Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um leigu skráningarskyldra ökutækja
2015 nr. 65 9. júlí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 18. júlí 2015. Breytt með:
L. 10/2020 (tóku gildi 4. mars 2020).
L. 90/2021 (tóku gildi 8. júlí 2021).
L. 38/2022 (tóku gildi 1. júlí 2022 nema 76. gr., a-liður 82. gr., d-liður 177. gr., d-liður 206. gr. og 65. gr. sem tóku gildi skv. fyrirmælum í 215. gr. EES-samningurinn: IX. viðauki reglugerð 575/2013, 2015/62, 2016/1014, 2017/2188, 2017/2395, 2019/630, 2019/876, 2020/873).
L. 36/2023 (tóku gildi 14. júní 2023).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar- og viðskiptaráðherra eða menningar- og viðskiptaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um leigu á skráningarskyldum ökutækjum í atvinnuskyni án ökumanns. Lög þessi gilda einnig um einkaleigur.
Lög þessi taka ekki til [kaup- eða fjármögnunarleigu]1) eða leigu í eigin þágu eða til tengdra aðila.
Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða að eigi þurfi leyfi til leigu á tilteknum flokkum ökutækja eða fyrir tiltekinni leigustarfsemi þyki slíkt nauðsynlegt út frá eðli ökutækisins eða starfseminnar.
1)L. 38/2022, 162. gr.
2. gr. Orðskýringar.
Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1. Einkaleiga er starfsemi sem rekin er í atvinnuskyni þar sem einstaklingum er gert kleift að bjóða til leigu, að jafnaði um skemmri tíma, skráningarskylt ökutæki í persónulegri eigu með milligöngu leigumiðlunar.
2. [Geymslustaður er svæði eða rými þar sem ökutækjaleiga geymir skráningarskyld ökutæki.]1)
3. Leigusamningur er samningur milli leigusala og leigutaka um leigu á skráningarskyldu ökutæki án ökumanns og til afnota gegn gjaldi.
4. Notkunarflokkur vísar til flokkunar Samgöngustofu á ökutækjum.
5. Skráningarskyld ökutæki eru þau ökutæki sem vísað er til í umferðarlögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.
6. Starfsleyfi er leyfi til reksturs ökutækjaleigu og einkaleigu í samræmi við skilyrði laga þessara.
7. Ökutækjaleiga er starfsemi sem rekin er í atvinnuskyni þar sem almenningi eða fyrirtækjum er boðið til leigu skráningarskylt ökutæki án ökumanns, að jafnaði til skemmri tíma.
1)L. 36/2023, 1. gr.
3. gr. Starfsleyfi.
Hver sá sem hyggst reka ökutækjaleigu skal hafa til þess starfsleyfi frá Samgöngustofu.
Starfsleyfi er ótímabundið og skal veitt að fenginni jákvæðri umsögn sveitarstjórnar í því umdæmi þar sem ökutækjaleiga mun [geyma skráningarskyld ökutæki].1) Í umsögn skal sveitarstjórn m.a. taka afstöðu til staðsetningar [geymslustaðar]1) og þess hvort aðkoma henti fyrir væntanlega starfsemi …1). Umsagnir skulu vera skýrar og rökstuddar. Starfsleyfi getur verið bundið skilyrðum sem koma fram í umsögn.
Gjald fyrir útgáfu starfsleyfis skal vera samkvæmt gjaldskrá Samgöngustofu sem ráðherra staðfestir. Starfsleyfisgjald skal standa undir kostnaði við meðferð og umsýslu umsókna auk þess að standa undir eftirliti með leyfishöfum.
Samgöngustofa skal halda skrá yfir þá sem hafa leyfi samkvæmt lögum þessum og birta hana með aðgengilegum hætti.
[Ökutækjaleiga skal hafa geymslustað þar sem skráningarskyld ökutæki eru geymd. Ökutækjaleiga getur á grundvelli starfsleyfis haft geymslustaði í fleiri en einu sveitarfélagi og skal hún þá tilkynna Samgöngustofu um geymslustaðina, auk þess sem jákvæð umsögn sveitarstjórnar skal liggja fyrir.]1)
Leyfishafa er heimilt að reka starfsemi sína á rafrænan hátt …1) …2). Um rafræna þjónustu leyfishafa gilda lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, þar á meðal um hvað koma skal fram á vefsíðu leyfishafa.
Heimilt er í reglugerð3) að kveða nánar á um umsóknarferli vegna starfsleyfis, þar á meðal útgáfu leiðbeininga fyrir umsagnaraðila um þau atriði sem umsögn skal lúta að og tímafresti.
1)L. 36/2023, 2. gr. 2)L. 90/2021, 4. gr. 3)Rg. 840/2015.
4. gr. Skilyrði starfsleyfis.
Umsækjandi um starfsleyfi getur verið hvort sem er einstaklingur eða lögaðili. Ef umsækjandi er lögaðili skal starfa hjá honum forsvarsmaður sem ber ábyrgð á rekstrinum.
Til að öðlast starfsleyfi þarf [umsækjandi og/eða forsvarsmaður]1) umsækjanda ef hann er lögaðili að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
1. Hafa búsetu innan aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
2. Hafa náð átján ára aldri.
3. Vera lögráða og hafa ekki á síðustu þremur árum í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl., staðgreiðslu opinberra gjalda eða lögum þessum.
4. Hafa ekki misst starfsleyfi á grundvelli laga þessara á síðustu þremur árum.
5. Hafa forræði á búi sínu.
6. Hafa tilkynnt atvinnurekstur til skráningar hjá ríkisskattstjóra.
7. Skulda ekki skatta, opinber gjöld eða iðgjöld í lífeyrissjóð sem nema samanlagt hærri fjárhæð en 500.000 kr.
8. Hafa gilda starfsábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur heimild til að veita þjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu, hafa aflað sér bankatryggingar eða lagt fram aðra tryggingu sem Samgöngustofa metur gilda til að bæta leigutökum tjón er hann kann að baka þeim. Nánari ákvæði um starfsábyrgðartryggingu, m.a. um lágmarksfjárhæð og vátryggingarskilmála, skulu sett með reglugerð.2)
Í umsókn um starfsleyfi skal koma fram heiti leigu og skal geta um öll hjáheiti sem aðili hyggst nota í starfsemi sinni. Óheimilt er að reka starfsemina undir öðrum heitum en þeim sem leyfi hljóðar um. Heimilt er að bæta við hjáheitum í þegar útgefið starfsleyfi með sérstakri umsókn til Samgöngustofu sem gefur þá út nýtt starfsleyfi án endurgjalds.
Meiri hluti stjórnarmanna lögaðila skal fullnægja skilyrðum 2. mgr.
1)L. 36/2023, 3. gr. 2)Rg. 840/2015.
5. gr. Breytingar varðandi ökutækjaleigu, einkaleigu og leyfishafa.
Leyfishafi skal tilkynna Samgöngustofu þegar í stað um fyrirhugaðar breytingar sem varða hina leyfisskyldu starfsemi.
Starfsleyfi er bundið við kennitölu. Verði breyting á kennitölu leyfishafa skal sækja um nýtt leyfi. Verði einungis nafnabreyting skal gefa út nýtt leyfi án endurgjalds.
Taki nýr aðili við rekstri sem leyfi er fyrir samkvæmt lögum þessum eða hyggist leyfishafi hætta hinni leyfisskyldu starfsemi skal það tilkynnt Samgöngustofu án tafar. Leyfishafi ber ábyrgð á rekstrinum þar til slík tilkynning hefur borist Samgöngustofu en nýr aðili tekur við rekstrinum frá þeim tíma. Hinn nýi aðili skal leggja fram viðeigandi gögn skv. 4. gr.
6. gr. Skyldur ökutækjaleigu.
Ökutækjaleigu er óheimilt að leigja út ökutæki nema það sé skráð hjá Samgöngustofu sem ökutæki í notkunarflokki ökutækjaleigu.
Ökutækjaleiga verður að vera skráður eigandi skráningarskylds ökutækis eða skráður fyrsti umráðamaður samkvæmt samningi við [löggilta kaup- eða fjármögnunarleigu].1) Þó er ökutækjaleigu heimilt að leigja út ökutæki sem er í eigu annarrar ökutækjaleigu með gilt starfsleyfi sé það gert á grundvelli samnings.
Óheimilt er að leigja út skoðunarskyld ökutæki sem hafa ekki lögbundna aðalskoðun samkvæmt umferðarlögum.
Óheimilt er að leigja út ökutæki án lögbundinnar ábyrgðartryggingar samkvæmt umferðarlögum.
[Óheimilt er að breyta kílómetrastöðu akstursmælis skráningarskylds ökutækis.]2)
Leyfishafi skal í hvívetna leysa störf sín af hendi svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða. Hann skal gæta þess að skráningarskyld ökutæki til útleigu, hvort sem er skoðunarskyld ökutæki eða ekki, séu ætíð í góðu ásigkomulagi, hljóti gott viðhald og eftirlit og fullnægi kröfum sem gerðar eru um þau í lögum eða reglugerðum. Einnig skal leyfishafi gæta að því að ökutæki séu í ásigkomulagi sem tekur mið af árstíma og færð.
Leyfishafi skal tryggja að leigutaka séu eigi settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir skilmálar í samningum. Leyfishafi ber ábyrgð á verkum starfsmanna sinna við leigu ökutækja sem væru þau verk hans sjálfs.
[Leyfisbréf skal vera sýnilegt á vefsíðu leyfishafa eða aðgengilegt leigutaka með öðrum hætti.]3)
1)L. 38/2022, 163. gr. 2)L. 10/2020, 1. gr. 3)L. 36/2023, 4. gr.
7. gr. Leigusamningur.
Leyfishafi skal sjá um að gerður sé leigusamningur. Í samningnum skal greina helstu atriði varðandi leigu ökutækisins eftir því sem nánar skal ákveðið í reglugerð.1)
Taki leigusamningur milli ökutækjaleigu og leigutaka til ökutækis sem hefur notið lægri vörugjalda samkvæmt ákvæðum laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. fer um lengd leigusamnings eftir ákvæðum þeirra laga og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra.
Leyfishafi skal upplýsa erlenda leigutaka um íslenskar umferðarreglur, umferðarmerki og reglur um bann við umferð utan vega. Jafnframt skal leyfishafi vekja sérstaka athygli á hættu sem stafar af dýrum á vegum.
Varðveita skal leigusamning í a.m.k. þrjú ár frá undirritun hans.
1)Rg. 840/2015.
8. gr. Leigutaki.
Óheimilt er að leigja ökutæki öðrum en þeim sem hafa réttindi til að stjórna ökutækinu sem leigja á. Leyfishafa er þó heimilt að gera leigusamning við aðila sem ekki hefur tilskilin ökuréttindi, enda tilnefni hann ökumann skriflega og má sá aka ökutækinu. Skal ökumaður uppfylla framangreind skilyrði.
9. gr. Einkaleigur.
Heimilt er einstaklingum að leigja skráningarskyld ökutæki með milligöngu sérstakra einkaleiga. Hverjum einstaklingi er heimilt að leigja út tvö skráningarskyld ökutæki sem skráð eru á kennitölu viðkomandi.
Einkaleigu er skylt að uppfylla skilyrði 3. gr. um starfsleyfi að frátöldu skilyrðinu um umsögn sveitarstjórnar í 2. mgr.
Umsækjandi um starfsleyfi einkaleigu skal uppfylla skilyrði 4. gr., þar á meðal skilyrði um starfsábyrgðartryggingu sem Samgöngustofa metur gilda.
Einkaleiga skal tryggja að skráningarskylt ökutæki sem það1) hefur á skrá sé skráð sem ökutæki í notkunarflokki ökutækjaleigu hjá Samgöngustofu. Einnig skal tryggja að ökutæki hafi lögbundna aðalskoðun samkvæmt umferðarlögum og að ökutækið sé tryggt lögbundinni ábyrgðartryggingu.
Einkaleiga skal í hvívetna leysa störf sín af hendi svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða og gæta þess að skráningarskyld ökutæki í útleigu, hvort sem er skoðunarskyld ökutæki eða ekki, séu ætíð í góðu ásigkomulagi, hljóti gott viðhald og eftirlit og fullnægi kröfum sem gerðar eru um þau í lögum eða reglugerðum. Einnig skal einkaleiga gæta að því að ökutæki séu í ásigkomulagi sem tekur mið af árstíma og færð.
[Leyfisbréf skal vera sýnilegt á vefsíðu leyfishafa eða aðgengilegt leigutaka með öðrum hætti.]2)
Um innheimtu og skil á virðisaukaskatti fer samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.
Ákvæði 5. gr. og 10.–14. gr. eiga við um einkaleigur.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð3) um einkaleigur þar sem m.a. er kveðið á um fyrirkomulag trygginga ökutækja og nánari skilyrði starfseminnar.
1)Svo í Stjtíð. en á væntanlega að vera „hún“. 2)L. 36/2023, 5. gr. 3)Rg. 840/2015, sbr. 172/2016.
10. gr. Eftirlit.
Samgöngustofa skal hafa eftirlit með því að ákvæðum laganna sé fylgt.
Samgöngustofa getur athugað svo oft sem þurfa þykir hvort starfsemi leyfishafa er í samræmi við ákvæði laga þessara og reglur sem settar eru á grundvelli þeirra.
Í tengslum við eftirlit sitt samkvæmt lögum þessum getur Samgöngustofa gert vettvangskannanir.
Samgöngustofu er heimilt að fela faggiltum skoðunarstofum að sinna eftirlitshlutverki sínu, í heild eða að hluta, samkvæmt lögum þessum og eftir því sem við á hverju sinni.
Ráðherra er heimilt í reglugerð1) að kveða nánar á um eftirlit Samgöngustofu.
1)Rg. 840/2015.
11. gr. Niðurfelling leyfis og önnur úrræði.
Samgöngustofu er heimilt að fella niður leyfi til reksturs ökutækjaleigu ef [leyfishafi og/eða forsvarsmaður]1) hans fullnægir ekki lengur skilyrðum 4. gr. og jafnframt ef [leyfishafi og/eða forsvarsmaður]1) hans verður uppvís að misnotkun á leyfi eða brýtur á annan hátt gegn ákvæðum laga þessara.
Samgöngustofu er enn fremur heimilt að fella niður leyfi til reksturs ökutækjaleigu hafi ekki verið nein starfsemi af hálfu leigunnar í samfellt þrjú ár.
Áður en leyfi er fellt niður skv. 1. eða 2. mgr. skal Samgöngustofa senda leyfishafa skriflega viðvörun um fyrirhugaða niðurfellingu leyfis þar sem koma skal fram tilefni niðurfellingar. Veita skal leyfishafa hæfilegan frest til að bæta úr annmörkum.
Komi til endanlegrar niðurfellingar leyfis skal Samgöngustofa senda leyfishafa skriflega tilkynningu þess efnis og um frá hvaða tíma leyfi telst niður fallið.
Ökutækjaleiga sem svipt er leyfi skal skila leyfisbréfi til Samgöngustofu án tafar eftir að tilkynning skv. 4. mgr. berst.
Ökutækjaleigu er skylt að veita Samgöngustofu allar upplýsingar er varða starfsemina og rekstur leigunnar, svo sem um starfsleyfi, leigusamninga og ökutæki í eigu eða undir yfirráðum ökutækjaleigu. Samgöngustofa getur fellt niður starfsleyfi ökutækjaleigu veiti hún Samgöngustofu ekki umbeðnar upplýsingar eða hefur veitt rangar eða villandi upplýsingar til að fá starfsleyfi.
Samgöngustofa skal auglýsa með tryggilegum hætti þegar um niðurfellingu leyfis er að ræða í Lögbirtingablaði og á vefsíðu sinni. Jafnframt getur Samgöngustofa auglýst niðurfellingu leyfis á annan hátt eins og heppilegt þykir hverju sinni.
1)L. 36/2023, 6. gr.
12. gr. Dagsektir.
Samgöngustofa getur lagt dagsektir, allt að 500.000 kr. á dag, á ökutækjaleigu eða einkaleigu sem brýtur gegn:
1. …1)
2. 3. mgr. 4. gr. um skyldu til að reka [starfsemi]1) undir heiti sem leyfi hljóðar um.
3. 1. mgr. 5. gr. um skyldu til að tilkynna Samgöngustofu um fyrirhugaðar breytingar sem varða hina leyfisskyldu starfsemi.
4. 2. mgr. 5. gr. um skyldu til að sækja um nýtt leyfi verði breyting á kennitölu leyfishafa.
5. 1. mgr. 6. gr. um skyldu leyfishafa til að hafa ökutæki skráð sem ökutæki í notkunarflokki ökutækjaleigu.
6. 2. mgr. 6. gr. um skyldu leyfishafa til að vera skráður eigandi ökutækis eða fyrsti umráðamaður samkvæmt samningi við [löggilta kaup- eða fjármögnunarleigu].2) Þetta gildir hvorki um undanþágu í 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. né um einkaleigur skv. 9. gr.
7. 3. mgr. 6. gr. um skyldu til að leigja aðeins út ökutæki sem hafa lögbundna aðalskoðun.
8. 4. mgr. 6. gr. um skyldu til að leigja aðeins út ökutæki sem hafa lögbundna ábyrgðartryggingu.
9. [8. mgr. 6. gr. um skyldu til að hafa leyfisbréf sýnilegt á vefsíðu leyfishafa eða aðgengilegt leigutaka með öðrum hætti].1)
Samgöngustofa skal því aðeins leggja á dagsektir skv. 1. mgr. að aðila hafi verið veittur hæfilegur frestur til að bæta úr vanefndum og uppfylla skyldur sínar.
Ráðherra getur í reglugerð breytt hámarksupphæð dagsekta í samræmi við verðlagsþróun launa. Við ákvörðun sektar skal höfð hliðsjón af alvarleika brotsins, hvað það hefur staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða.
Ákvarðanir Samgöngustofu um dagsektir eru aðfararhæfar. Sé sekt samkvæmt þessari grein ekki greidd innan mánaðar frá ákvörðun Samgöngustofu skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Óinnheimtar dagsektir, sem lagðar eru á fram að efndadegi, falla ekki niður þótt aðili efni síðar viðkomandi kröfu nema Samgöngustofa ákveði það sérstaklega. Sektir samkvæmt þessari grein renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu.
Ákvörðun Samgöngustofu um dagsektir samkvæmt þessari grein má skjóta til ráðherra innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málskot til ráðherra frestar aðför. Úrskurðir ráðherra um dagsektir eru aðfararhæfir.
1)L. 36/2023, 7. gr. 2)L. 38/2022, 163. gr.
13. gr. Stjórnvaldssektir o.fl.
Samgöngustofa getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn 1. mgr. 3. gr. [eða 5. mgr. 6. gr.]1)
Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100.000 kr. til 500.000 kr. Sektir sem eru lagðar á lögaðila geta numið frá 500.000 kr. til 2.000.000 kr.
Við ákvörðun sekta skal m.a. taka tillit til þess hvað brot hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Samgöngustofu er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti. Skal upphæð stjórnvaldssektar þá ákveðin sem allt að tvöfalt margfeldi af þeim hagnaði sem aðili hefur aflað sér með broti gegn lögunum, þó innan ramma 2. mgr.
Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Ákvörðun Samgöngustofu um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð.
Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Aðili máls getur skotið ákvörðun Samgöngustofu um stjórnvaldssektir til ráðherra innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málskot til ráðherra frestar aðför. Úrskurðir ráðherra um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfir.
Sé ökutækjaleiga eða einkaleiga rekin án tilskilins leyfis ber lögreglustjóra, að beiðni Samgöngustofu, þegar í stað að stöðva starfsemina, þar á meðal með lokun starfsstöðvar eða lokun rafrænnar þjónustu, svo sem vefsíðu.
1)L. 10/2020, 3. gr.
14. gr. Stjórnsýslukæra.
Ákvörðunum Samgöngustofu samkvæmt lögum þessum verður skotið til ráðherra. Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
15. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi. …
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Leyfi til reksturs bílaleigu sem gefin hafa verið út samkvæmt eldri lögum halda gildi sínu þar til gildistími þeirra er útrunninn eða leyfið fellur niður skv. 11. gr.
II.
Leyfishafar skulu tilkynna Samgöngustofu fyrir 1. ágúst 2015 að þeir hyggist halda áfram starfsemi. Samgöngustofu er þá heimilt að óska eftir gögnum skv. 4. gr.
III.
Leyfishöfum ber að uppfylla ákvæði laga þessara og er Samgöngustofu heimilt frá 1. ágúst 2015 að beita ákvæðum um eftirlit, sektir og niðurfellingu gagnvart þeim aðilum sem hafa starfsleyfi útgefin í tíð laga um bílaleigur, nr. 64/2000.