Lagasafn.  Íslensk lög 1. september 2025.  Útgáfa 156b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um endurnot opinberra upplýsinga

2018 nr. 45 23. maí


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 26. maí 2018. EES-samningurinn: XI. viðauki tilskipun 2013/37/ESB. Breytt með: L. 90/2018 (tóku gildi 15. júlí 2018; EES-samningurinn: XI. viðauki reglugerð 2016/679). L. 45/2024 (tóku gildi 23. maí 2024; EES-samningurinn: XI. viðauki tilskipun 2019/1024).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra eða menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði.

I. kafli. Markmið og gildissvið.
1. gr. Markmið.
[Markmið laga þessara er að setja lágmarksreglur um endurnot opinberra upplýsinga í þágu aukinnar nýsköpunar og til hagsbóta fyrir samfélagið í heild.]1)
Endurnot opinberra upplýsinga vísa til þess að einkaaðili noti slíkar upplýsingar í öðrum tilgangi en ætlunin var þegar þeirra var aflað af hálfu opinberra aðila. Miðlun upplýsinga á milli opinberra aðila í þágu starfa þeirra telst ekki til endurnota á upplýsingum í þessum skilningi.
   1)L. 45/2024, 1. gr.
2. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um endurnot á fyrirliggjandi upplýsingum sem eru í vörslum stjórnvalda og almenningur á rétt til aðgangs að.
Lög þessi taka til ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila, sbr. 3. mgr. Lögin taka einnig til samtaka sem þessir aðilar, einn eða fleiri, hafa með sér.
Aðili telst opinber ef hann getur borið réttindi og skyldur að lögum og sérstaklega hefur verið stofnað til hans í því skyni að þjóna almannahagsmunum, enda reki hann ekki starfsemi sem jafnað verður til starfsemi einkaaðila, svo sem á sviði viðskipta eða iðnaðar. Auk þess skal eitthvert eftirfarandi atriða eiga við um hann:
   1. Starfsemi hans er að mestu leyti rekin á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila. Miðað skal við að aðili sé að mestu leyti rekinn á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila ef opinber fjármögnun nemur meira en 50% af árlegum rekstrarkostnaði.
   2. Hann lýtur yfirstjórn ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila.
   3. Hann lýtur sérstakri stjórn sem ríki eða sveitarfélög, stofnanir þeirra eða aðrir opinberir aðilar skipa að meiri hluta.
Ákvæði laga þessara gilda ekki um:
   1. Ríkisútvarpið.
   2. Skóla eða rannsóknastofnanir, [sbr. þó 4. gr. a].1)
   3. Aðrar menningarstofnanir en söfn, skjalasöfn og bókasöfn, þ.m.t. háskólabókasöfn.
   4.1)
   5.1)
Hlutaðeigandi ráðherra getur mælt svo fyrir í reglugerð að starfsemi opinbers aðila, sbr. 1.–3. tölul. 4. mgr., sem undir hann heyrir, falli undir ákvæði laga þessara í heild eða að hluta.
Ákvæði laga þessara gilda um öll gögn og upplýsingar sem undir þau falla, án tillits til þess hvenær gögnin og upplýsingarnar urðu til eða bárust þeim aðilum sem lögin taka til. Lögin tryggja hins vegar ekki rétt til endurnota eða aðgangs að gögnum eða upplýsingum sem eru háð þagnarskyldu samkvæmt öðrum lögum.
   1)L. 45/2024, 2. gr.

II. kafli. Réttur til endurnota opinberra upplýsinga og skilyrði fyrir endurnotum.
3. gr. Réttur almennings til endurnota opinberra upplýsinga.
Opinberum aðila er skylt að verða við beiðni um heimild til endurnota fyrirliggjandi upplýsinga í vörslum opinbers aðila sem almenningur hefur rétt til aðgangs að á grundvelli upplýsingalaga eða annarra laga, með þeim skilyrðum sem greinir í 4.–6. gr.
Réttur til endurnota opinberra upplýsinga tekur ekki til:
   1. Upplýsinga sem opinberir aðilar taka saman í viðskiptalegum tilgangi.
   2. Tölfræðilegra gagna sem um gildir trúnaður.
   3. Gagna, skráa og upplýsinga úr gagnagrunnum sem þriðji maður á lögvarin réttindi yfir samkvæmt lögum um vernd hugverkaréttinda. Rétturinn er hins vegar til staðar þegar ríki, sveitarfélög eða stofnanir þeirra eiga ein slík réttindi yfir upplýsingum, enda falli opinber aðili sem fer með fyrirsvar réttindanna ekki undir 4. mgr. 2. gr.
Opinberir aðilar geta ákveðið að gera upplýsingar í vörslum þeirra aðgengilegar til endurnota án þess að fyrir liggi sérstök beiðni að uppfylltum almennum skilyrðum 4. gr.
Opinberir aðilar skulu birta lista yfir gögn sem hafa að geyma upplýsingar í þeirra vörslum sem sérstök ákvörðun hefur verið tekin um að endurnota megi, svo og þau skilyrði sem endurnot eru bundin. Listinn skal birtur í miðlægri gátt stjórnvalda fyrir opin gögn.
4. gr. Almenn skilyrði fyrir endurnotum opinberra upplýsinga.
Heimilt er að endurnota opinberar upplýsingar sem eru almenningi aðgengilegar lögum samkvæmt, enda séu eftirfarandi skilyrði ávallt uppfyllt:
   1. Endurnot upplýsinganna mega ekki brjóta í bága við lög, þ.m.t. ákvæði almennra hegningarlaga, laga um vernd hugverkaréttinda og laga um persónuvernd og [vinnslu]1) persónuupplýsinga, eða önnur réttindi þriðja manns.
   2. Geta skal uppruna upplýsinganna. [Opinberum aðilum er heimilt að veita undanþágu frá skilyrði þessu ef það takmarkar möguleika á endurnotum óhóflega.]2)
   3. Skýrt skal koma fram hver ber ábyrgð á vinnslu upplýsinganna þegar þær eru gerðar öðrum aðgengilegar.
   1)L. 90/2018, 54. gr. 2)L. 45/2024, 3. gr.
[4. gr. a. Rannsóknargögn.
Heimilt er að endurnota rannsóknargögn án endurgjalds séu þau að hluta eða öllu leyti fjármögnuð af hinu opinbera, enda hafi þau verið gerð aðgengileg í gegnum gagnasafn stofnunar eða gagnasafn á tilteknu sviði.
Ráðherra getur í reglugerð mælt fyrir um hvernig aðgangi að rannsóknargögnum skuli háttað, þ.m.t. með hvaða sniði og samkvæmt hvaða stöðlum rannsóknargögn skuli gerð aðgengileg.]1)
   1)L. 45/2024, 4. gr.
5. gr. Sérstök skilyrði fyrir endurnotum opinberra upplýsinga.
Opinberum aðilum er heimilt að áskilja að endurnot upplýsinga uppfylli sérstök skilyrði, svo sem um gæði upplýsinga og uppfærslu þeirra, t.d. með því að gera endurnotin leyfisskyld. Slík skilyrði skulu þjóna málefnalegum tilgangi, gæta skal samræmis og jafnræðis við útfærslu þeirra og þau mega ekki takmarka möguleika á endurnotum upplýsinganna eða samkeppni óhóflega.
6. gr. Bann við samningum um sérleyfi.
Opinberir aðilar mega ekki veita sérleyfi til endurnota opinberra upplýsinga sem ákvæði laga þessara taka til, sbr. þó 2.–3. mgr.
Ef ætla má að opinberar upplýsingar verði ekki endurnotaðar í þágu almannahagsmuna nema á grundvelli sérleyfis er heimilt að veita sérleyfi enda komi fram í samningi rökstuðningur fyrir því. Endurmeta ber rök fyrir sérleyfi reglubundið og eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. [Samninga um sérleyfi og samninga sem ekki veita einkarétt með ótvíræðum hætti en sem ætla má að takmarki aðgang að upplýsingum til endurnota skal birta rafrænt tveimur mánuðum áður en þeir taka gildi.]1)
Heimilt er að veita sérleyfi sem varða stafvæðingu menningarverðmæta til allt að tíu ára. Endurmeta ber rök fyrir slíkum sérleyfum reglubundið og eigi sjaldnar en á tíu ára fresti. Í lok leyfistíma skal opinber aðili fá afrit af stafvæddu menningarverðmætunum án endurgjalds og gera þau aðgengileg til endurnota.
   1)L. 45/2024, 5. gr.

III. kafli. Málsmeðferð.
7. gr. Beiðni um endurnot opinberra upplýsinga.
Sá sem vill nýta rétt sinn til endurnota opinberra upplýsinga skv. 3. gr. sem ekki eru aðgengilegar til endurnota skal beina beiðni þess efnis til þess opinbera aðila sem hefur þær í vörslum sínum eða ber lögum samkvæmt ábyrgð á færslu og vinnslu þeirra í skrá.
8. gr. Málshraði.
Opinber aðili skal afgreiða beiðni um heimild til endurnota á opinberum upplýsingum svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan 20 virkra daga frá því að beiðni barst skal skýra frá ástæðum tafanna og hvenær afgreiðslu sé að vænta.
Hafi beiðni um heimild til endurnota ekki verið afgreidd 40 virkum dögum eftir að hún barst opinberum aðila er beiðanda heimilt að kæra afgreiðsluna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem úrskurðar um rétt hans til endurnota, sbr. 12. gr.
9. gr. Snið gagna.
Þegar opinber aðili gerir upplýsingar aðgengilegar til endurnota ber að tryggja að þær séu aðgengilegar á því sniði sem þær eru varðveittar á. Þegar unnt er skal veita aðgang að upplýsingum til endurnota á rafrænu, opnu og véllæsilegu sniði ásamt lýsigögnum í samræmi við formlega opna staðla þar sem við á. [Opinber aðili skal gera kvik gögn aðgengileg til endurnota um viðeigandi forritaskil og, þar sem við á, með magnniðurhali um leið og þeim hefur verið safnað. Með kvikum gögnum er átt við gögn á stafrænu formi sem uppfærast ört eða í rauntíma.]1)
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er opinberum aðilum ekki skylt að búa til ný skjöl, uppfæra eða aðlaga eldri skjöl að fyrirmælum ákvæðisins þegar það krefst vinnu sem er meiri að umfangi en einföld aðgerð. [Geti opinber aðili ekki gert kvik gögn aðgengileg til endurnota um leið og þeim hefur verið safnað, án óhóflegrar fyrirhafnar, skulu gögnin gerð aðgengileg til endurnota innan ákveðins tímaramma eða með tímabundnum tæknilegum takmörkunum sem hafa ekki áhrif á nýtingu gagnanna.]1)
[Mjög verðmæt gagnasett skulu vera á véllæsilegu sniði, veitt um viðeigandi forritaskil og með magnniðurhali, þar sem það á við. Ráðherra skal setja reglugerð um mjög verðmæt gagnasett, þ.m.t. hvaða opinberu upplýsingar teljast til mjög verðmætra gagnasetta, reglur um snið, lýsigögn, formlega staðla og undanþágur frá birtingu.]1)
   1)L. 45/2024, 6. gr.
10. gr. Gjaldtaka.
[Heimilt er að taka gjald fyrir endurnot opinberra upplýsinga en þó ekki hærra gjald en nemur beinum kostnaði sem hlýst af fjölföldun, afhendingu og dreifingu gagna og frekari vinnslu þeirra til að gera persónuupplýsingar nafnlausar eða gera ráðstafanir til að vernda trúnaðarupplýsingar sem eru viðskiptalegs eðlis.]1) Söfnum, skjalasöfnum og bókasöfnum er þó jafnframt heimilt að taka gjald sem nemur beinum kostnaði fyrir varðveislu upplýsinganna og gerð réttindaleyfis.
Opinber aðili skal setja sér gjaldskrá sem ráðherra staðfestir. Gjaldskrána skal birta í B-deild Stjórnartíðinda auk þess sem hún skal vera aðgengileg á vef opinbers aðila.
Ekki þarf að greiða fyrir endurnot á upplýsingum sem falla undir ákvæði laga þessara og eru háðar höfundarétti ríkis og sveitarfélaga, umfram það sem segir í 1. mgr., nema lög mæli sérstaklega svo fyrir.
[Þrátt fyrir 1. mgr. skulu endurnot mjög verðmætra gagnasetta, sbr. 3. mgr. 9. gr., vera aðgengileg án endurgjalds, nema lög mæli sérstaklega fyrir um annað.]1)
   1)L. 45/2024, 7. gr.
11. gr. Rökstuðningur og leiðbeiningar.
Ákvörðun opinbers aðila um að synja beiðni um endurnot opinberra upplýsinga, að hluta eða í heild, skal rökstudd og tilkynnt skriflega. Hið sama gildir um ákvörðun um að endurnot skuli bundin sérstökum skilyrðum, sbr. 5. gr., synjun beiðni um að veita aðgang að upplýsingum til endurnota á tilteknu sniði, sbr. 9. gr., og ákvörðun um gjaldtöku, sbr. 10. gr.
Þegar beiðni um endurnot er synjað á grundvelli 3. tölul. 2. mgr. 3. gr. skal tilgreina nafn rétthafa eða umboðsmanns hans. Söfnum, skjalasöfnum og bókasöfnum, þ.m.t. háskólabókasöfnum, er þó ekki skylt að tilgreina nafn rétthafa eða umboðsmanns hans.
Í ákvörðun ber að leiðbeina beiðanda um kæruheimild skv. 12. gr.
Um málsmeðferð fer að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum.

IV. kafli. Stjórnsýslukæra.
12. gr. Kæruheimild.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sker úr um ágreining um endurnot upplýsinga samkvæmt lögum þessum, þ.m.t. um gjaldtöku fyrir endurnotin.
[Um ágreining um endurnot upplýsinga frá stjórnsýslu Alþingis og málsmeðferð fer eftir lögum um þingsköp Alþingis og reglum forsætisnefndar sem settar eru á grundvelli þeirra.]1)
Um meðferð mála skv. 1. mgr. gilda ákvæði V. kafla upplýsingalaga og VII. kafla stjórnsýslulaga eftir því sem við á.
   1)L. 45/2024, 8. gr.

V. kafli. Ýmis ákvæði.
13. gr. Innleiðing.
[Með lögum þessum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1024 frá 20. júní 2019 um opin gögn og endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera, sem felld var inn í XI. viðauka við EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 190/2022 frá 10. júní 2022 og fellir úr gildi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/98/EB um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.]1)
   1)L. 4/2024, 9. gr.
14. gr. Gildistaka.
Lög þessi taka þegar gildi.
15. gr. Breyting á öðrum lögum.