Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um lánshæfismatsfyrirtæki

2017 nr. 50 14. júní


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 20. júní 2017. EES-samningurinn: IX. viðauki reglugerð 1060/2009, 513/2011, 462/2013. Breytt með: L. 91/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020 nema 133. gr. sem tók gildi 16. júlí 2019). L. 45/2020 (tóku gildi 4. júní 2020; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2011/61/ESB, 2013/14/ESB). L. 50/2022 (tóku gildi 8. júlí 2022; EES-samningurinn: IX. viðauki reglugerð 2017/2294, 2019/1011, 2021/527, 2019/2115, 2018/1717, tilskipun 2014/51/ESB, XXII. viðauki tilskipun 2004/25/EB).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að bæta gæði lánshæfismats og draga þannig úr kerfisáhættu og stuðla að fjármálastöðugleika. Markmiðið er einnig að tryggja öflugt og samræmt eftirlit með lánshæfismatsfyrirtækjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
2. gr. Lögfesting.
Ákvæði eftirfarandi reglugerða, eins og þær voru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2012 frá 10. febrúar 2012, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 34 frá 21. júní 2012, bls. 31, og nr. 203/2016 frá 30. september 2016, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 13 frá 23. febrúar 2017, bls. 42–51, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest:
   1. Reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1060/2009 um lánshæfismatsfyrirtæki, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 32 frá 14. júní 2012, bls. 35–65, [með þeim breytingum sem leiðir af …1)]:2)
   [a. 64. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2011/61/ESB frá 8. júní 2011 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og um breytingu á tilskipunum 2003/41/EB og 2009/65/EB og reglugerðum (EB) nr. 1060/2009 og (ESB) nr. 1095/2010, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 57 frá 13. október 2016, bls. 364–436,
   b. 3. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/51/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipunum 2003/71/EB og 2009/138/EB og reglugerðum (EB) nr. 1060/2009, (ESB) nr. 1094/2010 og (ESB) nr. 1095/2010 að því er varðar valdsvið Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) og Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin), sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 101 frá 19. desember 2019, bls. 1–61, með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 247/2018 frá 5. desember 2018, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 62 frá 23. september 2021, bls. 39–40.]1)
   2. Reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 513/2011 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1060/2009 um lánshæfismatsfyrirtæki, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 57 frá 13. október 2016, bls. 548–574.
   3. Reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 462/2013 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1060/2009 um lánshæfismatsfyrirtæki, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 57 frá 13. október 2016, bls. 94–126.
   1)L. 50/2022, 21. gr. 2)L. 45/2020, 120. gr.
3. gr. Eftirlit og viðurlög.
Eftirlitsstofnun EFTA og Fjármálaeftirlitið annast eftirlit með lánshæfismatsfyrirtækjum með staðfestu á Íslandi sem skráningarskyld eru samkvæmt lögum þessum í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, og samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Um hlutverk og valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði fjármálaeftirlits er fjallað í 25. gr. a og bókun 8 við síðarnefnda samninginn.
Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að beita stjórnvaldssektum og dagsektum vegna brota á ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 1060/2009 eins og hún hefur verið aðlöguð í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 203/2016.
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að farið sé að 1. mgr. 4. gr., 5. gr. a og 8. gr. b – 8. gr. d reglugerðar (EB) nr. 1060/2009. Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæðunum og stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra.
Sektir sem Fjármálaeftirlitið leggur á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 65 millj. kr. Sektir sem Fjármálaeftirlitið leggur á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 800 millj. kr. en geta þó verið hærri, eða allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu og brot er framið til hagsbóta fyrir annan lögaðila í samstæðunni eða annar lögaðili í samstæðunni hefur notið hagnaðar af brotinu.
Við ákvörðun sekta samkvæmt ákvæði þessu skal Fjármálaeftirlitið taka tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t.:
   a. alvarleika brots,
   b. hvað brotið hefur staðið lengi,
   c. ábyrgðar hins brotlega hjá lögaðilanum,
   d. fjárhagsstöðu hins brotlega,
   e. ávinnings af broti eða taps sem forðað er með broti,
   f. hvort brot hafi leitt til taps þriðja aðila,
   g. hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins,
   h. samstarfsvilja hins brotlega,
   i. fyrri brota og hvort um ítrekað brot er að ræða.
[Ákvarðanir um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar.]1) Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá því að viðkomandi er tilkynnt um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Ef einstaklingur eða lögaðili brýtur gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra, og fyrir liggur að hann hafi hlotið fjárhagslegan ávinning af broti, er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ákvarða hinum brotlega sektarfjárhæð sem getur, þrátt fyrir 4. mgr., orðið allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem fjárhagslegur ávinningur hins brotlega nemur.
Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. [Seðlabanki Íslands]1) setur nánari reglur2) um framkvæmd ákvæðisins.
Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Sá frestur rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins fer nánar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og lögum um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.
   1)L. 91/2019, 92. gr. 2)Rg. 326/2019.
4. gr. Almennar rannsóknir og vettvangsskoðun.
Um almennar rannsóknir og vettvangsskoðanir Eftirlitsstofnunar EFTA, sbr. 1. mgr. 23. gr. c og 23. gr. d reglugerðar (EB) nr. 1060/2009, fer samkvæmt ákvæðum laga þessara og samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
Til þeirra rannsóknaraðgerða sem kveðið er á um í a–c-lið og e-lið 1. mgr. 23. gr. c og 23. gr. d reglugerðar (EB) nr. 1060/2009 þarf heimild dómara nema samþykki þess aðila sem rannsóknaraðgerðirnar beinast að liggi fyrir. Um beiðni um heimild dómara til rannsóknaraðgerða fer eftir XV. kafla laga um meðferð sakamála eftir því sem við á.
5. gr. Upplýsingagjöf.
Um upplýsingagjöf innlendra aðila, bæði til Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar og stofnana innan Evrópska efnahagssvæðisins, fer samkvæmt ákvæðum laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.
6. gr. Málskot til EFTA-dómstólsins og aðfararhæfi.
Ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA samkvæmt lögum þessum eru aðfararhæfar, sem og dómar og úrskurðir EFTA-dómstólsins.
Ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA má skjóta til EFTA-dómstólsins í samræmi við samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
7. gr. Lögbært stjórnvald.
Fjármálaeftirlitið er lögbært stjórnvald skv. 22. gr. reglugerðar (EB) nr. 1060/2009.
8. gr. Stjórnvaldsfyrirmæli.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð1) um nánari framkvæmd laga þessara.
[Seðlabanka Íslands]2) er heimilt að setja reglur um nánari útfærslu laga þessara sem byggjast á tæknilegum eftirlitsstöðlum sem Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin mótar og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir á grundvelli reglugerðar (EB) nr. 1060/2009.
   1)Rg. 40/2018. Rg. 1166/2021. 2)L. 91/2019, 93. gr.
9. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.