Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um brottfall laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og niðurlagningu Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands
2017 nr. 35 14. júní
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 16. júní 2017.
I. kafli. Brottfall laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, nr. 2/1997, með síðari breytingum.
1. gr.
Lög um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, nr. 2/1997, með síðari breytingum, falla úr gildi 1. janúar 2018.
2. gr.
Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga skal sameinaður B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins frá og með 1. janúar 2018 sem tekur við öllum eignum og skuldbindingum Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga.
Sjóðfélagar í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga í lok árs 2017 skulu eiga rétt til aðildar að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, með sömu réttindum og þeir höfðu áunnið sér í lok árs 2017, á meðan þeir gegna störfum hjá launagreiðendum skv. 3. mgr., enda séu þeir skipaðir, settir eða ráðnir til a.m.k. eins árs eða ráðnir með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti og starf þeirra sé eigi minna en hálft starf. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. skulu þeir hjúkrunarfræðingar sem greiddu af minna en 50% starfshlutfalli á árinu 2017 halda rétti til aðildar að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á meðan þeir gegna störfum hjá launagreiðendum skv. 3. mgr.
Launagreiðendur, sem fengið hafa heimild fyrir árslok 2017 til að greiða iðgjald fyrir hjúkrunarfræðinga til Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga, hafa áfram sömu heimild til að greiða iðgjald til B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fyrir þá hjúkrunarfræðinga sem greiddu iðgjald til Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga við árslok 2017.
Réttindi þeirra hjúkrunarfræðinga sem eiga bæði réttindi í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga við árslok 2017 skulu metin eins og greitt hafi verið til eins sjóðs allan tímann. Miða skal þó við það réttindahlutfall sem hjúkrunarfræðingar höfðu áunnið sér samkvæmt reglum Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga við árslok 2017.
Breyttar reglur varðandi réttindi eiga aðeins við um þá sem hefja töku lífeyris eftir gildistöku laga þessara.
Frá og með 1. janúar 2018 fer að öðru leyti um réttindi og skyldur sjóðfélaga og launagreiðenda samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, þar á meðal um iðgjaldagreiðslur, skuldbindingar og lífeyri.
II. kafli. Breyting á lögum um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands, nr. 7/1987.
3. gr.
Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
Eftirlaunasjóður starfsmanna Útvegsbanka Íslands skal lagður niður frá og með 1. janúar 2018.
Þrátt fyrir niðurlagningu sjóðsins skulu þeir sem réttindi eiga samkvæmt gildandi samþykktum um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands halda réttindum sínum.
Réttindi samkvæmt samþykktum Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands greiðast úr ríkissjóði.
Sá sem öðlast hefur rétt til greiðslna samkvæmt samþykktum um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands skal leita eftir útreikningi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á réttindahlutfalli sínu. Verði ágreiningur um útreikninginn má skjóta honum til stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd og fyrirkomulag greiðslna úr ríkissjóði samkvæmt ákvæði þessu og gerir samkomulag við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins um framkvæmdina og kostnað vegna hennar.
Eignir Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands renna í ríkissjóð.
4. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.