Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Þjóðskrá Íslands

2018 nr. 70 20. júní


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. september 2018. Breytt með: L. 36/2022 (tóku gildi 1. júlí 2022). L. 62/2023 (tóku gildi 8. júlí 2023 nema III. kafli sem tók gildi 1. sept. 2023).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innviðaráðherra eða innviðaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Yfirstjórn.
Þjóðskrá Íslands er sérstök stofnun sem heyrir undir ráðherra.
Ráðherra skipar forstjóra til fimm ára í senn og skal hann hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi.
2. gr. Starfsskyldur forstjóra.
Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi og rekstri Þjóðskrár Íslands, mótar áherslur, skipulag, verkefni og starfshætti og annast daglega stjórn stofnunarinnar.
3. gr. Hlutverk.
Þjóðskrá Íslands skal með starfsemi sinni gæta upplýsinga um einstaklinga [og lögaðila]1) með því að safna, varðveita, uppfæra og miðla þeim upplýsingum á öruggan hátt. Þá skal stofnunin stuðla að því að starfsemi hennar þróist í samræmi við þarfir samfélagsins og tækninýjungar.
Þjóðskrá Íslands hefur eftirfarandi hlutverk:
   a. Stofnunin sér um þjóðskrá og tengdar skrár, gefur út kennitölur og annast rekstur gagna- og upplýsingakerfa þjóðskrár samkvæmt lögum sem um þjóðskrá gilda hverju sinni.
   b.1)
   c. Stofnunin sér um að viðhalda og láta í té stofn til útgáfu vegabréfa til íslenskra ríkisborgara og annarrar skilríkjaútgáfu á vegum hins opinbera eða samkvæmt sérlögum. Þá gefur stofnunin út rafrænt auðkenni.
   d. Stofnunin gefur út [kjörskrá],2) rekur utankjörfundarkerfi og sinnir verkefnum sem henni eru falin við framkvæmd kosninga.
   e. Stofnunin getur samkvæmt ákvörðun ráðherra annast rekstur og varðveislu á öðrum opinberum skrám eða þróun og rekstur annarra opinberra tölvukerfa.
   f. Stofnunin er ráðgefandi fyrir ráðherra á starfssviði sínu, veitir aðstoð við undirbúning lagafrumvarpa og reglugerða og aðstoðar við stefnumótun og ákvörðunartöku eftir því sem við á.
   g. Stofnunin tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi og mótun alþjóðareglna á starfssviði sínu í samvinnu við ráðherra. Samkvæmt ákvörðun ráðherra getur stofnunin annast undirbúning samninga við erlend ríki og alþjóðastofnanir og eftir atvikum getur ráðherra, í samráði við ráðherra sem fer með utanríkismál, falið stofnuninni gerð slíkra samninga. Stofnunin vinnur enn fremur að innleiðingu og framfylgd alþjóðasamninga og EES-gerða eftir því sem við á í samvinnu við ráðuneytið.
   h. Stofnunin tekur þátt í og annast rannsóknir, greiningu og þróun á starfssviði sínu.
   i. Stofnunin á samráð við þá aðila, félög, samtök og stofnanir sem tengjast starfsemi hennar.
   j. Stofnunin annast önnur verkefni sem ráðherra kann að fela henni.
Þjóðskrá Íslands er heimilt að safna saman, vinna úr og birta tölfræðilegar upplýsingar á sviði lögbundinna verkefna hennar að fullnægðum heimildum laga sem um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga gilda hverju sinni.
Ráðherra skal setja á stofn fagráð með fulltrúum stofnunarinnar, hagsmunaaðila og annarra aðila í þeim tilgangi að vera vettvangur samráðs og upplýsingaskipta á fagsviðum stofnunarinnar.
   1)L. 36/2022, 10. gr. 2)L. 62/2023, 54. gr.
4. gr. Sala sérfræðiþekkingar.
Þjóðskrá Íslands er heimilt að bjóða fram sérþekkingu sína á alþjóðamarkaði og afla tekna með útflutningi sérfræðiþekkingar sem hún býr yfir. Tekjurnar skulu standa undir þeim kostnaði að veita sérfræðiþekkinguna.
5. gr. Þjónustugjöld samkvæmt gjaldskrá.
Þjóðskrá Íslands er heimilt að innheimta þjónustugjöld fyrir:
   a–d.1)
   e. aðgang að upplýsingum úr þjóðskrá og tengdum skrám,
   f. vottorð, uppflettingar og sérvinnslu úr skrám stofnunarinnar,
   g. upplýsingar úr öðrum skrám sem stofnunin heldur hverju sinni,
   h. sölu á sérhæfðri þjónustu vegna lögmæltra verkefna stofnunarinnar,
   i.1)
   j. verkefni sem stofnuninni eru falin skv. e-lið 2. mgr. 3. gr.
Við ákvörðun gjalda skal í gjaldskrá leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, framleiðslu, aksturs, þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, fjarskiptabúnaðar og tækja, stjórnunar- og stoðþjónustu og alþjóðlegrar samvinnu í þágu lögbundinna verkefna stofnunarinnar, auk ferða og uppihalds og útlagðs kostnaðar.
Sé óskað eftir þjónustu utan hefðbundins skrifstofutíma skal greiða fyrir vinnu starfsmanns við þjónustu skv. 1. mgr. með álagi í samræmi við gjaldskrá Þjóðskrár Íslands.
Í gjaldskrá er heimilt að mæla fyrir um afslátt af gjaldtöku og niðurfellingu gjalds í sérstökum tilvikum, t.d. til námsmanna og vegna rannsóknarverkefna.
Gjaldskráin skal staðfest af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda.
   1)L. 36/2022, 11. gr.
6. gr. Kæruheimild.
Ákvarðanir Þjóðskrár Íslands sæta kæru til viðkomandi ráðherra, sbr. forsetaúrskurð um skiptingu starfa ráðherra, skv. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, nema annað sé tekið fram í öðrum lögum.
7. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að kveða m.a. nánar á um eftirfarandi atriði í reglugerð:1)
   a. hlutverk og starfshætti Þjóðskrár Íslands,
   b. rekstur starfs- og upplýsingakerfa,
   c. starfsemi fagráða.
   1)Rg. 795/2018.
8. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. september 2018.
9. gr. Breyting á öðrum lögum.