Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um þjóðaröryggisráð

2016 nr. 98 20. september


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 22. september 2016. Breytt með: L. 71/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019).


1. gr. Gildissvið.
Lög þessi taka til þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, framfylgdar hennar og endurskoðunar. Einnig taka þau til samráðs og samhæfingar ráðuneyta og opinberra stofnana um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar.
2. gr. Þjóðaröryggisráð.
Á Íslandi skal starfa þjóðaröryggisráð.
Forsætisráðherra er formaður þjóðaröryggisráðsins og veitir forsætisráðuneytið ráðinu alla nauðsynlega starfsaðstöðu og aðstoð við störf þess.
3. gr. Skipan þjóðaröryggisráðs.
Í þjóðaröryggisráði eiga sæti, auk forsætisráðherra, ráðherra sem fer með utanríkis- og varnarmál og ráðherra sem fer með almannavarnir, auk ráðuneytisstjóra viðkomandi ráðuneyta. Jafnframt skulu ríkislögreglustjóri, forstjóri Landhelgisgæslunnar og fulltrúi Landsbjargar eiga sæti í ráðinu. Þá eiga sæti í ráðinu tveir þingmenn og skal annar þingmaðurinn vera úr þingflokki sem skipar meiri hluta á þingi en hinn úr þingflokki minni hluta.
Þjóðaröryggisráð getur kallað til fleiri ráðherra til setu í ráðinu varðandi einstök mál sem eru til umfjöllunar hjá ráðinu og tekur þá viðkomandi ráðuneytisstjóri einnig sæti í því.
Embættismönnum og öðrum starfsmönnum ráðuneyta og opinberra stofnana og hlutafélaga, sem og einstaklingum og fulltrúum lögaðila, er skylt að mæta á fundi þjóðaröryggisráðs, sé þess óskað.
4. gr. Verkefni þjóðaröryggisráðs.
Þjóðaröryggisráð hefur eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis og er jafnframt samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál.
Þjóðaröryggisráð skal enn fremur meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum og fjalla um önnur málefni er varða þjóðaröryggi.
Þjóðaröryggisráð skal stuðla að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.
Þjóðaröryggisráð skal í samvinnu við háskólasamfélagið, hugveitur og fjölmiðla beita sér fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál og eflingu fræðslu og upplýsingagjöf um þau mál.
5. gr. Samráð þjóðaröryggisráðs við Alþingi.
Þjóðaröryggisráð skal árlega upplýsa Alþingi um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar.
Telji þjóðaröryggisráð ástæðu til að gera breytingar á þjóðaröryggisstefnunni skal það senda Alþingi tillögur þar að lútandi.
Þjóðaröryggisráð skal upplýsa utanríkismálanefnd Alþingis um hver þau mál sem líkleg eru til að hafa áhrif á þjóðaröryggisstefnuna og framkvæmd hennar.
6. gr. Boðun funda þjóðaröryggisráðs.
Forsætisráðherra boðar þjóðaröryggisráð reglulega til funda.
Forsætisráðherra boðar jafnframt til fundar þjóðaröryggisráðs ef þeir atburðir hafa orðið eða eru yfirvofandi sem ætla má að hafi áhrif á þjóðaröryggi, sbr. 2. mgr. 4. gr.
Forsætisráðherra tilnefnir ritara ráðsins, en um fundatilhögun og starfshætti ráðsins skal að öðru leyti kveðið á í reglugerð, sbr. 10. gr.
7. gr. Trúnaðarákvæði.
[Allir sem starfa á vegum þjóðaröryggisráðs eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga.]1)
Fundir þjóðaröryggisráðs skulu haldnir fyrir luktum dyrum og getur ráðið ákveðið að trúnaður ríki um fundi ráðsins eða einstök mál á dagskrá fundar.
   1)L. 71/2019, 5. gr.
8. gr. Skýrslugjöf til þjóðaröryggisráðs.
Þjóðaröryggisráð getur kallað eftir skýrslum eða gögnum um atriði er varða þjóðaröryggi frá ráðuneytum, opinberum stofnunum eða opinberum hlutafélögum.
Ráðuneyti, opinber stofnun eða opinbert hlutafélag skal tilkynna þjóðaröryggisráði án undandráttar um nýjar upplýsingar eða annað sem kann að varða þjóðaröryggisstefnuna eða öryggi ríkisins og almennings.
9. gr. Samráð við almannavarna- og öryggismálaráð.
Þjóðaröryggisráð skal eiga samráð við almannavarna- og öryggismálaráð um mál eða atburði sem kunna að snerta verksvið almannavarna- og öryggismálaráðs samkvæmt lögum um almannavarnir, nr. 82/2008.
10. gr. Reglugerðarheimild.
Forsætisráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þ.m.t. um störf ritara og starfshætti þjóðaröryggisráðs.
11. gr. Viðurlög.
Hver sá sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veitir þjóðaröryggisráði rangar upplýsingar sem eru til þess fallnar að ógna þjóðaröryggi eða vekja ótta um að þjóðaröryggi sé ógnað skal sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum.
Hver sá sem rýfur trúnað [skv. 2. mgr. 7. gr.]1) og tjáir sig um trúnaðarupplýsingar sem ógna þjóðaröryggi skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, enda liggi ekki þyngri refsing við því samkvæmt öðrum lögum.
   1)L. 71/2019, 5. gr.
12. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.