinar skal framkvæmdastjórnin samþykkja framkvæmdargerðir til að ákvarða framsetningu evrópska tæknimatsins í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr.
27. gr. Nothæfisstig eða -flokkar
1. Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framseldar gerðir í samræmi við 60. gr. til að koma á nothæfisflokkum að því er varðar mikilvæga eiginleika byggingarvara.
2. Ef framkvæmdastjórnin hefur ákveðið nothæfisflokka að því er varðar mikilvæga eiginleika byggingarvara skulu evrópskar staðlastofnanir nota þessa flokka í samhæfðum stöðlum. Samtök tæknimatsstofnana skulu, ef við á, nota þessa flokka í evrópskum matsskjölum.
Ef framkvæmdastjórnin hefur ekki ákveðið nothæfisflokka að því er varðar mikilvæga eiginleika byggingarvara geta evrópskar staðlastofnanir ákveðið þá í samhæfðum stöðlum á grundvelli endurskoðaðs umboðs.
3. Ef kveðið er á um það í viðkomandi umboðum skulu evrópskar staðlastofnanir ákveða viðmiðunargildin í samhæfðum stöðlum í tengslum við mikilvæga eiginleika og áformuð not, ef við á, sem byggingarvörur í aðildarríkjunum þurfa að uppfylla.
4. Þegar evrópskar staðlastofnanir hafa ákvarðað nothæfisflokka í samhæfðum staðli skulu samtök tæknimatsstofnana nota þessa flokka í evrópsku matsskjölunum ef þeir eiga við byggingarvöruna.
Ef það telst viðeigandi geta samtök tæknimatsstofnana, með samþykki framkvæmdastjórnarinnar og að höfðu samráði við fastanefndina um byggingarmál, ákvarðað nothæfisflokka og viðmiðunargildi í evrópskum matsskjölum í tengslum við mikilvæga eiginleika byggingarvöru hvað varðar not hennar, eins og þau eru áformuð af framleiðandanum.
5. Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framseldar gerðir í samræmi við 60. gr. til að ákveða samkvæmt hvaða skilyrðum byggingarvörur teljast uppfylla tiltekið nothæfisstig eða -flokk án prófana eða án frekari prófana.
Ef framkvæmdastjórnin ákveður ekki slík skilyrði geta evrópskar staðlastofnanir ákveðið þau í samhæfðum stöðlum á grundvelli endurskoðaðs umboðs.
6. Þegar framkvæmdastjórnin hefur ákveðið flokkunarkerfi í samræmi við 1. mgr. geta aðildarríki aðeins ákvarðað hvaða nothæfisstig eða -flokka byggingarvörur eiga að virða í tengslum við mikilvæga eiginleika þeirra í samræmi við þessi flokkunarkerfi.
7. Evrópskar staðlastofnanir og samtök tæknimatsstofnana skulu virða þörf aðildarríkjanna fyrir reglur þegar viðmiðunargildi eða flokkar nothæfis eru ákvarðaðir.
28. gr. Mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess
1. Mat á nothæfi byggingarvara í tengslum við mikilvæga eiginleika þeirra og sannprófun á stöðugleika þess skal fara fram í samræmi við eitt af þeim kerfum sem sett eru fram í V. viðauka.
2. Framkvæmdastjórnin skal ákveða með framseldum gerðum í samræmi við 60. gr., og má endurskoða, hvaða kerfi eigi að nota fyrir tiltekna byggingarvöru eða tiltekna flokka byggingarvara eða tiltekinn mikilvægan eiginleika, einkum með tilliti til áhrifa þess á heilbrigði og öryggi fólks og á umhverfið. Í þessu sambandi skal framkvæmdastjórnin einnig taka mið af skjalfestri reynslu sem landsyfirvöld hafa komið á framfæri að því er varðar markaðseftirlit.
Framkvæmdastjórnin skal velja kerfið eða kerfin sem hafa minnstan kostnað í för með sér og samræmast uppfyllingu allra grunnkrafna um mannvirki.
3. Kerfið eða kerfin sem þannig eru valin skulu tilgreind í umboðunum fyrir samhæfða staðla og í samhæfðum tækniforskriftum.
V. kafli. Tæknimatsstofnanir.
29. gr. Tilnefning, eftirlit og mat á tæknimatsstofnunum
1. Aðildarríki mega tilnefna tæknimatsstofnanir á yfirráðasvæðum sínum, einkum fyrir eitt eða fleiri vörusvið sem skráð eru í töflu 1 í IV. viðauka.
Aðildarríki, sem hafa tilnefnt tæknimatsstofnun, skulu tilkynna hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni um nafn hennar og heimilisfang og vörusviðið sem tæknimatsstofnunin er tilnefnd fyrir.
2. Framkvæmdastjórnin skal gera skrá yfir tæknimatsstofnanir aðgengilegar öllum með rafrænum hætti og tiltaka vörusviðin sem þær eru tilnefndar fyrir og leitast við að ná mesta mögulega gagnsæi.
Framkvæmdastjórnin skal gera allar uppfærslur á skránni aðgengilegar öllum.
3. Aðildarríki skulu fylgjast með starfsemi og hæfi þeirra tæknimatsstofnana sem þau hafa tilnefnt og meta þær í tengslum við viðkomandi kröfur sem settar eru fram í töflu 2 í IV. viðauka.
Aðildarríki skulu upplýsa framkvæmdastjórnina um þá málsmeðferð sem þau beita við tilnefningu tæknimatsstofnana, mat á starfsemi þeirra og hæfi, og um allar breytingar þar á.
4. Framkvæmdastjórnin skal samþykkja viðmiðunarreglur um framkvæmd mats á tæknimatsstofnunum að höfðu samráði við fastanefndina um byggingarmál.
30. gr. Kröfur til tæknimatsstofnana
1. Tæknimatsstofnun skal framkvæma matið og gefa út evrópskt tæknimat á vörusviði sem hún hefur verið tilnefnd fyrir.
Tæknimatsstofnunin skal uppfylla kröfurnar sem settar eru fram í töflu 2 í IV. viðauka innan gildissviðs tilnefningarinnar.
2. Tæknimatsstofnun skal gera skipurit sitt öllum aðgengilegt sem og nöfn þeirra aðila sem fara með ákvarðanatöku fyrir hennar hönd.
3. Ef tæknimatsstofnun uppfyllir ekki lengur kröfurnar sem um getur í 1. mgr. skal aðildarríki draga til baka tilnefningu þeirrar tæknimatsstofnunar fyrir viðkomandi vörusvið og upplýsa framkvæmdastjórnina og hin aðildarríkin um það.
31. gr. Samræming tæknimatsstofnana
1. Tæknimatsstofnanir skulu koma á fót samtökum um tæknimat.
2. Líta ber á samtök tæknimatsstofnana sem stofnun sem vinnur að því að ná fram almennum evrópskum hagsmunum í skilningi 162. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB, KBE) nr. 2342/2002 frá 23. desember 2002 þar sem mælt er fyrir um ítarlegar reglur um framkvæmd reglugerðar ráðsins (EB, KBE) nr. 1605/2002 um fjárhagsreglugerðina sem gildir um fjárlög Evrópubandalaganna (Stjtíð. EB L 357, 31.12.2002, bls. 1.).
3. Skilgreina má sameiginleg samstarfsmarkmið og stjórnsýsluleg og fjárhagsleg skilyrði í tengslum við styrki sem veittir eru samtökum tæknimatsstofnana í rammasamstarfssamningi sem undirritaður er af framkvæmdastjórninni og samtökunum í samræmi við reglugerð ráðsins (EB, KBE) nr. 1605/2002 frá 25. júní 2002 um fjárhagsreglugerðina sem gildir um fjárlög Evrópubandalaganna (Stjtíð. EB L 248, 16.9.2002, bls. 1.) (fjárhagsreglugerðin) og reglugerð (EB, KBE) nr. 2342/2002. Evrópuþingið og ráðið skulu upplýst um niðurstöðu úr hvers konar samkomulagi af því tagi.
4. Samtök tæknimatsstofnana skulu framkvæma eftirfarandi verkefni hið minnsta:
a) skipuleggja samræmingu tæknimatsstofnana og, ef nauðsyn krefur, tryggja samstarf og samráð við aðra hagsmunaaðila,
b) tryggja að tæknimatsstofnanir skiptist á dæmum um bestu starfsvenjur til að stuðla að aukinni skilvirkni og veita iðnaði betri þjónustu,
c) samræma beitingu málsmeðferðarinnar sem sett er fram í 21. gr. og í II. viðauka auk þess að veita nauðsynlegan stuðning til að ná því markmiði,
d) þróa og samþykkja evrópsk matsskjöl,
e) upplýsa framkvæmdastjórnina um öll vafaatriði í tengslum við gerð evrópskra matsskjala og um alla þætti í tengslum við túlkun málsmeðferðarinnar sem sett er fram í 21. gr. og í II. viðauka og leggja fyrir framkvæmdastjórnina tillögur um endurbætur á grundvelli fenginnar reynslu,
f) senda framkvæmdastjórninni og aðildarríkinu, sem tilnefndi tæknimatsstofnunina, allar athugasemdir varðandi tæknimatsstofnun sem ekki sinnir verkefnum sínum í samræmi við málsmeðferðina sem sett er fram í 21. gr. og II. viðauka,
g) sjá til þess að samþykkt evrópsk matsskjöl og tilvísanir í evrópskt tæknimat séu gerð aðgengileg öllum.
Samtök tæknimatsstofnana skulu hafa skrifstofu til að framkvæma þessi verkefni.
5. Aðildarríki skulu sjá til þess að tæknimatsstofnanir leggi til fjármagn og mannauð til samtaka tæknimatsstofnana.
32. gr. Fjármögnun frá Sambandinu
1. Heimilt er að veita samtökum tæknimatsstofnana fjárstuðning frá Sambandinu vegna framkvæmdar þeirra verkefna sem um getur í 4. mgr. 31. gr.
2. Fjárframlögin, sem úthlutað er til verkefnanna sem sett eru fram í 4. mgr. 31. gr., skal fjárveitingarvaldið ákvarða árlega innan marka gildandi fjárhagsramma.
33. gr. Fjármögnunarfyrirkomulag
1. Veita skal samtökum tæknimatsstofnana fjárstuðning frá Sambandinu, án auglýsingar eftir tillögum, til að framkvæma þau verkefni sem um getur í 4. mgr. 31. gr. sem unnt er að veita styrki til í samræmi við fjárhagsreglugerðina.
2. Heimilt er að fjármagna starfsemi skrifstofu samtaka tæknimatsstofnana sem um getur í 4. mgr. 31. gr. á grundvelli rekstrarstyrkja. Ef um er að ræða endurnýjun skulu rekstrarstyrkirnir ekki lækka sjálfkrafa.
3. Í styrkjasamkomulagi má heimila að fastur kostnaður styrkþegans, að hámarki 10% af leyfilegum heildarkostnaði við aðgerðir, falli undir styrkinn, að því undanskildu ef óbeinn kostnaður styrkþegans fellur undir rekstrarstyrk sem fjármagnaður er af fjárlögum Sambandsins.
34. gr. Stjórnun og eftirlit
1. Fjárveitingarnar, sem fjárveitingavaldið ákvarðar til að fjármagna verkefnin sem sett eru fram í 4. mgr. 31. gr., geta einnig tekið til stjórnunarkostnaðar í tengslum við undirbúning, eftirlit, skoðun, úttekt og mat, sem eru beinlínis nauðsynleg til að ná markmiðum þessarar reglugerðar, einkum starfsemi í tengslum við rannsóknir, fundi, upplýsingar og útgáfu, kostnað í tengslum við upplýsinganet til að skiptast á upplýsingum og allan annan kostnað vegna stjórnunar- og tækniaðstoðar sem framkvæmdastjórninni er heimilt að nota við gerð og samþykkt evrópskra matsskjala og útgáfu evrópsks tæknimats.
2. Framkvæmdastjórnin skal meta mikilvægi verkefnanna sem um getur í 4. mgr. 31. gr. sem Sambandið fjármagnar í ljósi krafna sem settar eru fram í stefnu og löggjöf Sambandsins og upplýsa Evrópuþingið og ráðið um útkomuna úr því mati eigi síðar en 1. janúar 2017 og á fjögurra ára fresti eftir það.
35. gr. Verndun fjárhagslegra hagsmuna Sambandsins
1. Framkvæmdastjórnin skal tryggja verndun fjárhagslegra hagsmuna Sambandsins þegar gripið er til aðgerða sem fjármagnaðar eru samkvæmt þessari reglugerð, með fyrirbyggjandi ráðstöfunum gegn svikum, spillingu og annarri ólögmætri starfsemi, með skilvirku eftirliti og með því að endurheimta fjárhæðir, sem greiddar hafa verið á óréttmætan hátt, og, ef í ljós kemur brot á reglum, með viðurlögum sem eru skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi, í samræmi við reglugerð ráðsins (EB, KBE) nr. 2988/95 frá 18. desember 1995 um verndun fjárhagslegra hagsmuna Evrópubandalaganna (Stjtíð. EB L 312, 23.12.1995, bls. 1.), reglugerð ráðsins (KBE, EB) nr. 2185/96 frá 11. nóvember 1996 um vettvangseftirlit og athuganir sem framkvæmdastjórnin framkvæmir til þess að vernda fjárhagslega hagsmuni Evrópubandalaganna gegn svikum og öðrum brotum (Stjtíð. EB L 292, 15.11.1996, bls. 2.) og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1073/1999 frá 25. maí 1999 um rannsóknir Evrópuskrifstofunnar um aðgerðir gegn svikum (OLAF) (Stjtíð. EB L 136, 31.5.1999, bls. 1.).
2. Að því er varðar aðgerðir sem eru fjármagnaðar samkvæmt þessari reglugerð, skal hugtakið brot, sem um getur í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar (EB, KBE) nr. 2988/95, merkja hvers kyns brot á ákvæðum laga Sambandsins eða hvers kyns brot á samningsskyldum, vegna athafna eða athafnaleysis rekstraraðila, sem hefur eða getur haft þau áhrif að tefla fjárlögum Sambandsins, eða fjárlögum undir stjórn þess í tvísýnu með óréttmætum útgjaldalið.
3. Í öllum samningum og gerningum, sem rekja má til þessarar reglugerðar, skal kveða á um að framkvæmdastjórnin, eða sá fulltrúi hennar sem hún viðurkennir, annist eftirlit og að endurskoðunarrétturinn annist endurskoðun sem unnt er að framkvæma á staðnum ef nauðsyn krefur.
VI. kafli. Einfölduð málsmeðferð.
36. gr. Notkun viðeigandi tæknigagna
1. Þegar gerðareintak er ákvarðað getur framleiðandi skipt út gerðarprófunum eða gerðarútreikningum fyrir viðeigandi tæknigögn sem sýna fram á:
a) að fyrir einn eða fleiri af mikilvægum eiginleikum byggingarvörunnar, sem framleiðandi setur á markað, teljist varan ná tilteknu nothæfisstigi eða -flokki án prófana eða útreikninga, eða án frekari prófana eða útreikninga, í samræmi við skilyrðin sem sett eru fram í viðkomandi samhæfðum tækniforskriftum eða í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar,
b) að byggingarvaran, sem fellur undir samhæfðan staðal, sem framleiðandinn setur á markað samsvari gerðareintaki annarrar byggingarvöru sem framleidd er af öðrum framleiðanda og sem hefur þegar verið prófuð í samræmi við viðkomandi samhæfðan staðal. Þegar þessi skilyrði eru uppfyllt hefur framleiðandinn rétt til að tilgreina nothæfi sem samsvarar öllum eða hluta af niðurstöðum úr prófunum á hinni vörunni. Framleiðandi má aðeins nota niðurstöður úr prófun sem annar framleiðandi hefur fengið ef hann hefur fengið leyfi frá þeim framleiðanda sem telst áfram vera ábyrgur fyrir nákvæmni, áreiðanleika og stöðugleika þeirra niðurstaðna, eða
c) að byggingarvaran, sem fellur undir samhæfða tækniforskrift, sem framleiðandinn setur á markað sé kerfi sem samanstendur af íhlutum sem framleiðandinn setur saman með því að fylgja nákvæmlega ítarlegum leiðbeiningum söluaðila slíks kerfis eða íhlutar þess sem hefur þegar prófað viðkomandi kerfi eða íhlut fyrir einn eða fleiri af mikilvægum eiginleikum þess/hans í samræmi við viðkomandi samhæfða tækniforskrift. Þegar þessi skilyrði eru uppfyllt hefur framleiðandinn rétt til að tilgreina nothæfi sem samsvarar öllum eða hluta af niðurstöðum úr prófunum á því kerfi eða þeim íhlut sem framleiðandinn hefur fengið afhent. Framleiðandi má aðeins nota niðurstöður úr prófun, sem annar framleiðandi eða söluaðili kerfis hefur fengið, með leyfi frá þeim framleiðanda eða söluaðila kerfis, sem mun áfram bera ábyrgð á nákvæmni, áreiðanleika og stöðugleika þessara niðurstaðna.
2. Ef byggingarvaran, sem um getur í 1. mgr., tilheyrir flokki byggingarvara þar sem viðeigandi kerfi fyrir mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess er kerfi 1+ eða 1, sem sett eru fram í V. viðauka, skulu tilkynntir vottunaraðilar fyrir vöru sem um getur í V. viðauka staðfesta viðeigandi tæknigögn sem um getur í 1. mgr.
37. gr. Notkun einfaldaðrar málsmeðferðar í örfyrirtækjum
Örfyrirtæki sem framleiða byggingarvörur sem falla undir samhæfðan staðal geta skipt út ákvörðun gerðareintaks á grundvelli gerðarprófana í samræmi við viðeigandi kerfi 3 og 4, sem sett eru fram í V. viðauka, með því að nota aðrar aðferðir en þær sem eru í viðkomandi samhæfðum staðli. Þessir framleiðendur geta einnig farið með byggingarvörur, sem falla undir kerfi 3, í samræmi við ákvæðin sem gilda um kerfi 4. Ef framleiðandi notar þessa einfölduðu málsmeðferð skal hann sýna fram á að byggingarvaran sé í samræmi við viðkomandi kröfur með sértækum tæknigögnum og sýna fram á jafngildi málsmeðferðarinnar sem notuð er við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í samhæfðum stöðlum.
38. gr. Önnur einfölduð málsmeðferð
1. Þegar um er að ræða byggingarvörur sem falla undir samhæfðan staðal og sem framleiddar eru í stykkjatali eða sérsmíðaðar eftir sérstakri pöntun í framleiðsluferli sem ekki telst raðframleiðsla og þær settar upp í einu tilteknu mannvirki, má framleiðandi skipta út nothæfismati viðkomandi kerfis, sem sett er fram í V. viðauka, fyrir sértæk tæknigögn sem sýna fram á samræmi vörunnar við viðkomandi kröfur og jafngildi málsmeðferðarreglnanna sem eru notaðar við málsmeðferðarreglur sem mælt er fyrir um í samhæfðum stöðlum.
2. Ef byggingarvaran, sem um getur í 1. mgr., tilheyrir flokki byggingarvara þar sem viðeigandi kerfi fyrir mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess er kerfi 1+ eða 1, sem sett eru fram í V. viðauka, skal tilkynntur vottunaraðili fyrir vöru, sem um getur í V. viðauka, staðfesta sértæku tæknigögnin.
VII. kafli. Tilkynningaryfirvöld og tilkynntir aðilar.
39. gr. Tilkynning
Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum um aðila sem hafa heimild til að framkvæma verkefni þriðja aðila við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess samkvæmt þessari reglugerð (hér á eftir nefndir „tilkynntir aðilar“).
40. gr. Tilkynningaryfirvöld
1. Aðildarríki skulu tilnefna tilkynningaryfirvald sem ber ábyrgð á því að koma á fót og framfylgja nauðsynlegri málsmeðferð til að meta og tilkynna um aðila sem er heimilað að framkvæma verkefni þriðja aðila við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess samkvæmt þessari reglugerð og vakta tilkynnta aðila, þ.m.t. hvort þeir fari að 43. gr.
2. Aðildarríki geta ákveðið að faggildingarstofnun í aðildarríki, í skilningi og í samræmi við reglugerð (EB) nr. 765/2008, annist matið og vöktunina sem um getur í 1. mgr.
3. Ef tilkynningaryfirvaldið úthlutar mati, tilkynningu eða vöktun, sem um getur í 1. mgr., til annars aðila sem er ekki stjórnvald eða felur það slíkum aðila með öðrum hætti skal þessi aðili vera lögaðili og skal að breyttu breytanda fara að kröfunum sem mælt er fyrir um í 41. gr. Að auki skal aðilinn gera ráðstafanir til að standa straum af bótaábyrgð sem skapast getur af starfsemi hans.
4. Tilkynningaryfirvaldið skal bera fulla ábyrgð á þeim verkefnum sem aðilinn, sem um getur í 3. mgr., framkvæmir.
41. gr. Kröfur til tilkynningaryfirvalda
1. Tilkynningaryfirvaldinu skal komið á fót með þeim hætti að engir hagsmunaárekstrar við tilkynnta aðila eigi sér stað.
2. Tilkynningaryfirvaldið skal skipulagt og starfrækt þannig að það standi vörð um hlutlægni og óhlutdrægni starfseminnar.
3. Tilkynningaryfirvaldið skal skipulagt þannig að allar ákvarðanir að því er varðar tilkynningar um aðila, sem veita skal heimild til að framkvæma verkefni þriðja aðila í tengslum við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess, séu teknar af lögbærum einstaklingum öðrum en þeim sem framkvæmdu matið.
4. Tilkynningaryfirvaldið skal ekki bjóða eða sinna neinni starfsemi sem tilkynntir aðilar annast, eða sinna ráðgjafarþjónustu á viðskipta- eða samkeppnisgrundvelli.
5. Tilkynningaryfirvaldið skal tryggja að upplýsingar sem það fær séu meðhöndlaðar sem trúnaðarmál.
6. Tilkynningaryfirvaldið skal hafa yfir að ráða nægilegum fjölda hæfra starfsmanna til að sinna verkefnum sínum á viðeigandi hátt.
42. gr. Upplýsingaskylda aðildarríkja
Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um landsbundna málsmeðferð sína í tengslum við mat og tilkynningu á aðilum sem er heimilað að framkvæma verkefni þriðja aðila við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess og í tengslum við eftirlit með tilkynntum aðilum og um allar breytingar þar á.
Framkvæmdastjórnin skal gera þessar upplýsingar aðgengilegar öllum.
43. gr. Kröfur til tilkynntra aðila
1. Að því er varðar tilkynningu skulu tilkynntir aðilar uppfylla kröfurnar sem settar eru fram í 2. til 11. mgr.
2. Tilkynntum aðila skal komið á fót samkvæmt landslögum og hann skal hafa réttarstöðu lögaðila.
3. Tilkynntur aðili skal vera þriðji aðili sem er óháður fyrirtækinu eða byggingarvörunni sem verið er að meta.
Þessi aðili getur tilheyrt viðskiptasamtökum eða fagfélögum sem koma fram fyrir hönd fyrirtækja sem fást við hönnun, framleiðslu, öflun, samsetningu, notkun eða viðhald byggingarvara sem honum er falið að meta með því skilyrði að sýnt sé fram á að hann sé óháður og laus við hagsmunaárekstra.
4. Tilkynntur aðili, æðstu stjórnendur hans og starfsfólk sem ber ábyrgð á framkvæmd verkefna þriðja aðila við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess skulu hvorki vera hönnuðir, framleiðendur, birgjar, uppsetningaraðilar, innkaupsaðilar, eigendur, notendur eða viðhaldsaðilar byggingarvaranna sem þeir meta né vera viðurkenndir fulltrúar neins þessara aðila. Þetta skal þó ekki útiloka þá notkun á vörunum, sem verið er að meta, sem er nauðsynleg fyrir starfsemi tilkynnta aðilans eða persónulega notkun á slíkum vörum.
Tilkynntur aðili, æðstu stjórnendur hans og starfsfólk sem ber ábyrgð á framkvæmd verkefna þriðja aðila við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess skulu ekki taka beinan þátt í hönnun, framleiðslu eða smíði, markaðssetningu, uppsetningu, notkun eða viðhaldi byggingarvaranna, né vera fulltrúar þeirra aðila sem fást við slíka starfsemi. Þau skulu ekki taka þátt í neinni starfsemi sem gæti haft áhrif á sjálfstætt mat þeirra og heilindi í tengslum við þá starfsemi sem þeir eru tilkynntir fyrir. Þetta gildir einkum að því er varðar ráðgjafarþjónustu.
Tilkynntur aðili skal tryggja að starfsemi dótturfyrirtækja þeirra eða undirverktaka hafi ekki áhrif á trúnað, hlutlægni og óhlutdrægni í mats- og/eða sannprófunarstörfum þeirra.
5. Tilkynntir aðilar og starfsfólk þeirra skulu annast verkefni þriðja aðila við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess af faglegri ráðvendni á hæsta stigi og með nauðsynlegri tæknikunnáttu á viðkomandi sviði og vera laus við allan þrýsting og hvata, einkum fjárhagslegan, sem kynni að hafa áhrif á mat þeirra eða niðurstöður mats- og/eða sannprófunarstarfa þeirra, einkum frá einstaklingum eða hópum einstaklinga sem eiga hagsmuna að gæta varðandi niðurstöður þessarar starfsemi.
6. Tilkynntur aðili skal vera fær um að framkvæma öll þau verkefni þriðja aðila við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess sem honum hafa verið falin í samræmi við V. viðauka og sem hann er tilkynntur aðili fyrir, hvort sem tilkynnti aðilinn framkvæmir verkefnin sjálfur eða þau eru framkvæmd fyrir hönd hans og á hans ábyrgð.
Tilkynntur aðili skal ávallt, og fyrir öll kerfi fyrir mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess og fyrir hverja gerð eða hvern flokk byggingarvara, og fyrir alla mikilvæga eiginleika og verkefni sem hann er tilkynntur aðili fyrir, hafa eftirfarandi til umráða:
a) nauðsynlegt starfsfólk sem býr yfir tækniþekkingu og nægilegri og viðeigandi reynslu til að framkvæma verkefni þriðja aðila við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess,
b) nauðsynlegar lýsingar á þeirri málsmeðferð sem beitt er við mat á nothæfi, sem tryggja gagnsæi og getu til að endurtaka þessa málsmeðferð og hann skal hafa tiltæka viðeigandi stefnur og málsmeðferð til að gera greinarmun á verkefnum sem hann framkvæmir sem tilkynntur aðili og annarri starfsemi,
c) nauðsynlega málsmeðferð til að sinna starfsemi sinni þar sem tekið er tilhlýðilegt tillit til stærðar fyrirtækis, geirans sem það starfar í, skipulags þess, hversu flókin tæknin er í vörunni sem um er að ræða og hvort um fjölda- eða raðframleiðslu er að ræða.
Tilkynntur aðili skal hafa yfir að ráða öllum þeim úrræðum sem nauðsynleg eru til að geta framkvæmt á réttan hátt þau tæknilegu og stjórnsýslulegu störf sem tengjast starfseminni sem hann er tilkynntur aðili fyrir og hafa aðgang að öllum nauðsynlegum búnaði eða aðstöðu.
7. Það starfsfólk sem er ábyrgt fyrir starfseminni á því sviði sem aðilinn er tilkynntur fyrir skal búa yfir eftirfarandi:
a) traustri tækni- og fagmenntun sem nær til allra verkefna þriðja aðila við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess á því sviði sem aðilinn hefur verið tilkynntur fyrir,
b) fullnægjandi þekkingu á þeim kröfum sem eru gerðar við matið og sannprófunina sem starfsfólkið annast og fullnægjandi heimild til að annast slík verkefni,
c) fullnægjandi þekkingu og skilning á gildandi samhæfðum stöðlum og viðkomandi ákvæðum reglugerðarinnar,
d) getu til þess að útbúa þær staðfestingar, skrár og skýrslur sem sýna að mat hafi verið unnið og sannprófun hafi farið fram.
8. Óhlutdrægni tilkynnta aðilans, æðstu stjórnenda hans og starfsfólks sem gerir matið skal tryggð.
Þóknun æðstu starfsmanna og starfsfólks tilkynnta aðilans sem annast mat skulu hvorki vera háð fjölda matsgerða sem unnar eru né niðurstöðum slíkra matsgerða.
9. Tilkynntir aðilar skulu hafa ábyrgðartryggingu nema aðildarríkið taki á sig ábyrgð samkvæmt landslögum eða aðildarríkið sjálft beri beina ábyrgð á matinu og/eða sannprófuninni.
10. Starfsfólk tilkynnta aðilans skal gæta þagnarskyldu um allar upplýsingar sem það aflar sér í starfi, skv. V. viðauka, nema gagnvart lögbærum stjórnvöldum aðildarríkisins þar sem starfsemin fer fram. Einkaleyfisréttur skal varinn.
11. Tilkynntur aðili skal taka þátt í, eða tryggja að það starfsfólk, sem annast matið, sé upplýst um viðeigandi vinnu við gerð staðla og starfsemi innan samræmingarhóps tilkynnta aðilans, sem komið er á fót samkvæmt þessari reglugerð, og skal nota sem almennar leiðbeiningar þær stjórnsýsluákvarðanir og -skjöl sem eru afrakstur af vinnu þess hóps.
44. gr. Gengið út frá samræmi
Ef tilkynntur aðili, sem veita á heimild til að framkvæma verkefni þriðja aðila við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess sýnir fram á að hann uppfylli viðmiðanirnar sem mælt er fyrir um í viðeigandi samhæfðum stöðlum eða hlutum þeirra og tilvísun í þá hefur verið birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, skal hann teljast uppfylla þær kröfur sem settar eru fram í 43. gr., að svo miklu leyti sem gildandi samhæfðir staðlar ná yfir þær kröfur.
45. gr. Dótturfyrirtæki og undirverktakar tilkynntra aðila
1. Ef tilkynntur aðili felur undirverktaka sérstök verkefni sem tengjast verkefnum þriðja aðila við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess eða nýtir sér dótturfyrirtæki, skal hann tryggja að undirverktakinn eða dótturfyrirtækið uppfylli kröfurnar sem settar eru fram í 43. gr. og upplýsa tilkynningaryfirvald þar um.
2. Tilkynntir aðilar skulu bera fulla ábyrgð á þeim verkefnum sem undirverktakar eða dótturfyrirtæki framkvæma, án tillits til staðsetningar.
3. Aðeins má fela undirverktaka eða dótturfyrirtæki verkefni með samþykki viðskiptavinarins.
4. Tilkynnti aðilinn skal hafa tiltæk fyrir tilkynningaryfirvaldið öll skjöl sem skipta máli varðandi mat á réttindum og hæfi undirverktaka eða dótturfyrirtækja og þau verkefni sem þessir aðilar hafa framkvæmt skv. V. viðauka.
46. gr. Notkun á aðstöðu sem er fyrir utan prófunarstofu tilkynnta aðilans
1. Að beiðni framleiðanda, og í rökstuddum tilvikum af tæknilegum eða efnahagslegum ástæðum eða af ástæðum er varða skipulag flutninga, geta tilkynntir aðilar ákveðið að framkvæma prófanirnar, sem um getur í V. viðauka, fyrir kerfi 1+, 1 og 3 til að meta nothæfi og sannprófa stöðugleika þess, eða að láta framkvæma slíkar prófanir undir þeirra eftirliti, annaðhvort í verksmiðjunum með því að nota prófunarbúnaðinn úr innri rannsóknastofu framleiðanda eða, að fengnu fyrirframsamþykki framleiðandans, á rannsóknastofu utan stöðvar með því að nota prófunarbúnað þeirrar rannsóknastofu.
Tilkynntir aðilar, sem framkvæma þessar prófanir, skulu vera sérstaklega tilnefndir sem hæfir til að vinna annars staðar en á eigin prófunarstöð, sem hefur fengið faggildingu.
2. Áður en þessar prófanir eru framkvæmdar skal tilkynnti aðilinn ganga úr skugga um að kröfur prófunaraðferðarinnar séu uppfylltar og meta hvort:
a) prófunarbúnaður hafi viðeigandi kvörðunarkerfi og að rekjanleiki mælinganna sé tryggður,
b) gæði niðurstaðna úr prófunum séu tryggð.
47. gr. Umsókn um tilkynningu
1. Aðili sem á að fá heimild til að framkvæma verkefni þriðja aðila við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess skal leggja fram umsókn um tilkynningu til tilkynningaryfirvalds aðildarríkisins þar sem hann hefur staðfestu.
2. Umsókninni skal fylgja lýsing á starfseminni sem á að fara fram, málsmeðferð við mat og/eða sannprófun, sem aðilinn fullyrðir að hæfi hans nái til, faggildingarvottorð, ef það er til staðar, útgefið af landsbundnum faggildingaraðila í skilningi reglugerðar (EB) nr. 765/2008 til staðfestingar á því að aðilinn uppfylli kröfurnar sem mælt er fyrir um í 43. gr.
3. Ef aðilinn sem um er að ræða getur ekki lagt fram faggildingarvottorð skal hann láta tilkynningaryfirvaldinu í té öll skrifleg sönnunargögn sem nauðsynleg eru fyrir sannprófun, viðurkenningu og reglulega vöktun á því að hann fari að kröfunum sem mælt er fyrir um í 43. gr.
48. gr. Málsmeðferð við tilkynningu
1. Tilkynningaryfirvöld mega einungis tilkynna þá aðila sem hafa uppfyllt kröfurnar sem mælt er fyrir um í 43. gr.
2. Þau skulu tilkynna þá til framkvæmdastjórnarinnar og hinna aðildarríkjanna með því að nota rafræna tilkynningartækið sem framkvæmdastjórnin hefur þróað og haft umsjón með.
Í sérstökum undantekningartilvikum skal taka við pappírseintaki af tilkynningunni í þeim tilvikum, sem sett eru fram í 3. lið V. viðauka, þar sem viðeigandi rafrænt tilkynningartæki er ekki tiltækt.
3. Tilkynningin skal innihalda allar upplýsingar um störf sem á að vinna, tilvísanir í viðkomandi samhæfðar tækniforskriftir og, varðandi kerfin sem sett eru fram í V. viðauka, þá mikilvægu eiginleika sem hæfi aðilans nær til.
Hins vegar er ekki krafist tilvísunar í viðkomandi samhæfða tækniforskrift í tilvikunum sem sett eru fram í 3. lið V. viðauka.
4. Ef tilkynning byggir ekki á faggildingarvottorði eins og um getur í 2. mgr. 47. gr. skal tilkynningaryfirvaldið láta framkvæmdastjórninni og öðrum aðildarríkjum í té skrifleg sönnunargögn sem staðfesta hæfi tilkynnta aðilans og það fyrirkomulag sem er til staðar til að tryggja reglulega vöktun á aðilanum og að aðilinn haldi áfram að uppfylla kröfurnar sem mælt er fyrir um í 43. gr.
5. Hlutaðeigandi aðila er aðeins heimilt að annast starfsemi tilkynnts aðila hreyfi framkvæmdastjórnin eða hin aðildarríkin ekki andmælum innan tveggja vikna frá tilkynningu ef stuðst er við faggildingarvottorð eða innan tveggja mánaða frá tilkynningu ef ekki er stuðst við faggildingarvottorð.
Aðeins slíkur aðili skal teljast tilkynntur aðili að því er þessa reglugerð varðar.
6. Tilkynna skal framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum um allar síðari breytingar á tilkynningunni sem máli skipta.
49. gr. Kenninúmer og skrár yfir tilkynnta aðila
1. Framkvæmdastjórnin skal úthluta hverjum tilkynntum aðila kenninúmeri.
Hún skal úthluta einu slíku númeri þó svo að aðilinn sé tilkynntur samkvæmt mörgum gerðum Sambandsins.
2. Framkvæmdastjórnin skal gera skrána yfir aðilana, sem tilkynntir eru samkvæmt þessari reglugerð, aðgengilega öllum, þ.m.t. kenninúmerin sem þeim hefur verið úthlutað og starfsemin sem þeim hefur verið falin, einkum með rafræna tilkynningartækinu sem framkvæmdastjórnin hefur þróað og haft umsjón með.
Framkvæmdastjórnin skal sjá til þess að skráin sé uppfærð.
50. gr. Breytingar á tilkynningunni
1. Ef tilkynningaryfirvald hefur komist að raun um eða hefur verið upplýst um að tilkynntur aðili uppfylli ekki lengur kröfurnar, sem mælt er fyrir um í 43. gr., eða rækir ekki skyldur sínar skal tilkynningaryfirvaldið takmarka, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla tilkynningu, eins og við á, háð því hversu alvarlegur misbrestur er á því að þessar kröfur eða skyldur séu uppfylltar. Það skal tilkynna það til framkvæmdastjórnarinnar og hinna aðildarríkjanna án tafar með því að nota rafræna tilkynningartækið sem framkvæmdastjórnin hefur þróað og haft umsjón með.
2. Ef tilkynning er afturkölluð, takmörkuð eða felld tímabundið úr gildi eða ef tilkynnti aðilinn hefur lagt niður starfsemi skal hlutaðeigandi tilkynningaraðildarríki gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að annaðhvort vinni annar tilkynntur aðili úr skjölum þess aðila eða að skjölin séu höfð tiltæk þar til bærum tilkynningaryfirvöldum og markaðseftirlitsyfirvöldum, sé þess óskað.
51. gr. Hæfi tilkynntra aðila vefengt
1. Framkvæmdastjórnin skal rannsaka öll tilvik þar sem hún hefur efasemdir um hæfi tilkynnts aðila eða um að tilkynntur aðili uppfylli áfram þær kröfur og skyldur sem á honum hvíla, og öll tilvik þar sem athygli hennar er vakin á slíkum efasemdum.
2. Tilkynningaraðildarríkið skal, sé þess óskað, veita framkvæmdastjórninni allar upplýsingar sem varða ástæður fyrir tilkynningunni eða áframhaldandi hæfi hlutaðeigandi aðila.
3. Framkvæmdastjórnin skal tryggja að farið sé með allar viðkvæmar upplýsingar, sem fást úr rannsóknum hennar, sem trúnaðarmál.
4. Ef framkvæmdastjórnin kemst að raun um að tilkynntur aðili uppfylli ekki, eða uppfylli ekki lengur, kröfurnar viðvíkjandi tilkynningu hans, skal hún upplýsa tilkynningaraðildarríkið um það og óska eftir því að það geri nauðsynlegar ráðstafanir til úrbóta, þ.m.t. að afturkalla tilkynningu, ef nauðsyn krefur.
52. gr. Skyldur er varða starfsemi tilkynntra aðila
1. Tilkynntir aðilar skulu framkvæma verkefni þriðja aðila í samræmi við kerfin við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess sem kveðið er á um í V. viðauka.
2. Framkvæma skal mat og sannprófun á stöðugleika nothæfis með gagnsæjum hætti að því er varðar framleiðandann og með hóflegum hætti til að forðast að leggja óþarfa byrðar á rekstraraðila. Tilkynntir aðilar skulu í starfsemi sinni taka tilhlýðilegt tillit til stærðar fyrirtækisins, sviðsins sem fyrirtækið starfar á, skipulags þess, hversu flókin tæknin er í vörunni sem um er að ræða og hvort um fjölda- eða raðframleiðslu er að ræða.
Í þessu sambandi skulu tilkynntir aðilar samt sem áður virða það hversu strangar kröfur eru gerðar til vörunnar í þessari reglugerð og mikilvægi vörunnar með tilliti til þess að allar grunnkröfur um mannvirki séu uppfylltar.
3. Ef tilkynntur aðili telur, við fyrstu skoðun í verksmiðjunni og framleiðslustýringu í verksmiðjunni, að framleiðandinn hafi ekki tryggt stöðugleika nothæfis vörunnar sem framleidd er skal hann fara fram á að framleiðandinn geri viðeigandi ráðstafanir til úrbóta og skal ekki gefa út vottorð.
4. Ef tilkynntur aðili telur, við vöktunarstarfsemi sem ætlað er að sannprófa stöðugleika nothæfis vörunnar sem framleidd er, að byggingarvara hafi ekki lengur sama nothæfi og gerðareintakið, skal hann fara fram á það að framleiðandinn geri viðeigandi ráðstafanir til úrbóta og skal fella vottorðið tímabundið úr gildi eða afturkalla það ef þörf er á.
5. Ef ekki eru gerðar ráðstafanir til úrbóta eða þær hafa ekki tilskilin áhrif skal tilkynnti aðilinn takmarka vottorðin, fella þau tímabundið úr gildi eða afturkalla þau, eins og við á.
53. gr. Upplýsingaskylda tilkynntra aðila
1. Tilkynntir aðilar skulu upplýsa tilkynningaryfirvaldið um:
a) tilvik þar sem synjað er um vottorð, það takmarkað, fellt tímabundið úr gildi eða afturkallað,
b) aðstæður sem hafa áhrif á gildissvið tilkynningar og skilyrði fyrir henni,
c) allar beiðnir frá markaðseftirlitsyfirvöldum um upplýsingar um framkvæmt mat og/eða sannprófun á stöðugleika nothæfis,
d) ef óskað er eftir, verkefni þriðja aðila í samræmi við kerfin við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess sem framkvæmd eru innan gildissviðs tilkynningarinnar og alla aðra starfsemi sem hefur farið fram, þ.m.t. starfsemi sem nær yfir landamæri og undirverktakastarfsemi.
2. Tilkynntir aðilar skulu veita öðrum aðilum, sem eru tilkynntir samkvæmt þessari reglugerð og framkvæma sambærileg verkefni þriðja aðila í samræmi við kerfin við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess og fyrir byggingarvörur sem falla undir sömu samhæfðu tækniforskriftir, viðeigandi upplýsingar um mál er varða neikvæðar og, sé þess óskað, jákvæðar niðurstöður úr þessu mati og/eða sannprófunum.
54. gr. Miðlun reynslu
Framkvæmdastjórnin skal sjá fyrir skipulagningu á miðlun reynslu milli landsyfirvalda aðildarríkjanna sem bera ábyrgð á viðmiðunarreglum varðandi tilkynningar.
55. gr. Samræming tilkynntra aðila
Framkvæmdastjórnin skal tryggja að komið sé á viðeigandi samræmingu og samstarfi á milli aðila, sem tilkynntir eru skv. 39. gr., og að þessi samræming og þetta samstarf fari fram með fullnægjandi hætti innan hóps tilkynntra aðila.
Aðildarríkin skulu tryggja að aðilarnir sem þau tilkynna taki þátt í vinnu þessa hóps, annaðhvort með beinum hætti eða í gegnum tilnefnda fulltrúa eða sjá til þess að fulltrúar tilkynntra aðila fái upplýsingar þar að lútandi.
VIII. kafli. Markaðseftirlit og verndarráðstafanameðferð.
56. gr. Málsmeðferð á landsvísu um meðferð byggingarvara sem áhætta stafar af
1. Ef markaðseftirlitsyfirvöld í einu aðildarríki hafa gripið til aðgerða skv. 20. gr. reglugerðar (EB) nr. 765/2008 eða þau hafa fullnægjandi ástæðu til að ætla að byggingarvara, sem fellur undir samhæfðan staðal eða sem evrópskt tæknimat hefur verið gefið út fyrir, nái ekki tilgreindu nothæfi og skapi hættu á því að grunnkröfum um mannvirki sem falla undir þessa reglugerð verði ekki fullnægt, skulu þau framkvæma mat á viðkomandi vöru sem tekur til allra viðkomandi krafna sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð. Viðkomandi rekstraraðilar skulu hafa samvinnu við markaðseftirlitsyfirvöld eins og nauðsyn krefur.
Ef markaðseftirlitsyfirvöld komast að þeirri niðurstöðu á meðan þetta mat fer fram að byggingarvaran sé ekki í samræmi við kröfurnar sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð skulu þau án tafar krefjast þess að viðkomandi rekstraraðili grípi til allra viðeigandi aðgerða til úrbóta til að varan verði í samræmi við þessar kröfur, einkum við tilgreint nothæfi, taki vöruna af markaði eða innkalli hana innan hæfilegs frests, sem yfirvöld mæla fyrir um miðað við eðli áhættunnar.
Markaðseftirlitsyfirvöld skulu upplýsa tilkynnta aðilann um það ef tilkynntur aðili á hlut að máli.
Ákvæði 21. gr. reglugerðar (EB) nr. 765/2008 skulu gilda að því er varðar þær ráðstafanir sem um getur í annarri undirgrein þessarar málsgreinar.
2. Ef markaðseftirlitsyfirvöld telja að þau tilvik þar sem ekki er farið að ákvæðum takmarkist ekki við þeirra yfirráðasvæði skulu þau upplýsa framkvæmdastjórnina og hin aðildarríkin um niðurstöður matsins og um aðgerðirnar sem þau hafa krafist að rekstraraðilinn grípi til.
3. Rekstraraðilinn skal tryggja að gripið sé til allra viðeigandi aðgerða til úrbóta að því er varðar allar viðkomandi byggingarvörur sem rekstraraðilinn hefur boðið fram á markaði í gervöllu Sambandinu.
4. Ef viðkomandi rekstraraðili grípur ekki til fullnægjandi aðgerða til úrbóta, innan tímabilsins sem um getur í öðrum undirlið 1. mgr., skulu markaðseftirlitsyfirvöld gera allar viðeigandi bráðabirgðaráðstafanir til að banna eða takmarka að byggingarvaran sé boðin fram á markaði í hverju aðildarríki eða taka byggingarvöruna af þeim markaði eða innkalla hana.
Markaðseftirlitsyfirvöld skulu án tafar tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum um þessar ráðstafanir.
5. Í upplýsingunum, sem um getur í 4. mgr., skulu koma fram öll tiltæk smáatriði, einkum gögn sem eru nauðsynleg til að sanngreina byggingarvöruna sem ekki uppfyllir kröfurnar, uppruna byggingarvörunnar, eðli meintra tilvika þar sem ekki var farið að ákvæðum og áhættuna sem því fylgir, eðli og gildistíma ráðstafana aðildarríkis sem gerðar hafa verið, ásamt rökstuðningi viðkomandi rekstraraðila. Einkum skulu markaðseftirlitsyfirvöld geta þess hvort ekki sé farið að ákvæðum:
a) vegna þess að varan nær ekki tilgreindu nothæfi og/eða uppfyllir ekki kröfurnar sem tengjast því að uppfylla grunnkröfur mannvirkja sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð,
b) vegna annmarka á samhæfðum tækniforskriftum eða á sértæku tæknigögnunum.
6. Aðildarríki, önnur en það aðildarríki sem hefur frumkvæði að málsmeðferðinni, skulu án tafar upplýsa framkvæmdastjórnina og hin aðildarríkin um allar samþykktar ráðstafanir og allar viðbótarupplýsingar sem þau hafa yfir að ráða að því er varðar viðkomandi byggingarvöru sem ekki uppfyllir kröfur og, komi upp ágreiningur um tilkynnta ráðstöfun aðildarríkis, um andmæli sín.
7. Ef aðildarríki eða framkvæmdastjórnin hafa ekki hreyft andmælum innan 15 virkra daga frá viðtöku upplýsinganna sem um getur í 4. mgr., að því er varðar bráðabirgðaráðstöfun sem aðildarríki hefur gert í tengslum við viðkomandi byggingarvöru, skal sú ráðstöfun teljast réttlætanleg.
8. Aðildarríki skulu tryggja að viðeigandi takmarkandi ráðstafanir séu gerðar án tafar vegna byggingarvörunnar sem um er að ræða, t.d. taka vöruna af sínum markaði.
57. gr. Verndarráðstafanameðferð Sambandsins
1. Ef, við lok málsmeðferðarinnar sem sett er fram í 3. og 4. mgr. 56. gr., andmælum er hreyft við ráðstöfun sem aðildarríki gerir, eða ef framkvæmdastjórnin telur að ráðstöfun aðildarríkis stríði gegn löggjöf Sambandsins, skal framkvæmdastjórnin án tafar hefja viðræður við aðildarríkin og viðkomandi rekstraraðila og leggja mat á ráðstöfun aðildarríkis. Á grundvelli niðurstaðna þessa mats skal framkvæmdastjórnin ákveða hvort ráðstöfun aðildarríkis er réttlætanleg eða ekki.
Framkvæmdastjórnin skal beina ákvörðun sinni til allra aðildarríkja og skal þegar í stað veita þeim og viðkomandi rekstraraðila eða rekstraraðilum upplýsingar þar um.
2. Teljist ráðstöfun aðildarríkis réttlætanleg skulu öll aðildarríki gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að byggingarvara, sem ekki uppfyllir kröfurnar, sé tekin af mörkuðum þeirra og tilkynna framkvæmdastjórninni um það. Teljist ráðstöfun aðildarríkis ekki réttlætanleg skal hlutaðeigandi aðildarríki afturkalla ráðstöfunina.
3. Ef ráðstöfun aðildarríkis telst réttlætanleg og byggingarvaran telst ekki uppfylla kröfur sökum annmarka í samhæfðu stöðlunum, sem um getur í b-lið, 5. mgr. 56. gr., skal framkvæmdastjórnin upplýsa viðkomandi evrópska staðlastofnun eða -stofnanir þar um og leggja málið fyrir nefndina sem komið var á fót skv. 5. gr. tilskipunar 98/34/EB. Nefndin skal hafa samráð við viðkomandi evrópska staðlastofnun eða staðlastofnanir og skila áliti sínu án tafar.
Ef ráðstöfun aðildarríkis telst réttlætanleg og byggingarvaran telst ekki uppfylla kröfur sökum annmarka í evrópska matsskjalinu eða í sértæku tæknigögnunum, sem um getur í b-lið 5. mgr. 56. gr., skal framkvæmdastjórnin leggja málið fyrir fastanefndina um byggingarmál og samþykkja viðeigandi ráðstafanir eftir það.
58. gr. Byggingarvörur sem uppfylla kröfur en stofna engu að síður heilbrigði og öryggi í hættu
1. Ef aðildarríki kemst að þeirri niðurstöðu, að loknu mati skv. 1. mgr. 56. gr., að enda þótt byggingarvara sé í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar skapi hún hættu á því að grunnkröfum um mannvirki verði ekki fullnægt hvað varðar heilbrigði eða öryggi manna eða varðandi aðra þætti í tengslum við verndun er varðar hagsmuni almennings skal aðildarríkið krefjast þess að viðkomandi rekstraraðili grípi til allra viðeigandi aðgerða til að tryggja að þessi áhætta stafi ekki lengur af viðkomandi byggingarvöru þegar hún er sett á markað, taki byggingarvöruna af markaði eða innkalli hana innan hæfilegs frests, sem aðildarríkið mælir fyrir um miðað við eðli áhættunnar.
2. Rekstraraðilinn skal tryggja að gripið sé til allra aðgerða til úrbóta að því er varðar allar viðkomandi byggingarvörur sem rekstraraðilinn hefur boðið fram á markaði í gervöllu Sambandinu.
3. Aðildarríkið skal tafarlaust tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum um það. Í þessum upplýsingum skulu koma fram öll tiltæk smáatriði, einkum gögn sem nauðsynleg eru til að sanngreina viðkomandi byggingarvöru, uppruna og aðfangakeðju vörunnar, eðli áhættunnar sem henni fylgir og eðli og gildistíma ráðstafana aðildarríkis sem gerðar hafa verið.
4. Framkvæmdastjórnin skal án tafar hefja viðræður við aðildarríkin og viðkomandi rekstraraðila og leggja mat á ráðstafanir aðildarríkis sem gerðar hafa verið. Á grundvelli niðurstaðna þessa mats skal framkvæmdastjórnin ákveða hvort ráðstöfunin er réttlætanleg eða ekki og, ef nauðsyn krefur, leggja til viðeigandi ráðstafanir.
5. Framkvæmdastjórnin skal beina ákvörðun sinni til allra aðildarríkja og skal þegar í stað veita þeim og viðkomandi rekstraraðila eða rekstraraðilum upplýsingar þar um.
59. gr. Kröfur formlega ekki uppfylltar
1. Með fyrirvara um 56. gr. skal aðildarríki, komist það að einni af eftirfarandi niðurstöðum, krefjast þess að viðkomandi rekstraraðili bæti úr eftirfarandi ósamræmi við kröfur:
a) að CE-merkið hafi verið fest þannig á að það brjóti gegn 8. eða 9. gr.,
b) að CE-merkið hafi ekki verið fest á, þegar þess er krafist í samræmi við 2. mgr. 8. gr.,
c) með fyrirvara um 5. gr., að yfirlýsing um nothæfi hafi ekki verið gerð, þegar þess er krafist, í samræmi við 4. gr.,
d) að yfirlýsingin um nothæfi hafi ekki verið gerð í samræmi við 4., 6. og 7. gr.,
e) að tæknigögnin séu annaðhvort ekki tiltæk eða ekki tæmandi.
2. Ef ósamræmi, sem um getur í 1. mgr., varir áfram skal aðildarríkið gera allar viðeigandi ráðstafanir til að takmarka eða banna að byggingarvaran sé boðin fram á markaði eða tryggja að hún sé innkölluð eða tekin af markaði.
IX. kafli. Lokaákvæði.
60. gr. Framseldar gerðir
Til þess að ná markmiðum þessarar reglugerðar, einkum að afnema og komast hjá takmörkunum hvað varðar framboð byggingarvara á markaði, skal eftirfarandi málum úthlutað til framkvæmdastjórnarinnar í samræmi við 61. gr. og háð þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í 62. og 63. gr.:
a) ákvörðun, eftir því sem við á, mikilvægra eiginleika eða viðmiðunargilda í tilteknum flokkum byggingarvara, sem, í samræmi við 3. til 6. gr., framleiðandinn á að tilgreina nothæfi vöru framleiðandans fyrir, í tengslum við áformuð not hennar, gefið upp í stigum eða flokkum, eða í lýsingu, þegar hún er sett á markað,
b) skilyrði fyrir rafrænni vinnslu yfirlýsingar um nothæfi þannig að unnt sé að gera hana tiltæka á vefsetri í samræmi við 7. gr.,
c) breytingar á því tímabili sem framleiðandi á að varðveita tæknigögnin og yfirlýsinguna um nothæfi eftir að byggingarvaran hefur verið sett á markað, í samræmi við 11. gr., byggt á væntanlegri endingu byggingarvörunnar eða hlutverki hennar í mannvirkjunum,
d) breytingar á II. viðauka og, ef nauðsyn krefur, samþykkt á viðbótarreglum um málsmeðferð í samræmi við 3. mgr. 19. gr. í því skyni að tryggja samræmi við meginreglurnar í 20. gr. eða raunverulegri beitingu málsmeðferðarinnar sem sett er fram í 21. gr.,
e) aðlögun á III. viðauka, töflu 1 í IV. viðauka og V. viðauka vegna tækniframfara,
f) innleiðingu og aðlögun á nothæfisflokkum vegna tækniframfara í samræmi við 1. mgr. 27. gr.,
g) skilyrði fyrir því að byggingarvara teljist uppfylla tiltekið nothæfisstig eða tiltekinn nothæfisflokk án prófana eða án frekari prófana í samræmi við 5. mgr. 27. gr., að því tilskildu að því sé ekki teflt í tvísýnu að grunnkröfum um mannvirki sé fullnægt,
h) aðlögun, innleiðing og endurskoðun á kerfum við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess í samræmi við 28. gr., að því er varðar tiltekna vöru, tiltekinn vöruhóp eða tiltekna helstu eiginleika og með hliðsjón af:
i. mikilvægi vörunnar eða þessara mikilvægu eiginleika að því er varðar grunnkröfur um mannvirki,
ii. eðli vörunnar,
iii. áhrifum þeim sem breytileiki mikilvægra eiginleika byggingarvörunnar hafa á væntanlegan endingartíma vörunnar og
iv. hversu hætt er við göllum í framleiðslu vörunnar.
61. gr. Beiting framselds valds
1. Framkvæmdastjórninni skal falið vald til að samþykkja framseldar gerðir, sem um getur í 60. gr., í fimm ár á tímabili sem hefst 24. apríl 2011. Framkvæmdastjórnin skal taka saman skýrslu að því er varðar framsal valds eigi síðar en sex mánuðum fyrir lok fimm ára tímabilsins. Framsal valds skal sjálfkrafa framlengt um jafn langan tíma, nema Evrópuþingið eða ráðið afturkalli það í samræmi við 62. gr.
2. Um leið og framkvæmdastjórnin samþykkir framselda gerð skal hún tilkynna það Evrópuþinginu og ráðinu samtímis.
3. Framkvæmdastjórninni skal falið vald til að samþykkja framseldar gerðir með fyrirvara um skilyrðin sem mælt er fyrir um í 62. og 63. gr.
62. gr. Afturköllun framsals
1. Evrópuþinginu eða ráðinu er hvenær sem er heimilt að afturkalla framsal valds sem um getur í 60. gr.
2. Sú stofnun, sem hafið hefur innri málsmeðferð til að skera úr um hvort afturkalla eigi framsal valds, skal leitast við að upplýsa hina stofnunina og framkvæmdastjórnina um það með hæfilegum fyrirvara áður en endanleg ákvörðun er tekin og tilgreina hvaða valdheimildir, sem hafa verið framseldar, gætu verið afturkallaðar og hugsanlegar ástæður fyrir því.
3. Með ákvörðun um afturköllun skal bundinn endir á framsal þeirra valdheimilda sem tilgreindar eru í ákvörðuninni. Skal hún öðlast gildi tafarlaust, eða síðar, eftir því sem tilgreint er í ákvörðuninni. Hún skal ekki hafa áhrif á gildi framseldra gerða sem þegar eru í gildi. Hún skal birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
63. gr. Andmæli við framseldar gerðir
1. Evrópuþingið eða ráðið geta andmælt framseldri gerð innan þriggja mánaða frá tilkynningardegi.
Þetta tímabil skal framlengt um þrjá mánuði að frumkvæði Evrópuþingsins eða ráðsins.
2. Ef hvorki Evrópuþingið né ráðið hafa andmælt framseldri gerð þegar tímabilið, sem um getur í 1. mgr., rennur út skal hún birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og öðlast gildi á þeim degi sem þar er tilgreindur.
Áður en þetta tímabil rennur út má birta framseldu gerðina í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og hún öðlast gildi ef Evrópuþingið og ráðið hafa bæði upplýst framkvæmdastjórnina um þá fyrirætlan sína að hreyfa ekki andmælum.
3. Ef annaðhvort Evrópuþingið eða ráðið andmæla framseldri gerð innan þess tímabils sem um getur í 1. mgr. öðlast hún ekki gildi. Sú stofnun sem andmælir framseldu gerðinni skal gefa upp ástæðurnar fyrir því.
64. gr. Nefnd
1. Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar fastanefndar um byggingarmál.
2. Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 3. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB.
3. Aðildarríki skulu sjá til þess að meðlimir fastanefndarinnar um byggingarmál geti rækt störf sín þannig að ekki komi til hagsmunaárekstra, einkum að því er varðar málsmeðferðina við að fá CE-merkið.
65. gr. Niðurfelling
1. Tilskipun 89/106/EBE er felld úr gildi.
2. Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu tilskipunina sem tilvísanir í þessa reglugerð.
66. gr. Umbreytingarákvæði
1. Byggingarvörur sem hafa verið settar á markað í samræmi við tilskipun 89/106/EBE fyrir 1. júlí 2013 skulu teljast vera í samræmi við þessa reglugerð.
2. Framleiðendur mega gera yfirlýsingu um nothæfi á grundvelli samræmisvottorðs eða samræmisyfirlýsingar sem hefur verið gefin út fyrir 1. júlí 2013 í samræmi við tilskipun 89/106/EBE.
3. Nota má viðmiðunarreglur um evrópskt tæknisamþykki sem gefnar eru út fyrir 1. júlí 2013 í samræmi við 11. gr. tilskipunar 89/106/EBE sem evrópsk matsskjöl.
4. Framleiðendur og innflytjendur mega nota evrópskt tæknisamþykki sem gefið er út í samræmi við 9. gr. tilskipunar 89/106/EBE fyrir 1. júlí 2013 sem evrópskt tæknimat út allan gildistíma samþykkisins.
67. gr. Skýrslugjöf framkvæmdastjórnarinnar
1. Eigi síðar en 25. apríl 2014 skal framkvæmdastjórnin meta sérstaka þörf á upplýsingum um innihald hættulegra efna í byggingarvörum og huga að möguleikanum að rýmka hugsanlega upplýsingaskylduna, sem kveðið er á um í 5. mgr. 6. gr., þannig að hún taki til annarra efna og gefa Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu um það. Í mati sínu skal framkvæmdastjórnin, m.a., taka tillit til nauðsynjar þess að tryggja öfluga vernd að því er varðar heilbrigði og öryggi starfsmanna, sem nota byggingarvörur, og notenda mannvirkja, þ.m.t. með tilliti til krafna um endurvinnslu og/eða endurnotkun á hlutum eða smíðaefni.
Ef við á, skal fylgja skýrslunni eftir með viðeigandi tillögu að nýrri löggjöf innan tveggja ára frá framlagningu hennar hjá Evrópuþinginu og ráðinu.
2. Eigi síðar en 25. apríl 2016 skal framkvæmdastjórnin leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið um framkvæmd þessarar reglugerðar, þ.m.t. um 19., 20., 21., 23., 24. og 37. gr. á grundvelli skýrslna frá aðildarríkjunum, auk annarra viðkomandi hagsmunaaðila, ásamt viðeigandi tillögum, ef við á.
68. gr. Gildistaka
Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Hins vegar skulu 3. til 28. gr., 36. til 38. gr., 56. til 63. gr., 65. til 66. gr. ásamt I., II., III. og V. viðauka gilda frá og með 1. júlí 2013.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
I. VIÐAUKI
Grunnkröfur um mannvirki
Mannvirki verða, í heild og einstakir hlutar þess, að henta til áformaðra nota einkum með tilliti til heilbrigðis og öryggis einstaklinga sem eiga hlutdeild í vistferli mannvirkisins. Mannvirki verða að uppfylla þessar grunnkröfur um mannvirki þann tíma sem fjárhagslega hagkvæmt er að nýta þau, með fyrirvara um eðlilegt viðhald.
1. Burðarþol og stöðugleiki
Mannvirki skulu hönnuð og byggð á þann veg að álagið sem hætt er við að verki á þau meðan á framkvæmdum stendur og við notkun leiði ekki til:
a) að allt mannvirkið eða hluti þess hrynji,
b) mikilla formbreytinga að því marki að ekki verði við unað,
c) skemmda á öðrum hlutum mannvirkisins, lögnum eða föstum búnaði vegna mikilla formbreytinga á burðarvirki,
d) skemmda vegna ytri áhrifa þar sem þær eru óeðlilega miklar miðað við upprunalega orsök þeirra.
2. Varnir gegn eldsvoða
Mannvirki skulu hönnuð og byggð þannig að ef brýst út eldur:
a) megi gera ráð fyrir að burðarþol mannvirkisins haldist í tiltekinn tíma,
b) skuli eldsupptök og útbreiðsla elds og reyks inni í mannvirkinu takmörkuð,
c) skuli útbreiðsla elds til mannvirkja í grenndinni takmörkuð,
d) geti íbúar yfirgefið mannvirkið eða bjargast eftir öðrum leiðum,
e) sé öryggi björgunarliðs haft í huga.
3. Hollustuhættir, heilbrigði og umhverfi
Mannvirki skulu vera hönnuð og byggð á þann hátt að á öllum vistferli sínum sé hollustuháttum eða heilbrigði og öryggi starfsmanna, íbúa eða nágranna ekki stefnt í hættu og á þann hátt að á öllum vistferli sínum hafi þau ekki óhóflega mikil áhrif á umhverfisgæði eða á loftslagið meðan á framkvæmdum stendur, við notkun og niðurrif, einkum vegna einhvers af eftirfarandi:
a) uppgufunar eitraðra lofttegunda,
b) losunar hættulegra efna, rokgjarnra, lífrænna efnasambanda, gróðurhúsalofttegunda eða hættulegra agna út í loftið innanhúss eða utanhúss,
c) hættulegrar geislunar,
d) losunar hættulegra efna út í grunnvatn, sjó, yfirborðsvatn eða jarðveg,
e) losunar hættulegra efna út í drykkjarvatn eða efna sem hafa önnur neikvæð áhrif á drykkjarvatn,
f) lélegrar fráveitu skólps, losunar útblásturs eða rangrar förgunar fasts eða fljótandi úrgangs,
g) rakamyndunar í hlutum mannvirkja eða á yfirborði innandyra.
4. Öryggi við notkun og aðgengi
Mannvirki skulu hönnuð og byggð á þann hátt að ekki skapist óviðunandi slysahætta eða hætta á tjóni við rekstur eða notkun þeirra, svo sem að menn renni til, detti, rekist á, brenni sig, fái raflost eða slasist af völdum sprenginga og vegna innbrota. Einkum skulu mannvirki hönnuð og byggð þannig að tekið sé tillit til aðgengis og notkunar fatlaðra einstaklinga.
5. Hávaðavarnir
Mannvirki skulu hönnuð og byggð á þann hátt að hávaði, sem fólk á staðnum eða í næsta nágrenni skynjar, sé ekki meiri en svo að viðkomandi bíði ekki heilsutjón og geti sofið, hvílt sig og unnið við viðunandi skilyrði.
6. Orkusparnaður og hitaeinangrun
Hita-, kæli-, lýsingar- og loftræsikerfi mannvirkja skulu hönnuð og byggð þannig að nauðsynleg orkunotkun sé sem minnst þegar tillit er tekið til íbúa þeirra og veðurfarsskilyrða á staðnum. Mannvirki skulu einnig vera orkunýtin, þ.e. nota eins litla orku og mögulegt er við mannvirkjagerð og niðurrif.
7. Sjálfbær nýting náttúruauðlinda
Mannvirki skulu hönnuð, byggð og rifin niður með þeim hætti að nýting náttúruauðlinda sé sjálfbær og einkum til að tryggja:
a) endurnotkun eða endurvinnanleika mannvirkja, byggingarefna og byggingarhluta eftir niðurrif,
b) endingu mannvirkja,
c) notkun umhverfisvænna hráefna og endurunninna efna í mannvirkjunum.
II. VIÐAUKI
Málsmeðferð við samþykkt evrópskra matsskjala
1. Beiðni um evrópskt tæknimat
Ef framleiðandi leggur fram beiðni til tæknimatsstofnunar um evrópskt tæknimat á byggingarvöru, og eftir að framleiðandinn og tæknimatsstofnunin (hér á eftir nefnd „ábyrg tæknimatsstofnun“) hafa undirritað samkomulag um viðskiptaleynd og trúnaðarkvöð, nema framleiðandi ákveði annað, skal framleiðandinn leggja fyrir hina ábyrgu tæknimatsstofnun tæknilegar upplýsingar sem lýsa vörunni, notum hennar, eins og þau eru áformuð af framleiðanda, og upplýsingar um þá framleiðslustýringu í verksmiðju sem framleiðandinn hyggst nota.
2. Samningur
Fyrir byggingarvörurnar sem um getur í c-lið 1. mgr. 21. gr. skal samningur gerður, innan mánaðar frá móttöku tækniskjalsins, milli framleiðandans og hinnar ábyrgu tæknimatsstofnunar um gerð evrópsks tæknimats þar sem skilgreind er verkáætlun fyrir gerð evrópsks matsskjals, þ.m.t.:
— skipulag vinnunnar innan samtaka tæknimatsstofnana,
— samsetning vinnuhópsins, sem á að stofna innan samtaka tæknimatsstofnana, sem tilnefndur er fyrir viðkomandi vörusvið,
— samræming tæknimatsstofnana.
3. Verkáætlun
Eftir að samningur við framleiðanda hefur verið gerður skulu samtök tæknimatsstofnana upplýsa framkvæmdastjórnina um verkáætlunina fyrir gerð evrópska matsskjalsins, tímaáætlunina um framkvæmd hennar og tilgreina matsáætlunina. Þessi tilkynning skal eiga sér stað innan þriggja mánaða frá móttöku beiðni um evrópskt tæknimat.
4. Drög að evrópsku matsskjali
Samtök tæknimatsstofnana skulu ljúka drögum að evrópsku matsskjali í vinnuhópnum, sem hin ábyrga tæknimatsstofnun sér um að samræma, og tilkynna hlutaðeigandi aðilum um drögin innan sex mánaða frá þeim degi sem framkvæmdastjórnin fékk upplýsingar um verkáætlunina.
5. Þátttaka framkvæmdastjórnarinnar
Fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar getur tekið þátt, sem áheyrnarfulltrúi, í öllum þáttum sem lúta að framkvæmd verkáætlunarinnar.
6. Framlenging og tafir
Vinnuhópurinn skal tilkynna samtökum tæknimatsstofnana og framkvæmdastjórninni um allar tafir í tengslum við þau tímamörk sem sett eru fram í 1. til 4. lið þessa viðauka.
Ef framlenging á tímamörkum fyrir gerð evrópsks matsskjals er réttlætanleg, einkum sökum þess að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um viðeigandi kerfi við mat á nothæfi byggingarvöru og sannprófun á stöðugleika þess liggur ekki fyrir eða sökum þess að þróa þarf nýja prófunaraðferð, setur framkvæmdastjórnin framlengd tímamörk.
7. Breytingar á evrópsku matsskjali og samþykkt þess
Hin ábyrga tæknimatsstofnun skal tilkynna drögin að evrópska matsskjalinu til framleiðandans sem skal hafa 15 virka daga til að bregðast við. Eftir það skulu samtök tæknimatsstofnana:
a) ef við á, upplýsa framleiðanda um hvernig tekið hefur verið tillit til viðbragða hans,
b) samþykkja drögin að evrópska matsskjalinu og
c) senda framkvæmdastjórninni eintak.
Ef framkvæmdastjórnin tilkynnir samtökum tæknimatsstofnana um athugasemdir sínar við drög að evrópsku matsskjali innan 15 virkra daga frá móttöku skulu samtök tæknimatsstofnana, að fengnu tækifæri til að gera athugasemdir, breyta drögunum í samræmi við það og senda eintak af samþykkta evrópska matsskjalinu til framleiðandans og framkvæmdastjórnarinnar.
8. Endanlegt evrópskt matsskjal til birtingar
Um leið og hin ábyrga tæknimatsstofnun gefur út fyrsta evrópska tæknimatið á grundvelli samþykkts evrópsks matsskjals, skal evrópska matsskjalinu breytt, ef við á, á grundvelli þeirrar reynslu sem áunnist hefur. Samtök tæknimatsstofnana skulu samþykkja endanlegt evrópskt matsskjal og senda eintak af því til framkvæmdastjórnarinnar ásamt þýðingu á heiti þess á öllum opinberum tungumálum Sambandsins fyrir birtingu tilvísana til matsskjalsins. Samtök tæknimatsstofnana skulu gera evrópska matsskjalið tiltækt á rafrænu formi um leið og varan hefur fengið CE-merkið.
III. VIÐAUKI
Yfirlýsing um nothæfi …1)
1)Um texta viðaukans sjá Stjíð. A 114/2014.
IV. VIÐAUKI
Vörusvið og kröfur sem gilda fyrir tæknimatsstofnanir …1)
1)Um texta viðaukans sjá Stjíð. A 114/2014.
V. VIÐAUKI
Mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess
1. KERFI VIÐ MAT Á NOTHÆFI OG SANNPRÓFUN Á STÖÐUGLEIKA ÞESS
1.1. Kerfi 1+ – Yfirlýsing framleiðanda um nothæfi vegna mikilvægra eiginleika byggingarvörunnar á grundvelli eftirfarandi þátta:
a) framleiðandinn skal sjá um:
i. framleiðslustýringu í verksmiðju,
ii. frekari prófanir á sýnum sem tekin eru í verksmiðjunni í samræmi við þá prófunaráætlun sem mælt er fyrir um,
b) tilkynntur vottunaraðili fyrir vöruna skal gefa út vottorð um stöðugleika nothæfis vörunnar á grundvelli:
i. ákvörðunar gerðareintaksins á grundvelli gerðarprófana (þ.m.t. sýnataka), gerðarútreikninga, töflusettra gilda eða lýsandi gagna um vöruna,
ii. fyrstu skoðunar á verksmiðju og framleiðslustýringu í verksmiðju,
iii. stöðugs eftirlits, mats og úttektar á framleiðslustýringu í verksmiðju,
iv. úttektarprófana á sýnum sem tekin eru áður en varan er sett á markað.
1.2. Kerfi 1 – Yfirlýsing framleiðanda um nothæfi vegna mikilvægra eiginleika byggingarvörunnar á grundvelli eftirfarandi þátta:
a) framleiðandinn skal sjá um:
i. framleiðslustýringu í verksmiðju,
ii. frekari prófanir á sýnum sem framleiðandi tekur í verksmiðjunni í samræmi við þá prófunaráætlun sem mælt er fyrir um,
b) tilkynntur vottunaraðili fyrir vöruna skal gefa út vottorð um stöðugleika nothæfis vörunnar á grundvelli:
i. ákvörðunar vörutegundar á grundvelli gerðarprófana (þ.m.t. sýnataka), gerðarútreikninga, töflusettra gilda eða lýsandi gagna um vöruna,
ii. fyrstu skoðunar á verksmiðju og framleiðslustýringu í verksmiðju,
iii. stöðugs eftirlits, mats og úttekta á framleiðslustýringu í verksmiðju.
1.3. Kerfi 2+ – Yfirlýsing framleiðanda um nothæfi vegna mikilvægra eiginleika byggingarvörunnar á grundvelli eftirfarandi þátta:
a) framleiðandinn skal sjá um:
i. ákvörðun gerðareintaksins á grundvelli gerðarprófana (þ.m.t. sýnataka), gerðarútreikninga, töflusettra gilda eða lýsandi gagna um vöruna,
ii. framleiðslustýringu í verksmiðju,
iii. prófanir á sýnum sem tekin eru í verksmiðjunni í samræmi við þá prófunaráætlun sem mælt er fyrir um,
b) tilkynntur vottunaraðili framleiðslustýringar vörunnar skal gefa út samræmisvottorð fyrir framleiðslustýringu í verksmiðjunni á grundvelli:
i. fyrstu skoðunar á verksmiðjunni og framleiðslustýringu í verksmiðju,
ii. stöðugs eftirlits, mats og úttekta á framleiðslustýringu í verksmiðju.
1.4. Kerfi 3 – Yfirlýsing framleiðanda um nothæfi vegna mikilvægra eiginleika byggingarvörunnar á grundvelli eftirfarandi þátta:
a) framleiðandinn skal sjá um framleiðslustýringu í verksmiðju,
b) tilkynnt prófunarstofa skal sjá um ákvörðun gerðareintaks á grundvelli gerðarprófana (byggðar á sýnatöku framleiðanda), gerðarútreikninga, töflusettra gilda eða lýsandi gagna um vöruna.
1.5. Kerfi 4 – Yfirlýsing framleiðanda um nothæfi vegna mikilvægra eiginleika byggingarvörunnar á grundvelli eftirfarandi þátta:
a) framleiðandinn skal sjá um:
i. ákvörðun gerðareintaks á grundvelli gerðarprófana, gerðarútreikninga, töflusettra gilda eða lýsandi gagna um vöruna,
ii. framleiðslustýringu í verksmiðju,
b) engin verkefni fyrir tilkynntan aðila.
2. AÐILAR SEM TAKA ÞÁTT Í MATI Á NOTHÆFI OG SANNPRÓFUN Á STÖÐUGLEIKA ÞESS
Að því er varðar störf tilkynntra aðila sem taka þátt í mati á nothæfi byggingarvara og sannprófun á stöðugleika þess, skal gera greinarmun á:
1) vottunaraðila fyrir vöru: opinber eða óopinber tilkynntur aðili sem býr yfir fullnægjandi hæfi og ábyrgð til að framkvæma vottun vöru í samræmi við tilteknar málsmeðferðarreglur og reglur um stjórnun,
2) vottunaraðila framleiðslustýringar í verksmiðju: opinber eða óopinber tilkynntur aðili sem býr yfir fullnægjandi hæfi og ábyrgð til að framkvæma vottun á framleiðslustýringu í verksmiðju í samræmi við tilteknar málsmeðferðarreglur og reglur um stjórnun,
3) prófunarstofu: tilkynnt rannsóknastofa sem mælir, rannsakar, prófar, kvarðar eða ákvarðar með öðrum hætti eiginleika eða nothæfi smíðaefna eða byggingarvara.
3. DÆMI UM MIKILVÆGA EIGINLEIKA ÞAR SEM TILVÍSUNAR Í VIÐKOMANDI SAMHÆFÐAR TÆKNIFORSKRIFTIR ER EKKI KRAFIST
1. Viðbrögð við bruna.
2. Brunaþol.
3. Nothæfi með tilliti til utanaðkomandi elds.
4. Hávaðagleypni.
5. Losun á hættulegum efnum.