Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum
2015 nr. 40 7. júlí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 10. júlí 2015. Breytt með:
L. 60/2016 (tóku gildi 1. júlí 2016 nema 2. og 11. gr. sem tóku gildi 22. júní 2016).
L. 58/2019 (tóku gildi 1. júlí 2019).
L. 137/2019 (tóku gildi 31. des. 2019).
L. 66/2023 (tóku gildi 1. jan. 2024; um lagaskil sjá 6. gr. og brbákv.).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eða umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að vernda umhverfið og heilsu fólks með því að koma í veg fyrir mengun af sinubrennu, öðrum gróðureldum og meðferð elds á víðavangi. Þá er það einnig markmið laganna að tryggja öryggi og vernd lífs og eigna.
2. gr. Meðferð elds.
Óheimilt er að kveikja eld á víðavangi, á lóðum eða annars staðar utan dyra þar sem almannahætta getur stafað af eða hætt er umhverfi, gróðri, dýralífi eða mannvirkjum.
Gæta skal ýtrustu varkárni við notkun búnaðar sem valdið getur íkveikju utan dyra. Með búnaði er m.a. átt við grill, ljós, útiarna, kerti og hitagjafa.
Gæta skal ýtrustu varkárni þegar bálkestir eru hlaðnir og við brennur og varðelda, m.a. um staðsetningu og efni sem notað er.
Opin brennsla úrgangs er óheimil, sbr. ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs.
Skylt er hverjum þeim sem ferðast um landið að gæta ýtrustu varkárni í meðferð elds.
Sá sem verður þess var að eldur er laus á víðavangi skal svo fljótt sem auðið er gera aðvart umráðamanni lands, slökkviliði eða öðru hlutaðeigandi yfirvaldi.
3. gr. Sinubrenna.
Sinubrenna er óheimil. Þó er ábúendum eða eigendum jarða á lögbýlum þar sem stundaður er landbúnaður heimilt að brenna sinu samkvæmt skriflegu leyfi sýslumanns enda sé tilgangurinn rökstuddur og augljósir hagsmunir vegna jarðræktar eða búfjárræktar.
Aldrei má brenna sinu þar sem almannahætta stafar af eða tjón getur hlotist af á náttúruminjum, fuglalífi, mosa, lyng- eða trjágróðri, skógi eða mannvirkjum.
Við sinubrennu skal gæta ýtrustu varkárni og gæta þess að valda ekki óþarfa ónæði eða óþægindum.
4. gr. Leyfi til að brenna sinu.
Ábúendur eða eigendur jarða geta einir fengið leyfi til að brenna sinu á jörðum á tímabilinu 1. apríl til 1. maí ár hvert, að uppfylltum skilyrðum í reglugerð, sbr. 7. gr. Utan þess tímabils er hvarvetna óheimilt að brenna sinu. Þó getur sýslumaður, að höfðu samráði við ráðuneytið, ákveðið aðra dagsetningu ef sérstakar veðurfarslegar ástæður gefa tilefni til en þó eigi fyrr en 15. mars og eigi lengur en til 15. maí ár hvert.
Sýslumaður veitir skriflegt leyfi fyrir sinubrennu, sbr. 3. gr., að höfðu samráði við lögreglustjóra og fengnu samþykki frá hlutaðeigandi búnaðarsambandi, heilbrigðisnefnd og slökkviliði. Leyfi skal einungis veitt fyrir yfirstandandi ár og skal það ná yfir það svæði sem afmarkað er í umsókn til sýslumanns. Sækja má um leyfi eftir 1. mars ár hvert og umsókn skal afgreiða eins fljótt og verða má og eigi síðar en tíu virkum dögum eftir að umsókn berst.
Heimilt er að binda leyfi sýslumanns skilyrðum samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð, sbr. 7. gr. Sýslumanni er heimilt að afturkalla veitt leyfi samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð, sbr. 7. gr.
Tilgreina skal í leyfi ábyrgðarmann sinubrennu og skal hann vera á vettvangi á meðan brenna fer fram.
Sýslumaður skal halda skrá um útgefin leyfi og tilkynna hlutaðeigandi slökkviliði og heilbrigðisnefnd um leyfin um leið og þau hafa verið gefin út.
5. gr. Bálkestir.
Óheimilt er að brenna bálköst nema samkvæmt skriflegu leyfi sýslumanns að fengnu samþykki slökkviliðsstjóra og starfsleyfi heilbrigðisnefndar [eða skráningu hjá Umhverfisstofnun, sbr. 6. og 8. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998].1) Ekki þarf þó leyfi til að brenna bálköst þar sem brennt er minna en 1 m3 af efni.
Heimilt er að krefjast ábyrgðartryggingar hjá vátryggingafélagi vegna brennunnar áður en leyfi skv. 1. mgr. er veitt. Tilgreina skal í leyfi ábyrgðarmann brennu og skal hann vera á vettvangi á meðan brenna fer fram.
Heimilt er að binda leyfi sýslumanns skv. 1. mgr. skilyrðum samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð, sbr. 7. gr. Sýslumanni er heimilt að afturkalla veitt leyfi samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð, sbr. 7. gr.
Við brennu skal gæta ýtrustu varkárni og gæta þess að valda ekki óþarfa ónæði eða óþægindum.
1)L. 58/2019, 23. gr.
6. gr. Brunavarnaáætlun.
Sveitarstjórn er heimilt í brunavarnaáætlun, sbr. lög um brunavarnir, að afmarka svæði þar sem óheimilt er að brenna sinu vegna þeirrar hættu sem af því getur stafað fyrir umhverfið, heilsu fólks, nálæg mannvirki eða starfsemi á svæðinu. Óheimilt er að veita leyfi til sinubrennu á svæðum sem þannig hafa verið afmörkuð í brunavarnaáætlun.
7. gr. Reglugerð.
Ráðherra setur að tillögu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]1) og Umhverfisstofnunar, og þegar við á að höfðu samráði við Bændasamtök Íslands og [Land og skóg],2) reglugerð3) þar sem sett eru nánari ákvæði um varnir gegn gróðureldum, um sinubrennur, bálkesti og meðferð elds á víðavangi og um umsókn og veitingu leyfis skv. 4. gr. Við setningu reglugerðar skal ráðherra hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um atriði sem varða skyldur sveitarfélaga.
Í reglugerð skulu vera:
1. Nánari reglur um meðferð opins elds og notkun búnaðar sem valdið getur íkveikju utan dyra, sbr. 2. gr.
2. Almenn ákvæði um bann eða takmarkanir á brennu vegna veðurfarslegra þátta, vindáttar, loftgæða, umhverfis eða landfræðilegra aðstæðna og þess háttar.
3. Almenn ákvæði um bann eða takmarkanir á sinubrennu vegna nálægrar starfsemi, svo sem heilbrigðisstofnana, matvælaframleiðslu, skóga eða samgangna, eða vegna eðlis nálægrar byggðar, svo sem frístundabyggðar eða þéttbýlis.
4. Almenn ákvæði um brennuhald skv. 5. gr., svo sem um umbúnað um bálköst, efni sem heimilt er að brenna, mengunarvarnir og um meðferð skotelda við brennu.
5. Ákvæði um gögn sem umsækjandi um leyfi skv. 4. og 5. gr. skal leggja fram með umsókn.
6. Skilyrði sem sett eru í leyfi skv. 4. og 5. gr. um:
a. tímamörk brennu, þ.m.t. hvenær sólarhrings óheimilt er að framkvæma brennu og um tímamörk söfnunar efnis í bálköst,
b. afmörkun svæðis sinubrennu og hvernig útmörk svæðisins verði varin,
c. skyldu leyfishafa til að tilkynna slökkviliðsstjóra og öðrum tilgreindum aðilum með a.m.k. sólarhrings fyrirvara í hvert sinn sem hann hyggst framkvæma brennu,
d. skyldu leyfishafa til að tilkynna nágrönnum um útgefið leyfi og áætlaða tímasetningu sinubrennu,
e. skyldu leyfishafa til að tilkynna Umhverfisstofnun flatarmál brunnins svæðis vegna sinubrennu,
f. hlutverk ábyrgðarmanns,
g. aðgang að slökkvivatni og lágmarksviðbúnað leyfishafa,
h. viðbragðsstöðu slökkviliðs,
i. eftirlit með brennu og annað sem nauðsynlegt þykir til að uppfyllt séu markmið laga þessara.
7. Ákvæði um heimild sýslumanns til að afturkalla leyfi og slökkviliðsstjóra til að stöðva leyfða sinubrennu, eða að kveikt sé í bálkesti, og banna meðferð opins elds sé það talið viðsjárvert vegna veðurs eða af öðrum mikilvægum ástæðum.
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 66/2023, 7. gr. 3)Rg. 325/2016, sbr. 1264/2019.
8. gr. Gjaldtaka.
Um gjald fyrir leyfi sýslumanns skv. 4. gr. fer skv. 18. tölul. 12. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs.
9. gr. Bótaábyrgð.
Sá sem veldur tjóni með sinubrennu eða meðferð elds á víðavangi þannig að saknæmt sé ber fébótaábyrgð á því tjóni sem af hlýst og er jafnframt heimilt að innheimta kostnað við útkall slökkviliðs hjá þeim sem tjóninu veldur með saknæmum hætti.
10. gr. Viðurlög.
Brot gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum:
1. 1. mgr. 2. gr. um meðferð elds á víðavangi, á lóðum eða annars staðar utan dyra.
2. 4. mgr. 2. gr. um opna brennslu úrgangs.
3. 1. og 2. mgr. 3. gr. um sinubrennu.
4. 1. mgr. 4. gr. um sinubrennu án leyfis.
5. 1. mgr. 5. gr. um bálkesti.
11. gr. Eftirlit með framkvæmd laganna.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Eldvarnaeftirlit slökkviliðs, hvert í sínu umdæmi, annast eftirlit með því að við meðferð elds sé farið að ákvæðum laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim, þ.m.t. að sótt sé um leyfi skv. 4. og 5. gr. og að fylgt sé skilyrðum leyfis við framkvæmd brennu.
1)L. 137/2019, 19. gr.
12. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi. …
…